Vefurinn er hluti af innleiðingu íslenska ríkisins á samningi UNESCO frá árinu 2003 um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs sem tók gildi hér á landi árið 2006. Nánar má fræðast um UNESCO samninginn á heimasíðunni.
Tilgangur og markmið vefsins er, í samræmi við markmið samningsins, að auka þekkingu á menningararfi og efla vitund um og virðingu fyrir ólíkri menningu. Vilhelmína segir að heilt yfir hafi vinnan við vefinn gengið mjög vel: „Ég kom til starfa í byrjun sumars og byrjaði á því að kynna mér samning UNESCO frá árinu 2003 mjög vel. Þegar maður leggur af stað í svona verkefni þá þurfa forsendur þess og markmið að vera ljós. Þá kynnti ég mér einnig þau sjónarmið og viðmunarreglur sem orðið hafa til innan UNESCO um framkvæmd samningsins og hafa mótast á þeim ríflega 12 árum sem liðin eru frá því að samningurinn öðlaðist gildi. Þetta eru afar mikilvæg grundvallarsjónarmið sem varða m.a. þátttöku hópa og samfélaga sem nauðsynlegt er að hafa að leiðarljósi við smíði á vef eins og þessum. Vefurinn sjálfur var smíðaður og hannaður af veffyrirtæki. Svo fólst megnið af minni vinnu í því að hafa samband við hópa, félagasamtök og einstaklinga sem voru áhugasöm um verkefnið og voru tilbúin til að miðla af þekkingu sinni. Þetta var tímafrekt en afskaplega gefandi og í leiðinni kynntist ég skemmtilegu fólki sem miðlaði þekkingu sinni.“ Vilhelmína segir samning UNESCO menningararfs afar mikilvægt framlag eða tæki varðandi menningararfsvörslu: „Samningurinn færir sjónarhornið frá hinu áþreifanlega og efnislega að hinu óáþreifanlega í menningunni. Þ.e.a.s. að handverki, kunnáttu og ýmisskonar iðkun sem í felst mikilvæg þekking sem kann að vera mikilvægt að viðhalda og varðveita. Í þessu samhengi má taka það fram að í varðveislu samkvæmt samningnum felst ekki að það eigi að frysta eða staðla hefðir. Þvert á móti er gengist við þeirri umsköpun og endursköpun sem á sér stað sem og þeirri fjölbreytni sem finnst innan hefðarinnar. Þetta þarf vefur um lifandi hefðir að endurspegla og því má segja að hann sé viðvarandi verkefni. Að mínu mati er mikilvægt að efla vitund og virðingu fyrir ólíkri menningu ýmissa hópa og er vefurinn framlag til þess. Þannig vonast ég til að hann geti orðið framlag til þess að skapa og efla gagnlegt samtal um menningararf, varðveislu og viðhald.“ En nú þegar vefurinn er kominn í loftið, hver eru þá næstu skref? „Nú liggur fyrir að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum mun halda áfram að annast þennan vef. Næstu verkefni lúta að því að halda áfram að kynna vefinn, markmið hans og tilgang. Ég sé fyrir mér ýmis sóknarfæri á því sviði. Þá þarf að halda áfram að laða að skráningar frá áhugasömum einstaklingum og félögum. Þá myndi ég segja að leggja þyrfti sérstaka áherslu á að ná til hópa nýrra Íslendinga og fá að kynnast hefðum sem þeir taka með sér frá heimalandinu og stunda hérlendis. Vefurinn hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð en það er mín tilfinning að mörg félagasamtök hafi hreinlega beðið eftir þessum vef. Ég vonast því til að hann fái að vaxa og dafna með þátttöku frá áhugasömu fólki og geti einnig orðið uppspretta skemmtilegra verkefna á sviði menningararfs,“ segir Vilhelmína að lokum.
0 Comments
Leave a Reply. |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
October 2024
|