Fyrsta starf eftir útskrift?
Ég vann í hlutastarfi sem móðurmálskennari í Malmö í Svíþjóð í eina önn. Síðan sótti ég um fullt af styrkjum fyrir alls konar verkefnum. Það vildi svo til að ég fékk þá nánast alla. Nú hef ég mig alla við til að lenda ekki undir neinum af snjóboltunum sem ég rúllaði af stað í upphafi árs og eru nú orðnir risastórir. Sendið mér styrk, kæru vinir! (Ekki fjárstyrk, andlegan styrk!) Hvað ertu að gera núna? Ég er tónlistarkona og vinn hörðum höndum að því að klára mína fyrstu sólóbreiðskífu undir nafninu rauður. Samhliða því starfa ég að uppbyggingu alþjóðlega, femíníska kollektívsins/stórveldisins Synth Babes, með höfuðstöðvar í Malmö. Markmiðið er að stuðla að meiri fjölbreytni og kynjajafnrétti innan raftónlistar, sem og almennt hvað varðar tækniþróun og nýsköpun í tónlistarbransanum. Við skipuleggjum t.d. tónlistarhátíðir og vinnusmiðjur og tökum þátt í alls konar spennandi samstarfsverkefnum. Og búum til tónlist! Samhliða þessu hef ég fyrir hönd samtakanna Stelpur rokka! verið að stýra stóru alþjóðlegu samstarfsverkefni rokkbúðasamtaka í Evrópu, “Music Empowerment Mobility and Exchange”, styrkt af Erasmus+. Við héldum risastórar alþjóðlegar rokkbúðir fyrir ungmenni í Berlín í sumar, og svo ráðstefnu fyrir skipuleggjendur í Belgrad í haust. Samhliða því er ég að vinna í námsefnisvef fyrir börn sem eru að læra íslensku, í gegn um menningu og samfélag. Það er kannski það þjóðfræðilegasta sem ég er að gera um þessar mundir. En í byrjun næsta árs ætla ég að skella í eina eða tvær greinar upp út meistararitgerðinni minni og fara á ráðstefnu í Santiago de Compostela! Hver eru þín helstu áhugamál? Flest allt hérna að ofan! En tónlist er líf mitt og yndi, og ég elska hljóðgervla og tónlistarforritið Ableton Live. Hef líka mjög gaman að börnunum mínum tveimur og til allrar hamingju elska þau líka tónlist. Við syngjum mikið og dönsum um eldhúsgólfið, sænsku nágrönnum okkar til ánægju og yndisauka. Horfum samt líka mjög mikið á Netflix. Hef líka áhuga á náttúru og útivist, og sakna íslenskrar náttúru, og svei mér þá jafnvel veðráttu, mjög mikið. Hefurðu einhverja hjátrú sem þú brýtur aldrei gegn? Nei. Í lífi mínu er engin svoleiðis regla, eintóm ringulreið og kaos. Þykist samt stundum hafa hjátrú til að virka dularfull og töff, en gleymi jafnóðum hvað það var.
0 Comments
Leave a Reply. |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
October 2024
|