Ég vakna við vekjaraklukkuna í símanum mínum, snúsa þrisvar áður en ég ákveð að fara fram úr. Hlunkast inn á klósett og pissa meðan ég plokka stírurnar úr augunum. Fer í heita sturtu og þvæ mér með með sápu og sjampói. Heilaþokan minnkar aðeins meðan heita vatnið vekur vöðvana og skilningarvitin. Fer úr sturtunni þurrka mér með hreinu handklæði, tannbursta, set svitalyktareyði undir handakrikana og hendist svo í hrein nærföt og sokka. Vel mér svo föt úr fataskápnum. Er í stuði fyrir kjól, leggings og angórupeysu. Þegar ég er búin að klæða mig fer ég aftur inn á bað og set á mig andlitskrem, smá meik, létt sólarpúður, maskara og gloss. Fer svo inn í eldhús og set kaffi og vatn í kaffikönnuna og kveiki á henni. Fæ mér morgunkorn í skál og helli ískaldri mjólk úr fernu útá. Fæ mér líka einn banana með. Kveiki á Ipadinum mínum og les Morgunblaðið í Mogga appinu. Borða morgunmatinn meðan ég hef áhyggjur af ástandinu í heiminum og hlæ að stjörnuspánni minni. Helli svo nýlöguðu kaffinu í bleikan stálbrúsa og set hann í töskuna mína ásamt nesti dagsins. Þegar ég er að klæða mig í úlpuna og skóna hef ég enn ekki hugmynd um hvernig veðrið er úti. Ég fer bara í úlpuna af því það var kalt í gær.
1 Comment
|
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|