Síðastliðið vor sat ég áfangann Vampýrur og tröll: birtingarmyndir þjóðfræðiefnis í nútíma myndmiðlum og var kennari námskeiðsins Gunnella Þorgeirsdóttir. Við áttum að skrifa ritgerð um þjóðfræðiefni í myndmiðlum og valdi ég að fjalla um engla eins og þeir birtust í sjónvarpsþáttunum SupernaturaI og bera þá saman við engla Biblíunnar. Þar sameinaðist mikill áhugi minn á bæði trúarbrögðum og þjóðsögum og þar skapaðist því einstaklega handhæg afsökun fyrir að taka langt og gott sjónvarpsmaraþon. Á þeim tíma voru sjö þáttaseríur búnar og sú áttunda rétt byrjuð en síðan þá hafa höfundar þáttanna haldið áfram að bæta við sagnaheim sinn. Hugmyndin um engla er til í gífurlegum fjölda menningar- og trúarsamfélaga en þó er ekki alltaf á hreinu hvers eðlis veran er. Sumstaðar er hún nakinn feitur karlmaður með ástarörvar (My Bloody Valentine) , annar staðar krakki með hörpu og vængi, á einum stað brennuvargur sem kveikir í runna og spjallar við fólk úr honum (Biblían, 2. Mós 3:1-22), en einnig dyravörður (Biblían, 1. Mós 3:24), glímukappi (Biblían, 1. Mós 32:22-32), þjóðarmorðingi (Biblían, 1. Kron 21:14-15), hermaður (Biblían, 2. Kon 6:8-23), Christopher Walken (Prophecy) o.s.frv. Það er óhætt að fullyrða að goðsögnin um engla er fjölbreytt, útbreidd og nær aftur í tímann um þúsundir ára. Til að afmarka rannsóknina varð ég að velja úr víðtækri flóru af Biblíum og ég valdi að notast við íslensku JPV útgáfuna af Biblíunni. Þessi þýðing er vel unnin, með jafnvægi milli merkingar hvers orðs fyrir sig og þýðingu textans út frá menningarlegu samhengi. Hún samanstendur af 66 bókum ásamt sérmerktum apokrýfu bókum. Ég notaðist ekki við apokrýfu bækurnar á þeim forsendum að þær voru ekki hluti af ritningum palestínsku frumkirkjunnar heldur voru hluti af grísku „sjötíumannaþýðingunni“. Sú þýðing varð vinsæl meðal hellenskra gyðinga og þykir líklegt að Palestínu-gyðingar og kennismiðir frumkristninnar hafi ekki litið til þessara rita sem heilagra (Shelley, 1995: 60). Í ritgerðinni bar ég saman goðafræði tveggja mjög mismunandi miðla. Annar er skrifaður sem afþreyingarefni í samtímanum á meðan hinn er hluti af lokuðu trúarriti, en það var fullunnið og síðan afmarkað fyrir sextán hundruð árum af kirkjuþingi í Karþagó (Shelley, 1995: 66 ). Annað er skrifað sem orð Guðs á meðan hitt er skrifað að hluta til sem gagnrýni á Guð. Þættirnir Supernatural fjalla um tvo bræður, Sam og Dean Winchester, en faðir þeirra ól þá upp við að veiða drauga, drýsla og ýmsar aðrar þjóðsagnaverur. Í fjórðu þáttaseríu bætast englar við sagnaheiminn og spila stórt hlutverk í heildar söguþræðinum. Þættirnir hafa vakið mikinn áhuga fræðimanna og má sem dæmi nefna greinasafnið TV Goes to Hell sem hefur þættina sem miðlægt þema en Gunnella Þorgeirsdóttir kennari er meðal greinahöfunda (Abbott og Lavery, 2011). Sjónvarpsþættirnir fá lánuð ýmis þekkt minni: líkamslýsingar, nöfn, tegundir, tignir o.fl. úr Biblíunni en einnig úr þeirri ríku sagnahefð sem hefur haft áhrif á goðafræði hennar. Mörg atriðanna sem eru lík milli þáttanna og Biblíunnar snúa að valdi englanna þ.e.a.s. getu þeirra til að breyta hlutum í hinum efnislega heimi, styrk þeirra og svo áhrifunum sem þeir hafa á fólk með því að leyfa því að sjá þá. Oft er munurinn lítill en breytingarnar eru m.a. að þættirnir blanda saman líkamslýsingu Biblíunnar á kerúbum og seröfum, bæta við þriðju tegundinni af englum sem kallast cupid og eru ástarenglar o.fl. í þeim dúr (Angel Lore). En sum atriði eru stærri og valda því að ekki er hægt að líta á englaþættina sem algerlega Biblíulega þrátt fyrir að þeir séu að mörgu leyti líkir. Þegar kemur að viðhorfi engla gagnvart mönnum er mikill munur á þáttunum og Biblíunni. Í þáttunum er þeim lýst sem stóískum verum (Angel Lore) en þrátt fyrir þá lýsingu virðast þeir fyrirlíta mannfólk og geta auðveldlega orðið reiðir, bitrir og óttaslegnir (My Bloody Valentine). Eftir því sem á líður í þáttunum fer að verða ljóst að þeir englar sem hafa jákvætt viðhorf gagnvart fólki eru annað hvort fallnir úr náð eða við það að falla úr náð Guðs. Þegar það gerist hefur það mismunandi áhrif á englanna að því er virðist eftir hentisemi höfunda. Englar Biblíunnar virðast aftur á móti hafa litla festu þegar kemur að skapgerðareinkennum. Þeim er lýst sem annars vegar syngjandi, fagnandi, glaðværum (Biblían, Job 38:7) og jafnvel umhyggjusömum verum (Biblían, Sálm 91:11) en svo er þeim einnig lýst sem skapillum, reiðum, vandlátum og pirruðum (Biblían, Post 12:23; Lúk 1:20; 2. Mós 23:20-21). Af öllu því sem skilur engla þáttanna frá englum Biblíunnar munar mestu á sambandi engla við Guð sjálfan. Sú mynd sem er máluð af englum í Biblíunni sýnir einstaklinga sem hafa fullan aðgang að Guði; hann er til staðar fyrir þá (Biblían, Matt 18:10), talar við þá og hlustar á þá (Biblían, Sak 1:13). Þveröfug mynd er máluð í sjónvarpsþáttunum en þar hafa einungis fjórir englar séð Guð og bara einn fær að tala við hann eftir að Guð lætur sig hverfa (Dark Side of the Moon). Erkienglar Supernatural hafa enga beina yfirstjórn en telja að nú sé kominn tími á Armageddon. Þar með leyfa þeir árunum að leysa Lúsífer úr prísund sinni svo þeir geti átt í fyrirfram ákveðinni heimsendabaráttu. Þeir virðast eiga við mikil vandamál að stríða tengd föðurímynd sinni af Guði en það birtist sterklega í því að heimsendirinn virðist minnst snúast um hreinsun á jörðinni og mun frekar snúast um innri baráttu bræðranna Mikaels og Lúsifers (Kienzl og Wimmler, 2011: 183). Það má sjá mikil líkindi með frásögn þáttanna af þessum tveim erkienglum og dæmisögu Jesú um týnda soninn, nema að þessu sinni er enginn elskandi faðir sem tekur á móti týnda syninum heldur eingöngu reiður bróðir sem sýndi stöðuglyndi og hlýddi pabba. Í upprunalegu dæmisögunni fá báðir elskulegt tiltal af pabbanum þar sem hann leiðréttir rangan hugsunarhátt þeirra beggja (Biblían, Lúk 15:11-32). Í þáttunum aftur á móti er enginn faðir til staðar, bræðurnir þurfa að útkljá sín mál sjálfir án afskipta Guðs. Mikið af úrvinnslu þáttanna á hugmyndunum sínum um engla virðist vera í beinu samhengi við þá mynd sem dregin er upp af Guði. Þannig virðast handritshöfundarnir vera að setja fram eigin efasemdir um ágæti Guðs og fá þessar hugmyndir að þróast og kristallast með þáttunum. Þeir setja fram þessa gagnrýni á fjarlægan föður og setja fram tilgátu um hvaða áhrif það myndi hafa á fleiri verur en eingöngu menn (Biblían, Lúk 15:11-32). Munurinn á sambandi engla við Guð virðist því vera gífurlega mikill eftir því hvort horft er til þáttanna eða Biblíunnar en hann er engu að síður föðurímynd í báðum tilvikum. Þættirnir mála mynd af englum sem framfylgja fyrirfram ákveðnum örlögum og þegar þeirra saga breytist fyrir tilstuðlan Sam og Dean fer allt á annan endann. Hetjurnar í þáttunum eru menn, þeir eru settir fram á mjög húmanískan hátt sem þeir einu sem geta lagt siðferðilegt mat á aðstæður óháð guðlegri forsjárhyggju. Guð er einungis óáreiðanlegur og fjarlægur faðir. Í þáttunum er guðdóminum sýnt gífurlegt vantraust og handritshöfundar leyfa sér að rannsaka þörf okkar fyrir það að leita á náðir guðdómsins sem leið til þess að komast hjá því að takast á við vandann sjálf. Þær hugmyndir eru settar fram að Guð, og þar með englar hans líka, sé í raun sá sem er brotlegur gagnvart mönnum. Maðurinn á ekki að þurfa að sæta drottnunargirni engla sem meta mannslíf einskis og telja málstað réttlæta allar sínar gjörðir. Þemað „tilgangurinn helgar meðalið“ birtist á margvíslegan hátt í þáttunum en þó aldrei á jafn áhrifamikinn máta og með englana. Þar er ekki einungis verið að meta hvort drepa megi einn mann sem hefur brotið af sér heldur hvort eyða megi hálfu mannkyni til þess að útrýma illsku. Í Biblíunni er að finna mýmörg dæmi þess að fólk hafi verið drepið vegna þess að það er talið brjóta gegn Guði og englar eru oft á tíðum framfylgjendur þess. Þættirnir setja fram svipaða atburðarás en leyfa sér að draga réttmæti þess stórlega í efa og leggja til að það sé í raun himnaskarinn sem er brotlegur. Kjarninn er svipaður, englar eru ekki litlar sætar styttur heldur stríðsmenn Drottins, þeir eru ekki sálir látinna einstaklinga heldur ógurlegar verur sem hræða líftóruna úr þeim sem þá sjá. Það sem markar því mestan mun milli þáttanna og Biblíunnar er að í Biblíunni er Guð söguhetjan, englarnir framfylgja vilja hans og menn eru brotlegir gegn honum en í þáttunum eru menn söguhetjan og er bæði Guð og englar brotlegir gagnvart mannkyninu. Heimildir Abbott, Stacey og Lavery, David. (ritstjórar). (2011). TV Goes to Hell: an Unofficial Roadmap of Supernatural. Torronto: ECW Press. Angel Lore. Sótt 2. janúar 2014 af: http://www.supernaturalwiki.com/index.php?title=Angel. Angels. Sótt 1. janúar 2014 af: http://www.catholic.org/encyclopedia/view.php?id=774 Aronauer, Todd og Steffof, Vladimir (framleiðendur) og Tobin, J. Miller (leikstjóri). (2008). Supernatural: Heaven and Hell 4:10 [sjónvarpsþáttur]. Burnaby, Canada: Supernatural Films Inc. Biblían (2007). Reykjavík: JPV útgáfa. Dark Side of the Moon. Sótt 2. janúar 2014 af: http://www.supernaturalwiki.com/index.php?title=5.16_Dark_Side_of_the_Moon. Kienzl, Lisa og Wimmler, Jutta (2011). “I am an angel of the lord”: An Inquiry into the Christian Nature of Supernatural´s Heavenly Delegates. Í Abbott, Stacey og Lavery, David (ritstjórar). TV Goes to Hell: an Unofficial Roadmap of Supernatural. (176-186).Torronto, Can: ECW Press. Koven, Mikel J. (2008). Film, Folklore and Urban Legends. Maryland, USA: Scarecrow Press, Inc. Martin, Joel W. (1995) Preface. Í Martin, Joel W. og Ostwalt , Conrad E., Jr.(ritstjórar). Screening the Sacred: Religion, Myth, and Ideology in Popular American Film. Boulder, Colorado: Westview Press, Inc. Misha Collins updated to series regular on Supernatural. (2014). Sótt 2. apríl 2013 af: http://misha-collins.net/?p=2381 My Bloody Valentine. Sótt 2. janúar 2014 af: http://www.supernaturalwiki.com/index.php?title=5.14_My_Bloody_Valentine. NIV Study Bible, the. (1998). Bretland: The Zondervan Corporation. Prophecy, the. Sótt 2. janúar 2014 af: http://www.imdb.com/title/tt0114194/?ref_=nv_sr_3 Shelley, Bruce L. (1995). Church History in Plain Language (2. útgáfa). Nashville, TN: Word publishing. Titilmynd er fengin af síðunni The Supernatural Chronicles. http://supernatural-chroniclesrp.wikia.com/wiki/File:Angel_CASTIEL-Supernatural-HD_Wallpaper_1920x1080.jpg Hjalti Þór GrettissonAnnars árs fjarnemi sem vinnur sem kokkur á daginn og nemur þjóðfræði á kvöldin
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|