Skýrsla stjórnar FÞÍ um liðið starfsár, 2023-2024, flutt á aðalfundi félagsins 5. maí 2024 Starfsár Félags þjóðfræðinga á Íslandi 2023-2024 Ný stjórn FÞÍ tók við á aðalfundi 1. október 2023 á síðasta degi Landsbyggðarráðstefnu sem haldin var dagana 29.-1. október í Stykkishólmi. Ráðstefnan gekk vel með fjórtán fyrirlestrum, góðra skemmtana og góðum mat ásamt frábærum félagsskap að sjálfsögðu. Fyrsti viðburður nýrrar stjórnar var fyrirlestur Ciarán Ó Gealbháin, “Að heilla rottur: heimildir um rottuföngun í þjóðfræðisafni Írlands” sem var haldin í samstarfi við námsbraut í þjóðfræði, fimmtudaginn 26. október. Þjóðarspegillinn var haldinn föstudaginn 3. nóvember og bauð FÞÍ að sjálfsögðu til eftirpartýs hér á Rósenberg þar sem boðið var upp á drykki. Líkt og í fyrra var góð mæting og einstök stemming. Vikuna þar á eftir, fimmtudaginn 6. nóvember var haldið í Hafnafjörðin þar sem höfundar og myndstýra bókarinnar “Sund” sögðu frá gerð bókarinnar á kaffihúsinu Pallett. FÞÍ bauð upp á kaffi og sætar veitingar. Mæting var góð og áhugaverðar umræður sköpuðust um vinnslu bókarinnar. Fyrirlestraröð “ný”-útskrifaðra MA nema hélt áfram í lok nóvember þar sem Gunnar Óli Dagmararson, Sigurlaug Dagsdóttir og Sólja Av Skarði sögðu frá sínum ritgerðum í Eddu - Húsi íslenskunnar. Þar mætti fjöldi manns sem mörg héldu umræðum áfram á Stúdentakjallaranum eftir fyrirlestrana. Jólakósý FÞÍ var síðan haldið 5. desember á kaffihúsinu Pallett í Hafnafirði þar sem Vilborg Davíðsdóttir og Benný Sif Ísleifsdóttir sögðu frá nýjustu bókum sínum. FÞÍ bauð upp á kaffi og veitingar. Jólakósýið stóð undir nafni, það var fámennt en afskaplega góðmennt og kósý. Fyrsti viðburður ársins 2024 var Þorrablót Þjóðbrókar og FÞÍ laugardaginn 27. janúar í Akóges salnum. Þemað í ár var sund og stemmingin afbragðsgóð. 63 mættu á blótið og skemmtiatriðin og maturinn voru afbragð og kom okkur meira að segja í fréttirnar, “Óþjóðlegt þorrablót þjóðfræðinga” í Morgunblaðinu 22. janúar. 22. febrúar bauð FÞÍ til fyrsta viðburðar í viðburðaröðinni Gleði-fræða-stund. “Happy Haunted Hour” var haldinn hér á Rósenberg, þar sem Ólafur Rastrick og Snjólaug Jóhannesdóttir sögðu frá verkefninu Haunted: Heritage Attachment in the Urban Terrain. Viðburðurinn var einstaklega vel heppnaður þar sem fræðunum var steypt saman við óformlegri happy hour sem skilaði sér í frábærri mætingu og góðum umræðum. Þann 5. mars bauð FÞÍ í Etnóbíó þar sem sýndar voru fjórar þjóðfræðilegar heimildarmyndir. Skemmtilegur og fræðandi viðburður sem stefnt er að halda aftur á komandi starfsári. 25. mars var annar liður í Gleði-fræði-stund FÞÍ, þá undir heitinu “Meir-en-mennsk gleðistund” hér á Rósenberg, þar sem Katla Kjartansdóttir og Kristinn Schram sögðu frá nýlegum rannsóknum sínum á em snúa að samfléttun menningar og náttúru, sambandi mannfólks og dýra, með áherslu á lunda, ísbirni og geirfugla yfir drykkjum og samræðum. Það var síðasti viðburður fyrir aðalfund, en FÞÍ vakti reglulega athygli á alls kyns viðburðum sem félagsmenn gætu haft áhuga á, svo sem ráðstefnu um huldufólk og álfa í heimabyggð, Nafnaþingi og Vægi sögustaða og menningararfs í ferðaþjónustu á Íslandi. Kreddur, vefrit þjóðfræðinga birti einnig tvær greinar á líðandi starfsári, grein Theódórs Líndal Helgasonar, “Þjónar guða og manna - Birtingarmyndir hestsins í sögum fornaldar” í lok október og grein Jóns Jónssonar “Handskrifaða sveitarblaðið Dalbúinn” í lok nóvember. Í ritstjórn Kredda sátu Snjólaug G. Jóhannesdóttir, Ragnheiður Þórdís Jónsdóttir og Heiðrún Ágústsdóttir. Við vekjum athygli á að alltaf er hægt að senda inn greinar í Kreddur. Í byrjun nóvember hafði okkur borist til eyrna að þjóðfræði-jólabókaflóð væri yfirvofandi. Ákveðið var að gera “status” á Facebook síðu félagsins þar sem fólk gat sagt frá þjóðfræði bókum og bókum sem þjóðfræðingar gæfu út fyrir jólin. Ánægja virtist vera með statusinn og ljóst að engum þyrfti að leiðast um jólin miðað við úrval bóka. Þann 28. nóvember birti stjórn Félags þjóðfræðinga á Íslandi yfirlýsingu til stuðnings Palestínu. Fimm dögum fyrr hafði birsts innlegg á hópnum “Þjóðfræði og allskonar röfl” með orðunum “Það er kominn tími fyrir allt og alla að taka afstöðu núna - ekki síst og sérstaklega fræðasamfélagið!” og FÞÍ merkt við. Stjórn FÞÍ kom saman og fundaði um efnið, hvort og hvernig félagið eða stjórnin gæti tekið afstöðu. Niðurstaðan var að ekki væri hægt að taka afstöðu fyrir félagið, þar sem ekki væri hægt að boða til kosningu félaga og því ákveðið að stjórn FÞÍ myndi senda frá sér yfirlýsingu á vef félagsins, til stuðnings Palestínu. Hana má lesa á vefnum en er einnig útprentuð hér. Stjórn Félags þjóðfræðinga á Íslandi starfsárið 2023-2024 þakkar fyrir samveruna á líðandi starfsári og hlakkar til skemmtilegra og fræðandi viðburða á næsta starfsári.
0 Comments
Leave a Reply. |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
September 2024
|