Víða eru vörður áberandi í landslaginu á Íslandi og þær eru alls konar í laginu, en eiga það sameiginlegt að vera gjarnan á klapparholtum eða öðrum stöðum sem gnæfa yfir umhverfið. Það er enda tilgangur þeirra að vera áberandi til þess að merkja hitt og þetta (Jón R. Hjálmarsson, 1995, bls. 6). Sem dæmi má nefna mörk milli jarða, vera mið fyrir siglingaleiðir eða fiskimið, stundum eru þær minnismerki eða til að merkja hella eða tófugreni. Þrátt fyrir fjölbreytt notagildi varða þá eru þær langflestar hlaðnar til að varða leiðina milli byggðra bóla á landinu (Ómar Smári Ármannsson, 2021). Þau sem hafa verið á ferðinni um gamlar ferðaleiðir víða um landið í takmörkuðu skyggni þekkja vellíðunartilfinninguna að geta fylgt vörðum og sjá þær birtast eina af annarri við sjóndeildarhringinn eftir því sem leiðin sækist. Þrátt fyrir að margir hafi orðið úti í slæmu veðri þá voru margfalt fleiri sem komust á leiðarenda eftir þessum leiðum og efalaust eiga vörður drjúgan hlut í giftusömum endi á svaðilförum.
0 Comments
Samfélag dagsins í dag lifir og hrærist í sjónrænum heimi þar sem að myndrænt efni streymir til okkar úr öllum áttum. Til að teljast fullgildir meðlimir þessa samfélags má helst ekkert framhjá okkur fara, hvort sem um ræðir hvaða ráðherrar neituðu að sitja í starfsstjórn, ummæli Donald Trump um matarvenjur innflytjenda eða hvaða hráefni séu í hinu vinsæla gúrkusalati. Við þurfum að sjá og heyra af því sem þekktir einstaklingar eru að gera, kaupa og selja. Hvað svokallaðir áhrifavaldar telja að við hin þurfum að eignast eða upplifa. Á sama tíma og við sjáum klippur úr lífi annarra fyllumst við löngun til að deila okkar eigin upplifunum og reynslu. Við deilum myndaskotum og uppstilltum myndum af okkar daglega lífi, allt frá því hvað við borðum í hádegismat, hvernig stemmningin var í jógasalnum og hvort við förum út á lífið um helgar. Þeir sem sitja heima fá tilfinningu fyrir því hvort við skemmtun okkur vel og vita hvaða staði eða viðburði við sóttum, án þess að hafa sjálfir farið út úr húsi. Ef við erum ekki í stuði til að deila skotum úr okkar eigin lífi er til endalaust efni frá öðru fólki sem við getum eytt óræðum tíma í að horfa á. Margir deila jafnvel það miklu með okkur að auðvelt er að ímynda sér að við séum öll hluti af hvors annars lífi. Án þess að hafa nokkurn tímann hist í eigin persónu eða yfir höfuð talað saman.
Þessi sjónræna menning kennir okkur að setja líf okkar á svið fyrir aðra og gerir okkur erfiðara fyrir að upplifa heiminn á annan máta en í gegnum myndrænt form. Ljósmyndir og annars konar myndefni eru þær gáttir sem við höfum til að skilja og skynja það sem gerist í kringum okkur. Við setjum hlutina í samhengi við það sem við sjáum, hvort sem við höfum reynt það á eigin skinni eða einungis upplifað þá í sjónrænum skilningi. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|