Ég vakna við vekjaraklukkuna í símanum mínum, snúsa þrisvar áður en ég ákveð að fara fram úr. Hlunkast inn á klósett og pissa meðan ég plokka stírurnar úr augunum. Fer í heita sturtu og þvæ mér með með sápu og sjampói. Heilaþokan minnkar aðeins meðan heita vatnið vekur vöðvana og skilningarvitin. Fer úr sturtunni þurrka mér með hreinu handklæði, tannbursta, set svitalyktareyði undir handakrikana og hendist svo í hrein nærföt og sokka. Vel mér svo föt úr fataskápnum. Er í stuði fyrir kjól, leggings og angórupeysu. Þegar ég er búin að klæða mig fer ég aftur inn á bað og set á mig andlitskrem, smá meik, létt sólarpúður, maskara og gloss. Fer svo inn í eldhús og set kaffi og vatn í kaffikönnuna og kveiki á henni. Fæ mér morgunkorn í skál og helli ískaldri mjólk úr fernu útá. Fæ mér líka einn banana með. Kveiki á Ipadinum mínum og les Morgunblaðið í Mogga appinu. Borða morgunmatinn meðan ég hef áhyggjur af ástandinu í heiminum og hlæ að stjörnuspánni minni. Helli svo nýlöguðu kaffinu í bleikan stálbrúsa og set hann í töskuna mína ásamt nesti dagsins. Þegar ég er að klæða mig í úlpuna og skóna hef ég enn ekki hugmynd um hvernig veðrið er úti. Ég fer bara í úlpuna af því það var kalt í gær. Þegar stundaskráin mín var sett saman af sérstöku stundaskráaforriti í Vatnsmýrinni fyrir ári síðan var enginn að spá í hvernig kýrnar eða kindurnar hefðu það. Stofan og kennarinn voru laus á þessum tíma svo ég skal gjöra svo vel að mæta á þessum tíma ef ég ætla að taka menntunina mína alvarlega. Lifa eftir klukku sem er ekki einu sinni í takt við sólina. Þegar ég sit í strætónum sem keyrir eftir ákveðinni áætlun sem er hönnuð af tímaverkfræðingi úr H.R. er mér hugsað til þess hvernig morguninn minn hefði verið ef ég hefði verið uppi fyrir c.a. 100 árum og til að gera þetta enn meira spennandi – byggi í sveit. Ég vakna við að húsbóndinn er að klæða sig. Þá er best að fara framúr og tína á sig spjarirnar. Ég heyri að hann tekur klinkuna frá hurðinni, hann byrjar alla daga á því að fara út að pissa og gá til veðurs. Síðan snýr hann sér í austur, signir sig og les morgunbæn. Ég fer út og signi mig í austur og fer svo inn þá getur maður víst boðið góðan daginn. Það má ekki fyrr en það er búið að fara út og signa sig. Ég veit ekki af hverju það er en það er eins gott að hlýða því bara. Ég les ekki morgunbæn, hef bara ekki tíma til þess. Ég þarf að laga kaffið fyrir annað heimilisfólk svo það komist framúr. Ég færi því kaffi í rúmið. Það þarf nú engan að vekja. Það vakna allir um leið og einhver fer á stjá. Þetta er svo þröngt hérna hjá okkur. Þegar ég er búin að færa þeim kaffið fer ég inní búrið til að finna til morgunskattinn. Meðan ég er að því heyri ég að Sigmundur vinnumaður er eitthvað að tuða svo ég fer inn til að heyra í honum. „Þú ert ekki góð þjónusta Ólöf, það er enn gat á skónum mínum.“ Nú fýkur í mig. „Þú getur bara séð um þína skó sjálfur ef þér líkar ekki handbragðið mitt Sigmundur,“ svara ég honum um leið og ég sný mér aftur að skattinum. Húsbóndinn kemur inn og segir okkur hvað þarf að gera í dag. -Næsta stopp, Háskóli Íslands- Mikið er ég fegin að vera uppi á tímum heitra sturta og jafnréttis. Þegar ég geng út úr strætó tek ég eftir því að það er kalt úti, sól og logn. Frábært veður. Morgnarnir í sveitinni Hér áður voru það verkin sem þurfti að vinna sem stjórnuðu því hvenær fólk fór á fætur og var enginn fastur vinnutími. Vinnudagarnir voru mislangir eftir árstíðum og réðust af árstíðabundnum verkum. Yfir sláttinn var fólk í sveitunum oft að fara á fætur og byrja að vinna um 4 að nóttu. Bæði til að nýta birtuna sem best og einnig þótti best að slá þegar grasið var enn döggvott eftir nóttina. Þurrkar voru líka nýttir vel og var þá lítið sofið þær nætur. Eins fékk fólk mismikla hvíld. Á mörgum bæjum voru það sem kallað var þjónustur. Þá voru það ýmist húsmæðurnar eða vinnukonurnar sem þjónustuðu karlana á bænum. Þær færðu þá úr fötunum á kvöldin stoppuðu í þau og þerruðu. Þetta sátu þær við fram á kvöld þrátt fyrir að hafa unnið til jafns við mennina allan daginn og vöknuðu oft á undan þeim. Það var farið seinna á fætur á veturna, misjafnlega eftir bæjum, en algengur tími var frá klukkan 07 – 09. Þá þurfti að mjólka og gefa kúm og kindum. Það virðist sem morgunmatur hafi ekki verið borðaður á öllum bæjum. Algengast var að fólk fengi sér kaffi á morgnana áður en farið var út og borðuðu svo seinna um morguninn. Sumstaðar var hituð mjólk eða blóðbergste í stað kaffis. Á mörgum bæjum var heimilisfólki fært kaffið í rúmið bæði börnum og fullorðnum. Var það þá húsmóðirin eða vinnukona sem fóru fyrstar á fætur til að kveikja upp í eldinum eða glæða hann og helltu upp á kaffi og færðu fólkinu í rúmið. Það þekktist á allflestum bæjum að karlarnir færu út á hlað að míga og spá í veðrið þegar þeir vöknuðu en hvergi er tekið fram hvar konurnar pissuðu á morgnanna. Flest heimilisfólk fór út og signdi sig í átt til austurs síðan var gengið inn í bæinn og heimilisfólki boðið góðan dag. En það gerði fólk aldrei nema vera búið að fara út á hlað og signa sig. Fólk man eftir því að farið var með ungabörn út til að signa þau. Einn heimildarmannanna lýsir þessari athöfn mjög fallega. Afi minn, sem var roskinn og blindur er ég man fyrst eftir honum, fór venjulega þegjandi fram úr rúminu og í fötin, gekk síðan út á bæjarstéttina og signdi sig um leið og hann kom út. Síðan sneri hann sér í austur eins og hann horfði mót rísandi sól og með blindum augum virtist hann fylgja sólargangi til vesturs, um leið og hann hafði eitthvað yfir í hljóði, aðeins varirnar bærðust og gáfu það til kynna. Síðan gekk hann inn aftur, bauð góðan dag og ræddi við fólk eftir því sem tilefni gafst, en mér fannst alltaf að hann vildi helst ekki ræða mikið við fólk fyrr en hann hefði lokið þessari athöfn og komið með góðan dag í bæinn. (ÞÞ:4721) Eins og afinn í þessari frásögn fóru margir líka með morgunbænir meðan þeir stóðu úti á hlaðinu en alls ekki allir. Fólk á sama bæ hafði ekki alltaf sama háttinn á því hvenær eða hvort farið var með bænir. Það var talið einkamál hvers og eins. Það var misjafnt hvaða bæn fólk fór með en sú algengasta var „Nú er ég klæddur og kominn á ról“ eftir Hallgrím Pétursson. Í svörunum við spurningalista númer 37. sem ég notaði til að skoða morgunvenjur fólks kemur mjög sjaldan fram hvar fólk er staðsett svo ég get ekki séð útfrá þessum svörum hvort einhver munur sé á milli landshluta með það. Heimild Óprentuð gögn af Þjóðminjasafni Íslands Spurningaskrá 37 – Háttumál: 4721 Um höfundinn:Ólöf Anna Jóhannsdóttir, ritlistarnemi með þjóðfræði sem aukagrei
1 Comment
10/7/2022 02:39:09 pm
Help environment special policy few every among will. Hold debate exist leg staff.
Reply
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|