Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • 2022-2023
    • Eldri viðburðir
    • Myndir
  • Fréttir
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband

Þjóðfræðingur mánaðarins: Jón Jónsson

2/20/2019

0 Comments

 
Picture
Nafn: Jón Jónsson. Allir í minni ætt heita Jón. Þannig hefur það verið í mörg hundruð ár. Nema reyndar konurnar, þær heita sumar eitthvað annað, en eignast furðu oft maka sem heitir Jón. Það sérkennilega er að ég heiti ekki eftir neinum í ættinni, heldur manni sem er ekkert skyldur mér. Hann birtist foreldrum mínum ítrekað í draumi og vildi að ég fengi að heita Jón.
Útskriftarár: 1995 með BA í þjóðfræði og sagnfræði sem aukagrein og 2006 með MA próf í þjóðfræði. Ég var viðstaddur fyrri útskriftina, Valdimar Tr. Hafstein útskrifaðist á sama tíma. Svo var gríðarlegt partí heima hjá honum um kvöldið.

Lokaritgerð/ir: BA-ritgerðin mín heitir: Að hefna sín dauður, ef það hefst ekki fyrr. Trú á afturgöngur og hefndin í íslenskum draugasögnum. Ég man ekki lengur hvað MA-ritgerðin heitir, en hún var um förufólk. Ég skrifaði hjá Jóni Hnefli og Terry Gunnell. Þeir eru snillingar. Mæli með þeim. 
​
Fyrsta starf eftir útskrift og hvað ertu að gera núna?
Áður en ég kláraði BA-námið var ég kominn á kaf í vinnu við allskonar þjóðfræðiverkefni, m.a. nýsköpunarverkefnið Ferðaþjónusta & þjóðmenning sem ég vann að á tímabilinu 1995-1998. Svo var ég líka að gaufast í MA-námi í sagnfræði þessi sömu ár, en flosnaði svo upp úr því og stofnaði fyrirtækið Sögusmiðjuna sem vann að verkefnum tengdum sögu og þjóðfræði. Sögusmiðjan er ennþá til. Samhliða var ég svo að aulast við stundakennslu við HÍ, kenndi vinnulag í þjóðfræði og mannfræði, námskeið um íslenska sjávarhætti og svoleiðis krassandi stöff. Seinna varð ég menningarfulltrúi Vestfjarða í næstum áratug og núna hef ég síðustu 2 árin verið verkefnastjóri hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Það er skemmtileg vinna sem ég mæli með. Í þeirri vinnu er ég núna að brasa við að færa út kvíarnar og koma á laggirnar fjarvinnslustöð á Hólmavík við skráningu menningararfs.

Hver eru þín helstu áhugamál?
Þjóðfræðigrúsk er ofarlega á blaði og áhugaleiklistin er mér líka afskaplega mikilvæg og hugleikin. Mig dreymir um að slá í gegn. Ég myndi gera næstum hvað sem er. Svo skoða ég fugla og fer í gönguferðir á sumrin og tek mikið af myndum. Í vinnunni finnst mér skemmtilegast að lesa eldgamlar og illa skrifaðar dagbækur. Svo finnst mér gaman að setja upp alls konar sögusýningar, halda viðburði, taka þátt í gleðskap og vera með í hugmyndavinnu með góðu fólki. Mér finnst líka brjálæðislega áhugavert að fylgjast með tölulegum upplýsingum frá Hagstofu Íslands um byggðaþróun í landinu. Svo spila ég bridge af og til.

Hefurðu einhverja hjátrú sem þú brýtur aldrei gegn?
Held ekki, alla vega man ég ekki eftir mörgu slíku. En ég man heldur ekki margt þessa dagana. Það var samt eitt, ég vildi ekki undirbúa heimkomu barnanna minna af fæðingadeildinni, áður en þau kæmu heim. Vildi ekki setja upp vöggu eða gera herbergið klárt og svoleiðis hluti, fyrr en barnið væri mætt á staðinn.
0 Comments

Takk fyrir skemmtilegt Þorrablót

2/19/2019

0 Comments

 
Picture
Takk fyrir komuna!
​Þorrablót Félags þjóðfræðinga á Íslandi og Þjóðbrókar var haldið hátíðlegt síðastliðinn föstudag, þann 15. febrúar á Tunglinu. 

​Blótið var fjölmennt en á það komu rúmlega 80 manns þetta árið. ​

Þemað á Þorrablótinu var draugar og var salurinn skreyttur í samræmi við það. Í Þorrablótsnefndinni voru Ríkey Eydal Guðmundsdóttir, Anna Sóley Sveinsdóttir, Eva Karen Sigurðardóttir og Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson og stóðu þau sig með prýði. Það var mikið fjör á blótinu, góður matur, frábær skemmtiatriði, dansað og sungið. 
0 Comments

    Félag þjóðfræðinga á Íslandi

    Hér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á felagthjodfraedinga@gmail.com

    Færslur​

    October 2022
    August 2022
    September 2020
    June 2020
    May 2020
    April 2020
    March 2020
    February 2020
    January 2020
    December 2019
    November 2019
    October 2019
    September 2019
    August 2019
    May 2019
    April 2019
    March 2019
    February 2019
    January 2019
    December 2018
    November 2018
    October 2018

    Flokkar

    All
    Pistill
    Ráðstefnur
    Söfn
    Söfnun
    Viðburðir
    Þjóðfræði
    Þjóðfræðingur Mánaðarins

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • 2022-2023
    • Eldri viðburðir
    • Myndir
  • Fréttir
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband