Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband

Fræknir og fjölkunnir feðgar á Ströndum norður - Elsa Rut Jóhönnudóttir

2/4/2025

0 Comments

 
Picture
​Nú eru liðin um 300 ár síðan skáldið, galdramaðurinn og þjóðsagnapersónan Hallvarður Hallsson fæddist. Ævintýralegar sögur af afrekum hans, líkamsburðum og ekki síst greftrun hans, urðu til þess að enn í dag þekkja flest allir Strandamenn sögu Hallvarðs og margir hafa heitið á hann og leiði hans, sér til aðstoðar við margvísleg tilefni.
​

Frækilegir feðgar – Fornir í skapi, slæleg kirkjusókn og
​60 bjargfuglsegg

​Faðir Hallvarðs hét Hallur og var Jónsson, Hallur bjó á Horni á Hornströndum. Hann þótti mikill íþróttamaður bæði í glímu og slönguvarpi. Hæfði hann svo til allt það sem hann miðaði á hvort sem það var með slöngvu eða skutli. Hann og kona hans Guðrún Hallvarðsdóttir áttu tvo syni þá Jón og Hallvarð. Jón þótti líkamlega sterkastur þeirra feðga en Hallvarður stóð honum langtum fremur að andlegu atgervi. Hallvarður var líkt og faðir hans forn og fjölkunnugur maður. Forneskja þeirra kom þó ekki í veg fyrir að þeir teldu sig kristna. Langar útistöður þeirra við kirkjunnar þjóna stóðu aðallega vegna þess að þeir voru ósammála kennisetningum prestanna og svo var kirkjuleiðin tveggja vikna ferðalag svo þeir feðgar létu sjaldan eftir sér að mæta í messur (Arngrímur Fr. Bjarnason og Helgi Guðmundsson, 1933-1949, bls.97).
​
Margar fræknisögur eru til af þeim feðgum, flestar í þjóðsagnastíl. Ansi margar fjalla um matarhefðir þeirra. Sem dæmi má nefna að Jón sonur Halls átti að hafa etið reglulega 60 stk af bjargfuglaeggjum án þess að finna til þess, en líklegast ekki veitt af því enda var hann þeirra sterkastur.
​

Hallvarður – Hákarlaskálm, sleðameiður og greftrun Halls

Strandamenn hafa gegnum aldirnar átt oftar í höggi við hvítabirni en aðrir landsmenn, Hallvarður Hallson lenti rækilega í þeim og sjálfsagt fádæmi um að einn og sami maðurinn hafi banað fleiri bjarndýrum en hann. Það þykir gott dæmi um karlmennsku og þor Hallvarðar þegar hann aðeins 15/16 vetra gamall var einn heima með bróður sínum og móður að Horni. Mikill ís hafði verið þetta vorið og kvöld eitt kom bjarndýr að landi og braut næstum niður bæjardyrnar. Skepnan gafst loks upp á að reyna við bæjardyrnar en braut þess í stað upp hjall þar nálægt og át bæði fisk og hákarl. Hallvarður greip þá hákarlaskálm, tvíeggjað eggvopn notað til að skera mænu hákarls í sundur. Réðist Hallvarður að dýrinu með skálminni og stakk það á hol, þótti þetta mikið hreystiverk af ekki eldri manni (Arngrímur og Helgi, 1933-1949, bls.98). 
Á þeim tíma sem Hallvarður bjó í Höfn þá þurfti hann eitt sinn að sækja hey með sleða upp á heiði. Meðan hann var við heydesina þá birtist soltinn og grimmur hvítabjörn. Hallvarður hafði lagt eggvopn sitt frá sér utan seilingar. Reif hann því meiðann undan sleðanum og tókst þannig að drepa dýrið, án þess að slasast sjálfur (Arngrímur og Helgi, 1933-1949, bls. 127-128). 
Picture
​Hallvarðsbúð árið 2021
Ýmsar fleiri sögur eru til af frækilegum bardögum þeirra feðga við bjarndýr og til eru sögur um, í það minnsta, þrjá hvítabirni í viðbót sem þeir feðgar felldu. 
​
Hallur faðir þeirra bræðra gerðist gamall og kom að því að hann lést veturinn 1753-54. Vegna þess að Hallur var bæði forn í skapi og kristinn þá bað hann um að sett yrði bæði bænakver og Úlfarsrímur með honum í kistuna. Þótti sumum það óviðeigandi en Hallvarður fór að óskum föður síns. Hallur hafði beðið um að vera grafinn í Höfn þar sem hann bjó. Þegar kom að því að  bera kistuna á skip og sigla henni til Staðar í Aðalvík þá varð hún svo þung að ekki var hægt að lyfta henni. Varð því úr að veita Halli legstað í kirkjugarði þeim sem hann valdi sér í Höfn, en sá garður var þá löngu aflagður og hætt að jarðsetja í honum (Arngrímur og Helgi, 1933-1949, bls. 115).
​

Dauði Hallvarðs – Bókabrenna, greftrun og draumaáheit

Hallvarður bjó seinustu æviárin í Skjaldabjarnarvík.  Þegar hann tók að reskjast þá mælti hann eitt sinn við vin sinn og fósturson að sér væri farið að förlast. Kvaðst Hallvarður tæplega geta lokið tveggja fjórðunga kóp (einn fjórðungur er um 5kg).

Picture
Leiði Hallvarðs 1980, áður en legsteinn var settur upp
Haustið áður en Hallvarður lést fór hann uppí fjall og brenndi þar allar skræður sínar sem hann vildi ekki að menn kæmust í eftir sinn dag. Altalað var að Hallvarður væri engu minna fjölkunnugur en Hallur faðir hans hafði verið (Arngrímur og Helgi, 1933-1949, bls. 144). Hallvarður lést 29. maí 1799 (Guðmundur G. Jónsson, 2019, bls. 60).​
Flytja átti lík Hallvarðs til greftrunar í Árneskirkju í Trékyllisvík en ófært var á landi með kistuna. Því var reynt að flytja hana sjóveg. Tvisvar sinnum var áætlað að flytja kistuna sjóleiðis en í bæði skiptin gerði foráttuveður svo hætta varð við ferðalagið. ​Lokaniðurstaðan varð því að grafa Hallvarð við túngarðinn í Skjaldabjarnarvík (Arngrímur og Helgi, 1933-1949, bls. 145).
​
Eftir daga Hallvarðs bjó í Skjaldabjarnarvík frændfólk Hallvarðs. Magnús hét sonurinn á bænum og tók hann á það ráð að heita á Hallvarð sér til aðstoðar. Hét hann á Hallvarð að sýna sér í draumi ýmislegt sem honum lá á. Sem dæmi þá hét hann á Hallvarð að leiðbeina sér við sauðaleit og veiðar með góðum árangri (Arngrímur og Helgi, 1933-1949, bls. 146).  
​
​

Hallvarðssjóður – Legsteinn, björgunarskýli og Hjartaheill 

Ekki er vitað til þess að heitið hafi verið á hann með áheitum fyrr en Guðjón Kristjánsson í Skjaldabjarnarvík hóf áheit á hann á fyrri hluta 20. aldar. Loforð um fjárútlát eða greiða hafa löngum þótt líkleg til að ýta undir aðstoð frá yfirnáttúrulegum verum.  Í dag vitum við ekki hvaða vandamál Guðjón átti við að stríða en áheitin gáfust mjög vel. Guðjón launaði fyrir sig með því að smíða utan um leiði Hallvarðs og hugsa um það meðan hann bjó í Skjaldabjarnarvík (Guðmundur, 2019, bls. 60).
​
​Eftir miðja 20. öldina var farið að heita meira á Hallvarð og miðað við síðustu fréttir árið 2019 virðist lítið lát vera á þeim. Margar sögur eru til af því að heitið sé á hann varðandi veður og þá ekki síst þegar veðurspá fyrir ættingjamót er slæm (Guðmundur, 2019, bls. 60).

​Til að halda utan um áheit á Hallvarð var stofnaður Hallvarðssjóður sem óx jafnt og þétt uppúr miðri 20. öldinni. Árið 1986 var nokkurri peningaupphæð veitt í að gera myndarlegan legstein með tilheyrandi áletrun fyrir leiði Hallvarðs. 
​
Picture
Legsteinninn á leiði Hallvarðs sumarið 2021
Fjórum árum seinna var svo tekin ákvörðun um að standa fyrir uppsetningu á björgunarskýli í Skjaldabjarnarvík. Greiddi sjóðurinn öll efniskaup en undirstöðugerð, smíði og uppsetning fór allt fram í sjálfboðavinnu. Varðskip aðstoðaði við að koma húsaflekunum og her af mannskap norður í Skjaldabjarnarvík. Margir sem tóku þátt í þessari vinnu vilja meina að Hallvarður hafi haft fingurna í veðurfarinu nóttina sem gist var í Skjaldabjarnarvík, en þá var 20 stiga hiti og fólk gat lagst hist og her um móana og sváfu allir undir berum himni. Sjóðurinn hefur tekið þátt í að fjármagna ýmiskonar verkfæri sem nauðsynleg eru í svona skýlum þ.m.t. kamínu. Sjóðurinn afhenti björgunarsveitinni á Hólmavík umsjón og eftirlit með Hallvarðsbúð og hafa þau séð um skýlið síðan.

Aftur gildnaði sjóðurinn og árið 2013 þótti ástæða til að nýta hann í gott málefni og við það tilefni voru gefnar 500.000 kr. til Hjartaheilla (Guðmundur, 2019, bls. 63-64). Frá og með vordögum 2024 hefur björgunarsveitin Strandasól tekið yfir umsjón með sjóðnum (Sigrún Sverrisdóttir, munnleg heimild, 03.11.2024). Áheit á Hallvarð eru því ekki aðeins mikilvæg hefð frá þjóðfræðilegu sjónarmiði heldur hafa þau nýst vel til góðgerðarmála. Vonandi munu áheitin halda áfram með nýjum kynslóðum og þau verði góð tekjulind fyrir mikilvæga starfsemi björgunarsveitarinnar um ókomin ár. ​

Heimildaskrá:

Arngrímur Fr. Bjarnason og Helgi Guðmundsson. (1933-1949). Vestfirzkar sagnir. Bókaverzlun Guðmundar Gamalíelssonar: Fagurskinna.
​
Guðmundur G. Jónsson. (2019). Hallvarðssjóður. Strandapósturinn (51).

Höfundur

Elsa Rut Jóhönnudóttir er búfræðingur, elliheimilisstarfskona, þriðja árs þjóðfræðinemi og andleg-strandakona.

0 Comments



Leave a Reply.

    Kreddur

    ​Allir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt.

    Greinar

    December 2025
    February 2025
    January 2025
    December 2024
    November 2023
    August 2023
    May 2023
    April 2023
    September 2022
    May 2022
    April 2022
    March 2022
    February 2022
    June 2020
    May 2016
    January 2016
    November 2015
    January 2015
    May 2014
    April 2014
    February 2014
    January 2014
    December 2013
    October 2013
    June 2013
    May 2013
    February 2013

    Flokkar

    All
    ævintýri
    Alþýðulækningar
    Biblían
    Dagbækur
    Efnismenning
    Englar
    Fatnaður
    Galdrar
    Jafnreacutetti
    Jón Árnason
    Kyngervi
    Kynjafræði
    Menningararfur
    Myndmiðlar
    Spíritismi
    Staðalmyndir
    þjóðsagnafræði
    þjóðsagnaverur
    þjóðtrú

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband