Hér er yfirlit yfir viðburði og störf félagsins starfsárið 2019-2020 í tilefni af Aðalfundi félagsins í september 2020 sem haldinn var í gegnum fjarfundarbúnaðinn zoom vegna covid19 (mikilvægar samhengis upplýsingar fyrir framtíðar þjóðfræðinga).
Félag þjóðfræðinga hóf starfsárið á Happy hour í september, enda alltaf gaman að hittast og spjalla saman og við játum að við hlökkum til þegar það verður aftur mögulegt að skella sér á gleðistund. Í september voru líka Þjóðfræðigleraugun 2019 þar sem 4 nýútskrifaðir þjóðfræðingar kynntu BA ritgerðir sínar, það var vel sóttur viðburður og vel heppnaður. Í október stóð félagið fyrir MA fyrirlestri og Björk Hólm hélt erindið Upplifun kvenna af öryggi í miðborg Reykjavíkur. Mjög áhugavert umfjöllunarefni. Þá var einnig skipulögð hópferð á listasýninguna ANDSPÆNIS í október þar sem Þrándur Þórarinsson tók á móti okkur en á sýningunni voru myndir hans og Hugleiks Dagssonar innblásnar úr íslenskum þjóðsagnaarfi. Í nóvember byrjun var eftirpartý Þjóðarspegilsins haldið á Skúla Craftbar sem orðið er árviss viðburður. Þá stóð félagið í samstarfi við námsbrautina fyrir fyrirlestri um hátíðir og menningararf í katalóníu og evrópu með Dr. Alessandro Testa og kvikmyndasýningu á myndinni Bosnian Muslim Women’s rituals eftir Catharinu Raudvere. Í desember var svo Jólagleðistund. Eftir áramót stóð til að hefja starfið á Álfagöngu með Bryndísi Björgvinsdóttur en þá tók hver appelsínugula- og rauða veðurviðvörunin við af annari og varð því miður að fresta göngunni. Við hlökkum til að eiga hana inni við gott tækifæri. Þá ákváðum við að skella okkur á janúar gleðistund (sem mér finnst þegar ég skrifa þetta orðnar ansi margar, en sakna þeirra aftur á móti líka). Í febrúar fór félagið í aðra hópferð nú á námskeið í íslenskum þjóðdönsum á Atlavöku. Þorrablótið alræmda var svo haldið með glæsibrag um miðjan febrúar og var vel sótt og mjög vel heppnað, þökkum við þorrablótsnefndinni fyrir störf sín við það! Í mars var viðburðum frestað vegna kórónuveirufaraldursins og MA fyrirlestrum var frestað um óákveðinn tíma. Í mars og apríl tók félagið formlega við veftímaritinu Kreddur og eldra efni var flutt yfir á vef félagsins. Ég nýti tækifærið hér til að hvetja öll sem luma á grein, pistil eða hugleiðingu til að senda inn efni og þakka þeim sem stóðu að tímaritinu á sínum tíma aftur fyrir frábæra framtakssemi og vel unnin störf. Í maí byrjaði félagið svo að nýta sér fjarfundarbúnað af fullum krafti og stóð fyrir fjarbarsvari á zoom sem Alice stjórnaði af mikilli snilli og í júní var rafviðburðurinn Húmor á viðsjárverðum tímum sendur út á zoom þar sem Kristinn Schram flutti erindi og Þórdís Edda Guðjónsdóttir sagði frá facebook hópnum þjóðfræðisöfnun covid-19. Nú á árinu fór líka gríðarleg vinna í undirbúning Landsbyggðarráðstefnu sem til stóð að halda um miðjan maí mánuð og var svo frestað til september og hefði átt að vera núna um helgina, en eins og öllum er kunnugt hafa aðstæður ekki beint verið æskilegar. Landsbyggðarráðstefnan hefur verið skipulögð á Egilsstöðum í samstarfi við Elsu Guðný Björgvinsdóttur og Eyrúnu Hrefnu Helgadóttur hjá Minjasafni Austurlands og hefur mikil vinna verið unnin svo auðvelt er að taka ráðstefnuna upp aftur og stefnum við á það nú aftur næsta vor og vonum innilega að það verði mögulegt. Við þökkum kærlega fyrir árið, þátttökuna og skemmtilegu stundirnar og hlökkum til að hittast fljótlega, rafrænt og í persónu!
0 Comments
Leave a Reply. |
Félag þjóðfræðinga á ÍslandiHér má finna allskonar skemmtilegar fréttir um viðburði, þjóðfræðinga, þjóðfræði og hvað sem er. Ef ykkur langar að koma einhverju á framfæri má senda fréttatilkynningar á [email protected] Færslur
September 2024
|