Í tilefni af þorranum ætlum við að fjölmenna á Atlavöku 8. febrúar næstkomandi. 11:30-13:00 laugardaginn 8. febrúar er námskeið í íslenskum þjóðdönsum sem Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Þjóðbrók ætla að fjölmenna á. Þetta er kjörin leið til að læra öll bestu sporin fyrir Þorrablótið sem er 14. febrúar. Einnig munu margir þjóðfræðingar mæta á Atlavöku um kvöldið svo endilega sláist í hópinn. Hvar: Í sal Þjóðdansafélags Reykjavíkur, að Álfabakka 14a (Mjóddin). Hvenær: 11:30-13:00 laugardaginn 8. febrúar Atlavaka er bráðskemmtileg þjóðlaga- og þjóðdansahátíð. Yfir daginn eru námsskeið í þjóðdönsum frá Finnlandi, Íslandi og Færeyjum. Um kvöldið er svo Atlavakan sjálf þar sem dansað er framm á nótt. Nánari upplýsingar um Atlavöku má finna hér eða með því að slá "Atlavaka 2020" inn í leitargluggan á Facebook.
Einnig eru upplýsingar um hópferðina að finna á viðburði FÞÍ á Facebook. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur þessa spennandi hátíð! Hlökkum til að sjá ykkur :D
0 Comments
Nafn: Rannveig Karlsdóttir Útskriftarár: 2014 Lokaritgerð/-ir: Meistararitgerð mín í þjóðfræði hét „Að prjóna saman samfélag. Hlutverk og gildi handverks eftir bankahrunið 2018“. Eins og nafnið ber með sér reyndi ég að rýna í ástæður þess og merkingu að þjóðin virtist gripin hálfgerðu handverksæði í þó nokkurn tíma eftir bankahrunið 2008. Þar áður hafði ég skrifað B.Ed. ritgerð við Háskólann á Akureyri. Fyrsta starf eftir útskrift: Starf á bókasafni Verkmenntaskólans á Akureyri, ásamt kennslu í íslensku við sama skóla. Ég ætlaði að fá vinnu á bókasafninu til að forðast kennsluna enda starfað sem grunnskólakennari í nokkur ár og taldi nóg komið. En kennslan togaði fast enda ótrúlega skemmtilegt starf. Hvað ertu að gera núna? Nú sinni ég eingöngu kennslu við VMA, er m.a. að prófa mig áfram með kennslu í þjóðfræðiáfanga undir hatti íslenskunnar. Hver eru þín helstu áhugamál? Fyrst og fremst lestur en ég slæ ekki hendinni á móti góðu púsluspili. Einnig hef ég óþrjótandi áhuga á fólki og því sem það tekur sér fyrir hendur. Því les ég oft fræðibækur um það sem vekur áhuga minn hverju sinni og sæki jafnvel ráðstefnur, bara til að halda mér við í fræðunum og njóta þess að vita meira í dag en í gær. Mér finnst til dæmis alltaf jafnskemmtilegt að fylgjast með Eurovision og spá í keppnina með þjóðfræðigleraugun uppi. Ég hef líka gaman að því að lesa og skoða ýmislegt í tengslum við samfélagsmiðla og notkun (ungs) fólks á þeim. Þess á milli dett ég í sögulegt grúsk enda gegni ég stöðu ritara hjá Sögufélagi Eyfirðinga. Eiginlega má segja að ég sé áhugamanneskja um áhugamál. Hefurðu einhverja þjóðtrú sem þú brýtur aldrei gegn? Nei, en ég á þó til að banka í tré og segja 7-9-13 þegar ég er of yfirlýsingaglöð eða glannaleg í fullyrðingum um eitthvað sem framtíðin ber í skauti sér. Þorrablót Félags þjóðfræðinga og Þjóðbrókar verður haldið föstudagskvöldið 14. febrúar 2020 í Akóges salnum að Lágmúla 4, á 3. hæð. Húsið opnar 18:00 og borðhald hefst 19:00. Það verður þorramatur, hátíðarmatur, víkivaki, gleði og skemmtun! Veisluþjónustan Soho mun sjá um veitingar og líkt og undanfarin ár verður þorramatur í forrétt. Í aðalrétt verður svo hunangs og salvíu og lime marineruð kalkúnabringa, kryddjurtamarinerað hægeldað lambalæri bérnaise og innbökuð hnetusteik Wellington fyrir grænkera. Í eftirrétt verður svo frönsk súkkulaði mousse terta með perum og vanillusósu. Á staðnum er enginn bar svo gestum er frjálst að hafa með sér eigin drykki. Miðaverð er 6500 kr. fyrir félaga í Þjóðbrók og Félagi þjóðfræðinga á Íslandi og 7500 kr. fyrir vini okkar utan félagana. Miðasalan hefst á þriðjudaginn 4. febrúar og verður hægt að kaupa miða í Háskóla Íslands á milli kl. 10-15 þriðjudag til föstudags. Einnig er hægt er að fylgjast með framgangi mála á Facebook. Takið daginn frá og við hlökkum til að sjá ykkur! Kallað er eftir erindum fyrir Landsbyggðarráðstefnuna 2020 sem haldin verður á Egilsstöðum 15.-17. maí. Yfirskrift og þema ráðstefnunnar eru Vegamót (nánari lýsing fyrir neðan). Áhugasamir eru beðnir að senda titil og stutt ágrip (200-300 orð) á netfangið [email protected] fyrir 1. mars næstkomandi. Öllum er frjálst að senda inn erindi og endilega hafið samband ef eru einhverjar spurningar. Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Minjasafn Austurlands standa að ráðstefnunni í samvinnu við fleiri aðila. Hlökkum til að sjá ykkur! Þema ráðstefnunnar Yfirskriftin Vegamót vísar til þess að á landsbyggðarráðstefnunni mætist fólk úr ólíkum áttum; fólk frá ólíkum landshornum, fólk úr ýmsum fræðigreinum, nemar á ýmsum stigum í námi, áhuga- og fræðafólk. Þar mætast líka ólík viðfangsefni, hugmyndir, aðferðir og nálganir, fortíð og nútíð og hinir ýmsu krókar og kimar mannlífsins. Vegamót standa líka fyrir hreyfanleika, ferðalög og breytingar. Þegar komið er að vegamótum er venjan að staldra við, horfa í kringum sig, kanna ólíka möguleika og jafnvel líta yfir farinn veg. Svo þarf að ákveða hvort breyta eigi um stefnu eða halda áfram á sömu leið. Yfirskriftin hefur svo einnig skemmtilega tilvísun til staðsetningar ráðstefnunnar á Egilsstöðum en þeir hafa í gegnum tíðina verið nefndir vegamót Austurlands. |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
September 2024
|