Stjórn Félags þjóðfræðinga á Íslandi vill koma eftirfarandi á framfæri. Við fordæmum framgöngu og stríðsglæpi ísraelskra stjórnvalda í Palestínu og lýsum yfir fullum stuðningi við palestínsku þjóðina og baráttu hennar fyrir tilverurétti sínum sem frjálsrar þjóðar. Tryggja verður virðingu fyrir grundvallarmannréttindum og mannúðaraðstoð. Þjóðfræði hefur sem fræðigrein átt í viðkvæmu sambandi við stjórnmálasviðið þar sem þjóðfræðiefni og jafnvel fræðimenn innan greinarinnar hafa tengst ógn og ofstæki vissra hópa í gegnum söguna. Sökum þess hefur fræðigreinin oft átt erfitt með að bregðast við aðstæðum sem þessum. Það er okkur, stjórn FÞÍ, hins vegar ljóst að við verðum á einhvern hátt að bregðast við. Það er ekki hægt að standa hjá! Halda verður staðreyndum á lofti og málflutningur sem ýtir undir þá hugmynd að um stríð tveggja jafn sterkra aðila sé að ræða, en ekki þjóðarmorð á palestínsku þjóðinni, firrir Ísrael ábyrgð og gefur ranga mynd af stöðunni. Þær hörmungar sem áttu sér stað í árásum Hamas á Ísrael í síðastliðnum mánuði voru hræðilegar en réttlæta ekki það sem nú á sér stað á Gaza svæðinu. Stjórn FÞÍ hvetur til upplýstrar umræðu. Orðræða sem á sér stað innan háskólasamfélagsins felur í sér vald og við verðum sem þátttakendur í henni að sýna kollegum okkar í Palestínu samstöðu, sýna því fræðafólki sem berst gegn ofbeldi og ofríki stjórnvalda í Ísrael samstöðu og samhug og halda áfram að beita okkur fyrir því að komið verði á varanlegu vopnahléi og lausn fundin á þjáningum palestínsku þjóðarinnar. Stjórn FÞÍ krefst þess að íslensk stjórnvöld fylgi eftir ályktun Alþingis um tafarlaust vopnahlé með skýrum hætti á alþjóðavettvangi. Þær hörmungar sem nú ganga yfir palestínsku þjóðina og hafa gengið yfir hana í áratugi kalla á afdráttarlaus viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Sem þátttakendur í fræðasamfélaginu hér á landi og erlendis teljum við það skyldu okkar sem stjórn FÞÍ að mótmæla þeim mannréttindabrotum sem nú eiga sér stað á Gaza og öðrum svæðum í Palestínu. Við viljum þó taka sérstaklega fram að hér tölum við fyrir okkur sjálf sem stjórnarmeðlimir FÞÍ en ekki fyrir alla félagsmenn FÞÍ! Vilji félagsfólk okkar styðja við þessa yfirlýsingu geta þau ritað nafn sitt hér undir! Stjórnarmeðlimir FÞÍ eru: Anna Karen Unnsteins Arndís Hulda Auðunsdóttir Eiríkur Valdimarsson Rakel Jónsdóttir Sandra Björg Ernudóttir Sigurlaug Dagsdóttir Við hvetjum félagsmenn okkar til að kynna sér eftirfarandi: Yfirlýsing starfsmanna við Háskóla Íslands: https://fyrirpalestinu.wordpress.com/?fbclid=IwAR0UxgfML91Qf6LxSm_zrgP3xc5BkqlB4TTkV9Ner-Tf7R5lN-WCPzvve6s Yfirlýsing frá Cultural Anthropology: https://journal.culanth.org/index.php/ca/catalog/category/war-on-palestine?fbclid=IwAR0GYDnG6ZKkERCyv-5QNZ9NLPgGIvNIiWe1aqHw8LSJkCnIBL2dvHUCh8Y Yfirlýsing frá Birzeit háskóla í Palestínu: https://www.birzeit.edu/sites/default/files/upload/open_letter_from_birzeit_university.pdf Yfirlýsing frá Landssamtökum íslenskra stúdenta: https://studentar.is/frettir-og-greinar/2023/11/21/yfirlsing-ls-vegna-strsreksturs-sraelskra-stjrnvalda-palestnu
7 Comments
|
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
September 2024
|