Hún gengur út á að skoða mannleg samskipti og lífsgildi einstaklinga og hópa. Þjóðfræðingar geta þar af leiðandi átt það til að rannsaka svo til hvaðeina sem viðkemur manninum. Þjóðfræðin fæst bæði við fortíðina og nútíðina og jafnvel framtíðina í sumum tilfellum. Þjóðfræðin tekur engu sem gefnu og spyr alltaf af hverju.
Þjóðfræðinni er oft skipt niður í þrjá flokka: þjóðsagnafræði, þjóðlífsfræði og þjóðháttafræði.
Þjóðsagnafræði er það sem við segjum öðrum, til dæmis þjóðsögur, brandarar, vísur, ævintýri, draugasögur, söngvar, flökkusögur og fleira. Frásagnirnar fara manna á milli með tölvupósti, á samfélagsmiðlum, í bréfum, bókum eða munnlega.
Þjóðlífsfræði: Allt sem við gerum og hugsum. Siðir, venjur, lífshættir, lífskjör, viðhorf og skoðanir. Áhersla er lögð á að skoða þá merkingu sem við gefum umhverfi okkar.
Þjóðháttafræði: Hvernig við gerum hlutina og af hverju. Efnismenning og verkmenning, til dæmis matarmenning, klæðaburður, líkaminn, hús og heimili, fiskveiðar og samband fólks við hluti.