Á fyrstu dögum kristninnar í Svíþjóð eimdi enn eftir af heiðnum siðum. Þegar lagður var grunnur að byggingu kirkna var hefð fyrir því að færa fórnir líkt og í heiðnum sið. Lifandi dýr var grafið þar sem altarið átti að standa. Dýrin sem voru grafin í þessum sið voru kölluð Kyrkogrim á sænsku og Church Grim á ensku. Oftast var um lömb að ræða en þau áttu að tákna Krist. Lambið varð á þann hátt að verndara kirkjunnar. Fólk átti þess helst kost að sjá lambinu bregða fyrir þegar engin messuhöld voru. Ef líkmenn kirkjugarðsins sáu lambið átti það að tákna dauða barns sem yrði næst grafið í garðinum (Thorpe, 1851). Út frá þessari hefð þróaðist einnig sú trú manna að fyrsta manneskjan sem grafin væri í nýjum kirkjugarði yrði vökumaður hans og myndi vernda garðinn gegn djöflinum og öðrum óvættum. Þegar fram liðu stundir þótti þetta hins vegar of mikil kvöð fyrir eina mannssál og til að bjarga henni frá slíkri ábyrgð var tekið upp á því að grafa lifandi svartan hund sem staðgengil hennar í norðurhluta garðsins (Briggs, 1976; Tongue, 1970). Sál svarta hundsins átti að ráfa um á lóð kirkjunnar og kirkjugarðsins og vernda svæðið fyrir þjófum, skemmdarvörgum, nornum, galdramönnum og djöflinum sjálfum. Var það talinn vera slæmur fyrirboði að sjá svarta hundinn, táknaði það jafnvel dauða manns. (Briggs, 1976). Svipaða hefð mátti finna í Skotlandi, en þar var trú manna sú að síðasta manneskjan sem væri grafin í kirkjugarðinum, ætti að gæta hans eða þar til næsta manneskja yrði grafin þar og svo koll af kolli (Campbell, 1900).
0 Comments
|
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |