Hvað eiga sjálfsfróun í sturtunni, að lesa á meðan maður kúkar (eins undarlegt og það er að vilja sitja í eigin fnyk lengur en nauðsynlegt er) og grátbólgin augu í kjölfar rifrildis sameiginlegt? Ekkert af þessu birtist á ljósmyndum sem fanga eiga hversdagsleikann en að undanförnu hefur gengið yfir sérstakt hversdagsmyndaátak á fésbókinni. Þar gefur að líta fólk að borða hamborgara í þynnkunni, sem andstæða við hvítvínið og humarinn kvöldið áður, og sundföt á ofni að lokinni sundlaugarferð. Og auðvitað er stutt í fordæminguna á þessum myndum, til dæmis mynd af skeið sem óvart var sett í gafflahólfið, sem augljóslega á að undirstrika hversu skelfilega hallærislegt það er að gangast við svona áskorun. Gegnum myndirnar tekst fólk samt á við hugtakið hversdagsleiki, veltir fyrir sér og skilgreinir það með vali sínu á myndefni. Myndirnar tjá hvaða hlutir og atferli skuli fá að birtast en um leið fellur annað í skuggann, aðrir hversdagslegir hlutir sem fólk vill af einhverjum ástæðum ekki endilega deila með umheiminum. Með öllum þessum hversdagsmyndum er þannig ekki aðeins verið að fanga hversdagsleikann heldur einnig að skapa hann. Hvernig skilgreinir fólk sinn eigin hversdagsleika og það sem er hversdagslegt? Og gagnvart hverju þá? Þessi spurning hlýtur að vekja áhuga þjóðfræðinga sem hafa gert það að mikilvægri hefð að rannsaka hversdagsmenningu fólks. Að fara fínt út að borða myndi sennilega ekki flokkast sem hversdagslegt og heldur ekki að ferðast um Indland. Að sama skapi getur mynd úr sumarfríinu af gömlum manni sem situr á götuhorni í Bombay staðið sem hversdagsmynd andspænis mynd af Taj Mahal. Það veltir upp spurningunni hvers hversdagsleika er verið að lýsa. Eigin hversdagsleika er hins vegar lýst með myndum af hjólaferðinni heim úr vinnunni, sem er hugsanlega hversdagslegt ef maður er ekki vinur einkabílsins, og því að horfa á sjónvarpið. Það sem er hins vegar merkilegt við flestar þessar myndir er að þær eru ekkert endilega svo frábrugðnar þeim myndum sem fólk hefur hingað til sett inn á fésbókina án þess að kalla hversdagslegar. Þetta eru til dæmis myndir af morgunverðinum, börnum að bora í nefið og hundum að naga skó. Óháð myndefninu er samt þess virði að velta betur fyrir sér skilgreiningunni sem slíkri því hún felur í sér vissa flokkun á því sem getur talist áhugavert sem og óáhugavert. Samkvæmt hinni írónísku skilgreiningu er myndefni hversdagsmyndanna einmitt ekki áhugavert vegna þess að það er svo hversdagslegt, svo venjulegt. Á móti kemur að með því að ljá myndunum hinn íróníska stimpil sem hversdagsmyndir eru þær upphafnar sem framsetning á þessum sama hversdegi. Sú upphafning kallast að mörgu leyti á við túlkun margra á menningararfi þar sem menningararfsstimpillinn ljær hlutum og atferli nýtt hlutverk sem fulltrúum fortíðarinnar í samtímanum. Nærtækt dæmi væri sá matur sem borinn er á borð á þorrablótum, matur sem þjónar nú til dags frekar því hlutverki að styrkja sjálfsmynd Íslendinga en að vera undirstaða hversdagslegs mataræðis. Skilgreining menningararfs upphefur því vissa hluti og atferli í samtímanum með vísun til fortíðar á meðan annað er urðað á ruslahaugum sögunnar. Að sama skapi upphefja hversdagsmyndirnar ákveðnar hliðar hversdagsins á meðan undirmeðvitundin urðar annað hversdagslegt streð. Við fyrstu sýn virðist skilgreining menningararfsins þó standa í beinni andstöðu við hið hversdagslega sem fésbókarmyndirnar sýna. Þynnkuhamborgarinn ætti erfitt með að komast á menningararfslistann en hann er býsna ljúffengur hversdagsleiki. Á móti kemur að framsetning hversdagsmyndanna ljær þeim vissa fjarlægð frá þeim hversdagsleika sem þær eiga að lýsa og er hluti af þeirri persónulegu sjálfsmyndarsköpun sem er hluti af samfélagsmiðlum eins og fésbókinni. Myndir af tómum bjórflöskum á borði, bólgnum fótlegg og hjólastíg í Öskjuhlíð, vegir hins hversdagslega menningararfs eru óendanlegir. Um höfundinn:Jón Þór Pétursson, Doktorsnemi í þjóðfræði
1 Comment
11/15/2022 02:34:52 am
Perhaps must matter evidence challenge everybody. Option how PM often industry. Voice teach feeling father but side small again.
Reply
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|