Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband

Kvöldstemmur: Kvöldvakan og vísnasöngur - Fríða Björk Ólafsdóttir

11/11/2013

2 Comments

 
Picture
Eftirfarandi stemmingslýsing var unnin sem greiningarverkefni úr svörum við spurningarlista Þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands númer 7 – kvöldvakan. Tilgangurinn var að draga upp almenna mynd af kvöldvökum um aldamótin 1900. Þegar ég fór að lesa svörin sá ég fljótlega að þar voru margar skemmtilegar vísur eða stemmur inn á milli sem fjölluðu um eitt og annað sem tilheyrði kvöldvökunni og því datt mér í hug að gaman gæti verið að flétta þær inn í lýsingarnar og reyna að fanga stemminguna. Við vinnslu verkefnisins sá ég fyrir mér myndskreyttan bækling þar sem vísurnar væru í forgrunni. Sú hugmynd mun líklega ekki verða að veruleika en samt sem áður getur verkefnið gefið einhverja mynd af þeirri stemmingu sem var á kvöldvökunni á þessum tíma.
​

Það eru veturnætur, sláturtíðin og haustverkin búin og svartasta skammdegið framundan.(1) Börnin leika sér úti í snjónum, það er tunglsljós, einhverjir eru á tjörnum og svellum, skautarnir eru búnir til úr leggjum, sumir renna sér fótskriðu aðrir á frosnum torfusnepli og kýrhausum. Áður en snjóaði gátu börnin leikið sér í útilegumannaleik, skessuleik, fuglaleik, feluleik og fleiru. Það er líka gaman að leika sér hljóðlega inni, í fjósinu, segja sögur og syngja. Stundum er jafnvel hægt að fá einhvern fullorðinn til að segja rökkursögur, ævintýri um kóng og drottningu í höll sinni og karl og kerlingu í koti sínu, þau byrja gjarnan á þessum orðum: Einu sinni var….., á meðan sofa húsbændur og vinnuhjú rökkursvefni.(2)
Þegar endar þorri minn
þá skal hátta í björtu.(3)
Eftir rökkurblundinn er skepnunum gefið og það er kominn tími fyrir kvöldskattinn. Að því loknu kveikir húsfreyjan á ljósunum, lýsislömpum og olíulampa ef hann er til, og þá er kominn tími til að setjast upp(4) og hefja kvöldvökuna sem er oftast einnar gæru vaka, það er tíminn sem tekur að raka eina gæru.(5)
Ljósið kemur langt og mjótt
logar á fífustöngum
Halla kerling fetar fljótt
framan eftir göngum.(6)
Á sumum heimilum segir sjöstjarnan til um tímann en annars staðar er komin klukka.
Gundarvakan grunar mig
gera mun einhvern svangann
sjöstjörnurnar sýna sig
suður á móts við tangann.(7)
Fólkið situr á rúmunum sínum við vinnuna og þar sefur það líka og matast. Baðstofan(8) er þrjú stafgólf með fimm rúmum, inngangur er á nyrðri hlið hennar. Við fótagafl ytra rúms, en til hliðar við dyrnar aftur við gafl, er svo kallað kaffiborð, lengd borðsins er þannig að hæfilegt er að láta stól standa við hvorn borðsenda. Stoð úr gólfi og upp í sperru við fótagafl ytra rúmsins og önnur andspænis henni við fótagafl miðrúmsins og brík úr stoðinni út í vegg. Tvö stafgólf eru fyrir innan bríkina, en eitt fyrir utan, ekkert aðskilur innri stafgólfin tvö. Hæð baðstofuveggjarins tekur meðalmanni í öxl og ris allmikið. Gluggi er á framstafni með níu rúðum, hver um 40 cm á hlið. Breidd rúma samsvarar einni rúmslengd, í hverju rúmi sofa venjulega tveir og það er rúm þvers undir glugganum. Lítill gluggi er á suðurhlið nær beint á móti dyrum og kallast hliðargluggi. Herbergi er aftur af baðstofunni, um hálft annað stafgólf að lengd og þar eru tvö rúm.
Stafna á milli stóðu rekkjur stuðla beinar
þiljur súð og hurðir hreinar,
hvergi ruslakompur neinar.(9)
Á meðan kvöldvakan stendur yfir er unnið, oftast er það húsbóndinn sem les og stundum eru kveðnar rímur. Allir keppast við, konur kemba og spinna, gera skó, sauma og gera við fatnað, sumar vefa. Karlar taka ofan ull (taka togið af) kemba, tvinna band á halasnældu, kemba og spinna hrosshár, flétta reipi og hnappheldur. Þeir bregða gjörðum, þæfa prjónafatnað, smíða og gera við búshluti svo sem úr tré eða horni, af nógu er að taka. Börn tæja ull og allir hafa á prjónunum. Hugað er að skinnklæðum og netum fyrir vertíðina.
Vetrar löngu vökurnar
voru öngum þungbærar
við ljóðsögn og sögurnar
söfnuðust föngin unaðar.(10)
Það eru lesnar Íslendingasögur, fornaldarsögur norðurlanda og riddarasögur, Piltur og stúlka og aðrar vinsælar íslenskar skáldsögur. Þúsund og ein nótt og íslenskar þjóðsögur og ævintýri, alls kyns tímarit, fræðibækur og ljóðabækur. Allt lestrarefni sem hægt er að komast yfir er lesið frá upphafi til enda. Svo eru sungin ættjarðarlög og kveðnar rímur.
Komdu nú að kveðast á
kall minn ef þú þorir
gerðu vel við þessa þrjá
það eru landar vorir.(11)
Og svo er leikur þar sem jafnan skal koma með vísu sem byrjar á sama staf og hin næsta á undan endar.
Rauður minn er sterkur stór
Stinnur mjög til ferðalags
Suð´r á land hann feitur fór
Fallegur á tagl og fax.(12)
Þá á næsti að yrkja vísu sem byrjar á x. Sá sem tapar er kveðinn í kútinn. En í syrpu gilda allar vísur og margir kunnar langa rímnaflokka.
​
Gátur eru líka vinsælar, það er álitið að þær skerpi athugunargáfur barna, unglinga og fullorðinna líka, svo er telft og spilað.
Hver er sá veggur víður og hár, vel með skreyttum röndum, Gulur, rauður, grænn og blár, gerður af meistara höndum. Regnboginn.
Tíu toga fjóra
tvö eru höfuð á
Rassinn upp og rassinn niður
rófan aftan á.
(Mjaltakona við störf)(13)
Stundum koma gestir á bæinn, gamlar konur og förumenn og biðja þá um eitthvað til að halda á það er að prjóna eða þæfa (rudda) sokka og vettlinga. Sumir lesa og kveða rímur eða segja sögur og fréttir af öðrum bæjum, eru einskonar fréttablöð heimilanna. Símon dalaskáld, þekktur förumaður sem semur vísur um heimilisfólk á bæjunum og Guðmundur dúllari sem kann tón 9 presta. Smiðir ferðast líka á milli bæja, bæði trésmiðir og járnsmiðir.

Gamall málsháttur segir: Sjaldan er gagn af göngukomu verki.(14)

​Í vökulok er húslestur, þá les sá sem er talinn lesa best, oft húsbóndinn, hundar eru þá látnir fram í bæ, karlar taka ofan og allir sitja hljóðir. Á rúmhelgum dögum er lesið í Péturshugvekjum en á helgum er lesið í Vídalínspostillu eða Péturspostillu. Alltaf eru sungnir sálmar á undan og á eftir hugvekjunni. Að húslestri loknum gera allir bæn sína, halda með hægri hendi fyrir augu sér og lesa í hljóði, svo signa menn sig. Eftir nokkra stund segir lesarinn: „Guð gefi oss öllum góðar stundir.“ Þá segja allir: „Þökk fyrir lesturinn.“ Gestir þakka jafnan fyrir lesturinn með handabandi. Síðan eru kýrnar mjólkaðar og fólk fer að setjast að (hátta).
Mál er í fjósið, fínar drósir
kýrnar að toga.
Nú vill ekki ljósið loga,
Langar mig að fara að sofa.(15)
Á sunnudögum er lítið unnið, helst þá prjónað og vinnufólkið má ráðstafa sunnu-og laugardagkvöldum til eigin vinnu. Það er spilað og leikið sér.
Hjá yngra fólkinu eru leikir eins og skipaleikurinn eða að setja í horn vinsælir og að geta í dálk. Stúlkur spá í spil til ástarleitar, þekktast er að fletta stokknum og raula með:
Elskar þú hann af öllu hjarta,
yfir máta, ofur heitt,
harla lítið og ekki neitt.(16)
Það einkunnarorð gildir sem hjartaásinn veltur á.
Ungu mennirnir glíma og gera Mullersæfingar.
Geyspa ég svo grálega
geispa ég svo hlálega
geispa ég svo geysihátt
geispa úr mér allan mátt.(17)
Í tepruviku (vikunni fyrir jól) keppast allir við vinnu sína og þá þarf jafnvel að grípa til vökustauranna sem er örmjó spýta sem er brotin í miðju, svo hún myndar V og síðan eru endarnir styttir hæfilega. Kjaftinum sem myndast utan á kili V-sins er komið fyrir þannig að hann klípur í efra augnlokið, það er ekkert sárt á meðan það stendur uppi, en því fastara og sárara sem það sígur meira. Vikan er líka kölluð stauravika og augnalausavika enda vakað venju fremur, enginn vill fara í jólaköttinn, allir fá einhvern glaðning á jólunum. Þeir sem eiga erfitt með að halda sér vakandi eru kallaðir, kvöldsvæfur, kvöldgóðir, vökuskarfar eða vökugeyspar.
Á Þorláksdag í matinn minn
morkinn fékk ég hákarlinn
harðan fiskinn hálfbarinn
og hákarls-grútar bræðinginn.(18)
Á sjálfa jólanóttina er aldrei spilað, þá situr hver fyrir sig eftir húslesturinn og margir kveikja á kertunum sínum og allt er uppljómað. Ljós er látið loga alla nóttina og margir líta í bók aðrir syngja og um kvöldið drekka menn kaffi með kaffibrauði. Á jóladagamorgun er lesinn húslestur þegar fólkið er komið á fætur, áður en farið er að hugsa um skepnurnar. Um kvöldið og á annan í jólum er oft mikið spilað og fólk fer á milli bæja. Þá er leikinn jólaleikur, fleginn köttur, þrædd nót á flösku, spurningaleikur, gefið í hjónaband, taldar sjöstjörnur, sagðar sögur, skrýtlur, konudans og fleiri skrípalæti. Á annan í jólum er minni hátíðarbragur. Engin vinna er um jólin aðeins hugað að skepnunum og það er eins á nýársnótt. Á gamlárskvöldi er líf og fjör og þykir sjálfsagt að spila og er það kallað að „spila út árið“, stundum kemur það fyrir að spilað er alveg fram á morgun eða þar til sinna þarf venjulegum störfum. Oft er kveikt í brennu og á blysum og hlaupið með þau út á tún. Þrettándakvöld er haldið heilagt og þá er hangikjötsveisla og spilað púkk og „spiluð út jólin“. Á milli jóla og nýárs er heldur minna um sögulestur og vinnu, þá er ekki allt í eins föstum skorðum á öðrum kvöldum vetrarins.
Á þrettándakvöld það bar til,
það var ekki að ráði,
að kýrnar misstu máls fyrir spil,
mengið einskins gáði.(19)
Af þessu má greina að ekkert hafi verið svo ómerkilegt að ekki mætti semja um það eina eða tvær vísur. Til þeirra hefur vafalaut verið gripið til að fræða, skemmta og útskýra og það má velta fyrir sér hvort orðið tækifærisvísur eigi hér uppruna sinn.

1 Tímamörk eru þegar svo áliðið er, að aldimmt er orðið kl. 6
2 Um það bil klukkutíma svefn
3 ÞÞ 457
4 Sumir segja að setjast um kyrrt. Kvöldvökurnar voru fram á Góu.
5 Sum staðar eru til vökulampar þá lýkur vökunni þegar lýsið er búið í lömpunum.
6 ÞÞ 416
7 ÞÞ 445
8 Oft skarsúðarbaðstofa
9 ÞÞ 427
10 ÞÞ 427
11 ÞÞ 455
12 ÞÞ 428
13 ÞÞ 9984
14 ÞÞ 427
15 ÞÞ 463
16 ÞÞ 416
17 ÞÞ 432
18 ÞÞ 419

19 ÞÞ 452​
Heimildir
Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands:
Svör við spurningaskrá nr. 7 – Kvöldvakan.
ÞÞ 416 ,ÞÞ 419, ÞÞ 427, ÞÞ 428, ÞÞ 432, ÞÞ 445, ÞÞ 452, ÞÞ 455, ÞÞ 457, ÞÞ 463, ÞÞ 9984
​

Um höfundinn

Fríða Björk Ólafsdóttir, þjóðfræðingur og MA-nemi í Hagnýtri menningarmiðlun​

2 Comments
David Flores link
10/21/2022 01:03:14 pm

Light rock participant down end politics attention down. He kid wife institution. Authority part water property still none remain. Present team whatever lawyer environmental economic.

Reply
Todd Ellison link
11/9/2022 12:13:03 pm

Per seat sound radio billion data account. Turn situation network.
Chair have occur whole explain decide generation. She company difference rule single. Home range month war.

Reply



Leave a Reply.

    Kreddur

    Allir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt.

    Greinar

    January 2030
    December 2024
    December 2022
    October 2022
    March 2021
    January 2021
    April 2020
    July 2014
    March 2014
    November 2013
    October 2013
    June 2013
    May 2013

    Flokkar

    All
    ævintýri
    Almenningssamgöngur
    Bragðarefur
    Brögð Og Ráðagerðir
    Dýrlingar
    Efnismenning
    Fagurfræði Hversdagsins
    Hátíðisdagar
    Heimsmynd
    Húmor
    Jón Árnason
    Kveðskapur
    Kvöldvökur
    Menningararfur
    Morgunverk
    Netmiðlar
    Norræn Trú
    Safnafræði
    Siðir
    Söfn
    Upprunasagnir
    Venjur
    þjóðhættir
    þjóðsagnafræði

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband