Samfélag dagsins í dag lifir og hrærist í sjónrænum heimi þar sem að myndrænt efni streymir til okkar úr öllum áttum. Til að teljast fullgildir meðlimir þessa samfélags má helst ekkert framhjá okkur fara, hvort sem um ræðir hvaða ráðherrar neituðu að sitja í starfsstjórn, ummæli Donald Trump um matarvenjur innflytjenda eða hvaða hráefni séu í hinu vinsæla gúrkusalati. Við þurfum að sjá og heyra af því sem þekktir einstaklingar eru að gera, kaupa og selja. Hvað svokallaðir áhrifavaldar telja að við hin þurfum að eignast eða upplifa. Á sama tíma og við sjáum klippur úr lífi annarra fyllumst við löngun til að deila okkar eigin upplifunum og reynslu. Við deilum myndaskotum og uppstilltum myndum af okkar daglega lífi, allt frá því hvað við borðum í hádegismat, hvernig stemmningin var í jógasalnum og hvort við förum út á lífið um helgar. Þeir sem sitja heima fá tilfinningu fyrir því hvort við skemmtun okkur vel og vita hvaða staði eða viðburði við sóttum, án þess að hafa sjálfir farið út úr húsi. Ef við erum ekki í stuði til að deila skotum úr okkar eigin lífi er til endalaust efni frá öðru fólki sem við getum eytt óræðum tíma í að horfa á. Margir deila jafnvel það miklu með okkur að auðvelt er að ímynda sér að við séum öll hluti af hvors annars lífi. Án þess að hafa nokkurn tímann hist í eigin persónu eða yfir höfuð talað saman. Þessi sjónræna menning kennir okkur að setja líf okkar á svið fyrir aðra og gerir okkur erfiðara fyrir að upplifa heiminn á annan máta en í gegnum myndrænt form. Ljósmyndir og annars konar myndefni eru þær gáttir sem við höfum til að skilja og skynja það sem gerist í kringum okkur. Við setjum hlutina í samhengi við það sem við sjáum, hvort sem við höfum reynt það á eigin skinni eða einungis upplifað þá í sjónrænum skilningi. Ljósmyndir bera sönnunargildi sögunna Hverri kynslóð fylgja markverðar ljósmyndir sem allir eiga að þekkja og vita söguna á bakvið. Sá sjónræni heimur sem við hrærumst í kemur okkur í skilning um þá sögulegu viðburði sem hafa átt sér stað. Hvar og hvenær þeir gerðust. Við fáum að lifa þá á ákveðinn hátt, þó að þeir hafi jafnvel gerst löngu áður en við fæddumst. Ljósmyndin færir okkur þannig nær þeim viðburðum sem að við gátum ekki tekið þátt í en fáum samt að sjá og heyra af. Nokkurs konar annars flokks upplifun (e. second hand) sem svalar þörf okkar fyrir að vera með og vera meðvituð um það sem er að gerast í heiminum. Ljósmyndir veita upplýsingar um fortíðina sem hið ritaða orð getur einungis gert heiðarlega tilraun til að túlka. Samasemmerki er sett á milli þess að sjá ljósmynd og að hún lýsi því sem sannarlega hefur gerst. Megnið af þeirri þekkingu sem að fólk býr almennt yfir um fortíðina er komin frá ljósmyndum eða málverkum en ekki skriflegum heimildum (Sontag, 1973:4). Hið sama er eflaust hægt að setja fram sem staðreynd um samtímann, þar sem fólk í dag þrífst að mestu á myndrænum upplýsingum. Fólk sækist eftir því að ná mynd af hverju því sem marktækt þykir en fullmargir sætta sig við að ljósmyndin ein sé því til staðfestingar. Í bók sinni On Photography greinir Susan Sontag (1973) í þaula þær stórfelldu breytingar sem ljósmyndir hafa haft á viðhorf okkar til heimsins og gagnvart okkur sjálfum. Hún vitnar í franska ljóðskáldið Stéphane Mallarmé sem að hélt því fram að allt ætti sér stað einungis í þeim tilgangi að enda í bók. Sontag vill meina að tilgangur ljósmyndarinnar sé sá að allt endi með einum eða öðrum hætti á filmu. Hið myndræna hefur með tímanum tekið yfir það skriflega. Upplifunin sjálf sameinast þeirri athöfn að taka ljósmynd af því sem fyrir augum ber. Á endanum þykir það fullnægjandi að sjá eingöngu ljósmyndina sjálfa frekar en að vera persónulega á staðnum (Sontag, 1973:24). Ljósmyndir eru á þann hátt vitnisburður um upplifanir sem við erum annað hvort gerendur eða áhorfendur að. Sjón er sögu ríkar Það má velta fyrir sér hvað liggur á bakvið þá ákvörðun að taka upp myndavél og smella af. Hvað er það sem að ljósmyndarinn sér sem þykir það merkilegt að festa á filmu?
Mynd 1 View from the Window at Le Gras Fyrsta mynd allra tíma var tekin út um glugga á sveitasetri ljósmyndarans. Húsþök, tré og útsýni yfir landareignina var það sem ljósmyndaranum fannst vert að ná mynd af. Tæplega 200 árum seinna erum við ekki komin langt frá þeirri hugmynd. Við sækjum í að festa á filmu það sem stendur upp úr á líðandi stundu og í sömu andrá ákveðum við hvaða upplifun sé vert að geyma og hverja ekki. Við dokum við og horfum, tökum inn umhverfið og með því að smella af sannfærum við okkur sjálf um að þetta sé þess virði. Að festa upplifun sína á filmu er ákveðin leið til að staðfesta við sjálfan sig og fyrir öðrum að hlutirnir hafi í raun átt sér stað. Ljósmyndin sjálf gefur óumdeilanlegar vísbendingar um að ferðin hafi verið farin, að viðburðurinn hafi átt sér stað og að það hafi verið gaman (Sontag, 1973:9). Um leið og smellt er af réttlætum við gjörninginn sem á sér stað.
Augnablikin sem við sækjumst eftir að festa á filmu eru samansafn af hversdagslegum athöfnum, viðburðum og hátíðlegum tilefnum. Með því að taka upp myndavélina og smella af, ákveðum við að sú stund og staður sem um ræðir sé markverður í okkar lífi. Í hvert sinn sem mynd er tekin skjalfestum við andartak í okkar lífi sem á augabragði verður orðin minning ein. Af því við tókum mynd í skyndi lifir minningin áfram og við getum með sanni sagt að hún hafi verið þess virði. Heimildaskrá:Sontag, Susan. (1973). On Photography. Picador Larsen, J. og Sandbye, M. (2013). Introduction: The New Face of Snapshot Photography. Í Digital snaps: The new face of Photography. IB Tauris. LjósmyndirMynd 1 Fyrsta ljósmynd allra tíma https://www.nationalgeographic.com/photography/article/milestones-photography Mynd 2 Einkasafn greinarhöfundar. Mynd tekin 2015. Höfundur:Heiðrún Ágústsdóttir er meistaranemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|