Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband

Brjóstagjöf og önnur fæða ungbarna á 18. öld - Hafrún Eva Kristjánsdóttir

4/19/2023

0 Comments

 
Picture
​Nýfætt barn leitar strax að brjósti móður sinnar
​Barnsfæðingar eru yfirleitt mikið gleðiefni og í dag þykir það sjálfsagt að barnið sé lagt á bringu móður sinnar fljótlega eftir að það er komið í heiminn. Eitt af fyrstu meðfæddu viðbrögðunum hjá börnum er sogþörfin og leitar barnið fljótt að brjósti móðurinnar. Í dag þykir í langflestum tilfellum náttúrulegt að hafa barnið á brjósti og alla jafna er lögð mikil áhersla á að leyfa barninu að nærast á brjóstamjólkinni sem er oftast helsta uppistaða fæðunnar fyrstu mánuði barnsins. 
​Margar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi brjóstagjafar. Móðurmjólkin er talin hin fullkomna fæða fyrir ungabarnið, mjólkin er alltaf við rétt hitastig og er fullkomin blanda af þeim næringarefnum og mótefnum sem barnið þarfnast ásamt því að fóðra viðkvæm meltingarfæri ungbarnanna og vernda þau gegn sýkingum sem geta komið í öndunar- og meltingarfæri. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að brjóstagjöf hefur mjög góð áhrif á tengslamyndun milli móður og barns og eftir byrjendaörðugleikana sem oft koma upp eru stundirnar sem fara í brjóstagjöfina oft hinar notalegustu (Jóna Margrét Jónsdóttir og Ingibjörg Baldursdóttir, 2015:1). Þá hafa rannsóknir líka sýnt fram á að börn sem eru höfð á brjósti veikjast síður en þau sem fá sérstaka ungbarnablöndu í pela og jafnframt að tíðni ungbarnadauða sé hærri hjá börnum sem af einhverjum ástæðum fá ekki móðurmjólkina (Jóna Margrét Jónsdóttir og Ingibjörg Baldursdóttir, 2015:2). Brjóstagjöf hefur ekki eingöngu góð áhrif meðan á henni stendur heldur hefur hún einnig áhrif á heilbrigði barna í uppvextinum. Margar rannsóknir hafa verið gerðar með tilliti til langtímaáhrifa brjóstagjafar á fyrstu mánuðum og árum ungbarns og hafa þær leitt í ljós að minni líkur séu á ofþyngd barna langt fram á unglingsár og einnig mörgum langvarandi sjúkdómum eins og krabbameini og insúlínháðri sykursýki. Einhverjar vísbendingar eru um að móðurmjólkin veiti vörn gegn mögulegum hjartasjúkdómum seinna á lífsleið barnsins. Þar að auki virðist móðurmjólkn hafa jákvæð áhrif á vitsmuna- og hreyfiþroska barna (Jóna Margrét Jónsdóttir og Ingibjörg Baldursdóttir, 2015:3). 
 

​Brjóstagjöf var merki um fátækt

Picture
​Kúamjólk þótti besta fæða ungbarna, því feitari því betri
Þó svo að brjóstagjöf þyki hinn eðlilegasti hlutur í dag þá var það ekki alltaf þannig. Á 18. öld var sjaldgæft að mæður settu börn sín á brjóst og enn sjaldgæfara að þær gæfu börnum sínum móðurmjólkina lengur en fyrstu dagana. Það var talið merki um fátækt ef móðir gat ekki skaffað barni sínu kúamjólk og þurfti þar af leiðandi að hafa það á brjósti. Þá má nefna að mæður við sjávarsíðuna voru oft „nauðbeygðar“ til að gefa börnum sínum brjóstamjólk þar sem engar kýr voru til staðar. Kom það reglulega fyrir að bændur í nágrenninu sem áttu kú sáu aumur á þeim og gáfu mæðrunum mjólk til að fæða börnin þeirra (Dagný Heiðdal, 1988:67). Þrátt fyrir að kona hafi „neyðst“ til þess að hafa barn sitt á brjósti voru töluverðar líkur á því að hún hefði ekki mjólkað nægilega mikið fyrir ungbarnið. Til þess að geta framleitt næga mjólk þurfa konur að bæta við sig 6-800 kaloríum á degi hverjum. Oft var þröngt í búi og venjan var sú að konan sparaði matinn við sig til þess að bóndi hennar og börn fengju eins mikla næringu og til var. Töluverðar líkur eru því á að konur hafi verið svo vannærðar að framleiðsla brjóstamjólkur hafi aldrei náð sér á strik. Nýbakaðar mæður fengu ekki langan tíma til að liggja á sæng og þurftu þær mjög fljótlega að fara að sinna sínum störfum á heimilinu. Störf kvennanna voru ekki auðveld og hefur það án efa haft áhrif á framleiðslu móðurmjólkurinnar (Guðný Hallgrímsdóttir, 2001:61). 
​

Næring ungbarna á 18. öld og afleiðingar ​

Picture
Fiskur og smjör var oft fyrsta fasta fæða ungbarna
​Börnum var yfirleitt gefin kúamjólk þannig að henni var hellt í ask og fjöðurstafur, fóðraður með léreftsdulu, eða annað holt áhald eins og melgresi, var notað sem nokkurs konar sogrör. Ungabörn eru með mikla sogþörf og hafa því að öllum  líkindum verið nokkuð snögg að ná tökum á að sjúga upp í sig kúamjólkina. Ásamt kúamjólk voru dúsur mikið notaðar til að fæða ungabörn. Þá var brauð og smjör eða kjöt, fiskur og fita tuggin saman og sett í léreftsdulu sem barnið saug svo eða japlaði á. Dulan hafði tvíþættan tilgang, annarsvegar næringarlegan tilgang og hins vegar til þess að hugga barnið og róa (Guðný Hallgrímsdóttir, 2001:61). 

Meltingarfæri ungbarna eru mjög óþroskuð en fólk fyrr á tímum virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því og gáfu börnum sínum því sama mat og fullorðin manneskja borðaði og helst sem mest. Mæður á Suðurlandi voru fljótari en mæður á Norðurlandi til þess að kynna börnin fyrir fastri fæðu. Sú fæða samanstóð yfirleitt af nýjum fisk með smjöri og jafnvel graut sem var gefinn mjög snemma. Á Norðurlandi var hefðin sú að ungabörn fengu yfirleitt ekki fasta fæðu fyrr en um þriggja mánaða aldur. Algengara var að börn við sjávarsíðuna fengu mat fyrr en þau sem bjuggu upp til sveita, ástæða þess er líklega sú að kýrkostur var algengari í sveitum en við sjóinn og börn gátu lengur nærst á kúamjólk. Mæður í sjávarplássum áttu oft auðvelt með að verða sér út um nýjan fisk og hann gáfu þær börnunum með miklu smjöri eða annarri fitu. Höfðu þessar matarvenjur oft í för með sér að börnin urðu óróleg, fengu magakrampa, uppköst og niðurgang og í verstu tilfellunum gat það endað með ungbarnadauða (Dagný Heiðdal, 1988:67-8).

Ungbarnadauði var mjög hár á Íslandi á 18 öld. Í rannsóknum sem gerðar voru á Íslandi og öðrum nágrannalöndum voru dauðsföll barna undir eins árs lang hæst hér á landi. Munaði rúmlega 150% milli Íslands og Frakklands sem var með næst hæstu dánartíðnina (Dagný  Heiðdal, 1988:66). Fram kemur í grein Dagnýjar Heiðdal (1988:66) að á síðari hluta 19. aldar hafi verið mjög hátt hlutfall ungbarnadauða í Suður-Þýskalandi og þegar aðstæður barnanna voru skoðuð kom í ljós að mjög fá börn á svæðinu fengu að njóta móðurmjólkurinnar, en annarstaðar í Þýskalandi, þar sem brjóstagjöf var algeng var ungbarnadauði mun sjaldgæfari (1988:66).

Margar ástæður eru taldar hafa verið fyrir ungbarnadauðanum á Íslandi, þar má nefna lélegan húsakost, farsóttir og kulda. Skortur á móðurmjólkinni hefur án efa líka haft mikil áhrif þó ekki sé hægt að kenna mataræði ungbarnanna alfarið um ungbarnadauðann. Í grein Helga Skúla Kjartanssonar (1989:99) kemur fram að ólík hlutföll eggjahvítuefna milli brjóstamjólkur og kúamjólkur ásamt lægra hvítuinnihaldi brjóstamjólkur væri helsta ástæða þess að ekki skuli gefa ungabörnum óblandaða kúamjólk. Þar er einnig minnst á að natríummagnið er mun meira í kúamjólk en í brjóstamjólk, eða um þrefalt hærra. Til að geta unnið úr öllu þessu salti þyrftu börnin fjórfalt meira vatn heldur en börn sem fá móðurmjólk og ungabörn eru mjög viðkvæm fyrir salti fyrstu dagana, þar sem nýrun eru ekki orðin fullvirk. Ásamt því að fá ekki rétt samsetta næringu voru börnin einnig oft reifuð sem gerði það að verkum að þau svitnuðu mikið. Ungbarnið var því oft komið með vökvaskort sem gat dregið barnið til dauða (Helgi Skúli Kjartansson, 1989:99-100). 
​
Þekkingarleysi á mannslíkamanum á þessum tíma hefur tvímælalaust haft áhrif á fæðuval mæðra á 18. öld. Engin móðir ætlar sér vísvitandi að valda börnum sínum sársauka og enn síður stuðla að dauða þess með því að gefa barninu mjólkurafurðir úr kúm eða aðra fasta fæðu í dúsum. Þær voru einfaldlega að gefa börnunum það sem þær héldu að væri best fyrir barnið og jafnvel bestu bitana sem til voru á bænum án þess að gera sér grein fyrir því að þær væru jafnvel að valda barninu skaða. 


Heimildir


​Dagný Heiðdal. (1988). „Þeir sem guðirnir elska deyja ungir“. Sagnir: Tímarit um söguleg efni, 9(1), 65-71. 

Guðný Hallgrímsdóttir. (2001). Móðurást á 18. öld. Sagnir: Tímarit um söguleg efni, 22(1), 59-64. 
Helgi Skúli Kjartansson. (1989). Ungbörn þjáð af þorsta. Sagnir: Tímarit um söguleg efni, 10(1), 98-100. 

Jóna Margrét Jónsdóttir og Ingibjörg Baldursdóttir. (2015). Brjóstagjöf. Sótt af www.landlaeknir.is

Stappaður fiskur. (2020). [Ljósmynd].
 https://islandsmjoll.is/blogs/fiskrettir/sodinn-fiskur
Kýr mjólkuð. (e.d.). [Ljósmynd]. https://is.pastureone.com/7507-how-and-how-many-times-to-milk-a-cow.html
​

Barn á brjósti. (e.d.). [Ljósmynd]. https://throunarmidstod.is/library/Files/Brjostagjof_kostir%20brjostagjafar.pdf

​

Hafrún Eva Kristjánsdóttir

BA nemi í þjóðfræði 
0 Comments



Leave a Reply.

    Kreddur

    ​Allir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt.

    Greinar

    December 2025
    October 2025
    February 2025
    January 2025
    December 2024
    November 2023
    August 2023
    May 2023
    April 2023
    September 2022
    May 2022
    April 2022
    March 2022
    February 2022
    June 2020
    May 2016
    January 2016
    November 2015
    January 2015
    May 2014
    April 2014
    February 2014
    January 2014
    December 2013
    October 2013
    June 2013
    May 2013
    February 2013

    Flokkar

    All
    ævintýri
    Alþýðulækningar
    Biblían
    Dagbækur
    Efnismenning
    Englar
    Fatnaður
    Galdrar
    Jafnreacutetti
    Jón Árnason
    Kyngervi
    Kynjafræði
    Menningararfur
    Myndmiðlar
    Spíritismi
    Staðalmyndir
    þjóðsagnafræði
    þjóðsagnaverur
    þjóðtrú

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • Viðburðir 2024 - 2025
    • Landsbyggðarráðstefna 2023 >
      • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
      • Málstofur og erindi
    • Myndir
  • Fréttir
    • Þjóðfræðingur Mómentsins
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband