Byggingar og mannvirki af öllum gerðum hafa fylgt manneskjum eins langt og sögur ná og raunar lengur. Á Íslandi tengjum við torfbæina við fortíðina og sterkan menningararf þjóðarinnar. Byggingarstílar breytast með tímanum, við verndum sumt og rífum annað niður. Þetta eru verk mannsins og heimkynni okkar, þau veita skjól frá náttúruöflum. Hús og byggingar gegna margvíslegum hlutverkum og merkingum innan ólíkra samfélaga. Eyðibýli hafa alltaf vakið sérstakan áhuga hjá mér frá því ég var barn ásamt gömlum húsum sem skera sig úr við hlið nýstárlegra bygginga sem eru misfallegar að mínum smekk. Ég man eftir að hafa ferðast um landið og tekið eftir húsunum sem stóðu tóm, illa á sig komin af náttúrunnar hendi og án fólks til að viðhalda þeim. Í þessum húsum höfðu eitt sinn búið fjölskyldur sem fylltu þau af lífi en voru orðin auð og farin að grotna niður. Fyrir mér var þetta eins og að sjá draug, hús sem eitt sinn var heimili og hafði áður iðað af lífi var orðið að draugahúsi. Aðeins leifar af minningum og ósögðum sögum. Það er vert að setja þetta í samhengi við veruhátt (e. habitus) en hugtakið var sett fram af Pierre Bourdieu. Kenning hans var að veruháttur væri verkfæri til að skilja atferli mannsins, og hugmyndir úr félagslegu og menningarlegu umhverfi okkar. Hugtakið nær því utan um alla þætti sem tengja og móta einstaklinginn innan samfélagsins (Blunden, 2004: 1–4). Hús minna okkur á hvaðan við komum, hvar við erum stödd og eigum heima, þau vekja hrifningu, tilfinningar, fortíðarþrá og endurminningar. Þau geta verið hversdagsleg, framandleg eða nýstárleg. Þau eru gildishlaðin og geta staðið sem tákn fyrir stéttarmun, ójöfnuð, völd, heilagleika, hefðir og siði. Í rauninni eru þau ekki ósvipuð mönnum, þegar verið er að lýsa þeim.
Einnig fann ég texta úr tveim lögum sem ég þekkti fyrir, Mér finnst rigningin góð og A House Is A Home. Þar var nóg um að velja en ég ákvað að taka fyrir nokkra texta þar sem hús urðu partur af tilfinningalegri vitund, myndlíkingu eða minningum mannsins. Ljóðin og lögin hér fyrir neðan bera öll titilinn „hús“ í einhverri mynd. Í ljóðinu Húsið í götunni eftir Má Elísson er ákveðnu húsi lýst sem hefur svip, í þeim skilningi að það geymir sögur en getur ekki sagt frá þeim. Húsið hlustar á „bæjarbrag og bögur“ og fær myndlíkingu manns með höfuð og háls. Ljóðið endar á að lýsa þögninni, hugsanlega þegar fólk hefur flutt úr því að þá „er eitthvað sem það segir“. Annað ljóð eftir Má heitir Hús mitt í fjörunni en þar lýsir hann upplifun sem hann varð fyrir á „kránni í Kringlunni“. Höfundur býr til myndlíkingu um hvernig „hafið og fjaran börðust um athygli“ hans. Upplifunin á kránni fyllti hann af gleði í andartak, þegar hann fann lyktina af fjörunni og hafinu. Vegna titilsins má velta því fyrir sér hvort að hugur hans hafi leitt til heimaslóða og rými krárinnar hafi minnt hann á krána heima eða sló ölið aðeins á heimþrána? Var jafnvel Kringlukráin sjálf það sem hann kallar húsið sitt í fjörunni og hafið aðeins myndlíking áfengis? Á vefsíðunni Ljóð.is er að finna fjögur önnur ljóð eftir Má þar sem hús eru í aðalhlutverkinu: Gamli bærinn, Gamli bærinn minn, Lítið hús með stóra sál og Glerhús (e.d.). Í ljóðinu Húsið og ég notar ljóðskáldið Þ.J. hús sem persónugerving fyrir sjálfan sig og fjallar það um hvernig hann var einu sinni traustur og hlýr eins og hús í það að breytast í að vera ekki eins og hús lengur. Þakrennan táknar hvernig hann meðtók umhyggjusamlega skoðanir frá öðrum. Þakið táknar vernd og þolinmæði, veggurinn er tákn styrks og stöðugleika, stiginn stendur fyrir stefnufestu, handriðið er stuðningur og hurð hússins var „opin fyrir öllum“. Breytingin á honum var andstæð öllum lýsingunum hér á undan nema að hann var „enn þá eins og hurð“ þó í öðrum tilgangi, því núna var hurðin lokuð og læst (e.d.).
Höfundur textans veltir því fyrir sér hvort að húsið láti sig dreyma og hvort „það fái martraðir“ (e.d.). Hvort sem textinn er sálræn ráðgáta eða hreint grín þá sjáum við hvernig húsið verður að persónugervingi lifandi manns. Textinn í laginu Gamla húsið segir frá konu og endurminningum hennar af gömlum slóðum, æskuheimilinu. Konan mundi eftir húsinu á allt annan hátt frá því hún var barn og sér það öðruvísi eftir mörg ár. Húsið í bernsku hennar var hlýtt og fullt af gleði með „blóm í glugga“, kyrrlátri stofu og yl frá kolaofni og svæðið í kring iðaði af fólki. Hins vegar játar konan að margt hafi jafnvel ekki verið gott sem hún hafði bælt niður eða litið fram hjá sem barn. Húsið var stærra í barnsminni hennar, en núna var það orðið lítið, hún upplifði „húsið sitt á annan hátt“ (Þorgeir Ástvaldsson og Bjartmar Guðlaugsson, e.d.). Samkvæmt laginu er hús heimili þrátt fyrir að garðurinn sé ósleginn og heimilisverkum ekki sinnt, hundurinn hættur að gelta, eldhúsið matarlaust og einstaklingur sitji einn eftir í því. Þá er hús einnig heimili þó að það hafi drauga, nágrannar hvísli og einstaklingar flýja eða leiti þangað skjóls. Boðskapurinn í laginu samkvæmt minni túlkun er sá að einstaklingar geta upplifað efnislegt rými, þ.e. heimilið, á mismunandi hátt (Harper, e.d.). Að lokum vil ég vitna í bókina Culture Builders. Í inngangi hennar kemur fram hvernig fræðimenn innan félagsvísinda hafa gleymt hversdagsleikanum í sambandi við tilfinninga- og einkalíf einstaklingsins. Hið kunnuglega getur reynst svo sjálfgefið að það gleymist. Hins vegar geta mikilvæg samhengi hluta samtímans falist í gömlum vandamálum og gildum klædd nýjum búningum (Frykman og Löfgreen, 2008: 2-3). Mér finnst áhugavert hvernig tjáningarform ljóða- og lagatexta geta gefið okkur innsýn inn í ólíka hugarheima eða veruleika mannsins. Í dæmunum hér fyrir ofan hafa húsin mikla þýðingu fyrir einstaklinginn og e.t.v. á öðruvísi hátt en við pælum í dagsdaglega, t.d. hvernig lætur húsið mér líða? Sameiginlegi þáttur textanna sýnir hvað manneskjur tengjast húsum á djúpstæðan hátt, sérstaklega þegar um er að ræða heimili. Hús geyma minningar því þar dvelur manneskjan stóran hluta ævi sinnar. Við gefum húsunum líf og sál með nærveru okkar. Meginþáttur daglegs strits og vinnu mannsins snýst oft um að geta eignast heimili eða borga af því, haft þak yfir höfuðið. Við erum partur af þeim og þau af okkur líkt og ein samheldin lífvera, svona ef við höldum áfram á ljóðrænu nótunum. Þegar hjörtun okkar slá innra með þeim þá vakna þau til lífsins á einhvern stórkostlegan hátt. HeimildaskráBlunden, A. (2004). Bourdieu on status, class and culture. https://www.ethicalpolitics.org/ablunden/pdfs/bourdieu-review.pdf Frykman, J. og Löfgreen, O. (2008). Culture Builders: A historical anthropology of middle-class life. Rutgers University Press. Grafík [hljómsveit]. Húsið og ég. Snerpa. https://www.snerpa.is/allt_hitt/textasafn/Husid_og_eg/ Harper, B. (e.d.). A House Is A Home. Ben Harper. https://www.benharper.com/songs-lyrics/originals/a-house-is-a-home Már Elísson. (e.d.). Hús mitt í fjörunni. Ljóð.is. https://ljod.is/poem/26783/ Már Elísson. (e.d.). Húsið í götunni. Ljóð.is. https://ljod.is/poem/26800/ Ólína Gunnlaugsdóttir. (e.d.). Hús. Ljóð.is. https://ljod.is/poem/663/ Þ.J. (e.d.). Húsið og ég. Ljóð.is. https://ljod.is/poem/10411/ Þorgeir Ástvaldsson og Bjartmar Guðlaugsson. (e.d.). Gamla húsið. Snerpa. https://www.snerpa.is/allt_hitt/textasafn/Gamla_husid/ MyndaskráMynd 1: Ef manneskja væri hús eftir Flóka (11 ára son höfundar) Mynd 2: Grátandi hús eftir höfund greinarinnar. Mynd 3: Eyðibýli eftir höfund greinarinnar. HöfundurAníta Heba Bergmann L. framhaldsnemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|