Flestir hafa einhverntíma upplifað þann sársauka sem fylgir því að vera með tannpínu. Í dag eru ótal tannlæknar starfandi á Íslandi sem hjálpa okkur að lina sársaukann og laga það sem er að hrjá okkur, en þannig var það ekki alltaf. Í lok 19. aldar voru tannskemmdir einn algengasti kvillinn sem hrjáði fólk á Íslandi, en það var ekki fyrr en árið 1947 sem fyrstu tannlæknarnir útskrifuðust frá Háskóla Íslands (Vilmundur Jónsson, 1942: 13; Guðni Jónsson, 1961: 112). Fyrir þann tíma höfðu þó einhverjir lært erlendis. Fyrstu tannlæknarnir settust að í Reykjavík og var mjög kostnaðarsamt fyrir fólk utan af landi að leita sér aðstoðar þeirra. Fólkið bjó því sjálft yfir allskonar lausnum til að losa sig við þennan leiða verk eða leitaði til annarra lækna í sinni sveit og tóku alþýðulæknar þess tíma oft að sér að reyna að lina þjáningar þess (Jón Steffensen, 1990: 120). Árið 1994 sendi Þjóðminjasafn Íslands út spurningalista um gömul læknisráð. Í spurningaskránni er fjallað um ýmsar lækningaaðferðir sem fólk notaði áður fyrr og er í þeirri spurningaskrá meðal annars spurt um tannpínu. Þau svör nýtast vel þegar reynt er að varpa ljósi á hvernig fólk reyndi að lækna sig af tannpínunni á árum áður. Í þjóðháttasafninu, sem aðgengilegt er á Sarpi, eru að finna gífurlega mikilvægar heimildir líf fólks fyrr á tíð. Það er þó ýmislegt sem hafa verður í huga þegar unnið er með spurningaskrárnar, til að mynda hvernig spurningarnar eru upp settar og hvernig það getur haft áhrif á þau sem svara (Jón Jónsson og Sigurður Gylfi Magnússon, 1998). Misjafnt var hvernig fólk brást við tannpínunni sem gat verið mjög slæm og erfið við að eiga. Tannsteinn hlóðst á tennur Íslendinga og tannslitið var mikið þannig að ígerð gat orðið í munnholi og miklar bólgur sem losuðu um tennur (Jón Steffenson, 1990: 120). Fólk virðist þó hafa búið yfir ýmsum ráðum og er eitt algengasta ráðið sem kemur fram í svörum við spurningaskránni að troða munn- eða neftóbaki ofan í tönnina eða tyggja það við veiku tönnina (ÞÞ 11479/1994-2; ÞÞ 11329/1994-2; ÞÞ 11310/1994-2; ÞÞ 12044/1994-2). Maður úr Eyrarsveit talar um að fullorðnir hafi aðallega beitt þessari aðferð og það hafi sviðið óskaplega, en slegið á verkinn til skamms tíma (ÞÞ 11655/1994-2). Þá þekktist líka að nota heita bakstra eða spíritus í bómull (ÞÞ 11313/1994-2; ÞÞ 11310/1994-2). Annar sagðist vita þess dæmi að fólk hafi hitað járntein og stungið honum svo ofan í holan jaxl eða tönn (ÞÞ 11310/1994-2). Það efast líklega enginn um að þetta hafa verið sársaukafullar aðgerðir og skiptar skoðanir eru líka um gagnsemi þeirra. Fullyrðir, meðal annarra, kona ein frá Tjörnesi að þær hafi ekki haft mikil áhrif (ÞÞ 12252/1994-2). Maður fæddur í Hafnarfirði segir að það hafi stundum verið sagt að kjaftshögg hafi læknað tannpínu, en hann minnist þó ekki á að hann þekki þess dæmi að sú aðferð hafi verið notuð í raun og veru (ÞÞ 11252/1994-2). Þessi ráð við tannpínu sem hér hafa verið nefnd sýna sjálfsbjargarviðleitni alþýðunnar. Þar sem ekki voru tannlæknar varð einfaldlega að finna aðra lausn og það gerði fólk. Í bók Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili Íslenzkir þjóðhættir sem er ein okkar helsta heimild um lifnaðarhætti á fyrri öldum, fjallar hann lítillega um tannpínu og ráð við henni. Þar nefnir hann nokkur húsráð, myndrænar og stórbrotnar aðferðir til að fást við tannpínu. Til dæmis átti að brjóta tönn úr mús og stanga með henni við tönnina, leggja við tönnina saur úr ársgömlu sveinbarni, mylja hundstennur og taka inn duftið eða leggja við tönn úr dauðum manni (Jónas Jónasson, 1934: 329). Hvergi er minnst á uppátæki sem þessi í svörum við spurningaskrá Þjóðminjasafnsins og auðvelt er að efast um að þessi ráð hafi verið algeng og jafnvel að þeim hafi verið beitt. Jónas tekur þó fram í kaflanum þar sem hann fjallar um lækningar að þar hafi hann tínt saman nokkur ráð við algengum sjúkdómum sem hrjáðu menn og það ætti að vera nóg til að sýna hvernig skottulæknar fóru að því að lækna fólk og hvernig fólk læknaði sig sjálft á þessum tíma. Hann segir einnig að sum þessara ráða hafi verið algeng meðal alþýðunnar, en líklegt sé að önnur hafi sjaldan eða aldrei verið notuð (Jónas Jónasson, 1934: 329). Það seinna held ég hljóti að eiga við um ráðin sem hann nefnir til sögu við tannpínu, og þó, hver veit. Ráðin dugðu þó oft bara í skamman tíma og þurfti þá að leita annarra ráða og langoftast var þrautalendingin að losa sig við veiku tönnina. Samkvæmt spurningaskránni eru skiptar skoðanir um hvort algengt hafi verið að fólk rifi sjálft úr sér skemmdar tennur. Maður úr Skagafirði segir það hafa verið algengt að fólk rifi tennurnar úr sér sjálft ef þær voru skemmdar og þá hafi stundum verið notaður hnífur til að spenna þær upp. Kona ein segist muna eftir fullorðnum manni sem tók sjálfur úr sér tennurnar með vasahnífnum sínum (ÞÞ 11479/1994-2; ÞÞ11364/1994-2). Þá þekktist auðvitað líka að binda spotta um tönnina og kippa til höfðinu líkt og í kvikmyndinni um Emil í Kattholti (ÞÞ 11310/1994-2). Líkt og nú veigruðu sumir sér við að leita til tannlæknis (ÞÞ 12252/1994-2). Þar sem ekki voru tannlæknar í grennd, dó fólk heldur ekki ráðalaust. Maður í N-Múlasýslu segir frá því að hefðbundnir læknar hafi dregið tennur úr þeim sem voru með tannpínu, oftast án deyfingar. Kaupfélagsstjórinn dró svo tennur úr lækninum þegar þess þurfti, en þar var enginn tannlæknir (ÞÞ 12044/1994-2). Maður úr Borgarfjarðarsýslu segir héraðslækni hafa tekið tennurnar úr fólki, en sjálfur hafi hann ekki viljað það og farið sjaldan til tannlæknis, enda hafi ekki farið gott orð af þeim (ÞÞ 11352/1994-2). Kona ein úr Skógarstrandahreppi segir frá því að þegar hún var barn hafi læknirinn haft með sér töng þegar hann kom í skólaskoðun og dregið úr þeim skemmdu tennurnar (ÞÞ 11350/1994-2). Þannig virðast læknar hafa, upp að einhverju marki, tekið að sér hlutverk tannlækna þar sem þeir voru ekki til staðar. Þrátt fyrir að tannlækningar séu nú orðnar mjög kerfisbundnar, þarf ekki að leita lengi á internetinu til að finna allskonar undraráð til að fresta heimsóknum til tannlækna eða lina þjáningarnar meðan beðið er eftir bókuðum tíma. Í Facebook-hópnum Beauty tips er hægt að slá inn „ráð við tannpínu“ inn í leitargluggann og fást þá margar niðurstöður og ábendingar, til dæmis að hægt sé að setja sterkt vín í bómull, sítrónu- eða vanilludropa, tannkrem eða vodka í eyrnapinna og stinga ofan í tönnina. Þá er líka talað um hvítlauk, aloe vera gel og negul. Þar sést líka sú tillaga að hægt sé að setja píputóbak í pappír og leggja við holdið sem minnir það óneitanlega á ráð sem talað er um í svörum þjóðháttasafnsins um að setja tóbak við eymslin (Beauty tips, 2016, facebook.com). Fjölbreytt þjóðráð við tannpínu lifa því áfram, en í heldur mildari útgáfu. Þrátt fyrir að enn í dag kvíði margir heimsóknum til tannlækna er þó hugsanlega hægt að hugga sig við það að tækninni hefur fleygt fram og aðferðirnar breyst. Það eru að minnsta kosti litlar líkur á kjaftshöggi á tannlæknastofunni. HeimildaskráRitaðar heimildir: Jón Steffensen. 1990. Alþýðulækningar. Í Íslensk þjóðmenning VII. Alþýðuvísindi: Raunlækningar og dulfræði. Ritstj. Frosti F. Jóhannesson. Reykjavík, Bókaútgáfn Þjóðsaga, s. 103-192. Guðni Jónsson. (1961). Saga háskólans. Reykjavík. Jónas Jónasson. (1934). Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík: Bókaútgáfan Opna. Jón Jónsson og Sigurður Gylfi Magnússon. (1998). Heimskuleg spurning fær háðulegt svar. Orð og æði – Minni og merking. Í Íslenska söguþingið: Ráðstefnurit II. Ritstj. Guðmundur J. Guðmundsson og Eiríkur K. Björnsson. 47-56. Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðingafélag Íslands. Vilmundur Jónsson. (1942). Skipun heilbrigðis mála. Reykjavík. Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands: Svör við spurningaskrá 85, Gömul læknisráð ÞÞ 11479/1994-2, ÞÞ 11329/1994-2, ÞÞ 11655/1994-2, ÞÞ11364/1994-2, ÞÞ 12044/1994-2, ÞÞ 12252/1994-2, ÞÞ 11313/1994-2, ÞÞ 11310/1994-2, ÞÞ 11350/1994-2, ÞÞ 11352/1994-2, ÞÞ 11252/1994-2. Vefheimildir: Beauty tips. (2016). Facebook.com. Sótt þann 28. september 2016 af https://www.facebook.com/groups/497130347062493/search/?query=r%C3%A1%C3 %B0%20tannp%C3%ADnu Um höfundinnDagrún Ósk Jónsdóttir, doktorsnemi í þjóðfræði
1 Comment
10/25/2022 01:07:09 am
While he factor produce action. Measure air drug information maintain put check.
Reply
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|