Málstofur á laugardeginum 30. september (Hvert erindi er 15 mínútur og á eftir hverju erindi verða fimm mínútur fyrir spurningar) Hægt er að lesa öll ágripin hér fyrir neðan dagskrána Kl 9-10.30 Málstofa 1: Á mótum tegunda Í þessarri málstofu munum við kynnast mótum mannfólksins og annarra tegunda sem deila þessarri veröld með okkur og þá sérstaklega hvað við gerum á þessum mörkum, hvernig samlífi ólíkra tegunda í hversdeginum mótar menningu og samfélag.
9.00-9.20 Kristinn Schram: Að leika sér að matnum: Dýronískar matarhefðir á mörkunum 9.20-9.40 Ragnheiður Maísól Sturludóttir: Tilfinningalegar örverur: Sjónræn rannsókn á ólíkum tengingumsúrdeigsbakara við súrdegið sitt
Stutt hlé: 9.40-9.50.
9.50-10.10 Katla Kjartansdóttir: „Af hverju fæ ég ekki að kynna safnið mitt í sjónvarpinu?“ Stutt greinagerð um Íslenska dýrasafnið 10.10-10.30 Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir: Öfgar í umræðum: Af skógum og skaðræðiskvikindum
Kaffihlé: 10.30-10.50.
Kl 10.50-12.40 Málstofa 2: Á mótum veralda Í þessarri málstofu munum við skoða það sem er á mótum þessa heims og næsta, það sem markar komu okkar inní veröldina og út úr henni, það sem skilgreinir tilveru okkar á hverjum degi en við viljum flest horfa fram hjá, vegferð okkar í heimi á heljarþröm en einnig þær veraldir sem við ferðumst í gegnum sem einstaklingar þegar við ákveðum að takast á við okkur sjálf.
10.50-11.10 Vilborg Bjarkadóttir: Hvert líf heilsar og kveður með lykt 11.10-11.30 Rakel Jónsdóttir: Sjónhverfingar ruslatunna og sviðsetningar sorphirða 11.30-11.50 Jón Jónsson: Hugmyndin um Sumarlandið
Stutt hlé 11.50-12.00.
12.00-12.20 Eiríkur Valdimarsson: Þraukað á þröskuldinum: Áhrif loftlagsbreytinga á hversdaginn 12.20-12.40 Arndís Dögg Jónsdóttir: Það er einhver svona ævintýraþrá sem kallar á mig: Jaðartími í sjókayak leiðöngrum umhverfis Ísland.
Matarhlé 12.40-13.20
Kl 13.20-15.10 Málstofa 3: Á mótum tilfinninga Í þessarri málstofu munum við fást við tilfinningar, það sem má og ekki má, á mótum kyngervis og þjóðarímyndar, það sem við munum og munum ekki, það sem við upplifum og upplifum ekki og það sem við finnum og ekki finnum.
13.20-13.40 Dagrún Ósk Jónsdóttir: „Hún sagðist hvorki vilja eiga hann né nokkurn annan“: Hjónabönd, kvenleiki og kynjuð valdatengsl í íslenskum þjóðsögum 13.40-14.00 Anna Karen Unnsteins: Á mörkum reglna: Eru þjóðbúningalöggurnar til? 14.00-14.20 Þorvaldur Gröndal: Við þurfum að tala um tilfinningar...
Stutt hlé 14.20-14.30.
14.30-14.50 Áki Karlsson: Lyktarkort, lyktarminningar og lyktarsögur: Kortlagning skynjunar 14.50-15.10 Sigurjón Baldur Hafsteinsson: „I´ve seen it all now!“: Gestabækur Hins íslenzka reðasafns
Ágrip erinda á Landsbyggðarráðstefnu FÞÍ í Stykkishólmi 2023
Kristinn Schram - Að leika sér að matnum: dýronískar matarhefðir á mörkunum Matarmenning og framsetning hennar leikur stórt hlutverk í mótun sjálfsmynda. Hér verður spurt hvort líta megi á „framandi“ og „þjóðlega“ matarmenningu sem leið til þess að kanna óljós mörk á mótum fólks og dýra, liðinna tíma og komandi stundar. Oft eru það matarhefðir á barmi útrýmingar sem lyft er á stall menningararfs og þá er jafnvel hinu ólífvænlega gefið sérstakt gildi (Kirshenblatt-Gimblett 1995). Þá má spyrja af hverju slíkir matargjörningar reyni stundum á mörk þess sem telja megi viðsættanlegt í samfélögum nútímans. Hvort sem við sitjum augliti til auglitis við dýrshöfuð á disknum, rennum niður súrum hrútspungum eða öndum að okkur kæstum hákarli geta margar íslenskar matarhefðir talist krefjandi fyrir óvana og jafnvel innvígða. Tökum við slátur til þess að tengja við fábreytni og sparsemi liðinna kynslóða? Má finna eitthvert öryggi á óvissutímum í þáþráhyggjulegri framsetningu á fortíðinni? Þótt ágengt kjöt- og fiskát af ýmsu tagi sé brottrekstrarsök í einu samhengi myndar það ákveðinn kjarna í samheldni hópa í hátíðarhöldum á borð við þorrablót og Þorláksmessu. Það er einnig hluti af gagnvirku þverþjóðlegu samtali innflytjenda, ferðamanna og markaðsetningar. Frásagnir af veiðum, landbúnaði og framleiðslu minna okkur einnig á uppruna matarins í dýrum og örverum sem oft virðast utan seilingar. Sá leikræni blær sem slíkar matarhefðir taka á sig kunna einnig að gefa til kynna ákveðna íroníu sem gjarnan fylgir því að mæta óvissu, þverstæðum og óljósum mörkum (Huber and Fernandez 2001).
Ragnheiður Maísól - Tilfinningalegar örverur: Sjónræn rannsókn á ólíkum tengingum súrdeigsbakara við súrdeigið sitt Smá deigklessa stendur í krukku á eldhúsbekk súrdeigsbakarans. Þetta er hin svokallaða súrdeigsmóðir. Bakarinn byrjar oftast daginn sinn á því að fóðra hana til þess að gæta þess að hún haldist í góðu jafnvægi. Í þessari litlu deigklessu finnst nefnilega lítill heimur sem samanstendur af milljónum og billjónum örvera. Hann er til vegna samspils við heiminn fyrir utan, heim súrdeigsbakarans. Reglulega mætast þessir tveir heimar þegar bakarinn tekur af súrdeigsmóðurinni til þess að geta bakað brauð í samstarfi við þessar billjónir örvera. Fólk bakar súrdeigsbrauð af ólíkum ástæðum. Það er hagkvæmt, bæði fyrir meltinguna og budduna. Að baka súrdeigsbrauð getur einnig verið einskonar hugleiðsla sem virkjar öll skilningarvitin; lykt, snertingu, sjón og jafnvel heyrn, þegar hlustað er á snarkið í brauðinu eftir bakstur. Bökunarferlið er hægfara og að miklu leiti stjórnað af þessum örverunum. Að sætta sig við að bakarinn hafi litla sem enga stjórn á þeim hraða sem örverurnar vinna á getur bæði verið stærsta áskorunin sem og mesta núvitundaræfingin. Fólk bakar líka af tilfinningalegum ástæðum. Hægt er að halda súrdeigi á lífi í áratugi jafnvel aldir. Þannig getur bakari átt súrdeig sem tengir hann langt aftur til forfeðra sinna. Fyrir mörgum er súrdeigið ekki bara hráefni í bakstri heldur staður sem tengir það á ólíkan hátt við annað fólk. Þetta erindi, sem byggir á eigindlegri og sjónrænni rannsókn á tengslum súrdeigsbakara og súrdeigs þeirra, fjallar um tilfinningalega og líkamlega tengingu bakara við súrdeigið sitt. Ég mun kanna hvað súrdeigsbaksturinn táknar fyrir bakarann, hvernig hann endurspeglar önnur gildi í lífi þeirra og hvaða þýðingu snertiflötur þessara tveggja heima, heim örveranna og heim bakarans, hefur í daglegu lífi bakarans.
Katla Kjartansdóttir -„Af hverju fæ ég ekki að kynna safnið mitt í sjónvarpinu?“ Stutt greinargerð um Íslenska dýrasafnið Í fyrirlestrinum verður fjallað um sögu Íslenska dýrasafnsins, hlutverk þess, viðtökur safngesta og endalok. Íslenska dýrasafnið opnaði vorið 1970 í Breiðfirðingabúð á Skólavörðustíg og voru þar til sýnis á annað þúsund uppstoppuð dýr af margvíslegu tagi. Á meðal dýra sem höfð voru til sýnis á safninu voru meðal annars uppstoppaðar kindur, ísbjörn, hænur og hestar. Í fyrirlestrinum verður rýnt í ævisögu (e. cultural biography) sumra dýranna, hvaða hlutverki þau gegndu innan safnsins og hvert þau fóru eftir að safninu var lokað.
Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir - Öfgar í umræðum: af skógum og skaðræðiskvikindum Í þúsund ár var sauðkindin ein af grundvallarstoðum íslensks samfélags. Hún gaf okkur fæði og klæði og hélt lífi í landanum. Við fluttum út vaðmál, unnum mat úr mjólkinni og borðuðum dýrið sjálft upp til agna. Fram á fyrri hluta 20. aldar var óhugsandi að lifa af á Íslandi án sauðkindarinnar. Árið 1970 birti Halldór Laxness greinina „Hernaðurinn gegn landinu“ þar sem hann fjallaði meðal annars um skaðræðiskvikindið sauðfé og sauðfjárbændur. Nokkrum árum eftir grein Halldórs var kominn mesti fjárfjöldi sem hefur sést á Íslandi. Síðan þá hefur sauðfé fækkað og skógrækt aukist. Meðfram því hafa birst greinar í dagblöðum og tímaritum um skaðann sem skógrækt og landgræðsla hafa hlotið vegna sauðfjár. Nú á síðustu árum hefur samfélagsmiðillinn Facebook bæst í hópinn. Þar má finna grúppur, eða hópa sem bera nöfn eins og „Umræðuhópur um lausagöngu sauðfjár“ og „Áhugafólk um landgræðslu“, ásamt hópnum „Sauðfjárbændur“. Í þessum hópum má sjá ýmis viðhorf og skoðanir, og jafnvel öfgar. Á báða bóga. Báðar fylkingar saka hina um að vera gjörsamlega óalandi og óferjandi, taka engum rökum og skilja varla mannamál. Þetta erindi mun taka fyrir öfgar þessara hópa, hvernig við afmanneskjuvæðum andstæðinga okkar og setjum þá í hópinn „hinir“, sem eru gjörólíkir „okkur“. Hvernig þessir tveir ólíku heimar mætast, en eru ef til vill ekkert svo ólíkir þegar nánar er athugað.
Vilborg Bjarkadóttir- Hvert líf heilsar og kveður með lykt Í þessu erindi munum við beina sjónum okkar annars vegar að lyktinni sem fylgir upphafi lífsins, þ.e. fæðingum og ungabörnum, og hins vegar að lyktinni sem fylgir hinum enda æviferilsins þegar fólk kveður eftir langa ævi, þ.e. jarðarförum og sorgarferli. Með því að stilla þessum lyktum upp saman fáum við betri skilning á lykt mannslíkamans og á viðhorfum til þessara ólíku æviskeiða. Erindinu til grundvallar liggja viðtöl við ljósmóðurina Hallfríði Kristínu Jónsdóttur og útfararstjórann Sverri Einarsson, en þau voru bæði tekin fyrir útvarpsþáttinn Þefvarpið sem ég og Áki Guðni Karlsson gerðum fyrir Rás 1. Í viðtalinu við Hallfríði sjáum við ýmis konar birtingarmyndir lyktar á meðgöngu, í fæðingu og í tengslamyndun. Til að mynda ræðir Hallfríður um lyktnæmi kvenna sem varnarviðbragð á meðgöngu sem og um hlutverk hins klíníska nefs ljósmæðra í starfi. Hvert líf heilsar með himneskri lykt og kveður með annarri. Til þess að fá betri skilning á hvaða hlutverk lykt leikur þegar manneskja deyr, skoðum við viðtal við útfararstjórann Sverri þar sem farið var inn í allskonar vinkla á því hvernig lykt tengist dauðanum. Meðal annars skyggnumst við inn í það hvernig lykt leikur viðamikið hlutverk í sorginni, þ.e. hvernig lykt er hluti af lífinu þar sem hverri manneskju fylgir ákveðin lykt.
Rakel Jónsdóttir - Sjónhverfingar ruslatunna og sviðsetningar sorphiðra Að fara út með ruslið er hversdagsleg athöfn sem við flest gerum nær daglega og hugsum ekki mikið út í. Öll erum við sorphirðar, hver með sínu nefi. Sjálf athöfnin að henda gefur til kynna ákveðin gildi og viðhorf til þeirra hluta og efnis sem við kjósum að farga. Um er að ræða menningarlega athöfn en það er einmitt þessi flokkun okkar á hlutum sem í raun býr til fyrirbærið rusl. Árið 1883 kynnti hinn franski Eugène-René Poubelle til leiks ruslatunnur fyrir borgara Parísar og gerði það að skyldu að þær væru aðgengilegar fyrir almenning. Var þetta leið hans til að stefna stigum við þeim vandamálum sem fylgdi vaxandi borg og því sorpi sem því fylgdi. Ruslatunnan hélt áfram að þróast í gegnum árin en lengi vel gekk sú þróun út á draga úr óþarfa meðhöndlun fyrir fólk við sorpið sitt. Kannski mætti sjá svokallaðar ruslrennur fjölbýlishúsa sem kórónu þessarar þróunar en í þeim renna ruslapokarnir niður rennibraut og lenda í sameiginlegri sorptunnu og úr verður eins konar sjónhverfing þar sem ruslið „hverfur“. Erindið er unnið út frá rannsókn sem gerð var í tengslum við útvarpsþáttinn Sorphirðar sem verður á dagskrá Rás 1 á þessu ári þar sem tengsl okkar við rusl og sorp er skoðað á menningarlegan, sögulegan og heimspekilegan hátt. Rannsóknin byggir á fræðilegum heimildum, rannsóknum og greinum auk gagna sem bárust frá eigindlegri spurningaskrá og viðtala. Í erindi þessu verður útgangspunkturinn er ruslatunnan en þar með verður leitast eftir því að spegla tengsl, gildi og viðhorf fólks til rusl/sorps út frá tilurð og þróun ruslatunnunnar.
Jón Jónsson - Hugmyndin um Sumarlandið Á síðustu árum og áratug hefur hugmyndinni um Sumarlandið sem áfangastað fólks og gæludýra eftir dauðann vaxið fiskur um hrygg hér á landi. Ætlunin er að skoða þessa hugmynd um framhaldslífið nánar frá sjónarhorni þjóðfræðinnar, bæði í samtímanum og sögulegu ljósi. Rætt verður um rætur hugmyndarinnar í spíritismanum, þátt sjáenda og miðla í þessari þróun og um leið er ætlunin að skoða viðhorf og orðræðu í samtímanum, þar sem Sumarlandið er æ oftar nefnt til sögu þegar látinna ástvina er minnst eða tilkynnt um andlát. Hugmyndir fólks um Sumarlandið hafa ekki verið rannsakaðar að neinu marki, enn sem komið er. Hvað er hér á ferðinni? Hversu útbreidd er þessi hugmynd? Birtist hér lifandi þjóðtrú í samtímanum eða er um síðbúinn sigur spíritismans að ræða? Fer fólk ekki lengur til himna, er Sumarlandið búið að velta Himnaríki úr sessi? Eða er kannski enginn grundvallarmunur á þessum áfangastöðum eftir dauðann í huga fólks? Er Sumarlandið kannski bara nýtt heiti á sama fyrirbærinu og ekki í neinu sérstöku ósamræmi við kristna trú? Hér er að mörgu að huga og það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig trúarhugmyndir fólks um framhaldslífið hafa breyst með tímanum, án þess að því hafi verið veitt sérstök eftirtekt.
Eiríkur Valdimarsson -Þraukað á þröskuldinum: Áhrif loftslagsbreytinga á hversdaginn Á meðan 21. öldin æðir áfram er mikið rætt um loftslagsbreytingar, áhrif þeirra á framtíðarmöguleika mannkyns, dýrategundir og ábyrgð okkar sem yrkjum jörðina í dag. Við virðumst í sífellu standa á þröskuldinum: fyrir handan okkur heimurinn sem var og framundan gjörbreytt veröld og óvissa. Mikið er rætt um ábyrgð stjórnvalda og leiðir þeirra til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og orkuskipti auk þess sem einstaklingar finna sig knúna til að draga úr sóun og neyslu, flokka sorp og velja orkugjafa sem teljast umhverfisvænni. Þjóðfræðin hefur áhuga á ýmsu, ekki hvað síst hversdagsmenningu og persónulegum upplifunum. Þar er samspil náttúru og manneskju engin undantekning. Í erindi þessu verður fjallað áhrif loftslagsbreytinga á fólk, með áherslu á upplifun þess fremur en tölur og súlurit. Einkum verður horft til breytinga í umhverfinu: hvað hefur breyst sem tekið er eftir? Hefur veðurfar á Íslandi breyst á undanförnum árum og áratugum? Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar haft á hversdagslíf fólks á Íslandi? Hverjar eru framtíðarhorfurnar? Til að fá svör við þessum spurningum verður meðal annars send út netkönnun á vegum Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum. Með því móti er hægt að bera á borð hvernig fólk upplifir að standa á þessum þröskuldi.
Arndís Dögg Jónsdóttir -Innvíxluathafnir, jaðartími og íþróttir. Í þessum fyrirlestri tengjum við þjóðfræði og jaðaríþróttir saman með því að rýna inn í heim Íslenskra sjókajakræðara er þeir róa umhverfis Ísland. Við veltum fyrir okkur hvort þetta íþróttafólk gangi í gegnum innvígsluathöfn (e. Rites of passage) á íþróttaferil sínum og hvernig jaðartíminn (e.liminal) hefur áhrif á einstaklinginn og íþróttaferil hans. Til þess að svara þessum spurningum nýtum við okkur viðtöl við sjókajakræðara sem hafa róið umhverfis Ísland. Leiðangur umhverfis Ísland tekur einn og hálfan til þrjá mánuði og hafa hið minnsta 12 einstaklingar róið þessa leið, af þeim eru þrír Íslendingar. Nýtt verða viðtöl sem tekin voru fyrir BA. Ritgerðina ,,Það er einhver svona ævintýraþrá sem kallar á mig": Sjókajak leiðangrar umhverfis Ísland, til að lýsa reynslu þeirra þriggja Íslendinga sem þetta hafa róið. Við munum horfa á tímabilið sem ræðarar ganga í gegnum með tilliti til innvígsluathafna Van Genneps og rýna þá sérstaklega í jaðartímann sem á sér stað þegar ræðararnir eru á leiðangri sínum. Þegar ræðari rær umhverfis Ísland fer hann einn í þann leiðangur, ákveðnar reglur gilda og eru ræðarar undanskildir þeim hefðbundnu reglum og skyldum sem samfélagið setur þeim.Veruháttur ræðarar í leiðöngrum getur breyst lítillega er hann rær inn í nýja rútínu og nýjar reglur fyrir líf sitt. Breytingin þarf ekki að vera svo stór að hún sjáist en hún getur verið sjáanleg fyrir þá sem þekkja einstaklinginn. Einstaklingar sem róa þessa leið hafa það eina hlutverk að klára leiðangurinn og komast heilir heim. Þeir tilheyra ekki sinni hefðbundnu veröld og þar sem þeir eru einir í leiðangrinum má segja að þeir séu á milli heima. Mótum þeirrar heimsmyndar sem þeir venjulega tilheyra og þess sem koma skal. Þeir eru á svæði þar sem þeir einir skilja hugsunarháttinn og tilganginn.
Dagrún Ósk Jónsdóttir -“Hún sagðist hvorki vilja eiga hann né nokkurn annan”: Hjónabönd, kvenleiki og kynjuð valdatengsl í íslenskum þjóðsögum Þjóðsagnir geta sagt okkur ýmislegt um þau samfélög sem þær tilheyra, þær endurspegla að einhverju leyti þann hugmyndaheim og jarðveg sem þær spretta úr. Úr sögnum má lesa viðhorf fólks, ádeilu á yfirvöld, samkennd með minnimáttar, fordóma, hræðslu, stolt og margt fleira. Þær segja einnig til um hvað er æskileg og óæskileg hegðun og geta haft mótandi áhrif á þau sem heyra. Í erindinu verður fjallað um hjónabönd, kvenleika og kynjuð valdatengsl í íslenskum þjóðsögum frá 19. og 20. öld. Fjallað verður sérstaklega um sagnir af konum sem eru neyddar í hjónaband og erfiðleika, ofbeldi og valdatengsl í hjónabandi Sjónum verður bæði beint að sögum sem greina frá sambúð kvenna og mennskra manna og útilegumanna sem staðsetja má á mörkum tveggja heima. Gerð verður grein fyrir boðskap sagnanna um æskileg hlutverk og hegðun kvenna. Rannsóknin er einnig á mörkum fræðigreina því sögurnar eru í senn skoðaðar út frá þjóðfræði, sögulegu og kynjafræðilegu sjónarhorni. Í erindinu verður fjallað um það félagslega taumhald sem sögurnar miðla til kvenna og hugsanlegar aðferðir kvenna til að takast á við og tala um veruleika sinn.
Anna Karen Unnsteins - Á mörkum reglna: Eru þjóðbúningalöggurnar til? Í þessum fyrirlestri verður gert grein fyrir BA ritgerð höfundar, Helgigripur eða veisluklæði?: Reglufesta og hefðarrof í notkun íslenskra þjóðbúninga. Lengi vel hafa verið uppi hugmyndir um „rétt“ útlit íslenskra þjóðbúninga, þ.e. að einhver ein útfærsla á þjóðbúningum sé réttari en önnur. Í þessu samhengi hafa svokallaðar „þjóðbúningalöggur“ spilað stórt hlutverk, en þær eru manneskjur sem standa vörð um þetta „rétta“ útlit búningana og taka að sér að leiðrétta þau sem klæðast búningunum ekki rétt að þeirra mati. Hverjar hinar alræmdu þjóðbúningalöggur eru, og hvort þær séu yfirleitt til, er hins vegar vafamál. Í fyrirlestrinum verður fjallað um afstöðu mismunandi einstaklinga til þeirrar forskriftar eða reglna sem virðast vera við lýði um gerð og notkun íslenskra þjóðbúninga. Greint verður frá viðhorfum bæði sérfræðigna og leikmanna og skoðanir þeirra bornar saman með tilliti til atvinnu og aldurs. Skoðaðar verða þær reglur og viðmið sem gilda um þjóðbúningana og velt upp hlutverki sérfræðinga á sviði þjóðbúningasauma við að skapa og miðla hugmyndum um gerð og notkun. Einnig verður litið á vefsíður og þá sérstaklega myndefni af íslenskum þjóðbúningum sem fyrirfinnst á netinu, t.d. Pinterest, TikTok o.fl. og spurningunni „Eru þjóðbúningalöggurnar til“ svarað. Allt þetta verður gert út frá hugmyndum Foucault‘s um Panopticon og kenningar um menningararf og hópa.
Þorvaldur H. Gröndal -Við þurfum að tala um tilfinningar... Sumt er einfaldlega ekki hægt að skoða / rannsaka / ræða án þess að snerta á hinu óræða eða að reyna við þessa torfæru brekku sem hversdagslegar frásagnir fólks eru stundum. Hér er ég að tala um viðhorf, skoðanir og tilfinningar fólks sem á einhvern hátt hefur tengingar við „mögulegar menningarminjar“. Í MA rannsókn minni,sem ég vil kynna aðeins, tók ég viðtöl við nokkra aðila sem bjuggu yfir eignum sem bæði opinberlega og ekki var hægt að kalla menningarminjar. Hver var þeirra skoðun á þessu öllu? Leitast var eftir því að greina frásagnir einstaklinganna og einnig stofnana og litið þannig á að frásagnir af menningarminjum sé einn af hornsteinum minjaverndar. Viðmælendur mínir tjáðu sig um þessi málefni í viðtölum og reynt var að varpa ljósi á hvernig mismunandi frásagnir geta opnað fyrir góðan eða jafnvel betri skilning á samskiptum aðila sem sinna minjavernd með einhverjum hætti. Gott samtal getur því bæði kætt og bætt. Tilgangur erindisins er að reyna að sýna fram á hversu órætt og fljótandi menningararfshugtakið getur verið og hreint ekki sjálfsagt mál að almenningur sem á í hlut sjái hlutina í sama ljósi og kerfið / fræðigeirinn. T.d. má þessu samhengi má bæta því við að í nýrri stefnu Minjastofnunar fyrir árin 2022–2027 um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi má sjá að tilfinningar virðast vera farnar að gægjast upp á yfirborðið ef marka má lið A í Markmiðum 3 um aukna áherslu á vægi fornleifa og byggingararfs, en þar segir m.a.:. „ Horfa þarf til þátta eins og upplifunar og tilfinninga fólks, kolefnisfótspors mannsins og hringrásarhagkerfisins.“ Það er aldrei að vita nema að samtalið sé hafið nú þegar – því að sumt er þannig úr garði gert að það passar aldrei í ferkantaðan kassa reglugerðanna, heldur verðum við að eiga samtal – almenningur og stofnanir - og stundum verða sammála um að vera ósammála.
Áki Guðni Karlsson -Lyktarkort, lyktarminningar og lyktarsögur: Kortlagning skynjunar Lyktin sem við skynjum er oft óræð, persónuleg og hverfur á örskotsstundu. Það er snúið að skrásetja, varðveita og greina slíkt fyrirbæri. Það er líklega ein ástæða þess hvað lyktarskynið fær oft litla athygli í þjóðfræðirannsóknum miðað við sjón og heyrn, þrátt fyrir ótvírætt mikilvægi. Frá alda öðli hefur fólk leitast við að skilgreina og flokka lyktir, og greina gildi þeirra fyrir okkur og umhverfið. Við höfum til dæmis lýsingar á lyktarleikjum í Japan 16. aldar, lyktargöngum í París við lok 18. aldar og lyktarkort frá Bretlandi 19. aldar. Síðustu ár hafa listakonurnar Sissel Tolaas og Kate McLean þróað ólíkar leiðir til að virkja lyktarskynið í samskiptum, mótun minninga og umhverfisvitundar. Ég ætla að segja frá nokkrum af þessum nýstárlegu rannsóknar- og miðlunaraðferðum og tilraunum mínum með sumar þeirra.
Sigurjón Baldur Hafsteinsson -„I´ve seen it all now!“: Gestabækur Hins íslenzka reðasafns Gestabækur hafa löngum verið notaðar sem skráningarform fyrir nöfn og þjóðerni fólks sem notfæra sér greiðaþjónustu af ýmsu tagi. Á undanförnum árum hefur verið fjallað um slíkar heimildir með ýmsum fræðilegum hætti og sýnt hefur verið fram á að séu gagnlegar til að lýsa skoðunum og viðhorfum fólks, sem og tíðaranda. Gestabækur hafa verið notaðar af söfnum víða um heim og hafa þau nýtt sér þær til að fá innsýn inn í viðbrögð og reynslu gesta við heimsókn þeirra eða kanna hvaða skoðanir gestir hafa á því sem safnið hefur upp á að bjóða. Í þessu erindi verður fjallað um fræðileg skrif um gestabækur og sett í samhengi við gestabækur Hins íslenzka reðasafns. Sérstaklega verður vikið að textalegum húmor og teikningum sem finna má í gestabókum safnsins og sett í samhengi við hugmyndir um þjóðerni og leik. Erindið byggir á orðræðugreiningu á gestabókun Hins íslenzka reðasafns á árabilinu 2008-2017.