Fyrsta starf eftir útskrift?
Meðfram því að sækja um heillandi störf sem áttu sér snertifleti við þjóðfræðina skrifaði ég greinar í Kvennablaðið og hófst handa við að skrifa bækur. Hvað ertu að gera í dag? Þessa dagana er ég að byrja að máta við mig starfsheitið rithöfundur og er álíka feimin við þann titil eins og lærdómstitilinn þjóðfræðingur fyrst eftir útskriftina úr grunnnáminu. Ætli það gildi ekki um þessa fínu titla, eins og nöfnin okkar, að við þurfum tíma til að máta þau við okkur og kannski vaxa upp í þau? Mínar fyrstu bækur eru nú nýlega komnar út, barnabókin Jólasveinarannsóknin og skáldsagan Gríma, og meðfram því að fylgja þeim úr hlaði vinn ég að handritum sem vonandi verða að bókum á næstu árum. Hver eru þín helstu áhugamál? Bóklestur hefur alltaf verið mér mikilvægur og það minnkar ekki með aldrinum. Mér finnst fátt betra en hlamma mér niður með góða bók og það sakar ekki að hafa súkkulaðirúsínur í seilingarfjarlægð. Út af þessum sömu súkkulaðirúsínum reyni ég líka að vera hæfilega dugleg að hreyfa mig, skelli mér í ræktina eða í göngutúr, helst á flatlendi, en maðurinn minn dregur mig stundum með sér eitthvert upp í móti. Þar er útsýni oft gott. Ég á stóra fjölskyldu og undir þessum lið væri sígilt að svara því til að samvera með fjölskyldunni væri aðaláhugamálið (ásamt ferðalögum, (þá líklega með fjölskyldunni?)) og hvort sem er við hæfi að skilgreina fjölskylduna sem áhugamál eða ekki þá er mér að minnsta kosti mikilvægt að verja tíma með fólkinu mínu. Sonur minn sem situr hérna við hlið mér bætir því við að ég hafi líka mikinn áhuga á að skutla og að taka til. Þannig að þar hafiði það :) Hefurðu einhverja hjátrú sem þú brýtur aldrei gegn? … mjög margar og sumar þeirra sérkennilegar; svo sérkennilegar að þær eiga kannski fremur skylt við áráttuhegðun en „heilbrigða“ hjátrú. Í mínu daglega lífi er fjölmargt sem ég hef tamið mér að gera af því að ég tel það vissara - og fyrir því eru rök sem ég átta mig á að eru sérviskuleg en eru mér samt mikilvæg og veita vissa öryggiskennd. Svipað eins og að leggja inn gott orð eða biðja bænar. Af þekktum hjátrúarhefðum má nefna að mér þykja mánudagar óhentugir til ýmissa hluta, ég geng ekki undir stiga og breyti fyrirhugaðri göngu-eða akstursleið ef svartur köttur þverar veginn. Líka ef hann skáskýtur sér. Og mögulega líka þó hann sé alls ekki svartur… til að vera viss, sjáiði!
0 Comments
Fimmtudaginn 22. nóvember munu tveir þjóðfræðingar, Katrín Dröfn Guðmundsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir, kynna efni nýlegra MA ritgerða sinna í Odda 106 í Háskóla Íslands kl. 17:15-18:30. Eins og við vitum öll eru ritgerðir í þjóðfræði einstaklega áhugaverðar og skemmtilegar. Eftir fyrirlestrana munum við svo fara á Stúdentakjallarann og fá halda fjörinu áfram. Hlökkum til að sjá ykkur! Katrín Dröfn Guðmundsdóttir
Áhrif sundlauga: líðan, upplifun, hegðun Í erindinu fjalla ég um rannsókn og efni lokaritgerðar sem ég skrifaði í meistaranáminu mínu í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Efnistök ritgerðarinnar eru áhrifaþættir á líðan, upplifun og hegðun þeirra sem sækja sundlaugar á Íslandi. Sundlaugar hér á landi þjóna mikilvægu hlutverki í lífi þeirra sem sækja laugarnar reglulega. Afmarkaði ég rannsóknina við þann hóp sem fer í sund til að vera einn með sjálfum sér og upplifa oft á tíðum endurnærandi áhrif. Mun ég gera grein fyrir rannsóknarferlinu sem og lýsa helstu þemum ritgerðarinnar. Vilhelmina Jónsdóttir Meistararitgerðin „Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja – nýtt miðbæjarskipulag á Selfossi” fjallar um tilvist fortíðar í samtímanum. Ritgerðin byggir á eigindlegri rannsókn, aðallega djúpviðtölum sem tekin voru á tímabilinu október 2016 til desember 2017. Um er að ræða tilviksrannsókn þar sem nýju miðbæjarskipulagi á Selfossi eru gerð skil. Í tillögunni um nýjan miðbæ er fyrirhugað að endurgera ríflega þrjátíu hús sem áður stóðu víðs vegar um landið en brunnu, voru rifin eða eyðilögðust með öðrum hætti. Viðmælendur vörpuðu ljósi á með hvaða hætti fólk upplifir fortíðina og hvernig tengsl við hana verða til í gegnum úrvinnsluferli merkingarmyndunar. Efnisleg fyrirbæri, líkt og hús, eru ekki nauðsynleg í þessu ferli en geta verið sem tæki eða verkfæri í ferlinu. Fram komu ólík sjónarmið til sanngildis og þess hvort og með hvaða hætti tillagan um nýjan miðbæ á Selfossi ber fortíðinni trúverðugt vitni. Í viðhorfunum birtist mikilvægi þess að húsin sem fyrirhugað er að endurgera hefðu merkingarbæra sögn í hugum íbúa sem og að þau féllu að söguvitund þeirra og þekkingu. Fram kom með hvaða hætti sviðsetning á fortíðinni féll að sjálfsmynd bæjarbúa og hvernig hún hefði áhrif á ímynd bæjarins. Þá kom einnig fram mikilvægi þess að íbúar hefðu möguleika til að hafa áhrif á ákvörðunartöku um uppbyggingu á miðbænum sem og möguleika til áhrifa og umsköpunar. |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
September 2024
|