Hvað var fyrsta starfið þitt eftir útskrift?
Ég gerðist aðstoðarkennari við HÍ þegar ég var enn í MA-námi. Ég hef síðan þá verið að kenna. Annað starf sem tók við eftir útskrift var að selja ís á Borough Market í London sem er matarmarkaður. Því miður er ástandið þannig í London að flestir sem voru að vinna við að selja osta og ís á þessum matarmarkaði voru með meistara- eða doktorspróf úr hug- eða félagsvísindum. Hvað ertu að gera í dag? Í dag er ég lektor við Listaháskóla Íslands og kenni tvo námskeið á haustönn: námskeið um sögur og sviðsetningar, og annað um listir og sjálfsmyndir. Ég er einnig að leiðbeina fjórum BA-ritgerðasmiðum sem allir eru að læra hönnun. Þau eru að skrifa um tyggjóklessur, sjónarhorn mannsins á náttúruna, dyra- og póstkassamerkingar og húmor í hönnun. Þetta eru allt verkefni þar sem þjóðfræðin kemur að góðu gangi. Í dag er ég samt aðallega að bíða eftir að bók mín og ljósmyndarans Svölu Ragnardóttir komi úr prentun. Hún heitir Krossgötur og er um álfatrú, alfabyggðir og bannhelga staði víða um landi. Við höfum verið að vinna í henni í fjögur ár. Það hefur verið mjög huggulegt að fá að dvelja svona lengi með álfum og álfasteinum, sérstaklega þegar ástandið er svona svart varðandi loftlagsmálin, þá getur þjóðfræðingur að minnsta kosti beitt sér fyrir því að óspillt náttúra fái að halda sér. Líklegast væri best ef öll óspjölluð náttúra væri séð sem bannhelg. Hver eru þín helstu áhugamál? Mitt helsta áhugamál er að drekka kaffi á Pallett kaffihúsinu í Hafnarfirði á meðan ég tek mér góðan tíma til að grúska í einhverju skrýtnu: gömlum fréttum eða bókum, timarit.is og ismus.is eru í miklu uppáhaldi. Svo finnst mér reyndar mjög gaman að vera með fjölskyldunni minni og fara með börnunum á róló, í sund eða í Fjölskyldugarðinn. Kannski finnst einhverjum það hljóma eins og lygi, en mér finnst til dæmis mjög gaman að róla aftur, nú á gamals aldri. Er einhver hjátrú sem þú brýtur aldrei gegn? Ég gæti ekki raskað ró álfa og ég á mjög erfitt með að stíga á grafir, þótt það sé stundum erfitt að forðast slíkt, eins og til dæmis á Fógetatorgi eða öðrum gömlum grafstöðum. Sagt er að London sé í raun einn stór kirkjugarður. Þannig að ... hvað veit maður?
0 Comments
Leave a Reply. |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
September 2024
|