Þrátt fyrir að aukning hefur orðið á heimafæðingum er það staðreynd að flestar fæðingar nú til dags fara fram inni á spítölum eða fæðingarheimilum landsins. Fæðing barns er oft einn af hápunktunum í lífi fólks. Í gegnum tíðina hefur aðkoma fagfólks sífellt orðið meiri og margar konur velja að fæða börn sín í öruggu umhverfi þar sem hægt er að sinna af fagmennsku hverju því sem kann að koma upp á í ferlinu. Margar fjölskyldur kjósa þó enn að fæða heima og færst hefur í aukana að fólk vill ekki neina aðkomu fagfólks, hvort sem það er mæðravernd eða við fæðinguna sjálfa. Það má því segja að við séum komin í einhvers konar hring. Það eru ekki nema um 250 ár frá því að ljósmæður fengu einhvers konar menntun hér á landi (Ljósmæðrafélag Íslands, e.d). Síðan þá hefur verið stöðug þróun í menntamálum ljósmæðra og síðustu 100 árin eða svo hefur hún verið mjög hröð. Hér á eftir mun ég fara yfir sögu ljósmóðurstéttarinnar ásamt fæðingarhjálp sem konum stóð til boða á Íslandi í gegnum tíðina og hjátrú tengda meðgöngu og fæðingu. Yfirsetukonur og ljósmæður á ÍslandiLjósmæður hafa í gegn um tíðina skipað veigamikinn þátt í fæðingu barna. Það er oft í þeirra höndum að konunni líði vel í gegn um það ferli sem meðganga, fæðing og sængurlega er. Áður en skipulögð fræðsla og menntun ljósmæðra hófst hér á landi var það í höndum presta að fræða þær konur sem sáu um yfirsetu, eins og það kallaðist í þá daga. Þessi fræðsla var þó í raun einungis af trúarlegum toga en ekki læknisfræðilegum (Þórunn Guðmundsdóttir, 2003: 2).
Fyrsta ljósmóðurprófið á Íslandi
Í bók Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir segir: „Meðan hvorki voru læknar né lærðar yfirsetukonur, má geta nærri, að ekki hafi verið gott til viðgerðar, ef út af bar með barnsburð kvenna“. Á þessum orðum byrjar Jónas umfjöllun sína um fæðingar og þá aðhlynningu sem konur fengu við fæðingu barna sinna. Hann bætir svo við að í flestum sveitum voru konur sem gáfu sig að nærkonustörfum og sumar þeirra urðu heppnar yfirsetukonur seinna meir (Jónas Jónasson, 2011: 330). Hafðu varann á kona!Í bók Jónasar er einnig að finna nokkuð um hjátrú á meðgöngu, fæðingu og sængurlegu kvenna. Samkvæmt hjátrúnni var það ekki aðeins í höndum ljósmæðranna að fæðing gengi vel. Hegðun verðandi móður á meðgöngu var talin hafa mikið um það að segja hvernig fæðingin gengi. Ekki mátti ólétt kona ganga undir nýreist hús eða sperrur því þá gat hún ekki fætt nema reistar yrðu sperrur yfir henni. Ef hún gekk undir þvottasnúrur gat barnið fæðst með naflastrenginn vafinn um hálsinn. Hvorki var ráðlagt að konan greiddi hár sitt uppi í rúmi eða svæfi með sæng með rjúpnafiðri því það gat haft slæmar afleiðingar fyrir móður og ófædda barnið. Það var þó talið að ef fæðing gengi erfiðlega myndi það hjálpa til að leggja undir konuna rjúpnafjaðrir (Jónas Jónasson, 2011:259-260). Þróun námsins
Tíminn leið og loksins árið 1875 voru yfirsetukvennalögin, fyrstu lög ljósmæðra á Íslandi tekin í gildi. Þá var námið 3 mánuðir en næstu áratugina átti námstíminn eftir að lengjast. Þegar Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 kom til álita að menntun ljósmæðra yrði við læknadeild skólans. Ári síðar var Yfirsetukvennaskóli Íslands stofnaður. Það var þó ekki fyrr en árið 1924 að samþykkt voru ný lög við skólann og starfsheitið ljósmóðir kemur til. Námstíminn var þá orðinn 9 mánuðir og ströng skilyrði voru til að hefja nám við skólann. Konurnar máttu ekki vera yngri en 22 ára og ekki eldri en 35 ára og ekki fengu fleiri konur en 10-12 að hefja nám í hvert sinn (Ljósmæðrafélag Íslands, e.d.). Það var hröð þróun í kjölfarið. Fæðingar færðust úr heimahúsum á fæðingarheimili landsins og þaðan inn á spítalana. Á örfáum áratugum var það talið til tíðinda ef barn fæddist heima, sem áður þótti sjálfsagt og eðlilegt. Stúlka eða drengur?Samkvæmt hjátrú sem þekktist áður fyrr gátu foreldrar ákveðið sjálf við getnað hvort þeim fæddist stúlka eða drengur. Vildu þau eignast dreng þurfti konan einfaldlega að halla sér til hægri á meðan á getnaði stóð en á vinstri hliðina ef löngunin í stúlkubarn var meiri. Gott var að liggja á þeirri hlið sem valin var eftir samfarir. Þessu var haldið fram vegna þess að talið var að karlkynja fóstur væru hægra megin í konunni en kvenkynja vinstra megin (Jónas Jónasson, 2011: 258). Eftir getnað voru nokkrar leiðir til að vita hvort kynið móðirin gekk með. Ef hægra brjóstið var stærra en það vinstra gekk hún með dreng en ef brjóstin voru jafn stór var ekki hægt að segja til um kynið. Ef verðandi móðirin var stærri á breiddina þá var einnig sagt að von væri á dreng en ef óléttukúlan var framstæð var stúlku að vænta (Jónas Jónasson, 2011: 258). Það má því spyrja sig hvort fólk í dag geti ekki einfaldlega sleppt því að fara í sónar og komist að þessu sjálft með þessum leiðum eða vera meðvitaðri á meðan á getnaði stendur. Heppni eða færni?Hvort sem það var heppni eða færni ljósmóðurinnar að fæðing gekk vel fyrir sig hverju sinni er það ljóst að hjátrú hefur fylgt þessu merkilega ferli lengi vel. Áður en yfirsetukonur fengu menntun höfðu þær lítið annað að reiða sig á en sína eigin reynslu og kunnáttu sem var dýrmæt þeim og konunum sem þær sinntu. Það gat verið gott að reiða sig á ýmsa hjátrú eða trú á hið yfirnáttúrulega þegar eitthvað bjátaði á. Stundum var vonin og trúin það eina sem konurnar höfðu til að komast í gegnum ferlið. Barnsfæðing gat verið hættuleg bæði móður og barni á þeim tíma þar sem aðstæður voru oft slæmar og þekking ekki nægilega góð (Símon Jón Jóhannsson, 2017: 86). Það gat því að öllum líkindum verið gott að trúa því að eitthvað yfirnáttúrulegt væri með manni í liði á slíkum stundum. HeimildaskráEva S. Einarsdóttir og Guðrún G. Eggertsdóttir. (1989). Ljósmæður, menntun og störf. Ljósmæðrablaðið, 67(2), 22-34. Jónas Jónasson. (2011). Íslenskir þjóðhættir. Bókaútgáfan Opna. Ljósmæðrafélag Íslands. Saga ljósmæðranámsins. https://www.ljosmaedrafelag.is/ljosmodir/ljosmaedranamid/saganams Símon Jón Jóhannsson. (2017). Fyrirboðar og tákn : auðnuspor og ólánsvegir í daglegu lífi. Veröld. Þórunn Guðmundsdóttir. (2003). Menntun og störf íslenskra ljósmæðra á 18. öld. Rafhlaðan. HöfundurKristín Dögg Kristinsdóttir er nýútskrifaður þjóðfræðingur sem er að taka viðbótar diplómu í þjóðfræði.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|