Valentínusardagurinn kemur ár hvert með fargani rósa og hjartalaga gjafa. Daginn þennan þekkjum við helst í gegnum bandarískar kvikmyndir þar sem konur eiga á hættu að fá kvíðakast ef þær eru einar á þessum mikilvæga degi. Því við tengjum jú flestöll Valentínusardaginn við Bandaríkin, ekki satt? Við fussum sum yfir þessum Bandaríska sið sem virðist festa stöðugri rætur hér á Íslandi með hverju árinu sem líður. En hvað vitum við í raun um þennan dag, fyrir utan það sem dynur á okkur úr bandarískum miðlum? Hvað er fólk að gera á degi Valentínusar víðs vegar í heiminum? Valentínusardagurinn er, eins og flestir vita, kenndur við dýrlinginn Valentínus, en það sem er athyglisvert er að upphaflega var dagurinn og dýrlingurinn tengdur við vorið og frjósemi. Tengslin við ást og rómantík virðast í raun ekki birtast fyrr en á Englandi í lok 14. aldar í gegn um kveðskap Chaucer. Fleiri ljóðskáld tóku upp þennan sið á næstu árum og öldum, og þar með fór boltinn að rúlla og þróaðist út í þessa rómantísku hefð sem við þekkjum í dag. Valentínusardagurinn er haldinn hátíðlegur mjög víða, og skemmtilegt að kynna sér hefðir mismunandi landa. Hefðina frá Bretlandi og Bandaríkjunum þekkjum við best, og hún er mjög algeng í löndum sem hafa tekið daginn upp á síðari tímum, eins og á Íslandi. Sums staðar hafa þessar hefðir laumað sér inn í ástarhátíðir sem eiga sér aðra forsögu, eins og á Grikklandi og í Kína, og jafnvel rutt eldri hátíðum og hefðum algerlega til hliðar. Þá eru þau lönd sem fagna deginum á annan hátt en við könnumst við. Í Finnlandi og Eistlandi er Valentínusardagur til dæmis helgaður vináttu frekar en rómantík, og 25. janúar heiðra Walesverjar sinn sérstaka Valentínus, Sankti Dwynwen, sem er líka verndardýrlingur elskenda – en bara ef þeir eru velskir. Það er kannski skiljanlegt að sá hafi ekki orðið vinsæll annars staðar. Þar sem Valentínusardagurinn á rætur að rekja til kristindóms og vegna sterkra tengsla við Bandaríkin hefur útbreiðsla hans valdið höfuðverkjum margra andstæðinga vestrænna áhrifa. Á Indlandi hafa verið uppi mótmæli frá trúarlegum sem og pólitískum leiðtogum sem vilja hamla innleiðingu vestrænna gilda í samfélagið. Sama er uppi á teningnum í Rúmeníu þar sem dagurinn er gagnrýndur fyrir að vera yfirborðskenndur vestrænn siður og gegnsýrður neysluhyggju. Síðan árið 2006 hefur Félag íranskrar menningar reynt að bola burtu áhrifum Valentínusarhefðanna í Íran með því að hvetja fólk til halda frekar upp á persnesku hátíðina Spandarmazgan þar sem mæður og eiginkonur eru heiðraðar. Þá eru sum lönd þar sem íbúar leggja sig bókstaflega í hættu til að halda upp á daginn. Malasíubúar gengu skrefinu lengra en flestir aðrir árið 2011 þegar lögregla ruddist inn á hótel víða um landið til að hindra ung múslímsk pör í að stunda ólöglegt kynlíf og fyrir það að halda upp á Valentínusardaginn. Þá hafa Sádi-Arabar ekki bara bannað hátíðina, heldur alla sölu á rauðum hlutum í kring um 14. febrúar. En þeir eru með blómstrandi svartan markað í sölu rósa og umbúðapappírs. Neysluhyggjan er orðinn stór hluti af umstanginu í kringum Valentínusardag, en athyglisvert er að merkja að í Svíþjóð var dagurinn einna helst innleiddur fyrir tilstilli markaðssetningar blómasala. Þá eru landarnir í Singapúr methafar í eyðslu á þessum degi, en 60% þeirra segjast eyða milli 100$ og 500$ í kring um hátíðina. Þó við hérlendis tökum þennan dag kannski ekki jafn alvarlega og tíðkast í sumum löndum eru þó margir sem eru farnir að gera eitthvað sérstakt fyrir ástina sína á þessum degi. Svo lengi sem við göngum ekki svo langt að finnast við dæmd til ástleysis ef við erum ein á þessum degi (eins og Bandaríkjamenn) stefnum okkur í gjaldþrot (eins og Singapúrar) eða hættum á fangelsisvist með því að laumast um á svörtum rósamarkaði (eins og Sádi-Arabar), þá er sjálfsagt aldrei óhollt að tjá einhverjum ást sína. Hvort það þurfi endilega að gera það 14. febrúar er hinsvegar allt annað mál. Titilmynd er tekin af vefsíðunni http://kirannazish.wordpress.com/2011/02/14/valentines-day-vs-islam/ Um höfundinn:Fjóla Guðmundsdóttir
1 Comment
10/28/2022 03:35:30 pm
Indicate statement might order front. General training I too. Discussion sell behavior why.
Reply
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
January 2030
Flokkar
All
|