Í steinhúsi við Suðurgötu er fólginn fjársjóður. Ekki fjársjóður af því taginu sem freistar þjófa og ræningja heldur fjársjóður af því taginu sem örðugt, eða ómögulegt, er að meta til fjár. Þannig fjársjóðir eru dýrmætari en aðrir. Það er kannski ekki öllum ljóst en í þessu tilfelli nógu mörgum. Í um fimmtíu ár, eða allt frá aldarafmæli Þjóðminjasafnsins, hafa starfsmenn á þess vegum leitast við að safna upplýsingum um líf og störf fyrri kynslóða Íslendinga. Hvort tveggja hafa skráningarmenn farið í eigin persónu og spjallað við fólk en oftast og aðallega eru spurningaskrár sendar til heimildarmanna safnsins; spurningaskrár um allskyns aðskiljanleg efni, allt frá sláturgerð og saumaskap til vegagerðar og Vesturheimsferða. En þrátt fyrir ólíkt inntak spurningalistanna er tilgangur þeirra einn og hinn sami; að heimta úr minni sögur af þjóð; færa þær úr glatkistu í gullakistu. Það er sá fjársjóður sem geymdur er við Suðurgötu 43. Þar er til húsa Þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands sem hýsir þúsundir svara, hundruða heimildamanna við hundrað og fimmtán spurningalistum.(1)
Spurningalisti 83a. sem ber heitið Matseljur og kostgangarar var sendur út árið 1993 og við honum bárust 34 svör karla og kvenna víðsvegar að af landinu, hvert svar gjarnan 2-3 blaðsíður að lengd. Á þessum síðum má fræðast um horfna stétt matselja og þiggjendur þeirrar þjónustu er þær veittu, en matseljur voru þær konur kallaðar er seldu fæði á heimilum sínum til svokallaðra kostgangara, en svo voru þeir nefndir er þáðu þennan kost. Þær matseljur sem hér er vísað til störfuðu á árunum 1930-1960. Með þjóðfélagsbreytingum varð starfsvettvangur karla í ríkari mæli fjarri heimilum og fjarri eldhúsum eiginkvenna og mæðra. Á þessum árum var hvorki algengt að karlmenn elduðu fyrir sig sjálfir né heldur var það raunverulegur kostur að borða á veitingastöðum og í mötuneytum, sér í lagi framan af. Nú í dag þegar flestar staðreyndir daglegs lífs eru settar fram í einhvers konar tölulegu samhengi eða meðaltali er freistandi að setja fram nokkurs konar staðalmynd af íslenskri matselju, því frávik í lýsingum á lífi og háttum matselja eru fá og tiltölulega smá. Af svörum heimildarmanna að dæma var hin íslenska matselja þessa tíma myndarleg húsmóðir á miðjum aldri, oft ekkja, og sameinaði í matseljustarfinu þörfina fyrir það að vera heima hjá börnum sínum og skapa sér tekjur.(2) Kostgangarar voru hinsvegar marglitari hópur en skýrasta breytan í þeirra hópi, eins og áður er getið, var kynið. Kostgangarar voru nánast eingöngu karlmenn og oftast einhleypir.(3) Í kaupstöðum úti á landi var stærstur hlutinn jafnan verkamenn,sjómenn og vertíðarmenn(4) en í höfuðborginni voru kostgangarar gjarnan verkamenn og iðnaðarmenn(5) en einnig alþingismenn,ráðherrar, skáld, kaupmenn, blaðamenn,(6) málarar,(7) lögmenn og eftir því sem leið á tímabilið jókst hlutfall nemenda, bæði úr menntaskólum, háskólanum, kennaraskólanum og stýrimannaskólanum.(8) Fjöldi kostgangara hjá hverri matselju var mjög mismunandi eða allt frá þremur, fjórum og upp í fimmtán og jafnvel tuttugu.(9) Heimildarmenn Þjóðminjasafns eru sammála um það að enginn hafi þurft að öfunda matseljur af launum þeirra. Launin hafi jafnvel einungis dugað fyrir fæði heimilisfólksins.(10) Nærri má geta að dagur matseljanna hefur verið langur og annasamur. Ef við miðum áfram við matseljuna sem móður og ekkju eins og áður er getið er ljóst að dagsverkin hafa verið mörg. Það þurfti að sinna börnunum og heimilisverkunum, versla inn, elda, baka, þjóna til borðs, vaska upp og smyrja nesti, því auk þess að vera með menn í fæði, í hádegi og á kvöldin, var algengt að þær útbyggju nesti. Í hádeginu voru menn því búnir út með smurbrauð, bakkelsi og kaffi á brúsa og á kvöldin sömuleiðis, með nesti til næsta morguns. Haldi svo einhver að þær hafi fengið frí um helgar er það mesti misskilningur því kostgangarar, líkt og aðrir, þurftu að borða alla daga vikunnar, virka jafnt sem helga – og sumir voru líka í mat á hátíðisdögum; páskum jafnt sem jólum.11 Heimildarmenn safnsins virðast á einu máli um það að fæði kostgangara hafi verið fjölbreytt, hollt og gott, snyrtilega fram borið og rausnalega veitt. Í boði var venjulegur heimilismatur þess tíma; kjötbollur, kjötsúpa, bjúgu, steiktur og soðinn fiskur, plokkfiskur, grjónagrautur, skyr og fleira. Meðlætið kartöflur, sulta, „pikles“, baunir og þess háttar.Um helgar var betri matur eins og til dæmis lambasteik. Í fæstum svörum er minnst á eftirmat en víðar minnst á bakstur og brauðgerð en það hefur þá líkast til verið nýtt að einhverju leyti í nesti.12 Nú til dags þegar oft heyrist talað um mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar er kvöldmatartíminn gjarnan nefndur til sögunnar sem heilög stund. Þar hittist heimilisfólk eftir átta til tíu tíma viðveru í leikskólum/skólum/vinnustöðum og sest niður við það sem oft er eina heimaeldaða máltíð dagsins (ef það!). Hjá matseljunum var þetta síðasta eldaða máltíð dagsins og nestið tilbúið til næsta dags en þær höfðu þó ekki tök á að setjast niður og njóta, því einhver varð að ganga um beina. Oftast borðuðu allir saman, kostgangarar og heimilisfólk, eins og ein stór fjölskylda – og matseljan þjónaði til borðs. Umræður urðu oft fjörlegar við matarborðið enda myndaðist kunningsskapur fljótt við þessar aðstæður. Umræðuefni var af ýmsum toga eins og við má búast, eftir stað og stund, stétt og stöðu, allt frá sjómennsku og aflabrögðum13 yfir í stjórnmál og lýðveldisstofnun.14 Matseljur nutu virðingar í samfélaginu, voru dugandi húsmæður sem opnuðu hús sín og hleyptu svöngum mönnum inn í hlýju heimilisins og kviknaði oft aðdáun og matarást hjá kostgöngurum til sinnar matmóður. Vísast hefur sú ást og aðdáun verið bæði stigs- og eðlisólík, oftast líklega hrein og klár matarást en stundum eitthvað annað og meira. Leiðin að hjarta mannsins liggur í gegnum magann segir þekkt máltæki og voru matseljur því í oddaaðstöðu ef þær höfðu hug á að ná alla leið að hjarta kostgangara sinna. Kannski var meðvitaður tilgangur ekki sá en sú varð allavega stundum raunin.15 Matseljur voru jú, eins og komið hefur fram, oft ekkjur og þegar heimilið var hálffullt af kostgöngurum, sem oftast voru einhleypir karlar, voru kjöraðstæður fyrir hendi til myndunar rómantískra sambanda. Um daginn heyrði ég af árangurslausri leit konu af eiginmannsefni, leit sem hafði staðið yfir í mörg ár og leitt hana inn á ótal bari og upp á allmörg fjöll. Hún hafði auglýst á einkamálasíðum og gengið í allskyns klúbba og félög í þeirri von að hitta yndislegan, einhleypan mann en ekkert gekk. Ég skynjaði að þetta var hálfgerð sorgarsaga og langaði að leggja eitthvað gott til málanna; skyldi hún kannski vilja íhuga að gerast matselja og halda kostgangara? En að öllu gamni slepptu. Matseljur voru vandar að virðingu sinni og þær sem voru einstæðar eða ekkjur voru meðvitaðar um sína félagslegu stöðu og vildu gæta að mannorði sínu með tilliti til þess að karlmenn gengu inn og út úr þeirra húsum alla daga. Þær matseljur sem áttu ungar dætur gættu þess jafnvel að halda einungis kostgangara á miðjum aldri til að koma í veg fyrir hugsanlegan samdrátt.16 Það voru þó ekki allar matseljur í sömu stöðu sem hugsuðu fyrir því og gárungarnir göntuðust með það að vinsælt væri hjá ungum skólapiltum að gerast kostgangarar hjá ónefndri ekkju sem átti nokkrar bráðfallegar dætur.17 Ekki fylgdi sögunni hvort einhverjum kostgangaranna tókst að vinna hjarta þessara huggulegu dætra en hinsvegar get ég sagt ykkur sögu af tveimur guðfræðikandídötum sem voru kostgangarar hjá ekkju í Reykjavík. Konan sú átti tvær fallegar dætur og þegar guðfræðikandídatarnir tóku vígslu um vorið tók hvor sína dótturina með sér.18 Eitthvað hafa þeir því haft hugann við fleira en guðsorðið um veturinn, blessaðir. Nú rúmri hálfri öld eftir blómaskeið matselja telst til tíðinda ef eldað er í heimahúsi einu sinni á dag. Því er jafnvel slegið upp á forsíðum tímarita og með fylgir hástemmd lýsing á verslunarferð í Melabúðina, nákvæm útlistun á nýjustu eldhúsgræjunum og því hvernig allir fjölskyldumeðlimir safnast saman við matarborðið og njóta gæðastunda. (Hugtak gjarnan notað til að lýsa fæð samverustunda). Það fer ekki hjá því að ég fyllist lotningu þegar ég hugsa til þessara fyrrum matselja sem stóðu í eldhúsinu daga langa yfir eldamennsku og uppvaski, án flestra þeirra nútímaþæginda sem nú prýða minna notuð eldhús. Á þessum tíma voru hóflegri kröfur gerðar til lífsins. Matseljurnar okkar, oft ekkjur, unnu heiðarlega vinnu og sameinuðu með henni tekjuöflun og samveru með börnunum. Það þótti virðingarvert þá… Aftanmálsgreinar: 1) Spurningalistana sjálfa má sjá á eftirfarandi slóð, en svörin eru einungis aðgengileg á Þjóðháttasafninu, Suðurgötu 43, svo og á byggðasöfnum landsins http://www.thjodminjasafn.is/minjar-og-rannsoknir/thjodhattasafn/rannsoknir/spurningalistar/ 2) Skrá 83a. Matseljur og kostgangarar. 3) Sama. 4) Sjá t.d. ÞÞ 11036 og ÞÞ 11010 5) ÞÞ 11187 6) ÞÞ 11187. 7) ÞÞ 10956. 8) ÞÞ 11189 og ÞÞ 11187. 9) Einn heimildarmaður nefnir 20-30 kostgangara en sú matselja var þá með aðstoðarkonu ÞÞ 11025. 10) Skrá 83a. Matseljur og kostgangarar. 11) ÞÞ 11187 og ÞÞ 11036. 12) Skrá 83a. Matseljur og kostgangarar. 13) ÞÞ 11036. 14) ÞÞ 11032. 15) ÞÞ 11187. 16) Sama. 17) ÞÞ 11189. 18) ÞÞ 10986. Heimildaskrá: Óprentuð gögn á þjóðháttasafni Þjóðminjasafns. Skrá 83a. Matseljur og kostgangarar ÞÞ 10956, kk, f. 1908, Gullbringusýsla. ÞÞ 10966, kk, f. 1901, Gullbringusýsla. ÞÞ 10977, kvk, f. 1916, Gullbringusýsla. ÞÞ 10986, kk, f. 1900, Gull. Snæf. ÞÞ 11010, kk, f. 1911, Vestmannaeyjar. ÞÞ 11025, kvk, f. 1929, N-Þingeyjarsýsla. ÞÞ 11029, kk, f. 1918, Reykjavík. ÞÞ 11032, kk, f. 1919, Gullbringusýsla. ÞÞ 11036, kk, f. 1951, Reykjavík. ÞÞ 11037, kk, f. 1912, S-Múlasýsla. ÞÞ 11061, kk, f. 1904, Gullbringusýsla. ÞÞ 11189, kk, f. 1910, Reykjavík. ÞÞ 11191, kvk, f. 1908, N-Múlasýsla. Titilmynd tekin úr: Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, Matseljur og kostgangarar í Reykjavík. Ný saga: Tímarit Sögufélags, 11, 1999, 22: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5364151
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |