Pistill frá 2020 um niðurstöður smárannsóknar sem þá var gerð á vegum Þjóðfræðistofu Það er ys og þys í desember og undirbúningur jólanna stendur sem hæst. Nóg er að gera og verkefnin sem þarf að sinna eru ótalmörg. Það þarf að finna og kaupa viðeigandi jólagjafir fyrir fjölskyldu og vini og koma þeim til skila, senda jólakveðjur og sækja jólatré. Heima þarf að skreyta, þrífa og skúra, undirbúa matarhátíðina miklu, baka og elda, pakka inn gjöfum, skipta um rúmföt og gera fínt. Jólin eru dálítið eins og leiksýning þar sem þarf að halda um ótal þræði og undirbúa ólíka verkþætti vandlega. Ekkert má verða útundan, áður en tjöldin eru dregin frá og hátíðin hefst. Þjóðfræðingar hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu útbjuggu fyrir jólin 2020 dálitla netkönnun um siði og venjur fólks í tengslum við undirbúning jólanna og deildu henni eingöngu á Facebook. Uppátækið var mest til gamans gert, en undir niðri bjó löngun til að komast að því hvort miklar breytingar séu að verða á jólahefðum nú á tímum. Ekki var lögð nein sérstök áhersla á breytingar vegna Covid, þótt auðvitað hafi samkomutakmarkanir og sóttvarnir haft veruleg áhrif á jólahaldið þetta ár, einkum varðandi alla viðburði og samkomur í aðdraganda jólanna sem féllu niður að mestu. Spurt var um kyn, aldur og búsetu í krossaspurningum og síðan voru sjö fjölþættar spurningar um ákveðnar hliðar jólaundirbúnings og jólahalds með opnum svarglugga. Ekki var beðið um nafn svarenda. Könnunin var sett í loftið þann 20. desember, klukkan 18:30. Svör fóru strax að hrúgast inn. Tveimur sólarhringum seinna, á sama tíma þann 22. desember, höfðu borist 318 svör. Fyrr sama dag var ákveðið að lesa í gegnum svörin og skrifa smá samantekt um það helsta sem þar kom fram, með áherslu á þær breytingar sem eru að verða á hefðum og siðum. Könnunin var þó opin áfram, enn um sinn. Hér á eftir ætlum við að rekja nokkur atriði sem sum komu okkur dálítið á óvart í þessari stuttu og einföldu könnun. Þetta er hraðsoðin úrvinnsla og breyturnar okkar um aldur og búsetu voru ekki skoðaðar vandlega. Þátttakan: Könnun fyrir konur? Mikil þátttaka í könnuninni á mjög stuttum tíma kom okkur vissulega á óvart. Þetta form nær greinilega til fólks, frekar fáar spurningar, hægt að svara fljótt og örugglega og svörin þurfa ekki að vera í löngu máli. Þó fengust líka vegleg og efnismikil svör. Hitt var ekki síður merkilegt hvernig svörunin skiptist milli kynja. Tíu konur svöruðu könnuninni á móti hverjum karlmanni sem tók þátt. Alls voru 291 svör af 318 í heildina frá konum eða 91,5%. Hvernig í ósköpunum stendur á þessum mikla mun? Þetta er meiri munur en svo að hægt sé að skýra hann með því að fleiri konur séu virkar á Facebook og þær séu yfirleitt duglegri við að svara könnunum. Fjölbreyttar og skemmtilegar skreytingar Spurt var um skreytingar í undirbúningi jólanna og jólatré. Um ⅔ svarenda eru með gervijólatré, en ⅓ er með lifandi tré. Hjá þeim sem eru með lifandi tré er oft mikil samverustund að fara og velja jólatré, í einu svari segir: „Lifandi jólatré, förum sjálf út í skóg og höggvum okkar tré með foreldrum, það hefur verið gert í ca 10 ár.“ Þá virðist það að skreyta jólatréð vera stór hluti af undirbúningi jólanna og er nokkuð algengt að það sé gert á Þorláksmessu. Skrautið er margslungið, heimagert eða keypt og stundum eitthvað sem hefur gengið í fjölskyldunni í árafjölda, eins og segir í einu svari: „Gamla skrautið með söguna er best“ og önnur talar um að mikilvægast sé gamla skrautið „sem maður er tengdur einhverjum tilfinningaböndum“. Ein segir að jólaskrautið sé „samtíningur úr öllum áttum og er eins og að hitta gamla vini á ári hverju“. Einhver eru með litaþema í skreytingum, en það er í minnihluta. Ein er með „hvítt gervitré með rauðum kúlum“ og önnur hefur verið með litaþema í rúm 20 ár. Þá er ljóst að ljós eru mjög mikilvæg; seríur, kerti og fleira til að lýsa upp myrkrið. Fólk virðist ekki telja að miklar breytingar hafi orðið í skreytingum undanfarin ár. Jólagjafainnkaup Helsta breytingin í sambandi við jólagjafainnkaupin er án efa aukin netverslun, það var auðvitað sérstaklega áberandi þetta árið. Mjög misjafnt er hve mikið er keypt af gjöfum á hverju heimili, en mörg af svarendum segjast kaupa mikið af gjöfum og jafnvel of mikið. Önnur kaupa aðeins fyrir nánustu fjölskyldu. Flest kaupa allar gjafir í aðdraganda jólanna og í desember, en einhver reyna að dreifa innkaupunum yfir lengri tíma og nýta útsölur. Í einu svari segir: „Við fjölskyldan gefum þónokkuð margar jólagjafir, oftast kaupi ég þær jafnt og þétt yfir árið, ég reyni alltaf að kaupa einhverjar gjafir í heimabyggð, bý sjálf til hluta af gjöfunum, en svo panta ég líka á netinu.“ Það var helst í svörum við þessari spurningu þar sem sáust tilvísanir í Covid-19. Þetta sést til að mynda hér: „Já ég kaupi handa foreldrum okkar hjóna, systkinum og þeirra börnum, auk okkar barna. Í ár er nær allt verslað á netinu. Venjulega höfum við farið í eina djúsí innkaupaferð í desember. Jafnvel borgarferð erlendis. En ekki í ár vegna covid 19.“ Sama sést í þessu svari: „Gefum um 15 gjafir og mest keypt á netinu í ár. Venjulega fer ég í búðir, en ég nenni ekki að bíða í röðum eftir að fá að komast inn í þær og finnst óþægilegt að vera með grímu.“ Þó virðist það að skella sér í verslunarferð vera hluti af jólastemmningunni fyrir einhver: „Ég versla yfirleitt í búðum, það er hluti af jólunum að fara í verslunarleiðangur“. Ekki var jafn mikið talað um umhverfisáhrif í svörunum og við höfðum jafnvel búist við. Jólastórhreingerningar heyra sögunni til Greinilegt er að gamla góða stórhreingerningin fyrir jólin heyrir að mestu leyti sögunni til, líklega fyrir allnokkru. Langflest eru hætt að þrífa veggi og loft fyrir jólin og þrífa heldur ekki sérstaklega skápa og skúffur. Gert á æskuheimilinu, er sagt, en mörg í yngri deildinni hafa aldrei ráðist í slík stórþrif fyrir jólin. Stórþrifin eru í svörunum frekar tengd vorinu eða haustinu, en jólunum. Vönduð tiltekt er látin duga á flestum heimilum og reynt að halda hreinu á meðan jólaskrautið er uppi, en gólfin samt skúruð sérstaklega fyrir jólahátíðina. Hrein rúmföt á öll rúm. Gluggar þrifnir þegar ljós eru sett upp. Allmörg nefna reyndar líka að þau reyni að hafa fínt hjá sér allt árið og því sé ekki þörf á slíkum stórþrifum fyrir jólin. Mörg segjast forðast allar öfgar í þrifum og eftirfarandi viðhorf kemur fram í nokkrum svörum: „Betri er smá skítur í horni en hreint helvíti sagði ein góð kona og það er rétt.“ Í öðru svari segir: „Kveiki frekar á kerti og ligg í sófanum,“ og í því þriðja segir: „Jólin eru að koma, en ekki heilbrigðiseftirlitið.“ Þetta er samt nokkuð misjafnt og mörg þrífa vel og nokkur taka allt húsið í gegn fyrir jólin. Spurningunni, er gerð stórhreingerning á þínu heimili, svarar einn: „Guð já! Samt er þetta ekki eins öfgafullt og áður, ég er steinhættur að þrífa veggi og loft eins og vitlaus maður, enda reykjum við hvorki sígarettur né kjöt innandyra!“ Jólakortin eru hverfandi hefð Fólk hefur flest hætt að senda jólakort á síðustu fimm árum eða sendir miklu færri kort en áður og þá helst til vina, fjölskyldu eða fullorðins fólks sem notar ekki tölvu. Siðurinn er helst lifandi hjá fjölskyldufólki sem sendir myndir af börnum sínum og þá stundum í tengslum við merkisdaga á mannsævinni, eins og til dæmis fermingu. Nokkur nefna að aukinn sendingarkostnaður hafi haft þau áhrif að fólk hætti að senda og segja að það sé of dýrt eða jafnvel að pósturinn hafi „drepið fallegan sið með okri“. Einstaka nefnir umhverfisástæður í þessu samhengi eða segja að þau hafi hætt að senda vegna anna í desember, veikinda eða aldurs. Sum styrkja gott málefni um svipaða upphæð og myndi fara í sendingarkostnaðinn. Nokkur halda samt fast í siðinn og senda kort eins og áður. Í staðinn fyrir jólakort senda sum lesna jólakveðju í útvarpið. Mörg setja rafræna jólakveðju eða jafnvel frekar áramótakveðju og pistil um liðið ár, fyrir vina og kunningja, á vegginn sinn á Facebook eða aðra samfélagsmiðla. Talsvert af fólki sendir svo ekki neina kveðju, hvorki rafrænt né í korti. Sautján sortir af smákökum eru bara til í ævintýrum Bakstur er enn stundaður af miklum móð í desember, en smákökusortum hefur heldur fækkað á síðustu árum. Breytingarnar sjást vel í svari einnar konu sem ber saman bakstur sinn og móður sinnar á árum áður: „Ég baka tvær smákökusortir, móðir mín bakaði yfirleitt 10 sortir. Hún bakaði alltaf brúna og hvíta marglagaðar kökur í skúffustærð, ég kaupi tvær litlar í Bónus. Hún bakaði nokkrar tertur, ég baka eina sem við borðum á jóladag með súkkulaði og rjóma.“ Önnur kona segir frá því hvernig baksturinn hefur breyst: „Baka minna núna en áður, kaupi stundum tilbúið deig eða smákökur sem ég gerði ekki áður.“ Þá virðist fólk leyfa sér meira frelsi í bakstrinum en á árum áður og mörg tala um að einungis sé það bakað sem tími er til og áhugi er á: „Við kjósum einfaldari undirbúning og sleppum því pressunni sem fylgir bakstri og konfektgerð. Við gerum alveg smá en það er bara eftir tíma og löngun.“ Heimagert laufabrauð og piparkökur eru enn vinsæl og nokkur gera konfekt, en önnur kaupa þetta tilbúið í verslunum. Sérstaklega er talað um hjá fólki sem gerir laufabrauð að það sé skemmtileg hefð sem sé stunduð með stórfjölskyldunni. Þá virðist baksturinn líka stundum vera liður í því að eiga notalegar samverustundir: „Ég steiki laufabrauð með vinkonum mínum, baka sörur með bróður mínum, baka uppáhalds smákökur hvers og eins í fjölskyldunni, börnin mín baka piparkökur með ömmu sinni.“ Fastheldni í matarháttum Áberandi er hvað íhaldssemi og fastheldni virðist tengjast matarvenjum um jólin og þá aðfangadag sérstaklega. Á langflestum heimilum er allt í mjög föstum skorðum varðandi hvað borðað er og hvenær. Möndlugrautur er hjá flestum í hádeginu á aðfangadag og vegleg kjötmáltíð í aðalmáltíð. Möndlugrauturinn er þá annað hvort Ris a la mande eða grjónagrautur, í stöku tilfellum er talað um frómas með möndlu eða að mandlan sé falin í jólaís. Sá sem finnur möndluna fær svo yfirleitt einhverja gjöf: „Það var alltaf möndlugrautur þegar ég var yngri en núna er hefðbundinn grjónagrautur með falinni möndlu og gjöf sem er alltaf spil.“ Í öðru svari segir „Mikil spilling er í ákvörðunartöku á því hver fær möndluna og oft kom það fyrir að allir krakkar fengu möndlu í sínum graut.“
Sparifötin minna notuð en áður Yfirgnæfandi meirihluti svarenda er í sparifötum á aðfangadag, en algengt er orðið að skipt sé yfir í þægilegri fatnað eða náttföt eftir matinn eða þegar búið er að opna pakkana. Það er líka nokkuð algengt að á aðfangadag sé fólk prúðbúið, en á jóladag sé heimilisfólk í notalegheitum á náttfötum. Ein kona lýsir þessu svo: „Við klæðumst spariklæðnaði á aðfangadagskvöld, öll fara í sitt fínasta púss. Seinna um kvöldið þegar pakkabrjálæðið er gengið yfir fara krakkarnir í náttföt (sem Kertasníkir hefur oftast fært þeim) og samveran heldur áfram í stofunni. Þó ég klæðist spariklæðnaði á aðfangadagskvöld þá vil ég hafa hann þægilegan þar sem ég m.a. þarf að vinna ýmis eldhúsverk. Þá er ég t.d. ekki í hælaskóm.“ Einhver halda svokölluð náttfatajól og eru þá í náttfötum allan aðfangadag. Aðeins er talað um meira frjálsræði í fatnaði nú en áður. Fullorðin kona segir: „Já það hafa orðið breytingar á klæðnaði, mikið frjálslegra en var.“ Algengt virðist vera að keypt séu ný föt á börn en fullorðin noti það sem til er í skápunum. Aðeins er minnst á jólaköttinn í þessu tilliti. Ein kona segir: „Búin að nota sama jólakjól í mörg ár en keypti oft ný föt á árum áður. Börnin fengu alltaf eitthvað nýtt og við hjónin oft ný nærföt eða eitthvað. Jólakötturinn hefur misst allan mátt.“ Önnur passa sig þó betur eins og þessi kona: „Kaupi sokka til að fara ekki í jólaköttinn.“ Á síðustu 5 árum virðist jólapeysuhefð líka hafa rutt sér verulega til rúms á Íslandi. Yfirgnæfandi meirihluti svarenda eiga slíka peysu og nota hana mest á aðventunni eða í aðdraganda jólanna. Vinnustaðir og viðburðir virðast vera kjörið tækifæri til að skarta slíkri peysu. Í einu svari segir: „Ég fékk að gjöf í vinnunni jólapeysu og erum við öll í okkar peysum á föstudögum í vinnunni.“ Í einstaka svari eru jólapeysurnar meira að segja notaðar yfir hátíðina: „Við klæðum okkur öll í jólapeysu og náttbuxur á aðfangadag í stað sparifata. Guð blessi þá stund þegar sá siður var tekinn upp.“ Ekki eru þó öll jafn hrifin af þessum nýja jólapeysusið, ein kona segir: „Hef aldrei átt jólapeysu og það stendur ekki til að eignast svoleiðis furðuflík.“ Eru jólin hátíð húsmóðurinnar? Í nokkrum svörum kemur fram jafnræði og verkaskipting milli heimilisfólks þar sem öll leggja sitt af mörkum og hjálpast að. Það er samt miklu meira áberandi í svörunum að konur verkstýri jólaundirbúningnum og sjái um næstum alla skipulagningu. Jafnframt virðist ljóst að þær gera flest af því sem gera þarf til að undirbúa jólahátíðina, þrífa, baka og kaupa inn, pakka inn jólagjöfum og gera allt klárt. Karlarnir eru frekar til taks til að sinna verkefnum sem þeir eru beðnir sérstaklega um að sinna. Einnig hafa þeir ákveðin afmörkuð verkefni sem þeir sjá um, samkvæmt hefð sem skapast hefur, eins og til dæmis að sjá um útiljós og skreytingar eða þrífa bílinn fyrir jólin. Einnig sjá þeir oft um hluta af matargerðinni og stundum er matargerð og uppvaski á aðfangadag skipt milli kynjanna. Stundum kaupa karlarnir jólagjafirnar fyrir sína ættingja og konurnar fyrir sína. Í nokkrum tilvikum kemur fram að þeir hafi séð um að skrifa á jólakortin, en nú er sá siður að mestu leyti að leggjast af. Það vottar í svörunum fyrir dálítilli óánægju yfir þessari ójöfnu verkaskiptingu. Ein kona segir til dæmis: „Ég sem móðirin sé um nánast allt, það er hluti af þriðju vaktinni sem konum virðist ásköpuð. Ég get „beðið“ um hjálp en þarf að biðja um það. Það eina sem ég þarf ekki að gera eða úthluta sem verki er að kaupa gjöf handa sjálfri mér. Þetta er nánast hluti af jólastemmningunni – að hér gerist ekki neitt nema ég geri það.“ Í sögunni um Trölla sem stal jólunum, rænir hann öllum afrakstri jólaundirbúningsins, gjöfunum, jólatrénu, skreytingunum og matnum. Samt kom fólkið í Þeim-bæ saman og hélt gleðileg jól. Líklega hefði hann náð betri árangri með því að ræna verkstjóranum, áður en undirbúningurinn fyrir jólin hófst, húsmóðurinni á heimilinu. Án hennar framlags yrði sennilega lítið úr jólunum á mörgum heimilum. Karlkynið mætti greinilega taka dálítið meiri ábyrgð og standa sig betur við undirbúninginn í mörgum tilfellum. Í svörunum við þessari litlu könnun kemur fram ákall um það. Það er áhugaverð vangavelta hvort hér sé líka komin önnur skýring á hinu gríðarlega ójafna kynjahlutfalli í svörunum við þessum spurningalista. Þær sem svara virðast oftast vera verkstjórarnir við jólaundirbúninginn og kannski hafa þær einmitt þess vegna ákveðið að það væri líka þeirra hlutverk að setjast niður smástund og svara könnuninni. Drífa það af, rétt eins og öll hin verkefnin sem þarf að ljúka fyrir jólin. Heimildir: 318 svör við spurningakönnun um undirbúning jólanna, hefðir og breytingar. Í vörslu höfunda. HöfundarDagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|