Allar vorum við klæddar í íslenska þjóðbúninginn, ýmist peysuföt eða upphlut, og héldum svo heljarinnar veislu með vikivaka og öðru skemmtilegu undir stjórn Helgu Þórarinsdóttur í Þjóðdansafélaginu. Gestirnir höfðu orð á því að þeir hefðu aldrei farið í svona veislu áður og fannst mjög gaman. Sama ár útskrifaðist ég líka úr kennslufræði til kennsluréttinda og svo vorið 2019 með MIS gráðu í upplýsingafræði.
Lokaritgerð/ir: BA ritgerðin mín heitir Sagnir úr Mosfellssveit. Líkt og titillinn bendir til þá fjallar hún um sagnir úr Mosfellssveit. Þar skoðaði ég ýmsar sagnir er gerðust í eða tengdust Mosfellssveitinni sem ég fann í rituðum og munnlegum heimildum. Þær sagnir voru flokkaðar, heimildamenn skoðaðir ásamt þjóðtrúarverunum og tengslum lands og sagnar. Sumarið 2003 vann ég fyrir Sögufélag Kjalarnesþings að söfnun þessara sagna, sem hafði fengið styrk fyrir slíkri vinnu. Sú heimildaöflun nýttist mér í BA ritgerðina líka. Þessi vinna kom svo út í bókinni Mosalyng: Sagnir úr Mosfellssveit árið 2007. Síðan er það lokaritgerðin mín í upplýsingafræði. Þó að hún sé skrifuð út frá upplýsingafræðilegu sjónarhorni þá má greina þjóðfræðilegt yfirbragð á henni líka. Hún ber heitið „Ég hef vitað um arfleifð mína alla mína ævi.“ Vestur-íslenskur menningararfur. Ritgerðin greinir frá eigindlegri rannsókn sem ég gerði meðal Vestur-Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Markmið þeirrar rannsóknar var að skoða íslenskan menningararf Vestur-Íslendinga og athuga hverju hefur verið viðhaldið og hvernig honum hefur verið miðlað milli kynslóða. Fyrsta starf eftir útskrift: Kennari. Er með kennsluréttindi í grunn-og framhaldsskóla og hef kennt í grunnskóla síðan ég útskrifaðist 2004. Hvað ertu að gera núna: Ég geri nánast allt sem mér dettur í hug, sem hefur bæði sína kosti og galla. Kostirnir eru að ég fæst þá oft við verkefni sem mér finnst spennandi og áhugaverð en gallarnir eru aftur á móti að ég ögra sjálfri mér stundum fullmikið. Ég er enn að kenna í grunnskóla, er nú í vetur að kenna 1. bekk og sé einnig um skólabókasafnið. Síðan er ég líka að kenna jóga og er búin að gera það í nokkur ár. Ég er einnig sjálfboðaliði hjá samtökunum Icelandic Roots en þau samtök hafa það að markmiði að styðja við íslenska menningu og arfleifð. Þau halda úti sístækkandi íslenskum ættfræðigrunni og hjálpa frændfólki beggja vegna Atlantshafsins að tengjast, þ.e.a.s. Íslendingum og Vestur-Íslendingum. Hjá þeim er ég bókasafns-og upplýsingafræðingur og þýðandi. Ég er einnig í samfélagsmiðlateyminu og sé m.a. um að skrifa um þjóðfræðtengd málefni á Facebooksíðu þeirra. Síðan sé ég um Kvennahlaupið á Borðeyri árlega og hef gert síðan 2013 Hver eru þín helstu áhugamál: Mér finnst afskaplega gaman að kenna jóga. Hef gaman af því að ganga um hóla og hæðir, sauðfé er í miklu uppáhaldi og grunar mig að þar sé hrútfirska genið á ferð. Vestur-Íslendingar hafa líka verið mikið áhugamál lengi, eiginlega síðan ég var krakki held ég og ekki læknaðist ég af þeirri bakteríu eftir að hafa verið AFS skiptinemi í Saskatchewanfylki í Kanada um miðjan 10. áratug síðustu aldar. Ég hef að sjálfsögðu mikinn áhuga á þjóðfræði og tel ég mig sterkasta á sviði þjóðsagnafræðinnar. En það eru svo mörg áhugaverð svið innan þjófræðinnar og oft erfitt að velja úr eitthvað uppáhald; þar eru t.d. þjóðtrúarverur, þjóðsögur, draugar, nútíma þjóðsögur, fjölskylduþjóðfræði, túristabúðir, kirkjugarðar og ýmislegt fleira sem ég hef áhuga á. Við vinkonur mínar úr þjóðfræðinni, Júlíana Þóra Magnúsdóttir, Bryndís Reynisdóttir, Pálína Björg Snorradóttir, Guðrún Friðriksdóttir og Helga Einarsdóttir, höfum gaman af því að skoða það sem við köllum „facelore“. Það er efni sem birtist á samfélagsmiðlum eins og Facebook í tengslum við það sem er að gerast í samfélaginu. Við höldum úti þremur opnum Facebookgrúppum. Sú fyrsta er „Þjóðfræðisöfnun – Donald Trump,“ sem við hófum þegar hann var í kosningarbaráttu sinni og er sú grúppa mjög virk. Síðan er það „Þjóðfræðisöfnun – HM í fótbolta 2018“ en hún hefur verið lítið virk síðan þá. Sú þriðja er „Þjóðfræðisöfnun – Covid 19,“ sem var nýlega stofnuð og er mjög virk. Oft er sagt „einu sinni kennari, ávalt kennari“ sem að mínu mati er hverju orði sannara. Sömu sögu tel ég að megi segja um þjóðfræðinga, „einu sinni þjóðfræðingur, ávalt þjóðfræðingur.“ Hefurðu einhverja hjátrú sem þú brýtur aldrei gegn? Örugglega meiri en ég geri mér grein fyrir. Allavega er ég ekki mikið fyrir að storka örlögunum og segi iðulega 7-9-13 og banka í við þegar þess þarf. Einnig geng ég vel um stóra steina í náttúrunni, hver veit nema þar búi einhver. Ég opna ekki regnhlíf innandyra og finnst óþægilegt þegar ég sé það gert. Ég geng ekki undir stiga en ég tel það vera meira af öryggisástæðum en hjátrú. Ef ég er að flytja þá reyni ég alltaf að gera það á laugardegi, þó það sé ekki nema að fara með einn kassa. Þá hef ég byrjað flutningana á laugardegi og ekki skiptir máli hvenær restin af búslóðinni kemur. Einnig vil ég sofa fyrstu nóttina á nýju heimili annað hvort aðfaranótt laugardags eða sunnudags. Aftur á móti trúi ég ekki á ógæfu ef svartur köttur hleypur fyrir framan mig, annars væri ég í mjög vondum málum því mamma á kolsvartan kött sem hleypur oft fyrir framan mig.
0 Comments
** Athugið að viðburðinum hefur verið frestað **
Takið daginn frá því að fimmtudaginn 19. mars munu tveir þjóðfræðingar Alice Bower og Pétur Húni kynna efni nýlegra MA ritgerða sinna í Odda 106 í Háskóla Íslands kl. 17:30-18:30. Eins og við vitum öll eru ritgerðir í þjóðfræði einstaklega áhugaverðar og skemmtilegar og við hvetjum sem flesta til að koma og hlusta á kynningu á þessum áhugaverðu rannsóknum. Ágrip að fyrirlestrunum koma inn þegar nær dregur. Eftir kynningarnar munum við svo færa okkur yfir á Stúdentakjallarann og halda fjörinu áfram. Hlökkum til að sjá ykkur! |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
October 2024
|