Ég skrifa stundum um söfn. En það er af því að það er megin starf mitt þessa dagana að hugsa um söfn. Innan greinarinnar, safnafræði, er ógrynni lesefnis en þegar ég fletti almennum dagblöðum og tímaritum finn ég nær engar umræður um söfn og safnamál. Þá virðist engu máli skipta hvort það eru erlendir fjölmiðlar eða íslenskir, mjög lítið er fjallað um söfn fyrir utan fréttatilkynningar markaðsfulltrúa um opnanir nýrra sýninga, gjafir eða meiriháttar breytingar á húsnæði. Svo virðist sem söfn, þá sértaklega menningarminjasöfn, nái ekki inn á radar fjölmiðla. Og þótt mörg söfn séu vel sótt þá mættu þau vera mun betur notuð. Hvers vegna? Eru söfn svona hundleiðinleg? Víða hafa verið gerðar tilraunir til að gera söfn skemmtileg með forvitnilegum sýningum og viðburðum. Þau hafa tekið rafræna miðla í sína þjónustu, eru með sérstök svæði fyrir börn, hluti sem má snerta og hafa á margan hátt leitast við að gera heimsóknir gesta áhugaverðar. Sunnudagsheimsóknir á safn ættu því að vera eitthvað sem við gjarnan gerum, hvort sem við förum ein til að njóta í ró og næði eða með börnin til að skemmta þeim á sama hátt og farið er í sund, bíó eða ísbúðina. Margir afgreiða áhugaleysið á þann hátt að það sé ekki í menningu okkar íslendinga að sækja söfn reglulega. Það er auðvitað bull og vitleysa, því hvenær hefur það skipt íslendinga máli hvað er og hvað er ekki hluti menningar og hefða? Höfum við ekki einmitt stært okkur af því að vera snögg að grípa nýja nýja siði og gera að okkar? Auk þess er uppruni íslendinga og reynsla engan vegin einsleit. Og ef eitthvað stendur í vegi fyrir því að fólk langi eða geti heimsótt söfn, er það ekki einmitt eitthvað sem taka á upp á almennum vettvangi, t.a.m. í fjölmiðlum? Ég ætla ekki að telja upp hvers vegna fólk ætti að heimsækja söfn – fjölbreytni þeirra er mikil og ástæðurnar því margvíslegar. Hinsvegar má benda á að safnaheimsóknir geta varðað lýðheilsu á sama hátt og bóklestur og ástundun íþrótta. Það er ekki að sjá á umfjöllun fjölmiðla um söfn að þau séu samfélagslega mikilvægar stofnanir. Svipleg tilfærsla þjóðminja, þ.m.t. menningarminjasafna, til Forsætisráðuneytisins, hvers vegna það skref var tekið og hvað það hafi í för með sér hefur lítið sem ekkert verið til umfjöllunar, né heldur sú þögn sem hefur fylgt í kjölfar gjörningsins. Nokkuð hefur verið fjallað um stöðu Náttúruminjasafns undanfarið en sú umræða hefur minnst snúið að safninu sjálfu og mest að hitaveitutönkum með glerþaki efst í Öskjuhlíð. Að sama skapi var Lækningaminjasafninu pakkað ofan í kassa án þess að mikil umræða færi fram um menningarlegt réttmæti eða afleiðingar fyrir fólkið í landinu. Söfn eru ekki skondið áhugamál örfárra kverúlanta á flókaskóm. Þau varða alla og ef það er ekki ljóst, þá er það dágott merki um að almenna, gagnrýna umfjöllun skorti. Ásamt því að tilkynna hvaða sýningar standi til boða á söfnum landsins þyrfti einnig að fjalla um söfn og safnamál á víðum grunni, t.a.m. pólitískt samhengi, fjölbreytni safna, setra og sýninga, áhrif þeirra á landsbyggðirnar, áhrif á lýðheilsu, rýrnun ríkisframlaga til menningarminjasafna, tilraunir að murka líftóruna úr lögbundnu höfuðsafni og svo mætti lengi telja. Ef söfn og málefni þeirra. Eru söfn leiðinleg? Eða er það viðhorf sem fjölmiðlar, með þögn, taka þátt í að skapa? Það má t.d. velta því fyrir sér af hverju íþróttir njóti – eða af hverju við teljum að íþróttir njóti – mikilla vinsælda, þegar að ljóst er að mörgum hundleiðast þær. Samkvæmt tölum ÍSÍ iðka rúmlega fjórðungur landsmanna íþróttir á vegum félaga. Mikill fjöldi safna, setra og sýninga um víðast hvar á landinu þjóna almannahagsmunum og fjalla á einn eða annan hátt um alla landsmenn. Því ættu safnamál að hafa, að minnsta kosti, álíka pláss í kvöldfréttatímum ríkissjónvarpsins og íþróttir! Almenningur hefur litlar forsendur til að meta söfn séu þau jafn sjaldan í almennri umræðu og raun ber vitni. Söfn eru því ekki leiðinleg – en þau eru ósýnileg! Birtist fyrst í: akureyrivikublad.is þann 6. október 2013. Um höfundinn:Arndís Bergsdóttir, Doktorsnemi í safnafræði.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|