Í þessari hugleiðingu langar mig að velta fyrir mér hvernig við höfum áhrif á umhverfi okkar með hversdagslegum aðgerðum á borð við að taka strætó eða bara að lifa lífinu. Hugleiðingin er hugsuð út frá kenningum og hugmyndum heimspekingsins Michel de Certau um brögð og ráðgerðir, vald og viðnám sem hann birtir m.a. í bók sinni The Practice of Everyday Life. Áður en lengra er haldið langar mig að setja mig í ákveðnar stellingar. Ef ríkjandi orðræða og menningarlegt forræði (sem ekki er alltaf opinber heldur óljós en engu að síður ráðandi hugmyndafræði í samfélaginu) eru hinar fjölmörgu óskrifuðu reglur sem geta náð yfir mjög stóra þætti í samfélaginu má segja að þær tilheyri makró sjónarhorni sem skoðar samfélagið ofanfrá; skoðar hópa fólks en ekki einstaklinga. Hin hliðin er þá míkró sjónarhornið sem De Certau kynnir okkur með því að skoða það litla og hversdagslega sem einstaklingar gera, án þess þó að skoða tiltekna einstaklinga. Þessar hversdagslegu athafnir eiga það nefnilega til að vera í nokkurri andstöðu eða mótstöðu við stóru óskrifuðu (eða skrifuðu) reglurnar. Ástæða þess að ég vildi nefna hugmyndafræði hér í upphafi er að sú hugmyndafræði sem ég hef í huga er skilningur og sýn hins stóra almennings á fötlun og fötluðu fólki. Þetta er hugmyndafræði sem fæstir gera sér grein fyrir að þeir aðhyllist vegna þess hversu almenn hún er; hugmyndafræði sem segja má að gegnsýri samfélagið allt. Án þess að eyða mörgum orðum í að útskýra hugmyndafræðina þá gengur hún út á að fatlað fólk sé gallað mannfólk sem hafi lítið til samfélagsins að leggja og þurfi sárlega á ófötluðum að halda á flest öllum sviðum. Þetta gerir það að verkum að almennt er ekki gert ráð fyrir því að fatlað fólk lifi sínu lífi eða hafi rétt á að taka þátt í hversdeginum. Hversdeginum sem De Certau talar einmitt um – og þá er ég komin þangað sem ég vil vera. Það hversdagslega atriði sem mig langar til að beina sjónum að er strætó í Reykjavík. Samfélagið okkar gerir ráð fyrir sértækum almenningssamgöngum fyrir fatlað fólk og eldirborgara. Þessi sérúrræða leið er kannski ágæt í sjálfu sér en gallinn er sá að í staðinn er í raun ekki gert ráð fyrir til dæmis hjólastólanotendum í stóru gulu bílunum sem aka um borgina samkvæmt tímatöflum og ákveðnum leiðum. Stóru gulu vagnarnir heita samt sem áður almenningssamgöngur og að mínu viti er hjólastólanotandi líka almenningur. Samt er honum ætlað að panta sér sérstaklega lítinn bláan bíl í stað þess að bíða úti á stoppistöð eftir stórum gulum bíl. Hér höfum við því hugmyndafræði sem mótar það hvernig valdið hefur ráðgert að almenningur borgarinnar skuli ferðast um með fyrirtækinu Strætó sf. En líkt og De Certau talar um eigum við einstaklingarnir það til að beita ráðagerðirnar, skipulagið, plönin og kannski þar með hugmyndafræðina, brögðum. Hvað gerist ef hjólastólanotandi rúllar sér út á stoppistöð, bíður þar þolinmóður eftir að stór gulur bíll (sem vonandi er ekki tröppuvagn) renni að stöðinni, opni dyrnar og maðurinn í hjólastólnum vippar sér inn í vagninn og tekur sér far með honum líkt og „annar“ ófatlaður almenningur? Hér er klárlega um viðnám að ræða. Ekki opinbert eða skipulagt andóf gegn stóru ríkjandi hugmyndafræðinni heldur bragð gegn ráðagerðum hennar. Þetta dæmi er raunverulegt og því get ég sagt ykkur hvað gerðist. Maðurinn tók sér far með stóra gula bílnum en var aldrei rukkaður um fargjald. Af hverju ekki? Nokkrar ástæður koma til greina. 1) Bílstjórinn hefur ekki talið sig hafa tíma vegna tímaáætlunar vagnsins til að standa upp og rölta inn í miðjan vagn og rukka þennan óvenjulega farþega um miða. 2) Bílstjórinn þorði ekki að nálgast fatlaða manninn af hræðslu við að hann væri með þroskahömlun og ekki hægt að tala við hann. 3) Bílstjórinn veit ekki hvað hann á að gera því það er ekki gert ráð fyrir því að fatlað fólk noti strætó án fylgdar og/eða aðstoðarfólks sem sjái þá um að greiða fargjaldið. 4) Bílstjórinn veit ekki hvort fatlað fólk eigi kannski að fá frítt í strætó og kann ekki við að fara og spyrja manninn sjálfan. Auðvitað eru þessar hugrenningar mínar um mögulegar hugrenningar bílstjórans aðeins það – hugrenningar. En ég er ekki í vafa um að með því að hjólastólanotandinn noti almenningssamgöngur á þann hátt sem ætlast er til (að undanskildu fargjaldinu sem hlýtur þó frekar að vera sök bílstjórans en mannsins) var hann í raun að beita ráðagerðina brögðum. Bragðið fólst í því að rúlla á móti stóru hugmyndafræðinni um hvernig fatlað fólk eigi að haga sér. Bragðið var hinsvegar persónulegt vegna þess að maðurinn þurfti að mæta í vinnuna og hafði ekki pantað sér lítinn bláan bíl til að komast þangað. Því var það ekki andóf heldur viðnám. Viðnám sem líklega hristi vel upp í bílstjóranum títtnefnda sem og öðrum farþegum í stóra gula bílnum og hefur eflaust (og vonandi) fengið þau öll til að velta fyrir sér „af hverju hef ég aldrei séð mann í hjólastól í strætó áður?“ Vangaveltur sem fær fólk kannski til að efast um sínar fyrirfram gefnu hugmyndir um hegðun fatlaðs fólks. Um höfundinn: Eva Þórdís Ebenezersdóttir
1 Comment
6/28/2023 06:19:08 am
Lovely blog, thanks for taking the time to share this.
Reply
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|