Af kellingum: Knattspyrna í hinsegin ljósi - Ólafur Ingibergsson og Valgerður Óskarsdóttir12/6/2013 „Og svo fékk hann olnbogaskot hérna á miðjunni sem hefði getað verið rautt spjald og ef það hefði verið í hina áttina hefðu þessar kellingar í hinu liðinu legið grenjandi eins og kellingar.“(1) Fyrir allnokkru spilaði íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu við hið portúgalska á Laugardalsvelli í undankeppni Evrópumótsins og tapaði. Úrslitin vekja litla undrun en eftirtektarverðari eru ummæli Hermanns Hreiðarssonar landsliðsmanns og fyrirliða hér fyrir ofan um mótherja sína í portúgalska liðinu, sem hann lét falla í viðtali við fréttamann RÚV eftir leikinn. Ummæli sem þessi eru ekkert einsdæmi þegar kemur að hópíþróttum karla. Orðfærið sem notað er virðist oft og tíðum helst miða að því að niðurlægja andstæðinginn og mestri niðurlægingu virðist náð með því að líkja andstæðingnum við konu (eða kellingu eins og Hermann orðaði það, líklega í tilraun til að láta það hljóma enn meira niðrandi). Eins og áður segir er þetta orðfæri ekkert einsdæmi og sumarið 2007 sungu Skagamörkin, stuðningssveit ÍA, um Íslandsmeistara FH (Fimleikafélag Hafnarfjarðar) í knattspyrnu: Það eru litlar stelpur í fimleikum. Segja má að í íþróttum læri strákar hegðun og karllæg gildi samfélagsins eins og keppni og seiglu, það að vinna hvað sem það kostar sem í okkar menningu þykir tákn um karlmennsku.(3) Þeir sem ekki stunda íþróttir eða þykja ekki miklir að vexti eru oft dæmdir stelpu-strákar, kerlingar eða hommar. Þjóðfræðingurinn Alan Dundes fjallar um karlaíþróttir í bók sinni From Game to War og staðhæfir að þrátt fyrir að íþróttir séu ólíkar innbyrðis þá eigi þær allar eitt sameiginlegt; takmarkið að draga úr karlmennsku andstæðingsins og þar með að sýna fram á eigin þrótt og karlmennsku með geldingu andstæðingsins. Keppendur í íþróttum sanna þannig sína karlmennsku með því að kvengera andstæðinginn.(4) Árið 1978 birti Dundes grein í tímaritinu Western Folklore undir titlinum „Into the Endzone for a Touchdown“. Í greininni fjallar Dundes um vísanir í samkynhneigð sem birtast í amerískum fótbolta. Hver sá sem horft hefur á heilan knattspyrnuleik hlýtur að hafa orðið vitni að klappi á rassa og innilegum faðmlögum og snertingum ýmiskonar þegar mörkum er fagnað. Það má vel sjá samlíkinguna á milli knattspyrnunnar sem við þekkjum og hins ameríska fótbolta enda sameiginlegt markmið beggja íþróttagreina að ná að brjóta á bak aftur andstæðinginn og skora við endamörkin. Dundes telur að í málfari iðkenda og áhangenda íþrótta megi greina kynferðislegar og samkynhneigðar vísanir og sem dæmi um það getur sögnin að skora (e. score), bæði í ensku og íslensku, einnig verið slanguryrði yfir að stunda kynlíf. Að sama skapi er oft talað um að „negla“ leikmann þegar boltinn er hirtur af honum sem hefur einnig augljósa skírskotun í kynlíf, samanber setninguna: „ég negldi þennan/þessa um síðustu helgi“. Sigurvegarinn sýnir svo fram á karlmennsku sína með því að „brjóta sér oftar leið“ (e. penetrate) aftur fyrir andstæðinginn til að „skora“. Andstæðingurinn hefur þar með „orðið undir“ eða „verið lagður“. Allt gefur þetta í skyn að markmið leiksins sé að koma andstæðingnum í stöðu hins undirlæga til að geta „skorað“ við „endamörk“ hans. Í ljósi þess að hvert lið berst gegn því að andstæðingurinn nái að „rjúfa“ eða „smjúga í gegn um“ vörnina til að „skora“ er ekki fjarri lagi að tala um táknræna nauðgun þegar það tekst. Að sama skapi hlýtur tilgangur varnarinnar að vera að gelda sóknarmenn andstæðinganna; sjá til þess að þeir „skori“ ekki þann daginn. Málfarið leiðir þar af leiðandi að því líkum að mati Dundes að sigurvegararnir séu karlmenn en þeir sem tapa séu konur eða samkynhneigðir.(5) En hvers vegna hverfa samfélagslegu normin sem koma í veg fyrir að karlmenn klappi félögum sínum vinalega á rassinn þegar þeir ganga inn á knattspyrnuvöllinn? Dundes telur að amerískur fótbolti sé í raun sviðsettur vettvangur þar sem leikmenn og aðdáendur geta á viðurkenndan hátt fengið útrás fyrir samkynhneigðar hvatir.(6) Það sama gildir um knattspyrnu miðað við það sem áður hefur verið sagt. En ekkert lið gengur inn á völlinn staðráðið í að láta andstæðinginn rjúfa vörn sína og skora fyrir aftan sig heldur hefur hugsað sér að gelda sókn hins liðsins og vonandi brjótast í gegnum vörnina og skora hinumegin. Því hljóta þessar hvatir að snúast um vald frekar en samkynhneigð. Íþróttir snúast, eins og önnur keppni, um að ná völdum, hafa yfirhöndina og beygja andstæðinginn undir vilja sinn. Kynferðisleg valdbeiting hefur verið sterkasta vopn karlmanna í gegnum tíðina til sýna vald sitt yfir öðrum og samkvæmt þessum rótgrónu hugmyndum verður vald, í keppni karlmanna, ekki betur sýnt en með því að koma andstæðingnum í kvenlæga stöðu.
Knattspyrna snýst því um að ná valdi yfir andstæðingi sínum sem er undirstrikað með táknrænni kynferðislegri valdbeitingu sem óumdeilanlega er samkynhneigð athöfn. En hvers vegna getur sigurvegarinn, sem kalla má hinn virka aðila í samkynhneigðu athöfninni, gengið frá henni með höfuðið hátt? Hvers vegna heldur hann karlmennsku sinni? Guðfræðingurinn Derrick Bailey hélt því fram í bók sinni Homosexuality and the Western Christian Tradition að feðraveldið hefði tekið þá afstöðu að leggja sérstaka skömm á þann mann sem tekur kvenhlutverk við samkynhneigðar samfarir. Samkvæmt aldagömlum hugmyndum skapaði Guð manninn æðri konunni og því var það ekki eingöngu skömm við manninn sjálfan heldur allt hans kyn ef hann þjónaði hlutverki konu kynferðislega.(7) Samkvæmt þessu heldur sigurvegarinn virðingu sinni vegna þess að hann þjónar enn sínu „náttúrulega“ hlutverki; hlutverki karlmannsins sem brýst inn fyrir vörnina og skorar. Landslið Portúgal gerði sér góða ferð til Íslands. Það lagði lið Íslands, rauf vörnina þrisvar sinnum, komst aftan að íslensku leikmönnunum og skoraði ítrekað. Þrátt fyrir að Kristján Örn Sigurðsson ætti góðan leik og negldi hvern Portúgalann á fætur öðrum kom allt fyrir ekki því portúgölsku varnarmönnunum tókst vel að gelda lið Íslendinga. Niðurstaðan var því sú að lið Portúgals sýndi sanngjarna kynferðislega yfirburði í leiknum og því hlutskipti Íslendinga að vera kellingar að þessu sinni eins og svo oft áður. Sama hvað Hermann Hreiðarsson segir. Þessi grein birtist fyrst á vefritinu Hugsandi.is: http://hugsandi.is/articles/af-kellingum-knattspyrna-i-hinsegin-ljosi/ Aftanmálsgreinar 1) „Landsleikur í fótbolta“, 12. október 2010. 2) „Söngvar Landsbankadeildarliðanna“, 3. október 2007. 3) Messner, Dunbar og Hunt, Sport in Contemporary Society: An Anthology, 106. 4) Dundes, From Game to War and Other Psychoanalytic Essays on Folklore, 27. 5) Dundes, „Into the Endzone for a Touchdown: A Psychoanalytic Consideration of American Football“, 85. 6) „Football as Erotic Ritual“, 13. nóvember 1978. 7) Bailey, Homosexuality and the Western Christian Tradition, 162. Heimildir „Landsleikur í fótbolta“, 12. október 2010. Sótt þann 27. október á: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4566818/2010/10/12/ „Söngvar Landsbankadeildarliðanna“, 3. október 2007. Sótt þann 27. október 2010 á: http://blogg.visir.is/tom/2007/10/03/songvar-landsbankadeildarli%C3%B0anna/ Messner, Michael A., Michele Dunbar og Darnell Hunt (2005). Sport in Contemporary Society: An Anthology. London. Paradigm Publishers. 106. Dundes, Alan (1997). From Game to War and Other Psychoanalytic Essays on Folklore. Lexington: University Press of Kentucky. 27.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|