Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband

Fjöltyngi og sjálfið - Stefanía Anna Rúnarsdóttir

1/18/2025

0 Comments

 
Picture
Að mínu mati er fjöltyngi mjög áhugavert en of lítið rannsakað fyrirbæri. Áhugi minn á fjöltyngi liggur aðalega í áhrifum þess á tjáningu. Aukið upplýsingaflæði og betri samgöngur hafa gert fólksflutninga á milli landa og menningarsvæða auðveldari. Stríð og óeirðir fjölga líka flóttafólki í heiminum. Allt leiðir þetta til fjölmenningarlegra samfélaga og fjöltyngis. Áhugi minn liggur innan þess hvernig fjöltyngi mótar manneskjuna, samskipti hennar við aðra og tjáningu menningar almennt.

​Ég er fædd og uppalin á Íslandi og á tvo íslenska foreldra sem aldrei höfðu ferðast út fyrir landsteinana áður en þau áttu mig. Þegar ég var á unglingsaldri fluttum við fjölskyldan til Danmerkur og þar stundaði ég nám og vinnu á dönsku í fjögur ár. Eins og flestir Íslendingar tala ég fína ensku og ég nota hana reglulega þar sem ég hef stærstan hluta lífs míns unnið í þjónustu- og ferðamannabransanum. Ég er því í raun þrítyngd, eða hvað? Í það minnsta tvítyngd. En ég hef aldrei upplifað mig þannig og finnst mjög lítið til tungumálakunnáttu minnar koma. Upplifun mín af því að taka fullan þátt í samfélagi á öðru tungumáli en móðurmáli mínu hafði samt djúpstæð áhrif á mig og mína sjálfsmynd. 
​

Þjóðfræði tungumála

Til eru ótal margar skilgreiningar á fjöltyngi en ég vel að nota skilgreiningu fræðimannsins François Grosjean. Hann lýsir fjöltyngi sem hnitakerfi, eftir kunnáttu og notkun. Fjöltyngdir einstaklingar falla þannig á mismunandi staði innan hnitakerfisins. Hægt er að dvelja í stuttan tíma í öðru landi og læra að tjá sig innan vinnustaðar á nýju tungumáli þó svo að skrif og leskunnátta sé ekki til staðar, allt upp í það að vera túlkur eða alast upp á heimili þar sem tvö tungumál eru töluð. Hægt er að bætast í hóp fjöltyngdra hvenær sem er á lífsleiðinni (2015: 574-574; 577). Þekking á tungumálum, notkun þeirra og áhrif, kemur þjóðfræðingum að miklu gagni. Menningarlegt gildi tungumála, hvernig við mannfólkið lærum þau og hvernig þau móta okkur er kunnátta sem auðveldar greiningu tjáðrar menningar en til að tjá menningu okkar þurfum við einhvern til þess að tjá okkur við, jafnvel hóp af fólki.
​
Hópar geta skapast af ýmsum ástæðum, svo sem nálægð, nauðsyn, sameiginlegu áhugamáli og reglulegum samskiptum. Hópar myndast bæði til lengri og styttri tíma ásamt því að tapa og bæta við sig meðlimum (Sims & Stephens, 2005: 42-51). Sameiginlegt tungumál er eitt af mörgum undirstöðum hópamyndunar, mismunandi mállýskur mynda svo minni hópa innan tungumálsins. Einhverjir kunna tvö tungumál og tilheyra því fleiri en einum tungumálahópi. Fyrir utan þá tungumálahópa sem að við tilheyrum erum við meðlimir í þúsundum annara hópa, sem hver og einn hefur sitt þjóðfræðiefni. Tungumálið er svo það sem að við notum til að deila því, jafnt innan hópa og á milli þeirra.
​

Hópar og sjálfsmynd

Þeir hópar sem við tilheyrum frá fæðingu og svo þeir sem við tilheyrum á lífsleiðinni eiga allir þátt í að skilgreina okkur sem manneskju. Þannig verður sjálfsmynd okkar til í samtali við samfélagið. Fræðimenn eru að mestu sammála um að sjálfið sé ekki eingöngu bundið við hvernig við skilgreinum okkur sjálf, heldur hafi skoðanir annarra einnig áhrif. Tjáning og tungumál eru því lykilatriði í sjálfsmynd (Riley, 2007: 82-83). Tungumálakunnátta okkar og hæfni hlýtur þá að hafa áhrif á sjálfsmynd okkar. Þegar kemur að því að læra, nota og skilja tvö tungumál, hvort sem það er frá unga aldri eða seinna á lífsleiðinni, erum við að staðsetja okkur í hópi annarra notenda sama tungumáls.
Picture
​Mörgum líður eins og þeir þurfi að velja á milli tveggja hópa þegar þeir flytja á milli menningarsvæða. Hvort á að halda í menningu heimalandsins eða aðlaga sig nýrri menningu, er þörf á að velja? Það fer ekki bara eftir einstaklingnum sem að flutti í nýjan menningarheim heldur líka skráðum og óskráðum reglum nýja samfélagsins ásamt samskiptum við meðlimi nýja hópsins (Sixtus, Wesche & Kerschreiter, 2019: 486-487).
​Oft hefur maður heyrt, í umræðum um fjöltyngi, að fólk hegði sér öðruvísi á mismunandi tungumálum. Erum við þá að skipta um persónuleika þegar við skiptum um tungumál? François Grosjean vitnar í grein sinni í tékkneskan málshátt: “Learn a new language and get a new soul”. Hann veltir fyrir sér hvað sé sannleiksgildi þessara orða, hvort að breytingin orsakist af  tungumálinu sjálfu eða menningarlegu umhverfi þess (2015: 583-584).
​

Ég og Jeg

Við dvöl mína í Danmörku kynntist ég Steinunni D. Jónasdóttir og vill svo vel til að hún fékk heiðurinn af því að skrifa kafla um tvítyngi í bókina Ord og Naboer i Norden: Nordisk Nabosprogsforståelse. Steinunn talar reiprennandi dönsku, hún bjó þar í mörg ár, kláraði háskólamenntun þar, vann á dönskum vinnumarkaði og á danskan unnusta. Hún á íslenska foreldra en hefur þó eytt minnstum parti ævi sinnar á Íslandi. Áður en hún flutti til Danmörku bjó hún ásamt foreldrum sínum í Belgíu þar sem að franska, hollenska og þýska eru öll opinber tungumál.
​
Kafli Steinunnar heitir „Mig og mit danske jeg“, sem er vísun í hvernig hún sér sig sem mismunandi persónuleika á mismunandi tungumálum, og þá sérstaklega þegar hún fór að taka þátt í dönsku samfélagi. Danska útgáfan af henni var lífsglöð, ófeimin og hávær, sem stangast alveg á við íslensku og ensku Steinunni. Þessar breytingar á persónueinkennum telur hún að hafi verið til að hylma yfir það óöryggi sem hún fann við að tjá sig á nýju tungumáli (Steinunn D. Jónasdóttir, 2018: 129-132). 
Á þeim veitingastað í Kaupmannahöfn sem Steinunn starfaði varð hún oft vör við að kúnnar hæddust að hreimnum hennar á meðan þau töldu hana vera frá Jótlandi en um leið og annað kom í ljós breyttist hæðnin í virðingu (Steinunn D. Jónasdóttir, 2018: 124-126).  Þar sést hvernig tungumálakunnáttan hafði áhrif á stöðu hennar innan danska samfélagsins. Hvort sem þessar breytingar í hegðun hennar og samfélaginu gagnvart henni orsakast af tungumálinu sjálfu eða menningu þess er þetta verðugt rannsóknarefni.
Picture
Tvö tungumál/tvær persónur í einni.
​Myndir eru framkallaðar í samstarfi við Microsoft Copilot AI
Rannsóknir á sviðinu hafa hingað til fjallað um skilgreiningu fjöltyngds, tilfinningalega tengingu við mismunandi tungumál og hvernig ný tungumál geta haft áhrif á sjálfsmynd okkar. Þekking á tungumálum, bæði menningarlegu gildi þeirra, hvernig við mannfólkið lærum þau og hvernig þau móta okkur er kunnátta sem að getur reynst þjóðfræðingum góð við greiningu tjáðrar menningar. Tjáð menning er einn af höfuðflokkum þjóðfræðinnar og tungumál snertir allar hliðar þess flokks. Við tjáum menningu ekki eingöngu innan þjóðhópa heldur ferðast þjóðfræðiefni eins og sagnir og ævintýri á milli landa og menningarsvæða og mótast af samfélaginu. Það er því margt ókannað þegar kemur að þjóðfræðirannsóknum á fjöltyngi.

Heimildaskrá

Grosjean, F. (2015). Bicultural bilinguals. The International Journal of Bilingualism, 19(5), 572-586. https://doi.org/10.1177/1367006914526297
Riley, P. (2007). Language, culture and identity : an ethnolinguistic perspective (1st ed.). Continuum.
Sims M., Stephens M. (2005). Living Folklore : an intoduction to the study of people and their traditions. Utha State University Press.
Sixtus, F., Wesche, J.S. and Kerschreiter, R. (2019), Identity Multiplicity, National Group Contact, and Acculturation: The Role of Identity-Related Cognitions. Journal of Social Issues, 75(2), 486-514. https://doi.org/10.1111/josi.12325
Steinunn D. Jónasdóttir. (2018). Mig og mit danske jeg. Í G.S. Adamsen (ritstjóri), Ord og Naboer i Norden: Nordisk Nabosprogsforståelse (bls 121-136). Modersmål-Selskabet.

Höfundur

Stefanía Anna Rúnarsdóttir er BA nemandi í þjóðfræði við Háskóla Íslands

0 Comments



Leave a Reply.

    Kreddur

    ​Allir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt.

    Greinar

    December 2025
    February 2025
    January 2025
    December 2024
    November 2023
    August 2023
    May 2023
    April 2023
    September 2022
    May 2022
    April 2022
    March 2022
    February 2022
    June 2020
    May 2016
    January 2016
    November 2015
    January 2015
    May 2014
    April 2014
    February 2014
    January 2014
    December 2013
    October 2013
    June 2013
    May 2013
    February 2013

    Flokkar

    All
    ævintýri
    Alþýðulækningar
    Biblían
    Dagbækur
    Efnismenning
    Englar
    Fatnaður
    Galdrar
    Jafnreacutetti
    Jón Árnason
    Kyngervi
    Kynjafræði
    Menningararfur
    Myndmiðlar
    Spíritismi
    Staðalmyndir
    þjóðsagnafræði
    þjóðsagnaverur
    þjóðtrú

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband