Nafn: Júlíana Þóra Magnúsdóttir Útskriftarár: BA 2004, MA 2008. Þegar ég útskrifaðist í febrúar 2004 hélt ég upp á það ásamt tveimur öðrum nýútskrifuðum þjóðfræðingum, þeim Bryndísi Reynisdóttur og Þórdísi Eddu Guðjónsdóttur, með heljarinnar giggi uppi í Þjóðdansafélagi. Við vorum svaka flottar í þjóðbúningum og dönsuðum ásamt gestum okkar þjóðdansa undir styrkri stjórn Helgu Þórarinsdóttur. Myndin er frá þessari útskrift, ég var í peysufötum sem voru víst meiri spariföt en upphluturinn þótt þau séu ekki eins vinsæl í dag. Lokaritgerð/ir: BA ritgerðin mín ber titilinn Sagnir milli sanda: Rannsókn á sögnum, sagnamönnum og þjóðtrú í Skaftárhreppi og fjallar eins og nafnið gefur til kynna um sagnamenningu í Skaftárhreppi þar sem ég er fædd og uppalin. Ég sá mikið eftir þeim titli þegar ég fór að halda framsögur um efni ritgerðarinnar því ég er pínu smámælt og ræð því illa við mörg S-hljóð í röð í töluðu máli. Ég var síðan búin að steingleyma þessu vandamáli þegar ég skilaði MA ritgerðinni minni um sama svæði haustið 2008 en hún ber titilinn Saga til næsta bæjar: Sagnir, samfélag og þjóðtrú sagnafólks frá Austurhéraði Vestur-Skaftafellssýslu. Fyrirlestrar um efni ritgerðanna hefðu sennilega orðið auðveldari ef ég hefði rannsakað matarmenningu í Múlasýslum svona þegar eftir á að hyggja. Ég hef líka tilhneigingu til að hafa titla á verkum mínum geysilanga, eins og Vestur-Skaftfellingum er tamt. Sem dæmi um þetta titlablæti Skaftfellinga má nefna hið ágæta rit Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar: Drög til lýsingar á íslensku þjóðlífi mótuðu af skaftfellskri náttúru sett fram í ritgerðum af 40 fulltrúum skaftfellskrar alþýðu sem út kom 1930. Fyrsta starf eftir útskrift?: Eftir útskriftina 2004 hélt ég áfram að vinna á hóteli á Kirkjubæjarklaustri þar sem ég hafði unnið á sumrin allt BA námið. Haustið 2005 hóf ég síðan MA námið og var þá svo heppin að fá samþykkta námsdvöl við Berkeleyháskóla í Kaliforníu veturinn 2005-2006. Ég byrjaði því MA námið þar úti og lauk því síðan hér heima. Ég lauk meistaraprófinu í október 2008, í miðju hruninu, svo að þessir tveir atburðir eru alltaf samtvinnaðir í mínum huga. Haustið 2008 gerðist ég stundakennari í þjóðfræði og kenndi þá Vinnulag í þjóðfræði. Síðan hef ég kennt Íslenskar sagnir, þjóðtrú og samfélag frá árinu 2009 og Smíðaverkstæði BA ritgerða frá 2011. Auk þess hef ég nýtt þjóðfræðina í ýmsum verkefnum sem ég hef unnið sem tengjast sögu og menningu í Skaftárhreppi, svo sem gerð fræðsluefnis við ýmsar menningaminjar og fleira. Hvað ertu að gera núna? Þessa dagana er ég í fæðingarorlofi en er annars í doktorsnámi í þjóðfræði. Ég er að rannsaka sagnamenningu íslenskra kvenna í torfbæjarsamfélaginu eins og hún birtist í hljóðritasafni Hallfreðar Arnar Eiríkssonar. Hver eru þín helstu áhugamál?: Fyrir utan þjóðfræðina og ýmiskonar skylt grúsk hef ég mikinn áhuga á útivist og væri örugglega alltaf að ganga einhvers staðar á fjöllum eða að hjóla á fjallahjólinu ef ég hefði bara tíma og tækifæri til þess. Ég er líka alger fréttafíkill, get bara ekki byrjað á neinu verki á morgnana fyrr en ég er búin að skoða bæði stærri og smærri enskumælandi fréttasíður um víða veröld. Sem betur fer er ég þó ekki virk í athugasemdum á þessum síðum nema náttúrulega þegar skamma þarf nasista í Burma eða aðra óþokka sem hafa rangt fyrir sér á internetinu. Svo hef ég gríðarlegan áhuga á matargerð og mat og hefði sennilega orðið kokkur ef konum hefði almennt verið hleypt í það nám á tíunda áratug 20. aldar. Á þessum tíma var nánast útilokað fyrir konur sem ekki tengdust rekstraraðilum veitingastaða fjölskylduböndum að komast á samning. Þeim var ýtt kerfisbundið frá kokkanáminu, hugsanlega vegna einhverrar minnimáttarkennda eldri matreiðslumeistara gagnvart fyrirrennurum sínum, eldabuskunum. En ég er reyndar pínu þakklát fyrir þessa karlrembu í dag, því líklega hefði ég aldrei orðið þjóðfræðingur ef ég hefði farið í kokkanám. Hefurðu einhverja hjátrú sem þú brýtur aldrei gegn?: Ég man ekki eftir neinni í svipin.
0 Comments
Leave a Reply. |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
October 2024
|