Í eftirfarandi umfjöllun verður sjónum beint að því samfélagi sem mótaði og varðveitti íslensk ævintýri. Litið verður til sagnaþula og hvernig fræðimenn hafa leitast við að tengja ævi þeirra og lífshlaup þeim sögum sem þeir tileinkuðu sér og miðluðu til annarra.
Í samfélagslegum þjóðsagnafræðum líta menn meðal annars til þess hvaða hlutverki sögur og sagnaskemmtun gegndu í samfélagi fyrri alda og hvaða gildi sögurnar gátu haft fyrir menningu tiltekinna svæða. Í þessu samhengi skiptir búseta heimildarmanna miklu máli og sér í lagi leitist menn við að rannsaka héraðs- og landshlutabundin einkenni þjóðsagna og með hvaða hætti þær laga sig að umhverfinu. Í þeirri rannsókn sem hér er kynnt verður litið til heimildarmanna þeirra ævintýra sem skráð voru í þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar (1819–1888), og landfræðilegrar dreifingar þeirra. Þetta verður þó ekki einungis gert í þeim tilgangi að kortleggja íslenska sagnamenn og búa þannig í haginn fyrir frekari samfélagslegar rannsóknir, heldur verður athugað hvort eitthvað bendi til þess að ævintýri hafi verið sögð á einu landsvæði fremur en öðru. Einkum verður þó dvalið við landsvæði þar sem fáir heimildarmenn bjuggu og spurt hvaða ástæður gætu hugsanlega legið að baki þeim mun sem virðist hafa verið á virkni sagnamennsku eftir landsvæðum. Sérstök áhersla verður lögð á að skoða byggðina umhverfis Breiðafjörð og útbreiðslu ævintýra þar um það leyti sem Jón Árnason stóð að þjóðsagnasöfnun sinni á 19. öld.
0 Comments
|
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|