Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband

Klúrar kerlingar á heiðum - Einar Skúlason

12/16/2024

0 Comments

 
Picture
Víða eru vörður áberandi í landslaginu á Íslandi og þær eru alls konar í laginu, en eiga það sameiginlegt að vera gjarnan á klapparholtum eða öðrum stöðum sem gnæfa yfir umhverfið. Það er enda tilgangur þeirra að vera áberandi til þess að merkja hitt og þetta (Jón R. Hjálmarsson, 1995, bls. 6). Sem dæmi má nefna mörk milli jarða, vera mið fyrir siglingaleiðir eða fiskimið, stundum eru þær minnismerki  eða til að merkja hella eða tófugreni. Þrátt fyrir fjölbreytt notagildi varða þá eru þær langflestar hlaðnar til að varða leiðina milli byggðra bóla á landinu (Ómar Smári Ármannsson, 2021). Þau sem hafa verið á ferðinni um gamlar ferðaleiðir víða um landið í takmörkuðu skyggni þekkja vellíðunartilfinninguna að geta fylgt vörðum og sjá þær birtast eina af annarri við sjóndeildarhringinn eftir því sem leiðin sækist. Þrátt fyrir að margir hafi orðið úti í slæmu veðri þá voru margfalt fleiri sem komust á leiðarenda eftir þessum leiðum og efalaust eiga vörður drjúgan hlut í giftusömum endi á svaðilförum.
​

Margar leiðir

Það er engin einföld leið að meta með raunhæfum hætti hversu margar svona leiðir eru á landinu. Þær eru margar brotakenndar á láglendi eftir landbúnaðarbyltingu 20. aldar með framræsingu, girðingarvinnu og öðrum framkvæmdum sem breyttu landslaginu. Þeim mun skýrari eru þær eftir því sem farið er lengra inn til landsins og hærra yfir sjávarmál. Sem dæmi má nefna leiðirnar um Kjalveg, Kaldadal, Stórasand, Holtavörðuheiði, Nyrðri- og Syðri Fjallabaksleiðir, Holtavörðuheiði og Sprengisand. Í seinni tíð hafa margar þjóðleiðir á suðvesturhorninu notið vinsælda og mörg hafa gengið um Leggjabrjót, Síldarmannagötur, Selvogsgötu, Prestastíg eða Skógfellaveginn[1] til þess að fara í fótspor forfeðranna, þó að síðastnefnda leiðin verði tæpast farin í bráð eftir að hraunið tók að renna yfir leiðina úr Sundhnúkagígaröðinni.   

Tilbreytingarleysi á löngum leiðum

​Á löngum ferðaleiðum er vel þekkt að leiði sækir að fólki í tilbreytingaleysinu. Við sem höfum keyrt með börn þvert og endilangt um landið þekkjum spurninguna: „Erum við ekki að fara að koma?“ og vælutónninn í spurningunni segir allt um leiðindin. Sama gilti áður fyrr. Fólk sem var á ferðinni eftir gömlum vegum leiddist oft á leiðinni og gat ekki beðið eftir að komast á áfangastað. Það var líklega þess vegna sem beinakerlingar urðu til.[2]
Picture
Beinakerlingin í Kaldadal er bara eins og hver önnur grjóthrúga ef maður þekkir ekki sögu hennar
​

Afþreyingin í beinakerlingunum

​Beinakerling er sérstök tegund af vörðum sem voru staðsettar á nokkrum stöðum á landinu eins og meðfylgjandi kort sýnir. Þær voru gjarnan stórar og stæðilegar og staðsettar við alfaraleiðir og þekktastar voru þær sem stóðu á Stórasandi, efst á Kaldadal og á Kjalvegi. Fyrstu heimildir um beinakerlingarvísur eru frá því um 1700, en einungis hægt að geta sér til um hvenær sá siður byrjaði (Árni Björnsson, 2015, bls. 28). Alls eru sautján beinakerlingar þekktar en eflaust voru þær fleiri áður fyrr.  
Picture
Á kortinu hafa allar þekktar beinakerlingar verið merktar inn. Athygli vekur hvað þær voru algengar inn til landsins að vestanverðu á fjallvegum milli Norðurlands og Suður- og Vesturlands.
​Vörðurnar voru persónugervingar vafasamra kvenna og ferðamenn ortu gjarnan klúrar vísur í orðastað beinakerlingarinnar (lögðu henni orð í munn) og stíluðu á þá sem fóru síðar um veginn. Þannig að kerlingin talaði til þeirra og jafnvel til nafngreindra manna. Þessum vísum var svo rúllað upp og stungið í beinalegg (úr hrossi eða sauði) og komið fyrir á milli steina í vörðunni (Útg. Jón Þorkelsson, 1921-1923, bls. 406). Þess ber að geta að höfundar skrifuðu nafn sitt ekki við vísuna.
​

Dæmi um vísur

Beinakerlingin á Kaldadal var líklega kunnust af sautján þekktum beinakerlingum á landinu og var hún eins konar þjóð- eða yfirkerling og mikið til af vísum frá henni (Útg. Jón Þorkelsson, 1921-1923, bls. 414).

​Eftirfarandi vísa er vel þekkt og auðskilin enda sver hún sig í ætt við beinakerlingarvísur almennt.
Sækir að mér sveina val
sem þeir væri óðir;
kúri ég ein á Kaldadal,
komi þið, piltar góðir.
​Þessi vísa ber það með sér að hafa verið ort að vorlagi eða snemmsumars.
Komdu hingað manni minn
mælir kerling beina
vermdu mér eftir veturinn
valinmennið hreina.
Seint á líftíma beinakerlinga var ein slík hlaðin á Draghálsi á mótum Svínadals og Skorradals. Þetta var vígsluvísan (Útg. Jón Þorkelsson, 1921-1923, bls. 411):
Þótt aldrei fái átt við mig
ömurlegri þrjótur
skal ég aumkvast yfir þig -
ef þú verður fljótur.
Það kom fyrir að vísurnar voru stílaðar á tiltekna aðila sem voru á ferðinni í kjölfar hinna hagortu ferðalanga. Eftirfarandi vísuerindi var skilin eftir fyrir biskup á Hólum í beinakerlingunni á Stórasandi eða Kaldadal (Útg. Jón Þorkelsson (1921-1923, bls. 413). 
Herra minn góður Hólum frá,
hafið þér nóg að gera
í sænginni mér að sofa hjá
svo sem það á að vera.
 
Misst hef eg bæði megn og þrótt,
mörgum hafnað vinum,
eg hef vakað í alla nótt
eptir biskupinum.
Picture
Þetta hrossabein var tekið úr Beinakerlingunni á Kaldadal árið 1920 af fornminjaverði. Það innihélt fjóra miða með beinakerlingarvísum. Beinið er varðveitt á Þjóðminjasafninu.[3]
​

Slúður

Í grein sinni um beinakerlingarvísur segir Árni Björnsson að þar hafi jafnframt verið að finna níðvísur og slúður. Hann tekur þar dæmi af Sunnefumálinu sem Hans Wium sýslumaður hafði umsjón með eftir andlát föður síns (Jens Wium sýslumanns). Í málinu voru Sunnefa og bróðir hennar ásökuð fyrir blóðskömm fyrir að hafa getið barn saman. Í varðhaldinu eignaðist hún svo annað barn sem Jens sagði að væri tvöföld blóðskömm og því dauðadómur samkvæmt ákvæðum Stóradóms. Á Alþingi lýsti Sunnefa því yfir að Hans sýslumaður væri faðir seinna barnsins og úr varð hneyksli. Mikið hefur verið fjallað um þetta mál síðan.[4] ​Eftirfarandi vísum var komið fyrir í ónefndri beinakerlingu (Árni Björnsson (2015, bls. 29): 
Sunnefu þinnar súptu skál
sýslumaðurinn Wium.
Þér var næsta hamingjan hál
í hennar losta kvíum.
 
Týnd er æra, töpuð sál
tunglið veður í skýjum.
Sunnefu nú sýpur skál
sýslumaðurinn Wium.
Vísurnar tvær urðu ekki til  að bæta orðspor Hans Wium sýslumanns nema síður væri. Má velta því fyrir sér hvort að orðasambandið: „Að koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum“, hafi tengst beinakerlingarvísum þó að höfundur hafi ekkert fyrir sér í þeim efnum. 

Beinakerlingavísur í dag

Það er löngu aflagt að stinga bréfmiða með vísu inn í beinalegg svo að seinni tíma ferðamenn geti skemmt sér yfir afurðinni. Maður veltir fyrir sér hvað það er nú til dags sem má helst tengja við þessa afþreyingu. Það sem kemur helst upp í hugann eru gestabókarskrif í fjalla- og leitarmannakofum. Þar hafa löngum verið skrifaðar frumsamdar vísur og ýmis konar glettur fyrir seinni tíma ferðamenn að lesa. Því fer þó fjarri að slík skrif séu klámfengin á borð við beinakerlingarvísur en hafa ber í huga að í gestabækur skrifar fólk undir nafni og skrifin eru því yfirleitt innan siðsemismarka.
​
Gera má því skóna að beinakerlingarvísur geti enn orðið til í leitum að hausti enda er oft áfengi um hönd við slíkar aðstæður og þekkt að þá losnar um hömlur samfélagsins.

Aftanmálsgreinar

[1] ​Skógfellavegur er reyndar horfinn undir hraun að hluta til:  https://ferlir.is/skofellavegur-horfinn-ad-hluta/
[2] 
Taka ber fram að kenningin um að beinakerlingar hafi orðið til vegna leiðinda er heimatilbúin kenning höfundar.​
[3] ​https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=325305
[4] https://www.mannlif.is/frettir/innlent/sunnefa-daemd-fyrir-blodskomm-beid-drekkingar-i-atjan-ar-og-baud-kvalara-sinum-birginn/ og https://www.mbl.is/folk/frettir/2021/03/11/hver_faer_ad_segja_soguna/

Heimildaskrá

Árni Björnsson. (2015). Beinakerlingavísur. Stuðlaberg, 4. árg.(1. tbl.), bls. 27-29. https://timarit.is/issue/434245?iabr=on
Jón R. Hjálmarsson. (1995). Vörður og varðaðar leiðir. Lesbók Morgunblaðsins, 70. árg (27. tbl), bls. 6-7. https://timarit.is/page/3311204?iabr=on
Ómar Smári Ármannsson. (2021, 26. sept 2021). Vörður fyrir lengra komna. Ferlir.  https://ferlir.is/vordur-fyrir-lengra-komna/
Útg. Jón Þorkelsson. (1921-1923). Beinakerlingar. Blanda, II, bls. 406-419. https://timarit.is/issue/312282?iabr=on
​

Höfundur

Einar Skúlason er meistaranemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands

0 Comments



Leave a Reply.

    Kreddur

    ​Allir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt.

    Greinar

    December 2025
    February 2025
    January 2025
    December 2024
    November 2023
    August 2023
    May 2023
    April 2023
    September 2022
    May 2022
    April 2022
    March 2022
    February 2022
    June 2020
    May 2016
    January 2016
    November 2015
    January 2015
    May 2014
    April 2014
    February 2014
    January 2014
    December 2013
    October 2013
    June 2013
    May 2013
    February 2013

    Flokkar

    All
    ævintýri
    Alþýðulækningar
    Biblían
    Dagbækur
    Efnismenning
    Englar
    Fatnaður
    Galdrar
    Jafnreacutetti
    Jón Árnason
    Kyngervi
    Kynjafræði
    Menningararfur
    Myndmiðlar
    Spíritismi
    Staðalmyndir
    þjóðsagnafræði
    þjóðsagnaverur
    þjóðtrú

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband