Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband

Skynjun einstaklinga á návist framliðinna - Kristín Dögg Kristinsdóttir og Þórunn Valdís Þórsdóttir

10/21/2025

0 Comments

 
Picture
​Flest okkar kannast við sögur af yfirnáttúrulegum fyrirbærum af einhverju tagi, hvort sem við höfum lesið þær í þjóðsagnasöfnum, séð þær í kvikmyndum eða heyrt þær frá ættingjum eða vinum. Sum hafa reynslu af að sjá framliðna, dreyma fyrir hlutum eða fá fyrirboða um að eitthvað eigi eftir að gerast. Þekkt dæmi eru til hér á landi þar sem vegir hafa jafnvel verið færðir til að raska ekki álfabyggðum. 

Sumarið 2023 var send út könnun á vegum Terry Gunnell prófessors í þjóðfræði og Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands á íslenskri þjóðtrú, trúarviðhorfum og reynslu af hinu yfirnáttúrulega. Samsvarandi kannanir höfðu áður verið sendar út árin 1974, 2006 og 2007. Sumarið 2025 fékkst svo styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir framhaldsrannsókn þar sem tekin voru 22 viðtöl við einstaklinga sem svarað höfðu spurningum um yfirnáttúrulega reynslu játandi, um upplifanir þeirra. Við, Kristín og Þórunn, vorum svo heppnar að fá að taka þátt í þessari rannsókn í sumar og ætlum við hér að segja frá því sem vakti helst hjá okkur áhuga, en það er hvernig fólk skynjar framliðna einstaklinga. 
​

Trú og yfirnáttúra

Áður en við hefjum greiningu á upplifunum einstaklinga tengdum þjóðtrú og hinu yfirnáttúrulega er rétt að byrja á að útskýra hvað átt er við með þeim hugtökum, þar sem skilningur fólks á þeim getur verið misjafn. Hér er notast við þá skilgreiningu að þjóðtrú sé trú eða trúarviðhorf sem falli utan viðurkenndra trúarbragða. Þjóðtrú er oft bundin menningu og venjum samfélags og snýr jafnan að yfirnáttúrulegum fyrirbærum og er styrkt af reynslu fólks (Gísli Sigurðsson, 2002). Í viðtölunum sem við tókum í sumar báðum við viðmælendur að lýsa því hvað trú er fyrir þeim, án þess að nefna hugtökin þjóðtrú eða trúarbrögð. Hugur þeirra leitaði oft til trúarbragða, en einnig var hugtakið trú oft skilgreint af viðmælendum sem traust eða vissa um eitthvað sem hefur ekki verið sannað (ÞVÞ 2025-4; KDK 2025-5). Sum þeirra töldu því ekki endilega rétt að segjast „trúa” á hið yfirnáttúrulega sem þau höfðu upplifað, þar sem trú felur einnig í sér efa sem þau búa ekki yfir, því upplifun þeirra er sönnun fyrir því að eitthvað sé til (ÞVÞ 2025-2; ÞVÞ 2025-4:).

Þá getur einnig verið misjafnt hvernig fólk skilgreinir hið yfirnáttúrulega. Samkvæmt íslenskri orðabók er lýsingarorðið yfirnáttúrulegur skilgreint sem einhver „[s]em er (virðist) óháður lögmálum náttúrunnar ● yfirskilvitlegur, sem samræmist ekki almennri þekkingu á náttúrulögmálum” (Íslensk orðabók: M–Ö, 2002:1790). Í huga einhverra viðmælenda virðist þessi skilgreining þó ekki passa og tengdu þau upplifun sína ekki við hugtakið yfirnáttúrulegt. Til dæmis sagði einn viðmælenda, Steinunn Ó. að hún trúi á hið náttúrulega, en „það er ekki endilega yfir-, kannski er það bara náttúran sko … er það yfirnáttúrulegt eða er það náttúrulegt?” (ÞVÞ 2025-10). Úlfhildur talar einnig um hvernig skilgreina eigi hvað sé yfirnáttúrulegt og segir að þó að það megi kalla það sem við sjáum ekki með berum augum yfirskilvitlegt sé hún yfirleitt „bara svolítið þeirrar skoðunar að þetta er allt saman hluti af náttúrunni“ (KDK 2025-7). Almennt virðast viðmælendurnir þó sammála um að þeir þættir sem spurt var um væri eitthvað sem almennt teldist vera yfirnáttúrulegt, hvort sem þau upplifðu það sem slíkt eða ekki.
​

Þjóðtrú á Íslandi

Það er mikið samræmi í viðtalsrannsókn okkar og könnuninni frá árinu 2023, sem er kannski ekki að undra þar sem viðmælendur voru fengnir úr hópi svarenda. Það voru fleiri konur sem svöruðu könnuninni og í hópi viðmælenda okkar eru einnig fleiri konur en karlar. Þó að karlar hafi verið í minnihluta þeirra sem komu í viðtal voru þeir ekki síður ánægðir en konurnar að fá tækifæri til að deila reynslu sinni með okkur.
​
Frá árinu 1974, þegar þjóðtrúarkönnunin var fyrst send út, hefur jafnt og þétt fjölgað í hópi þeirra sem hafa upplifað að fá hugboð í vöku. Í könnuninni er það útskýrt þannig að viðkomandi hafi fundist ákveðinn atburður hafa gerst eða muni gerast og síðar reynst rétt (Gunnell, 2023:9). Nær allir okkar viðmælendur könnuðust við að hafa fengið hugboð, en sum þeirra töluðu um hugboðin sem skilaboð sem þau höfðu fengið um að þau ættu að gera eitthvað eða forðast að gera eitthvað. Einn viðmælandinn, Lára, segir frá því þegar hún og vinkona hennar voru á leið á íþróttamót saman. Þær ætluðu að vera samferða en rifrildi þeirra á milli gerði það að verkum að svo varð ekki. Vinkona hennar lenti í bílslysi á leið sinni á mótið. „Mér leið svona eins og ég hefði einhvern veginn haft tilfinningu að það myndi gerast en einmitt, svo gerist það” Láru fannst því að hún hefði á einhvern hátt valdið þessu, vegna þess að hugboðið hafi verið svo sterkt og hún var lengi með samviskubit vegna þess (KDK 2025-5). Þá segir annar viðmælandi, María, frá því að hún hafi eitt sinn verið að keyra á fjallvegi og rétt áður en hún kom að þeim stað sem vegurinn varð brattur alla leið niður fjallið fékk hún þá tilfinningu að hún ætti að prufa alla takka og áhöld í bílnum. Hún byrjaði á að prufa rúðuþurrkurnar, síðan öll ljós og stefnuljós og að lokum bremsurnar. Þá fann hún að bremsurnar á bílnum virkuðu bara alls ekki, svo hún hafði nokkra metra til að koma bílnum út í vegkant og láta hann drepa á sér áður en hún kæmi að brekkunum. Hún er viss um að þetta hugboð hafi bjargað lífi sínu vegna þess hversu bratt fjallið er og algjörs skorts á bremsum og segir: „Ég veit ekkert af hverju ég er að prófa öll handföng í bílnum og alla takka og alveg bara systematískt svona niður. Það var engin ástæða. Það var einhver sem að fékk mig til að gera það” (ÞVÞ 2025-8).

Í könnuninni frá árinu 2023 kom fram að konur trúðu oftar á yfirnáttúrulega hluti og höfðu frekar slíka reynslu en karlar. Það var áhugavert að heyra hvað viðmælendur okkar höfðu að segja þegar þau voru spurð út í það hvort þau teldu að konur yrðu oftar fyrir einhvers konar yfirnáttúrlegri skynjun en karlar. Flest telja ólíklegt að mikill munur sé á milli kynja um hvort fólk upplifi eitthvað yfirnáttúrulegt, en telja að konur viðurkenni það frekar og tali frekar um reynslu sína en karlar (KDK 2025-6; KDK 2025-3). Ástæðurnar sem gefnar eru fyrir þeim mismun voru til dæmis: 
Ég held að því fylgi að konur séu almennt opnari fyrir þessu og fyrir vikið nemi og skynji oft. Það er svona algengara að karlmenn þurfi svolítið svona haldbærari og áþreifanlegri sannanir fyrir hlutunum (KDK 2025-7). 
​Sagði Úlfhildur þegar hún var spurð út í ástæðu þessa munar á kynjunum. Einnig birtust hugmyndir um að konur væru minna hræddar við fordóma og álit annarra eins og kemur fram í orðum Maríu: „Það er kannski ekki nógu flott hjá körlum. Þeir eru kannski bara, hræddari við að það sé gert grín að þeim, eða að þeir séu [álitnir] svona skrítnir” ( ÞVÞ 2025-8). Það voru ekki bara konurnar sem töldu þetta heldur segir Ingi Hans: 
​Ekki það að þær hafi eitthvað meiri hæfileika til þess að skynja það. Þú veist ef það eru tvær manneskjur þá myndi ég ekki trúa því að hún myndi skynja eitthvað frekar en hann sko. Það gæti alveg farið í hina áttina. En bara hann myndi ekki tala um það sko. Hún ætti alveg til að segja: „Guð mér fannst einhver vera hérna“. Hann myndi aldrei segja þetta, þótt hann hafi upplifað það (KDK 2025-3).
​Við reyndum í byrjun rannsóknar að fá fólk með reynslu af álfum, huldufólki og álagablettum í viðtal. En það voru fáir viðmælenda okkar með reynslu af því, hugsanlega hefur þar áhrif að flestir viðmælenda voru af höfuðborgarsvæðinu. Einnig sýna þjóðtrúarkannanirnar að frá árinu 1974 hefur fækkað verulega í þeim hópi fólks sem telur mögulegt, líklegt eða er visst um að álfar eða huldufólk séu til. Árið 1974 voru um 12% svarenda sem töldu annaðhvort óhugsandi eða ólíklegt að álfar og huldufólk væri til en árið 2023 var þessi hópur kominn upp í tæp 60% (Gunnell, 2023:70). Það kom okkur á óvart hve lítill hluti fólks trúði á eða hafði reynslu af álfum og huldufólki þar sem við héldum að álfatrú væri mun algengari.
​

Skynjun fólks af framliðnum

Af þeim 2792 sem svöruðu þjóðtrúarkönnuninni 2023 voru 918 sem svöruðu því játandi að hafa upplifað eða talið sig hafa upplifað návist framliðinna einstaklinga (Gunnell, 2023:11). Af þeim 22 sem við tókum viðtal við voru 20 einstaklingar sem höfðu orðið þess vör að finna fyrir návist látinnar manneskju með einhverjum hætti, sem verður að teljast nokkuð hátt hlutfall.
Picture
Í viðtölunum kom fram að það er misjafnt hvernig fólk upplifir að einhver framliðinn sé nálægt þeim. Helmingur einstaklinganna hafði séð framliðna með eigin augum. Þau sem ekki sáu framliðna með berum augum skynjuðu þá með öðrum hætti. Þau ýmist heyrðu í þeim eða fundu lykt sem hafði fylgt viðkomandi í lifandi lífi. Sumir hins vegar sáu engan, fundu enga lykt, heyrðu ekkert og gátu einungis gefið þá skýringu að þau fyndu það á sér að einhver væri nálægt þeim.
Líkt og kom fram hafði næstum helmingur viðmælenda okkar reynslu af því að sjá einhvern framliðinn. Sýnirnar gátu verið ólíkar, einhverjir töluðu um að sjá bregða fyrir skugga eða útlínu manneskju sem þó var á einhvern hátt óskýr (ÞVÞ 2025-2; KDK 2025-9). Stundum var ekkert sem benti til þess, ef viðmælandinn þekkti ekki manneskjuna, að ekki væri um áþreifanlega persónu að ræða fyrr en manneskjan hvarf skyndilega eða í ljós kom að enginn annar sá hana. Til dæmis talar Steinunn Ó. um að hafa séð mann ásýndar í þó nokkurri fjarlægð sem var svo horfinn áður en nokkur annar í kringum hana hafði tækifæri á að sjá hann (ÞVÞ 2025-10). Gísli sagði frá minningu frá því hann var um 6 ára gamall. Hann hafi séð mann sitja á stól inni í eldhúsi einn morguninn þegar hann fór að fá sér morgunmat. Kvöldið áður hafði faðir hans setið ásamt vini sínum fram á kvöld inni í eldhúsi en þennan morgun var faðir hans farinn í vinnuferð. Gísli var því einn með mömmu sinni og lítilli systur í íbúðinni. Maðurinn sat á stól, svartklæddur frá toppi til táar, en sagði ekkert. Gísli var hissa en kippti sér ekkert upp við það að öðru leyti að ókunnur maður sæti inni í eldhúsi þennan morgun. Hann lét móður sína vita af þessu og henni dauðbrá auðvitað, þar sem hún var ein heima með börnin. Þegar þau komu aftur inn í eldhús var maðurinn hins vegar á bak og burt. Það var þá sem Gísli áttaði sig á því að hann var sá eini sem sá þennan mann. Gísli hefur aldrei getað útskýrt þetta á annan hátt en að þarna hafi verið um framliðna manneskju að ræða (KDK 2025-2).
​Sumir viðmælendanna töluðu við látna ættingja sína, hvort sem þeir sáu þá eða ekki. Einn viðmælandinn, Sólveig, sagðist bæði sjá og heyra í föður sínum og tengdaföður sem báðir voru látnir fyrir mörgum árum. Hún átti oft í samræðum við tengdaföður sinn. Oftast birtist hann henni og hún talaði við hann ef hún var geðvond út í tengdamóður sína, eins og hún orðar það. Eitt skipti birtist hann henni þegar svo var ástatt fyrir henni og sagði: „[G]efðu henni séns”. Hún nefnir sérstaklega að hann hafi litið út eins og hann gerði þegar hún kom inn í fjölskylduna, áður en hann varð veikur og lést (KDK 2025-10). Einnig voru nokkrir viðmælendur sem heyrðu í einhverjum án þess að eiga í beinum samræðum, til dæmis segir Steinunn G. frá því að hún hafi heyrt móður sína kalla á sig þegar hún er að gleyma einhverju, eins og móðir hennar gerði á meðan hún var á lífi (ÞVÞ 2025-9).

Nokkrir viðmælenda okkar fundu lykt sem þeir tengdu við látinn ástvin, t.d. ilmvatns- eða reykingarlykt án þess að nokkur sýnileg ástæða væri fyrir lyktinni í umhverfinu. Þannig fundu þau fyrir návist þeirra (ÞVÞ 2025-12; KDK 2025-10).

Dæmi voru um einstaklinga sem fundu fyrir því að einhver framliðinn væri nærri þeim, en gerðu sér ekki grein fyrir því hver það var. Lára gat ekki sagt hvað eða hver það var sem hún fann fyrir. Hún talaði um að oft fyndi hún fyrir einhverju þegar hún kæmi inn á ókunnan stað. Það var meira eins og eitthvað afl eða eins og hún segir: „Maður upplifir það stundum bara dálítið annaðhvort þrúgandi eða svona, kannski eins og þarna, að staðurinn væri pínulítið að öskra eða eitthvað þannig svona (KDK 2025-5). Ingi Hans hefur einnig upplifað einstaklinga nærri sér án þess að sjá þá eða finna það með öðrum skilningarvitum en tilfinningunni einni saman. Þessi tilfinning er bundin ákveðnum stöðum, vinnunni hans og heimili, en þó eingöngu við tölvuborðið heima fyrir (KDK 2025-3). Það virðist sem svo að viðkomandi kunni best við sig þar.

Við sáum greinilegan mun á upplifun einstaklinganna á návist framliðinna eftir því hvort þeir væru nákomnir þeim eða ekki. Viðmælendur okkar voru almennt sammála um að þeim þætti gott að vita af ástvinum sínum nálægt sér, til dæmis sagði Eyþór að ef hann finni nærveru einhvers tengds sér fylgi því hlýja og öryggi (ÞVÞ 2025-2). Kona úr hópi viðmælanda, sem hefur misst tvo eiginmenn um ævina, segist finna fyrir þeim báðum á heimili sínu og henni „finnst bara gott að vita af þeim, að ég er ekki hérna ein“ (ÞVÞ 2025-3).

Önnur kona segir frá því að hún skynji ekki bara návist framliðanna sem tengjast sér heldur skynjar hún einnig stundum nærveru einhvers sem henni finnst fylgja einhverjum öðrum en henni. Þá líkir hún því við að upplifa tilfinningar einhvers annars og að tilfinningarnar séu þá mjög fjarrænar (ÞVÞ 2025-4). 
​

Lokaorð

Það var virkilega gaman að sjá hversu mörg voru tilbúin að deila reynslu sinni með okkur. Það reyndist okkur erfitt að finna fólk sem hafði fundið fyrir eða séð álfa eða huldufólk enda færri með reynslu af því samkvæmt könnuninni. Hins vegar höfðu viðmælendur okkar mörg upplifað návist framliðinna eða hugboð. Reynsla fólks af návist framliðinna er fjölbreytt eins og við höfum komist að. Viðmælendur okkar voru sannfærðir um upplifun sína hvort sem þau sáu, heyrðu eða skynjuðu návist framliðinna á annan hátt.
 
Það var mjög skemmtilegt að vinna að þessari rannsókn og fá innsýn í þjóðtrú Íslendinga í dag. Þrátt fyrir að niðurstöðurnar ættu kannski ekki að koma á óvart ef horft er til niðurstöðu könnunarinnar átti hún þó til að koma okkur á óvart þegar hún skaraðist á við hugmyndir okkar. Til dæmis áttum við von á að fá mun fleiri sögur af nafnavitjunum en raun bar vitni, að hluta til þar sem þær eru algengar í fjölskyldum okkar beggja og sjálf er Þórunn skírð í höfuðið á langafa sínum vegna slíkrar vitjunar. Einnig töldum við að fleiri myndu segja sögur af reimleika í gömlu húsum og slíkt, þar sem draugasögur hafa verið vinsælar hjá okkur frá blautu barnsbeini. Við stigum því inn í þessa rannsókn með allt aðrar hugmyndir en við fengum úr viðtölunum.
​

Heimildaskrá

Gísli Sigurðsson. (2002, 29. apríl). Hvað er þjóðtrú og hvernig er þjóðtrú Íslendinga ólík þjóðtrú                 annarra Norðurlandaþjóða? Vísindavefurinn. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2342
Gunnell, Terry. (2023). Könnun á íslenskri þjóðtrú og trúarviðhorfum.                                                                        https://fel.hi.is/sites/fel.hi.is/files/2024-02/Thjodtruarkonnun_2023_isl.pdf 
Íslensk orðabók: M–Ö. (2002). Yfirnáttúrulegur. Mörður Árnason (ritstjóri), (3. útgáfa, aukin             og endurbætt). Edda.
 
Viðtöl
KDK 2025-2. (2025). Viðtal Kristínar Daggar Kristinsdóttur við Gísla Garðarsson 23. júní. Í                vörslu höfundar.
KDK 2025-3. (2025). Viðtal Kristínar Daggar Kristinsdóttur við Inga Hans Ágústsson 24. júní. Í        vörslu höfundar.
KDK 2025-5. (2025). Viðtal Kristínar Daggar Kristinsdóttur við Láru Ágústsdóttur 1. júlí. Í                  vörslu höfundar.
KDK 2025-6. (2025). Viðtal Kristínar Daggar Kristinsdóttur við Kristjönu Hrönn Árnadóttur            1. júlí. Í vörslu höfundar.
KDK 2025-7. (2025). Viðtal Kristínar Daggar Kristinsdóttur við Úlfhildi Örnólfsdóttur 7. júlí. Í          vörslu höfundar.
KDK 2025-9. (2025). Viðtal Kristínar Daggar Kristinsdóttur við Ólöfu Brynju Jónsdóttur 9.                 júlí. Í vörslu höfundar.
KDK 2025-10. (2025). Viðtal Kristínar Daggar Kristinsdóttur við Sólveigu Hildi                                          Halldórsdóttur 10. júlí. Í vörslu höfundar.
ÞVÞ 2025-2. (2025). Viðtal Þórunnar Valdísar Þórsdóttur við Eyþór Rafn Gissurarson 25. júní.        Í vörslu höfundar.
ÞVÞ 2025-3. (2025). Viðtal Þórunnar Valdísar Þórsdóttur við Guðrúnu Sigurðardóttur 30.                  júní. Í vörslu höfundar.
ÞVÞ 2025-4. (2025). Viðtal Þórunnar Valdísar Þórsdóttur við Dísu Jónsdóttir 30. júní. Í vörslu         höfundar.
ÞVÞ 2025-8. (2025). Viðtal Þórunnar Valdísar Þórsdóttur við Maríu Gunnlaugsdóttur 9. júlí. Í         vörslu höfundar.
ÞVÞ 2025-9. (2025). Viðtal Þórunnar Valdísar Þórsdóttur við Steinunni Geirdal 9. júlí. Í vörslu         höfundar.
ÞVÞ 2025-10. (2025). Viðtal Þórunnar Valdísar Þórsdóttur við Steinunni Ólínu Hafliðadóttur         10. júlí. Í vörslu höfundar.
ÞVÞ 2025-12. (2025). Viðtal Þórunnar Valdísar Þórsdóttur við Tinnu Kristbjörgu                                      Halldórsdóttur 5. ágúst. Í vörslu höfundar.

Höfundar

Kristín Dögg Kristinsdóttir og Þórunn Valdís Þórsdóttir þjóðfræðingar
0 Comments



Leave a Reply.

    Kreddur

    ​Allir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt.

    Greinar

    December 2025
    October 2025
    February 2025
    January 2025
    December 2024
    November 2023
    August 2023
    May 2023
    April 2023
    September 2022
    May 2022
    April 2022
    March 2022
    February 2022
    June 2020
    May 2016
    January 2016
    November 2015
    January 2015
    May 2014
    April 2014
    February 2014
    January 2014
    December 2013
    October 2013
    June 2013
    May 2013
    February 2013

    Flokkar

    All
    ævintýri
    Alþýðulækningar
    Biblían
    Dagbækur
    Efnismenning
    Englar
    Fatnaður
    Galdrar
    Jafnreacutetti
    Jón Árnason
    Kyngervi
    Kynjafræði
    Menningararfur
    Myndmiðlar
    Spíritismi
    Staðalmyndir
    þjóðsagnafræði
    þjóðsagnaverur
    þjóðtrú

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband