Nú þegar allir og ömmur þeirra eru komnir með hlaðvarp var augljóst að þjóðfræðin gat ekki látið sitt eftir liggja. Hlaðvarp er auðvitað frábær miðill fyrir hvers konar fróðleik og skemmtun og tilvalið að segja frá áhugaverðum verkefnum í þjóðfræði á slíkum vettvangi. Við, Dagrún og Vilhelmína, erum sérlega áhugasamar um rannsóknir í þjóðfræði og finnst mikilvægt að vekja athygli á fjölbreyttum og áhugaverðum verkefnum sem þjóðfræðingar taka sér fyrir hendur. Þegar við duttum niður á hugmyndina að búa til hlaðvarp var ekki aftur snúið, þó við þrætum ekki fyrir að hafa gripið tilbreytingu frá doktorsverkefnunum okkar fegins hendi. Undirbúningurinn gekk því bæði hratt og vel fyrir sig en við fengum lánað upptökutæki lengst norður á Ströndum og röðuðum upp fyrstu viðmælendum. Eftir að hafa legið undir feldi í nokkra daga gáfum við þáttunum nafnið Þjóðhættir. Þættirnir eru birtir í hlaðvarpsveitu Kjarnans en við höfum átt mjög ánægjulegt samstarf við þau. Fyrsti þátturinn fór í loftið þann 1. desember 2020 og birtast nýir þættir vikulega. Í þáttunum tökum við viðtöl við þjóðfræðinga héðan og þaðan í samfélaginu sem starfa á ólíkum vettvangi. Viðmælendur segja frá rannsóknum sínum og verkefnum og þannig reynum við að endurspegla þá miklu breidd sem er í viðfangsefnum þjóðfræðinga. Þá beinum við sjónum okkar líka að söfnum og safnafræði en þar er mikil gróska. Í þáttunum hefur m.a. verið rætt um sagnir, hjátrú, hefðir, menningararf, safnastarf, mat, lestur og miðlun. Allt frá víkingum til geimferða. Að sama skapi hafa viðmælendur okkar ólíkan bakgrunn, eru nemendur, sjálfstætt starfandi fræðimenn, safnafólk, háskólakennarar og allt þar á milli. Viðmælendur hafa allir tekið okkur vel og erum við glaðar og þakklátar fyrir hvað fólk hefur verið tilbúið að koma í viðtal og segja frá því sem það er að fást við. Helsti kosturinn við að vinna við hlaðvarpið er líka að hitta viðmælendurna sjálfa. Það er bæði gefandi og gaman að heyra alls konar sögur og fræðast um hluti sem maður hafði kannski lítið vit á áður og vonum við að það skili sér til hlustenda. Hingað til hefur hlaðvarpsgerðin raunar gengið eins og í sögu, engir skandalar - 7, 9, 13, og óvæntar uppákomur verið fremur saklausar. Við sjálfar höfum lært margt um miðlun í ferlinu, t.d. um framsetningu og ýmsa praktíska hluti eins og klippingu og vinnslu. Námskeið eins og Söfnun þjóðfræða og Eigindlegar rannsóknaraðferðir veita góðan grunn fyrir viðtölin þó að maður þurfi að setja sig í aðeins aðrar stellingar fyrir hlaðvarpið. Það hefur verið frábært að geta nýtt sér tæknina og auknar vinsældir fjarfundabúnaða og því höfum við getað tekið viðtöl við þau sem eru okkur fjær í gegnum Zoom. Hlaðvarpið hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur og langt umfram væntingar okkar. Eins og áður sagði birtast þættirnir vikulega á heimasíðu Kjarnans en má einnig finna í hlaðvarpsveitum þeirra eins og t.d. Spotify. Hver þáttur hefur fengið í kringum 800-1000 spilanir og erum við mjög þakklátar fyrir viðtökurnar og þau jákvæðu viðbrögð sem við höfum fengið. Það er auðvitað fínasta afþreying að hlusta á hlaðvarp, kannski sérstaklega núna í Covid þegar skipulagt félagsstarf hefur verið af skornum skammti og við meira en minna þurft að hanga heima. Við hlökkum til að halda áfram að gera þætti og deila þeim með ykkur. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með okkur á Facebook og að sjálfsögðu til að hlusta á þættina og vonum að þið hafið bæði gagn og gaman af! Hér má nálgast hlaðvarpið: https://www.facebook.com/thjodhaettir https://www.kjarninn.is/hladvarp/thjodhaettir https://www.open.spotify.com/show/2EXFge5Sfjg8aaAGoOTFbo?si=uYUWZpdaRniYKuZgfm_BJg
1 Comment
10/28/2022 06:55:17 pm
Discussion TV speech a would able perform. Myself me give economic must region deal. With action old baby son.
Reply
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|