Nú er aldeilis margt á döfinni hjá Félagi þjóðfræðinga sem okkur langaði að deila með ykkur.
Föstudaginn 11. október verður Hrekkjavökufjör sem hefst á draugagöngu kl. 20:00 í Víkurgarði (Fógetagarðinum við Skúlabar). Þjóðfræðingurinn Björk Bjarnadóttir sér um draugasögurnar og eftir gönguna ætlar hópurinn svo í sal í Gamla garði þar sem fjörið heldur áfram og boðið verður uppá smá drykki og gotterí, en mjög þyrstum er ráðlagt að taka með nesti. Föstudaginn 18. október er svo á dagskránni heimsókn á glænýja örverusýningu á Hönnunarsafni Íslands kl. 16:00 og svo í beinu framhaldi æsispennandi súrdeigsmatarboð með Ragnheiði Maísól Sturludóttur þjóðfræðing og sýningarstjóra. Við vekjum athygli á því að nauðsynlegt er að skrá sig á þennan viðburð og takmörkuð pláss í boði, skráning fer fram hér: https://forms.gle/eyf4x4Xs9RJRmCF97 Þá er á döfinni eftirpartý fyrir Þjóðarspegilinn er hann fer fram þann 1. nóvember, nánari upplýsingar um það koma þegar nær dregur. Það er einnig gaman að segja frá því að búið er að velja stað og dagsetning fyrir næstu landsbyggðarráðstefnu, en hún mun fara fram í Þingeyjarsveit 26.-28. september 2025, í skipulagsnefnd eru Anna Karen Unnsteins og Sigurlaug Dagsdóttir og hlökkum við mikið til! Endilega fylgist með félaginu á Facebook síðu þess og við hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest í vetur!
0 Comments
Fimmtudaginn 12. september kl. 16:30 munu nokkrir þjóðfræðingar kynna efni nýlegra BA ritgerða sinna. Viðburðurinn verður í Háskóla Íslands, í Odda stofu 206.
Eins og við vitum öll eru ritgerðir í þjóðfræði einstaklega áhugaverðar og skemmtilegar og gefst hér einstakt tækifæri til að fræðast um margt á stuttum tíma. Þær rannsóknir sem kynntar verða eru:
Eftir Þjóðfræðigleraugun munum við svo færa okkur yfir á Stúdentakjallarann og halda fjörinu áfram þar. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest! Umsókn fyrir landsbyggðarráðstefnu Félags þjóðfræðinga haustið 2025 Haustið 2025 ætlar Félag þjóðfræðinga að halda landsbyggðarráðstefnu. Líkt og undanfarin ár langar okkur að fá þjóðfræðinga á landsbyggðinni okkur til aðstoðar og búa til landsbyggðarráðstefnunefnd sem myndi starfa með Félagi þjóðfræðinga við undirbúning, skipulag, samskipti á svæðinu og styrkumsóknagerð. Við mælum því með að að minnsta kosti tveir þjóðfræðingar sem eru tilbúnir til að taka áfram þátt í undirbúningsvinnu með okkur standi að uppástungu eða umsókn um stað fyrir ráðstefnuna. Umsóknarfresturinn er til 22. september og við hvetjum ykkur til að senda okkur tölvupóst á [email protected] og hafa samband ef þið eruð með einhverjar spurningar varðandi fyrirkomulagið og einnig til að skila inn uppástungum. Gott væri að taka fram:
Mynd frá Landsbyggðarráðstefnu á Egilsstöðum 2021
Skýrsla stjórnar FÞÍ um liðið starfsár, 2023-2024, flutt á aðalfundi félagsins 5. maí 2024 Starfsár Félags þjóðfræðinga á Íslandi 2023-2024 Ný stjórn FÞÍ tók við á aðalfundi 1. október 2023 á síðasta degi Landsbyggðarráðstefnu sem haldin var dagana 29.-1. október í Stykkishólmi. Ráðstefnan gekk vel með fjórtán fyrirlestrum, góðra skemmtana og góðum mat ásamt frábærum félagsskap að sjálfsögðu. Fyrsti viðburður nýrrar stjórnar var fyrirlestur Ciarán Ó Gealbháin, “Að heilla rottur: heimildir um rottuföngun í þjóðfræðisafni Írlands” sem var haldin í samstarfi við námsbraut í þjóðfræði, fimmtudaginn 26. október. Þjóðarspegillinn var haldinn föstudaginn 3. nóvember og bauð FÞÍ að sjálfsögðu til eftirpartýs hér á Rósenberg þar sem boðið var upp á drykki. Líkt og í fyrra var góð mæting og einstök stemming. Vikuna þar á eftir, fimmtudaginn 6. nóvember var haldið í Hafnafjörðin þar sem höfundar og myndstýra bókarinnar “Sund” sögðu frá gerð bókarinnar á kaffihúsinu Pallett. FÞÍ bauð upp á kaffi og sætar veitingar. Mæting var góð og áhugaverðar umræður sköpuðust um vinnslu bókarinnar. Fyrirlestraröð “ný”-útskrifaðra MA nema hélt áfram í lok nóvember þar sem Gunnar Óli Dagmararson, Sigurlaug Dagsdóttir og Sólja Av Skarði sögðu frá sínum ritgerðum í Eddu - Húsi íslenskunnar. Þar mætti fjöldi manns sem mörg héldu umræðum áfram á Stúdentakjallaranum eftir fyrirlestrana. Jólakósý FÞÍ var síðan haldið 5. desember á kaffihúsinu Pallett í Hafnafirði þar sem Vilborg Davíðsdóttir og Benný Sif Ísleifsdóttir sögðu frá nýjustu bókum sínum. FÞÍ bauð upp á kaffi og veitingar. Jólakósýið stóð undir nafni, það var fámennt en afskaplega góðmennt og kósý. Fyrsti viðburður ársins 2024 var Þorrablót Þjóðbrókar og FÞÍ laugardaginn 27. janúar í Akóges salnum. Þemað í ár var sund og stemmingin afbragðsgóð. 63 mættu á blótið og skemmtiatriðin og maturinn voru afbragð og kom okkur meira að segja í fréttirnar, “Óþjóðlegt þorrablót þjóðfræðinga” í Morgunblaðinu 22. janúar. 22. febrúar bauð FÞÍ til fyrsta viðburðar í viðburðaröðinni Gleði-fræða-stund. “Happy Haunted Hour” var haldinn hér á Rósenberg, þar sem Ólafur Rastrick og Snjólaug Jóhannesdóttir sögðu frá verkefninu Haunted: Heritage Attachment in the Urban Terrain. Viðburðurinn var einstaklega vel heppnaður þar sem fræðunum var steypt saman við óformlegri happy hour sem skilaði sér í frábærri mætingu og góðum umræðum. Þann 5. mars bauð FÞÍ í Etnóbíó þar sem sýndar voru fjórar þjóðfræðilegar heimildarmyndir. Skemmtilegur og fræðandi viðburður sem stefnt er að halda aftur á komandi starfsári. 25. mars var annar liður í Gleði-fræði-stund FÞÍ, þá undir heitinu “Meir-en-mennsk gleðistund” hér á Rósenberg, þar sem Katla Kjartansdóttir og Kristinn Schram sögðu frá nýlegum rannsóknum sínum á em snúa að samfléttun menningar og náttúru, sambandi mannfólks og dýra, með áherslu á lunda, ísbirni og geirfugla yfir drykkjum og samræðum. Það var síðasti viðburður fyrir aðalfund, en FÞÍ vakti reglulega athygli á alls kyns viðburðum sem félagsmenn gætu haft áhuga á, svo sem ráðstefnu um huldufólk og álfa í heimabyggð, Nafnaþingi og Vægi sögustaða og menningararfs í ferðaþjónustu á Íslandi. Kreddur, vefrit þjóðfræðinga birti einnig tvær greinar á líðandi starfsári, grein Theódórs Líndal Helgasonar, “Þjónar guða og manna - Birtingarmyndir hestsins í sögum fornaldar” í lok október og grein Jóns Jónssonar “Handskrifaða sveitarblaðið Dalbúinn” í lok nóvember. Í ritstjórn Kredda sátu Snjólaug G. Jóhannesdóttir, Ragnheiður Þórdís Jónsdóttir og Heiðrún Ágústsdóttir. Við vekjum athygli á að alltaf er hægt að senda inn greinar í Kreddur. Í byrjun nóvember hafði okkur borist til eyrna að þjóðfræði-jólabókaflóð væri yfirvofandi. Ákveðið var að gera “status” á Facebook síðu félagsins þar sem fólk gat sagt frá þjóðfræði bókum og bókum sem þjóðfræðingar gæfu út fyrir jólin. Ánægja virtist vera með statusinn og ljóst að engum þyrfti að leiðast um jólin miðað við úrval bóka. Þann 28. nóvember birti stjórn Félags þjóðfræðinga á Íslandi yfirlýsingu til stuðnings Palestínu. Fimm dögum fyrr hafði birsts innlegg á hópnum “Þjóðfræði og allskonar röfl” með orðunum “Það er kominn tími fyrir allt og alla að taka afstöðu núna - ekki síst og sérstaklega fræðasamfélagið!” og FÞÍ merkt við. Stjórn FÞÍ kom saman og fundaði um efnið, hvort og hvernig félagið eða stjórnin gæti tekið afstöðu. Niðurstaðan var að ekki væri hægt að taka afstöðu fyrir félagið, þar sem ekki væri hægt að boða til kosningu félaga og því ákveðið að stjórn FÞÍ myndi senda frá sér yfirlýsingu á vef félagsins, til stuðnings Palestínu. Hana má lesa á vefnum en er einnig útprentuð hér. Stjórn Félags þjóðfræðinga á Íslandi starfsárið 2023-2024 þakkar fyrir samveruna á líðandi starfsári og hlakkar til skemmtilegra og fræðandi viðburða á næsta starfsári. Stjórn Félags þjóðfræðinga á Íslandi vill koma eftirfarandi á framfæri. Við fordæmum framgöngu og stríðsglæpi ísraelskra stjórnvalda í Palestínu og lýsum yfir fullum stuðningi við palestínsku þjóðina og baráttu hennar fyrir tilverurétti sínum sem frjálsrar þjóðar. Tryggja verður virðingu fyrir grundvallarmannréttindum og mannúðaraðstoð. Þjóðfræði hefur sem fræðigrein átt í viðkvæmu sambandi við stjórnmálasviðið þar sem þjóðfræðiefni og jafnvel fræðimenn innan greinarinnar hafa tengst ógn og ofstæki vissra hópa í gegnum söguna. Sökum þess hefur fræðigreinin oft átt erfitt með að bregðast við aðstæðum sem þessum. Það er okkur, stjórn FÞÍ, hins vegar ljóst að við verðum á einhvern hátt að bregðast við. Það er ekki hægt að standa hjá! Halda verður staðreyndum á lofti og málflutningur sem ýtir undir þá hugmynd að um stríð tveggja jafn sterkra aðila sé að ræða, en ekki þjóðarmorð á palestínsku þjóðinni, firrir Ísrael ábyrgð og gefur ranga mynd af stöðunni. Þær hörmungar sem áttu sér stað í árásum Hamas á Ísrael í síðastliðnum mánuði voru hræðilegar en réttlæta ekki það sem nú á sér stað á Gaza svæðinu. Stjórn FÞÍ hvetur til upplýstrar umræðu. Orðræða sem á sér stað innan háskólasamfélagsins felur í sér vald og við verðum sem þátttakendur í henni að sýna kollegum okkar í Palestínu samstöðu, sýna því fræðafólki sem berst gegn ofbeldi og ofríki stjórnvalda í Ísrael samstöðu og samhug og halda áfram að beita okkur fyrir því að komið verði á varanlegu vopnahléi og lausn fundin á þjáningum palestínsku þjóðarinnar. Stjórn FÞÍ krefst þess að íslensk stjórnvöld fylgi eftir ályktun Alþingis um tafarlaust vopnahlé með skýrum hætti á alþjóðavettvangi. Þær hörmungar sem nú ganga yfir palestínsku þjóðina og hafa gengið yfir hana í áratugi kalla á afdráttarlaus viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Sem þátttakendur í fræðasamfélaginu hér á landi og erlendis teljum við það skyldu okkar sem stjórn FÞÍ að mótmæla þeim mannréttindabrotum sem nú eiga sér stað á Gaza og öðrum svæðum í Palestínu. Við viljum þó taka sérstaklega fram að hér tölum við fyrir okkur sjálf sem stjórnarmeðlimir FÞÍ en ekki fyrir alla félagsmenn FÞÍ! Vilji félagsfólk okkar styðja við þessa yfirlýsingu geta þau ritað nafn sitt hér undir! Stjórnarmeðlimir FÞÍ eru: Anna Karen Unnsteins Arndís Hulda Auðunsdóttir Eiríkur Valdimarsson Rakel Jónsdóttir Sandra Björg Ernudóttir Sigurlaug Dagsdóttir Við hvetjum félagsmenn okkar til að kynna sér eftirfarandi: Yfirlýsing starfsmanna við Háskóla Íslands: https://fyrirpalestinu.wordpress.com/?fbclid=IwAR0UxgfML91Qf6LxSm_zrgP3xc5BkqlB4TTkV9Ner-Tf7R5lN-WCPzvve6s Yfirlýsing frá Cultural Anthropology: https://journal.culanth.org/index.php/ca/catalog/category/war-on-palestine?fbclid=IwAR0GYDnG6ZKkERCyv-5QNZ9NLPgGIvNIiWe1aqHw8LSJkCnIBL2dvHUCh8Y Yfirlýsing frá Birzeit háskóla í Palestínu: https://www.birzeit.edu/sites/default/files/upload/open_letter_from_birzeit_university.pdf Yfirlýsing frá Landssamtökum íslenskra stúdenta: https://studentar.is/frettir-og-greinar/2023/11/21/yfirlsing-ls-vegna-strsreksturs-sraelskra-stjrnvalda-palestnu Senn líður að Landsbyggðarráðstefnu FÞÍ í Stykkishólmi 2023 og þess vegna tilvalið að auka aðeins á spennuna og birta titla erindanna 14 sem verða flutt helgina 29. september til 1. október í Hólminum fagra þar sem yfirskrift ráðstefnunnar í ár er "Á mótum heima". Í engri sérstakri röð verða erindin þessi: Dagrún Ósk Jónsdóttir: “Hún sagðist hvorki vilja eiga hann né nokkurn annan”: Hjónabönd, kvenleiki og kynjuð valdatengsl í íslenskum þjóðsögum. Vilborg Bjarkadóttir: Hvert líf heilsar og kveður með lykt Anna Karen Unnsteins: Á mörkum reglna: Eru þjóðbúningalöggurnar til? Rakel Jónsdóttir: Sjónhverfingar ruslatunna og sviðsetningar sorphirða Jón Jónsson: Hugmyndin um Sumarlandið Eiríkur Valdimarsson: Þraukað á þröskuldinum: Áhrif loftlagsbreytinga á hversdaginn Katla Kjartansdóttir: „Af hverju fæ ég ekki að kynna safnið mitt í sjónvarpinu?" Stutt greinagerð um Íslenska dýrasafnið Sigurjón Baldur Hafsteinsson: „I´ve seen it all now!“: Gestabækur Hins íslenzka reðasafns Þorvaldur Gröndal: Við þurfum að tala um tilfinningar... Áki Karlsson: Lyktarkort, lyktarminningar og lyktarsögur: Kortlagning skynjunar Kristinn Schram: Að leika sér að matnum: dýronískar matarhefðir á mörkunum Arndís Dögg Jónsdóttir: Innvíxluathafnir, jaðartími og íþróttir Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir: Öfgar í umræðum: af skógum og skaðræðiskvikindum Ragnheiður Maísól Sturludóttir: Tilfinningalegar örverur: Sjónræn rannsókn á ólíkum tengingum súrdeigsbakara við súrdegið sitt Erindunum verður skipt í tvær til þrjár málstofur, en enginn þarf að örvænta því þær verða ekki á sama tíma og öll geta þess vegna hlustað á alla fyrirlestrana. Skráning á ráðstefnuna er opin til 20. ágúst næstkomandi, hægt er að skrá sig hér: https://forms.gle/BLSR3SnPxhok4oyv5 Þriðjudaginn 18. október síðastliðinn héldu tveir nýútskrifaðir meistaranemar fyrirlestur um rannsóknir sínar á fyrirlestrinum Letur og langspil. Það voru þau Eyjólfur Eyjólfsson og Sigrún Sigvaldadóttir.
Við birtum hér nokkrar myndir af viðburðinum. Við þökkum fyrirlesurunum kærlega fyrir og öllum þeim sem komu og hlustuðu en bráðlega verður upptaka af fyrirlestrinum komin inná VIMEO þar sem hún verður aðgengileg fyrir félagsmenn/konur/kvár okkar. APA-legar heimildir og tilvísanir sem eru sérstaklega hannaðar fyrir þjóðfræðinga hafa verið uppfærðar og aðlagaðar til að falla að 7. og nýjustu útgáfu af APA heimildakerfinu. Eins og þið kæru þjóðfræðingar vitið mæta vel þá fellur þetta ágæta heimildakerfi ekki alltaf að okkar þörfum. Auk þess sem við gerum ýtarlegri kröfur um tilvísanir í heimildir en almennt er krafist innan kerfisins. Í APA-heimildakerfinu er þess t.d. ekki krafist að blaðsíðutal heimildar sé skráð í tilvísun nema um sé að ræða beina tilvísun. Innan þjóðfræðinnar er aftur á móti gerð sú krafa að skrá blaðsíðutal heimildar í tilvísunarsvigann.
Við undirritaðar fórum á stúfana og höfðum samband við nokkrar stofnanir sem geyma gögn sem við þjóðfræðingar notumst iðulega við í okkar gagnaöflun til að fá þá í lið með okkur og samræma skráningu á þessum sérstöku heimildum sem falla illa að APA-kerfinu. Í meðfylgjandi skjali finnið þið nýjustu uppfærslu af „sérstökum“ heimildaskráningum sem voru unnar í samvinnu við starfsfólk þessara stofnana. Við mælum með að þið vistið þetta ágæta skjal hjá ykkur og nýtið ykkur uppfærsluna við skráningu heimilda í skrifum ykkar. APA kerfið er lifandi vera sem er í stöðugri þróun og reglurnar ekki meitlaðar í stein heldur er þetta staðan eins og hún er í dag. Við munum gera okkar besta til að uppfæra og viðhalda okkar sérstöku tilvísunum eftir því sem APA-veran þróast, þroskast og dafnar. Skjalið má nálgast hér: apa_Þjóðfræðiáherslur_og_þarfir_2022.pdf Eva Þórdís Ebenezersdóttir, doktorsnemi í þjóðfræði Snjólaug G. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í þjóðfræði og kennari í Vinnulagi Óskum eftir samstarfi vegna Landsbyggðarráðstefnu Félags Þjóðfræðinga á Íslandi haustið 2023!8/28/2022 Stjórn FÞÍ auglýsir hér með eftir aðilum til samstarfs vegna Landsbyggðarráðstefnu Félags Þjóðfræðinga á Íslandi haustið 2023. Við höfum ákveðið að vegna SIEF vorið 2023 sé hentugast að ráðstefnan fari fram að hausti svo að ráðstefnuþyrstir þjóðfræðingar þurfi síður að velja á milli. Því hefur helgin 23. – 24. september 2023 orðið fyrir valinu sem viðmiðunartímasetning fyrir ráðstefnuna.
Nú óskum við eftir umsóknum frá þjóðfræðingum á landsbyggðinni sem vildu gjarnan fá ráðstefnuna í sína heimahaga. Eftir að valið hefur verið úr umsóknum verður skipuð landsbyggðarráðstefnunefnd sem starfar með stjórn FÞÍ að undirbúningi, skipulagi og styrkumsóknum. Við mælum því með að að minnsta kosti tveir þjóðfræðingar sameinist um umsóknir og séu tilbúnir að taka þátt í undirbúningsvinnu með okkur eftir að staður hefur verið valinn. Umsóknarfrestur er til 16. október 2022. Umsókn skal send í tölvupósti á [email protected]. Hægt er að hafa samband við okkur ef einhverjar spurningar vakna við gerð umsóknar á sama netfang. Á umsókninni þarf eftirfarandi að koma fram: 1. Umsóknaraðilar. 2. Bæjarfélag þar sem ráðstefnan yrði haldin. 3. Aðstaða. Þar er átt við aðstöðu til ráðstefnuhalds og einnig gistimöguleika á svæðinu. 4. Mögulegir styrkveitendur t.d. uppbyggingarsjóðir, styrkir frá sveitarfélagi, fyrirtæki o.fl. 5. Hugmyndir að afþreyingu utan ráðstefnuhalds s.s. safnaheimsóknir, gönguferðir, skemmtiatriði, matur og menning. 6. Vangaveltur um kostnað. Með þökk og tilhlökkun Stjórn FÞÍ
Hér er yfirlit yfir viðburði og störf félagsins starfsárið 2019-2020 í tilefni af Aðalfundi félagsins í september 2020 sem haldinn var í gegnum fjarfundarbúnaðinn zoom vegna covid19 (mikilvægar samhengis upplýsingar fyrir framtíðar þjóðfræðinga).
Félag þjóðfræðinga hóf starfsárið á Happy hour í september, enda alltaf gaman að hittast og spjalla saman og við játum að við hlökkum til þegar það verður aftur mögulegt að skella sér á gleðistund. Í september voru líka Þjóðfræðigleraugun 2019 þar sem 4 nýútskrifaðir þjóðfræðingar kynntu BA ritgerðir sínar, það var vel sóttur viðburður og vel heppnaður. Í október stóð félagið fyrir MA fyrirlestri og Björk Hólm hélt erindið Upplifun kvenna af öryggi í miðborg Reykjavíkur. Mjög áhugavert umfjöllunarefni. Þá var einnig skipulögð hópferð á listasýninguna ANDSPÆNIS í október þar sem Þrándur Þórarinsson tók á móti okkur en á sýningunni voru myndir hans og Hugleiks Dagssonar innblásnar úr íslenskum þjóðsagnaarfi. Í nóvember byrjun var eftirpartý Þjóðarspegilsins haldið á Skúla Craftbar sem orðið er árviss viðburður. Þá stóð félagið í samstarfi við námsbrautina fyrir fyrirlestri um hátíðir og menningararf í katalóníu og evrópu með Dr. Alessandro Testa og kvikmyndasýningu á myndinni Bosnian Muslim Women’s rituals eftir Catharinu Raudvere. Í desember var svo Jólagleðistund. Eftir áramót stóð til að hefja starfið á Álfagöngu með Bryndísi Björgvinsdóttur en þá tók hver appelsínugula- og rauða veðurviðvörunin við af annari og varð því miður að fresta göngunni. Við hlökkum til að eiga hana inni við gott tækifæri. Þá ákváðum við að skella okkur á janúar gleðistund (sem mér finnst þegar ég skrifa þetta orðnar ansi margar, en sakna þeirra aftur á móti líka). Í febrúar fór félagið í aðra hópferð nú á námskeið í íslenskum þjóðdönsum á Atlavöku. Þorrablótið alræmda var svo haldið með glæsibrag um miðjan febrúar og var vel sótt og mjög vel heppnað, þökkum við þorrablótsnefndinni fyrir störf sín við það! Í mars var viðburðum frestað vegna kórónuveirufaraldursins og MA fyrirlestrum var frestað um óákveðinn tíma. Í mars og apríl tók félagið formlega við veftímaritinu Kreddur og eldra efni var flutt yfir á vef félagsins. Ég nýti tækifærið hér til að hvetja öll sem luma á grein, pistil eða hugleiðingu til að senda inn efni og þakka þeim sem stóðu að tímaritinu á sínum tíma aftur fyrir frábæra framtakssemi og vel unnin störf. Í maí byrjaði félagið svo að nýta sér fjarfundarbúnað af fullum krafti og stóð fyrir fjarbarsvari á zoom sem Alice stjórnaði af mikilli snilli og í júní var rafviðburðurinn Húmor á viðsjárverðum tímum sendur út á zoom þar sem Kristinn Schram flutti erindi og Þórdís Edda Guðjónsdóttir sagði frá facebook hópnum þjóðfræðisöfnun covid-19. Nú á árinu fór líka gríðarleg vinna í undirbúning Landsbyggðarráðstefnu sem til stóð að halda um miðjan maí mánuð og var svo frestað til september og hefði átt að vera núna um helgina, en eins og öllum er kunnugt hafa aðstæður ekki beint verið æskilegar. Landsbyggðarráðstefnan hefur verið skipulögð á Egilsstöðum í samstarfi við Elsu Guðný Björgvinsdóttur og Eyrúnu Hrefnu Helgadóttur hjá Minjasafni Austurlands og hefur mikil vinna verið unnin svo auðvelt er að taka ráðstefnuna upp aftur og stefnum við á það nú aftur næsta vor og vonum innilega að það verði mögulegt. Við þökkum kærlega fyrir árið, þátttökuna og skemmtilegu stundirnar og hlökkum til að hittast fljótlega, rafrænt og í persónu! |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
October 2024
|