Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • 2022-2023
    • Eldri viðburðir
    • Myndir
  • Fréttir
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband

Þjóðfræðingur fer á SIEF: Dagrún Ósk Jónsdóttir

4/23/2019

0 Comments

 
Picture
Nú í vikunni fyrir páska var 14. ráðstefnan á vegum SIEF (International Society of Folklore and Ethnology) haldin í borginni Santiago de Compostela á Spáni. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var Track Changes: Reflecting on a Transforming World. 
Það er auðvitað alltaf mjög gaman að ferðast, koma á nýja staði og upplifa nýja menningu, byggingar, siði, hefðir, mat og auðvitað veður. Við vorum svo mjög heppin með veðrið en þrátt fyrir að rigningu hafi verið spá alla dagana fengum við þó nokkuð af sól, ráðstefnuhaldarar höfðu fært nunnunum egg sem er þekktur brúðkaupssiður þar í landi til að hafa áhrif á veðrið fyrir stóra daginn. Þess vegna er sérstaklega gott að fara á þjóðfræðiráðstefnur, þar kunna menn öll trixin í bókinni!
​Santiago de Compostela er borgin þar sem Jakobsvegurinn endar, þar var því allt fullt af glöðum pílagrímum með bakpoka og göngustafi. Kirkjurnar í Santiago eru mjög tilkomumiklar og það var sérstaklega gaman að vera í borginni svona rétt fyrir páska þar sem borgarbúar fögnuðu svokallaðri Holy week með því að ganga í afar sérstökum búningum (sem má fræðast um hér) með líkneski um götur borgarinnar að næturlagi. 
Picture
Matarmenningin er líka mjög áhugaverð en þarna smakkaði fólk allt frá svínseyrum að kolkröbbum, borðaði tapas í öll mál og drakk vín. Þessi ferð verður líka lengi í minnum höfð vegna þess hve erfitt það var fyrir marga að komast á staðinn vegna sviptinga í flugi rétt fyrir ráðstefnuna (bæði vegna wowair og veðurs) og þetta voru raunar hálfgerðar pílagrímsferðir þrátt fyrir að enginn hafi endað á því að labba frá Keflavík. ​
Íslendingar létu það nú samt ekki stoppa sig og má segja að mætingin hafi verið ótrúlega góð. Um það bil 20 íslenskir þjóðfræðingar voru með erindi á ráðstefnunni en hópurinn frá Íslandi taldi í kringum 40 manns sem er frábært. Þetta er tiltölulega stór ráðstefna og ég heyrði einhversstaðar að heildartala gesta hefði verið í kringum 900 manns. 
Ráðstefnan stendur yfir í nokkra daga, dagskráin er þétt og það er margt um að vera svo allir ættu að geta fundið málstofu við sitt hæfi. Sjálf fór ég á málstofur um safnamál, þjóðsögur, þjóðfræði barna og samfélagsmiðla og instagrammara sem að var mjög áhugaverð og skemmtileg. 
Picture
Lokaviðburðurinn var svo sérstaklega skemmtilegur þegar að Barbara Kirshenblatt-Gimblett hélt erindi um hlutverk safna í breyttum heimi. Dorothy Noyes, Regina Bendix og Sharon Roseman bættust svo í hópinn og töluðu um hluti sem hafa sérstaka merkingu fyrir þær sem að var ótrúlega persónulegt og skemmtilegt.
Sief verður næst haldið í Helsinki í Finnlandi árið 2021. Ég hvet alla sem tök hafa á til að skella sér með á ráðstefnuna en þær eru ótrúlega mikilvægar, bæði til að kynnast fólki í fræðunum, heyra nýjar og spennandi hugmyndir og aðferðir og ræða sínar eigin hugmyndir og fá uppástungur og ábendingar. 
Dagrún Ósk Jónsdóttir, Formaður Félags þjóðfræðinga á Íslandi
Picture
0 Comments

Þjóðfræðingur mánaðarins: Júlíana Þóra Magnúsdóttir

4/18/2019

0 Comments

 
Picture
Nafn: Júlíana Þóra Magnúsdóttir

Útskriftarár: BA 2004, MA 2008. Þegar ég útskrifaðist í febrúar 2004 hélt ég upp á það ásamt tveimur öðrum nýútskrifuðum þjóðfræðingum, þeim Bryndísi Reynisdóttur og Þórdísi Eddu Guðjónsdóttur, með heljarinnar giggi uppi í Þjóðdansafélagi. Við vorum svaka flottar í þjóðbúningum og dönsuðum ásamt gestum okkar þjóðdansa undir styrkri stjórn Helgu Þórarinsdóttur. Myndin er frá þessari útskrift, ég var í peysufötum sem voru víst meiri spariföt en upphluturinn þótt þau séu ekki eins vinsæl í dag.

Lokaritgerð/ir: BA ritgerðin mín ber titilinn Sagnir milli sanda: Rannsókn á sögnum, sagnamönnum og þjóðtrú í Skaftárhreppi og fjallar eins og nafnið gefur til kynna um sagnamenningu í Skaftárhreppi þar sem ég er fædd og uppalin. Ég sá mikið eftir þeim titli þegar ég fór að halda framsögur um efni ritgerðarinnar því ég er pínu smámælt og ræð því illa við mörg S-hljóð í röð í töluðu máli. Ég var síðan búin að steingleyma þessu vandamáli þegar ég skilaði MA ritgerðinni minni um sama svæði haustið 2008 en hún ber titilinn Saga til næsta bæjar: Sagnir, samfélag og þjóðtrú sagnafólks frá Austurhéraði Vestur-Skaftafellssýslu. Fyrirlestrar um efni ritgerðanna hefðu sennilega orðið auðveldari ef ég hefði rannsakað matarmenningu í Múlasýslum svona þegar eftir á að hyggja. Ég hef líka tilhneigingu til að hafa titla á verkum mínum geysilanga, eins og Vestur-Skaftfellingum er tamt. Sem dæmi um þetta titlablæti Skaftfellinga má nefna hið ágæta rit Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar: Drög til lýsingar á íslensku þjóðlífi mótuðu af skaftfellskri náttúru sett fram í ritgerðum af 40 fulltrúum skaftfellskrar alþýðu sem út kom 1930.

Fyrsta starf eftir útskrift?: Eftir útskriftina 2004 hélt ég áfram að vinna á hóteli á Kirkjubæjarklaustri þar sem ég hafði unnið á sumrin allt BA námið. Haustið 2005 hóf ég síðan MA námið og var þá svo heppin að fá samþykkta námsdvöl við Berkeleyháskóla í Kaliforníu veturinn 2005-2006. Ég byrjaði því MA námið þar úti og lauk því síðan hér heima. Ég lauk meistaraprófinu í október 2008, í miðju hruninu, svo að þessir tveir atburðir eru alltaf samtvinnaðir í mínum huga. Haustið 2008 gerðist ég stundakennari í þjóðfræði og kenndi þá Vinnulag í þjóðfræði. Síðan hef ég kennt Íslenskar sagnir, þjóðtrú og samfélag frá árinu 2009 og Smíðaverkstæði BA ritgerða frá 2011. Auk þess hef ég nýtt þjóðfræðina í ýmsum verkefnum sem ég hef unnið sem tengjast sögu og menningu í Skaftárhreppi, svo sem gerð fræðsluefnis við ýmsar menningaminjar og fleira.

Hvað ertu að gera núna? Þessa dagana er ég í fæðingarorlofi en er annars í doktorsnámi í þjóðfræði. Ég er að rannsaka sagnamenningu íslenskra kvenna í torfbæjarsamfélaginu eins og hún birtist í hljóðritasafni Hallfreðar Arnar Eiríkssonar.

Hver eru þín helstu áhugamál?: Fyrir utan þjóðfræðina og ýmiskonar skylt grúsk hef ég mikinn áhuga á útivist og væri örugglega alltaf að ganga einhvers staðar á fjöllum eða að hjóla á fjallahjólinu ef ég hefði bara tíma og tækifæri til þess. Ég er líka alger fréttafíkill, get bara ekki byrjað á neinu verki á morgnana fyrr en ég er búin að skoða bæði stærri og smærri enskumælandi fréttasíður um víða veröld. Sem betur fer er ég þó ekki virk í athugasemdum á þessum síðum nema náttúrulega þegar skamma þarf nasista í Burma eða aðra óþokka sem hafa rangt fyrir sér á internetinu. Svo hef ég gríðarlegan áhuga á matargerð og mat og hefði sennilega orðið kokkur ef konum hefði almennt verið hleypt í það nám á tíunda áratug 20. aldar. Á þessum tíma var nánast útilokað fyrir konur sem ekki tengdust rekstraraðilum veitingastaða fjölskylduböndum að komast á samning. Þeim var ýtt kerfisbundið frá kokkanáminu, hugsanlega vegna einhverrar minnimáttarkennda eldri matreiðslumeistara gagnvart fyrirrennurum sínum, eldabuskunum. En ég er reyndar pínu þakklát fyrir þessa karlrembu í dag, því líklega hefði ég aldrei orðið þjóðfræðingur ef ég hefði farið í kokkanám.

Hefurðu einhverja hjátrú sem þú brýtur aldrei gegn?: Ég man ekki eftir neinni í svipin.


0 Comments

Litla SIEF þann 4. apríl

4/1/2019

0 Comments

 
Picture
Fimmtudaginn 4. apríl ætlum við að halda Litla SIEF í Odda 201 í Háskóla Íslands á milli kl. 16:30 - 19:30.

SIEF stendur fyrir International Society for Ethnology and Folklore á ensku og er litla SIEF undirbúningur fyrir stóra þjóðfræði ráðstefnu sem fer fram í Santiago de Compostela 14.-17. apríl.

Þann 4. apríl gefst frábært tækifæri til að hlusta á hluta þeirra íslensku fræðimanna sem ætla að flytja fyrirlestra eða kynningar í Santiago og fá innsýn í hvað nemar, þjóðfræðingar og aðrir fræðimenn á þessu sviði eru að rannsaka og fást við!

Málstofustjóri verður Kristinn Schram.

Dagskrá:

Fyrri hluti:

Downtown blues. Transformation of a city centre
-Snjólaug G. Jóhannesdóttir

Fornar leiðir fyrr og nú
-Bjarki Bjarnason

Facing the centre - whilst looking over your shoulder. A case study of the Faroese chain dance as a tourist attraction.
-Tóta Árnadóttir

Rebellious Women in Legends: Legends as a Reflection on Society and Values
-Dagrún Ósk Jónsdóttir

Kaffihlé
Félag Þjóðfræðinga býður uppá léttar veitingar og kaffi fyrir gesti

Seinni hluti

They are actualy real! Folklore, reality and affect
-Eva Þórdís Ebenezersdóttir

These people are just trying to make a warm home in our cold country
-Katla Kjartansdóttir

Planes, telephone wires and suicide mattress: fear, change and visions of the future in Icelandic 20th century folk narrative
-Alice Bower

Drifting Tracks: Human and non-human mobility on transartic and transnational shores
-Kristinn Schram

Við hlökkum til að sjá ykkur á fimmtudaginn!


0 Comments

    Félag þjóðfræðinga á Íslandi

    Hér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á felagthjodfraedinga@gmail.com

    Færslur​

    October 2022
    August 2022
    September 2020
    June 2020
    May 2020
    April 2020
    March 2020
    February 2020
    January 2020
    December 2019
    November 2019
    October 2019
    September 2019
    August 2019
    May 2019
    April 2019
    March 2019
    February 2019
    January 2019
    December 2018
    November 2018
    October 2018

    Flokkar

    All
    Pistill
    Ráðstefnur
    Söfn
    Söfnun
    Viðburðir
    Þjóðfræði
    Þjóðfræðingur Mánaðarins

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • 2022-2023
    • Eldri viðburðir
    • Myndir
  • Fréttir
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband