Á fyrstu dögum kristninnar í Svíþjóð eimdi enn eftir af heiðnum siðum. Þegar lagður var grunnur að byggingu kirkna var hefð fyrir því að færa fórnir líkt og í heiðnum sið. Lifandi dýr var grafið þar sem altarið átti að standa. Dýrin sem voru grafin í þessum sið voru kölluð Kyrkogrim á sænsku og Church Grim á ensku. Oftast var um lömb að ræða en þau áttu að tákna Krist. Lambið varð á þann hátt að verndara kirkjunnar. Fólk átti þess helst kost að sjá lambinu bregða fyrir þegar engin messuhöld voru. Ef líkmenn kirkjugarðsins sáu lambið átti það að tákna dauða barns sem yrði næst grafið í garðinum (Thorpe, 1851). Út frá þessari hefð þróaðist einnig sú trú manna að fyrsta manneskjan sem grafin væri í nýjum kirkjugarði yrði vökumaður hans og myndi vernda garðinn gegn djöflinum og öðrum óvættum. Þegar fram liðu stundir þótti þetta hins vegar of mikil kvöð fyrir eina mannssál og til að bjarga henni frá slíkri ábyrgð var tekið upp á því að grafa lifandi svartan hund sem staðgengil hennar í norðurhluta garðsins (Briggs, 1976; Tongue, 1970). Sál svarta hundsins átti að ráfa um á lóð kirkjunnar og kirkjugarðsins og vernda svæðið fyrir þjófum, skemmdarvörgum, nornum, galdramönnum og djöflinum sjálfum. Var það talinn vera slæmur fyrirboði að sjá svarta hundinn, táknaði það jafnvel dauða manns. (Briggs, 1976). Svipaða hefð mátti finna í Skotlandi, en þar var trú manna sú að síðasta manneskjan sem væri grafin í kirkjugarðinum, ætti að gæta hans eða þar til næsta manneskja yrði grafin þar og svo koll af kolli (Campbell, 1900). Vökumenn í þjóðsögum ÍslendingaÍ þjóðsögum Jóns Árnasonar má finna stutta lýsingu á vökumönnum. Þeir sem voru fyrst grafnir í kirkjugörðum fengu það hlutverk að gæta garðsins og taka á móti þeim sem síðar yrðu grafnir þar. Vökumenn rotnuðu ekki og þegar sást til þeirra voru þeir ýmist í rauðum eða grænum fötum. Þóttu þeir ófrýnilegir ásýndum og ekki var talið heppilegt að grafa ástvini sína nálægt leiði vökumanna því þar væri litla ró að finna. Í Görðum á Álftanesi átti að grafa lík og komu líkmennirnir niður á órotinn og rauðklæddan mann sem talinn var vera vökumaður garðsins. Hætt var við að taka gröfina og hefur enginn verið grafinn nálægt þessu svæði síðan (Jón Árnason, 1954). Guðrún vökumaðurHólavallagarður var tilbúinn til notkunar árið 1838 en stóð grafarlaus í einhvern tíma. Vandinn var tvíþættur. Í fyrsta lagi var fólk tregt til að fórna ástvinum sínum til fyrstu greftrunar í garðinum vegna þess að það fór ákveðið óorð af vökumönnum eins og kemur fram í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Í öðru lagi þótti enginn nógu verðugur til að vígja garðinn því ekki þótti viðeigandi að hafa hátíðlega vígsluathöfn yfir fólki af lægri stéttum. Tómthúsmenn, ógiftar konur og vinnufólk sem látist hafði eftir að garðurinn var tilbúinn til notkunar var þess í stað jarðað við Kirkjubrú (Björn Th. Björnsson, 1988). Eftir nokkra mánuði bauð Þórður Sveinbjarnarson háyfirdómari fram eiginkonu sína, Guðrúnu Oddsdóttur, sem vökumann yfir nýjum garði, en hún hafði látist nýlega eftir veikindi, tæplega sextug að aldri (Björn Th. Björnsson, 1988). Guðrún hafði glímt lengi við mikil veikindi sem lýstu sér með sífelldum hósta, uppköstum og var hún orðin örmagna af tæringu, lifraveiki og rýrnunarsótt (Þórður Sveinbjarnarson, 1916). Þegar Guðrún lést var Þórður þegar byrjaður að stíga í vænginn við danska ráðskonu þeirra sem hann svo giftist og eignaðist börn með. En hver var þessi Guðrún? Guðrún þótti vera af fínu fólki komin. Faðir hennar, presturinn, var af lögmannsættum en móðir hennar af gömlum og virtum prestaættum. Guðrún hafði farið ung til mennta á Hvanneyri. Á Hvanneyri bjó hinn vel ættaði amtmaður Stefán Stephenson ásamt konu sinni. Þegar Stefán varð ekkjumaður gekk hann að eiga Guðrúnu sem hafði búið inn á heimili þeirra um árabil. Á heimili Stefáns og Guðrúnar var svo síðar ráðinn ungur maður sem átti að vera skrifari Stefáns en hann hét Þórður Sveinbjarnarson. Rúmum áratugi síðar deyr Stefán og ekki löngu eftir það fær Guðrún bréf frá Þórði sem staddur var úti í Kaupmannahöfn. Í bréfinu var bónorð og tók hún því skilyrðislaust. Guðrún eignaðist alls fimm börn, þrjú börn með Stefáni og tvö með Þórði ásamt því að koma að uppeldi fjölda stjúpbarna. Börn Guðrúnar létust öll ung að aldri úr ýmsum sjúkdómum og eins gefur að skilja gekk það mjög nærri henni. Var sagt að hún hefði upplifað harm og hugarvíl (Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, 2019). Ekki eru til nákvæmar lýsingar á persónuleika Guðrúnar eða útliti hennar. Í erfidrykkju föður hennar var því veitt athygli hversu fær matreiðslukona hún var (Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, 2019). Þórði fannst að börn sín byggju yfir sama fríðleika, gáfum og sinnisfari líkt og móðir þeirra. Sagði Þórður dóttur sína vera t.d. „fljótfæra og fjöruga” (Þórður Sveinbjarnarson, 1916). Kannski á þessi lýsing að einhverju leyti við Guðrúnu Oddsdóttur þegar hún var upp á sitt besta. Útför Guðrúnar
Guðrún vökumaður varð Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur mikill innblástur en hún gaf út nýverið ljóðabók sem ber heitið Vökukonan í Hólavallagarði. Er þar að finna æviágrip Guðrúnar sem og ljóð um Guðrúnu og aðrar konur sem hvíla í garðinum. Í bók Guðrúnar er ekki dregin upp drungaleg mynd af vökumanninum eins og erlendar og innlendar þjóðsögur gera. Vökukonunni er gefið göfugra hlutverk, nokkurskonar ljósmóðurhlutverk, nema í stað þess að taka á móti börnum er tekið á móti sálum sem munu hvíla jarðneskar leifar sínar í garðinum. Vökumenn nútímansVið stofnun Hólavallakirkjugarðs árið 1838 skipti stétt og staða þess sem átti að hvíla þar fyrstur miklu máli. Beðið var lengi með að taka fyrstu gröfina þar, því fáir þóttu nógu verðugir til að verða vökumenn. Ekki er hægt að segja að miklu jafnræði hafi verið gætt í þessu tilfelli. Við leit á vökumönnum frá ýmsum tímum kom í ljós að aldarfjórðungi eftir lát Guðrúnar Oddsdóttur vökumanns í Hólavallagarði var Soffía Helgadóttir frá Grísará fyrst jarðsett á Naustahöfða og því vökumaður þar (Kirkjugarðar Akureyrar, e.d.). Það sem vakti sérstaka athygli var að Soffía var sveitarómagi og á framfæri sveitarfélagsins (Gardur.is, e.d.). Samkvæmt þessu hefur það ekki einungis verið fólk af hærri stigum sem var valið í þetta hlutverk. Þar sem vökumannshefðin hefur haldist fram á okkar daga er áhugavert að velta fyrir sér hvernig valinu hefur verið háttað síðastliðna áratugi. Byggðist valið á fyrsta nafninu á biðlistanum eða byggðist valið að einhverju leyti á stöðu hins látna? Á vefsíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma (KGRP) kemur fram að það hafi verið trú manna að sá fyrsti sem væri grafinn í nýjum kirkjugarði yrði vökumaður hans. Svo er vísað í texta úr þjóðsögum Jóns Árnasonar þar sem fyrirbærinu er lýst nánar. Ekki er farið út í hvernig valinu er háttað nú til dags. Sú sem hér ritar hafði samband við skrifstofu KGRP og spurðist fyrir um hverjar venjurnar hefðu verið við vali á vökumönnum síðastliðna áratugi. Í svari frá KGRP voru þrír vökumenn tilgreindir og greint var frá því hvernig þeir urðu fyrir valinu. Fyrsti maðurinn sem var nefndur var forstjóri og jarðsettur fyrstur manna í Gufuneskirkjugarði árið 1980. Hann var lengi formaður stjórnar KGRP og mjög umhugað um að Gufuneskirkjugarður tæki við af Fossvogskirkjugarði sem þá var að verða fullsettur. Hann var valinn vökumaður vegna þess að hann lést um það leytið sem garðurinn var tilbúinn og einnig vegna áhuga hans á Gufuneskirkjugarði og málefnum kirkjugarða almennt. Annar maðurinn sem var nefndur var málarameistari og jarðsettur fyrstur manna í duftgarðinum í Kópavogskirkjugarði árið 2006. Hann var valinn því það lá fyrir grafartökubeiðni á duftkeri hans og fjölskyldan vildi að hann yrði jarðsettur í duftgarðinum. Taldi stjórn KGRP að það væri tímanna tákn að vökumaður væri í duftkeri. Fjölskyldan samþykkti tillögu KGRP fúslega. Engin tengsl voru á milli starfsfólks og stjórnar KGRP við fjölskyldu hans. Síðasti maðurinn sem var nefndur var fyrrum forstjóri hjá KGRP og jarðsettur fyrstur manna í Sóllandi duftreiti árið 2009. Hann var valinn vegna þess að hann var brenndur um það leyti sem hægt var að taka Sólland í notkun. Hann var talsmaður líkbrennslu og skrifaði í blöð um þann útfararsið (Þórsteinn Ragnarsson, persónuleg samskipti, 7. október, 2019). Þessar upplýsingar gefa til kynna að valið á þessum tilteknu vökumönnun hefur ekki verið byggt á tilviljun einni saman. Voru þetta einstaklingar í tiltölulega afgerandi stöðum og höfðu tveir þeirra bein tengsl við KGRP og voru einnig áhugamenn um málefni kirkjugarða. VökumannshefðinMynd nr. 3. Teikning sem sýnir Reykjavík á 18. öld. Vökumenn í evrópskum þjóðsögum koma öðruvísi fyrir en vökumenn sem eru nær okkur í tíma og þá sérstaklega samanborið við Ísland. Hlutverk vökumanna í Evrópu, hvort sem um var að ræða menn eða dýr, var helst að vernda kirkjuna, lóðina sem kirkjan stóð á og ekki síst kirkjugarðinn sjálfan gegn þjófum og allskyns óvættum. Ef lömbin eða svörtu hundarnir birtust mönnum í kirkjugörðunum var það fyrirboði um dauða. Það var ekki hluti af trú manna að þessir vökumenn ættu að taka á móti látnu fólki sem í garðinum átti að hvíla. Þó vökumenn í þjóðsögum Jóns Árnasonar hafi verið ófrýnilegir ásýndum var þó huggun í því að þeir áttu að taka á móti þeim sem síðar yrðu grafnir þar. Sá vökumaður sem líklegast hefur fengið mestu athyglina er Guðrún Oddsdóttir háyfirdómarafrú. Kannski vegna þess að það þótti mikill viðburður að byggja nýjan kirkjugarð í Reykjavík og eflaust hefur það vakið athygli að vökumaður hins nýja garðs væri kona. Með tilkomu Guðrúnar fór að bera á rómantískari og jákvæðari hugmyndum um vökumannshlutverkið sem lifa allt fram á okkar daga. Þó vökumannshefðin hafi haldið sér fram til þessa dags þá er lítið rætt um þetta hlutverk opinberlega eða hvernig valinu er háttað. Það er þá einna helst inn á vefsíðum kirkjugarðanna þar sem er stuttlega tilgreint hver vökumaður tiltekins garðs sé. Vökumannshlutverkið virðist ekki hræða aðstandendur eins og áður fyrr en þá taldi fólk það skelfileg örlög að látnir ættingjar þeirra yrðu vökumenn. Í þessari samantekt má sjá töluverðar breytingar á vökumannsfyrirbærinu. Ímynd vökumannsins hefur mýkst og tekið á sig nokkurskonar ásjónu engils. Vökumaðurinn er ekki lengur álitinn ófrýnilegt fyrirbæri heldur sem hlý og umhyggjusöm vera. Má því draga þá ályktun að trúin á hinn illskeytta vökumann eins og hann kom fyrir í íslensku þjóðsögunum hafi fjarað út að mestu og tími hans sé liðinn. HeimildaskráBjörn Th. Björnsson. (1988). Minningarmörk í Hólavallagarði. Mál og Menning. Briggs, K. (1976). An Encyclopedia of Fairies. Pantheon Books. Campbell, J. G. (1900). Superstitions of the Highlands and Islands of Scotland. James MacLehose and sons. Gardur.is. (e.d.). Soffía Helgadóttir frá Grísará, sveitarómagi. https://gardur.is/einstakl.php?nafn_id=282460&sumarblom_help=&umhirdu_beidni_help= Guðrún Rannveig Stefánsdóttir. (2019). Vökukonan í Hólavallagarði. Forlagið. Jón Árnason. (1954). Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I (ný útgáfa). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Þjóðsaga. Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma. (e.d.). Fossvogskirkjugarður. http://kirkjugardar.is/sida.php?id=1&width=2048&height=1152 Thorpe, B. (1851). Northern mythology: Comprising the principal, popular traditions and superstitions of Scandinavia, North Germany and the Netherlands (Vol. 2). https://www.scribd.com/document/54404415/BENJAMIN-THORPE-NORTHERN-MYTHOLOGY-VOL-2 Tongue, R. L. (1970). Forgotten Folk-Tales of the English Counties. Routledge and Kegan. Þorleifur Óskarsson. (2002). Saga Reykjavíkur í þúsund ár 870-1870. Fyrri hluti. Iðunn. Þórður Sveinbjarnarson. (1916). Æfisaga Þórðar Sveinbjarnarsonar háyfirdómara í landsrjéttinum. Sögufjélag. MyndirSvartur hundur. (2020). The Serpent‘s pen. David Castleton blog. https://www.davidcastleton.net/black-dog-legends-england-britain-ghosts-hellhounds/ Kross Guðrúnar Oddsdóttur í Hólavallakirkjugarði. (2020). Nord News. https://nord.news/2020/08/23/holavallagardur-the-original-cemetery-in-reykjavik/ Paul Gaimard. (1835). Rue principale de Reykjavík. En danois Hoved gaden. Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/File:Gaimard16.jpg Um höfundinnRagnheiður Þórdís Jónsdóttir, BA nemi í þjóðfræði.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|