Félag þjóðfræðinga á Íslandi
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • 2023-204
    • Eldri viðburðir
    • Myndir
  • Fréttir
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband
  • Landsbyggðarráðstefna 2023
    • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
    • Málstofur og erindi
  • Eldri viðburðir

Corrido hetjan Gregorio Cortez - Andrés Hjörvar Sigurðsson

4/19/2023

0 Comments

 
Picture
Mexíkanar sem bjuggu við landamærin stafaði mikil ógn af bandarískum landvörðum (e. rangers) frá Texas sem beittu nágranna sína gríðarlegu ofbeldi. Grimmdarverk landvarðanna sköpuðu mikla andúð á amerísku yfirvaldi á svæðinu. Mexíkanar urðu samrýmdari fyrir vikið, en friðsælir menn á borð við Gregorio Cortez neyddust til að verja sinn rétt með byssu í hönd. 
​

Í Rio Grande dalnum við landamæri Mexíkó og Texas sungu Mexíkanar Corrido söngva um átök Mexíkana og bandarískra Texasbúa, þar sem Mexíkaninn var oftast borinn ofurliði, en varði sinn rétt með skammbyssu í hönd.

Corrido þjóðlagahefðin í Mexíkó á rætur sínar og vinsældir að rekja til mexíkönsku sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld og blómstraði hún í munnlegri geymd. Í textunum kristallaðist það harðræði sem mexíkanska fólkið bjó við en jafnframt þjónaði Corrido hlutverki fréttamiðils þar sem margir íbúar Mexíkó voru ólæsir í þá daga (Lara, 2003, bls. 211).
​
​Söngvarnir við landamærin fylgdu gjarnan mynstri þar sem hetjan er friðsæll karlmaður sem vex ásmegin þegar ógnvekjandi ytri öfl ógna friðsælum lifnaðarháttum hans og hann neyðist til að grípa til vopna. Hann á þó við ofurefli að etja. Í besta falli sleppur hann yfir landamærin en oftast er hann drepinn eða handsamaður. Erkitýpa þessara sagna sem sungnar eru í Corridolögunum var raunverulegur maður sem bjó í Rio Grande dalnum og hét Gregorio Cortez.
​
Söngvarnir um Gregorio Cortez byggja á sönnum atburðum og fjalla um það hvernig Cortez varð að alþýðuhetju eftir að hafa lent í átökum við bandaríska lögreglumenn og í kjölfarið lagt á ævintýralegan flótta. Þjóðfræðingurinn Amerigo Paredes gerði þeirri atburðarás góð skil í verkinu With his pistol in his hand: A border ballad and its hero (1986, bls. 55-104) og verður hún rakin hér.
​
Picture
Áætlað er að Gregorio hafi ferðast um það bil þrjú hundruð mílur á þremur dögum
​

Skotbardagi á hlaðinu
​

Sumarið 1901 heimsótti bandarískur fógeti bóndabæ Cortezar í Texas. Þar var á ferðinni Morris nokkur og fylgdarlið hans. Cortez og bróðir hans Romaldo stigu út til að ræða við gestina en Morris var að leita af hestaþjófi sem lýst hafði verið sem „meðalstórum Mexíkana”. Morris kunni ekki stakt orð í spænsku en einn af fylgdarmönnum hans, Boone Choate, var yfirlýstur sérfræðingur í mexíkönsku máli og þjónaði hlutverki túlks. Morris spurði Gregorio, í gegnum Choate, hvort Cortez hefði nýlega skipt eða fengið klár í viðskiptum við mann að nafni Andreas Villarreal. Raunin var sú að Gregorio Cortez hafði átt í viðskiptum við manninn, en ekki fengið klár heldur meri. Svaraði Cortez því spurningunni neitandi. Túlkurinn gerði sér ekki grein fyrir þýðingu orðanna svo Morris stóð í þeirri trú að Cortez væri að reyna að komast upp með glæp og tilkynnti því, í gegnum Choate, að bræðurnir Gregorio og Romaldo Cortez skyldu handteknir. Bræðurnir reyndu að mótmæla en tungumálaörðugleikarnir voru slíkir að Morris taldi mótmæli bræðranna vera ógn og skaut því Romaldo og reyndi því næst að skjóta Gregorio, en missti marks. Í sjálfsvörn brást Gregorio við með því að skjóta fógetann Morris til bana en Choate og hinir fylgdarmenn fógetans flúðu þá af vettvangi. Gregorio vissi fyrir víst að þeir myndu snúa aftur með liðsauka svo hann sá lítið annað í stöðunni en að leggja á flótta undan réttvísinni. Þetta var upphafið að flóttanum mikla sem átti eftir að gera Cortez að dýrlingi í augum samlanda sinna. 
​

Flóttinn og bardaginn við Belmont
​

Cortez kom særðum bróður sínum, Romaldo, í skjól í næsta þorpi en hélt sjálfur af stað gangandi í norður. Sú ákvörðun reyndist skynsamleg þar sem lögreglumenn á svæðinu voru allir handvissir um að hann héldi í suður og freistaði þess að komast yfir landamærin. Eftir tæplega tveggja daga göngu hitti Cortez fyrir félaga sinn Martin Robledo og leitaði skjóls hjá honum. Hann var þó ekki óhultur til langframa enda voru lögregluyfirvöld ekki lengi að kreista út úr þeim sem þekktu til hvar Cortez var að finna.
​
Robert M. Glover fógeti og góðvinur Morris heitins hélt með fylgdarliði sínu að húsi Robledo til að handtaka Cortez, en úr varð það sem síðan hefur verið kallað „Bardaginn við Belmont“ (Paredes, 1986, bls. 67). Glover og fylgdarmenn hans umkringdu hús Robledo og hófu fyrirvaralaust skotárás á fólkið sem þar var inni. Gregorio, Robledo og elsti sonur hans svöruðu skothríðinni á meðan kona Robledos, ung börn þeirra og aðrir óvopnaðir heimilismenn skýldu sér fyrir skotunum. Svo fór að Gregorio Cortez skaut Glover fógeta til bana en jafnframt féll annar úr liði Glovers sem varð fyrir skoti liðsfélaga síns fyrir slysni. Í liði Cortezar hafði Ramón Rodriguez, heimilismaður í húsi Robledo, særst ásamt konu Robledo og voru þau öll handtekin af eftirlifandi lögreglumönnum, en Gregorio Cortez tókst að flýja.
​
Cortez hélt nú í suður í átt að Rio Grande dalnum og við bakka Guadalupe árinnar heimsótti hann kunningja sinn Cerefino Flores. Flores gaf Cortez skammbyssu og meri. Í kjölfarið reið Cortez á harðastökki um það bil 50 mílur frá bökkum Guadalupe að San Antonio fljóti. Merin örmagnaðist þá og drapst, enda hafði ferðalagið tekið meira en tvo daga án hvíldar. Í skjóli nætur tók Cortez aðra meri ófrjálsri hendi og hélt flóttanum áfram.

Að þremur dögum liðnum örmagnaðist seinni merin þannig Gregorio hélt för sinni áfram fótgangandi. Þrátt fyrir að vera hundeltur og eftirlýstur gekk hann óáreittur í gegnum bæinn Cotulla í Texas en flóttanum lauk loks þegar samlandi hans, sem var kallaður El Teco, bar kennsl á Cortez í grennd við sauðfjárbúðir nokkrar og leiddi yfirvöld til Cortezar sem gafst þá upp og var handtekinn í kjölfarið. 

Eftir tíu daga var flóttinn á enda. Cortez hafði þá ferðast yfir 500 mílur, þar af um 120 mílur fótgangandi. Löggæslumenn sátu undir mikilli gagnrýni fyrir að hafa ekki náð að handsama hann fyrr. Þeir báru fyrir sig að Cortez færi fyrir miklu bófagengi og báðu um stuðning ríkisstjóra til að stöðva gengið. Er nánast hlægilegt að löggæslumennirnir hafi ekki náð að handsama Cortez fyrr, þar sem þeir höfðu aðgang að allri nýjustu tækni, lestum, símskeytum og símum, og réðu auk þess yfir miklum mannafla.
​
Picture
Réttarhöldin yfir Cortez reyndust vera góður vettvangur til að vekja athygli á því óréttlæti sem Mexíkanar í Texas og nágrenni máttu sæta. Fjáröflun fyrir hönd Cortezar sameinaði Mexíkana frá suðurbakka Rio Grande til San Antonio, ríka og fátæka, og Cortez varð að þjóðhetju. 
​

Réttarhöldin
​

Eftir að Cortez var handsamaður lögðust margir Mexíkanar í Ameríku á eitt og hófu að safna fé til varnar Cortez. Var talið að hann myndi annars ekki hljóta sanngjörn réttarhöld (Garber, Matlock, Walkowitz, 1993, bls. 91–116). Á meðan á réttarhöldunum stóð var að mati kviðdóms ekki hægt að dæma Cortez fyrir morð enda beitti hann skammbyssu sinni í sjálfsvörn. Á endanum var hann þó dæmdur í fangelsi fyrir hestaþjófnaðinn. 
​
Flestir fréttamiðlar bjuggust við snörpum réttarhöldum sem lyki með hengingu. Neikvæð umfjöllun bandarískra fréttamiðla um Cortez, sem stimpluðu hann sem lögregludrápara og brjálæðing, olli mikilli hrinu ofbeldis gagnvart Mexíkönum í Texas. Dæmi eru um að saklausir bændur hafi orðið fyrir barðinu á hengingarmúg sem sakaði þá um að vera í gengi Cortezar. Jafnframt lést bróðir Cortezar, Romaldo, á dularfullan hátt, á meðan hann sat í varðhaldi. Meðlimum í fjölskyldu Cortezar, þar á meðal þriggja ára syni hans, var haldið föngnum án ákæru í marga mánuði (Paredes, 1986, bls. 84-87).
​

Goðsögn í lifanda lífi
​

Picture
Fólkið frá Rio Grande dalnum man enn þann dag í dag eftir afrekum Gregorio Cortez, meira en heilli öld eftir atburðina frægu. Á þeim tíma hefur maðurinn orðið að þjóðsagnahetju sem sagan hefur mótað út frá raunverulegum atburðum. Það er æðasláttur Corrido tónlistar sem hefur haldið ímynd Cortezar á lífi í hugum fólksins. 
​

​Gregorio Cortez var ekki fyrr farinn í fangelsi en fólk hóf að syngja um hann söngva og fór saga Cortezar fljótlega að taka á sig sagnakenndan blæ. Í einni útgáfunni varð dóttir Abraham Lincolns Bandaríkjaforseta hugfangin af Cortez og sannfærði föður sinn um að náða hann. Cortez þótti lítið til þess koma og átti að hafa neitað aflausninni og segir sú saga að hann hafi síðan dáið í fangelsinu eftir að óvildarmenn hans eitruðu fyrir honum. Þetta verða að teljast stórkostlegar ýkjur, enda átti Lincoln enga dóttur. Einnig hefur verið skjalfest að Cortez hafi að lokum verið náðaður árið 1913 og dáið á heimili sínu í Texas árið 1916 (Paredes, 1986, bls. 97-104).
​
Ólíkt bandarískum þjóðsagnahetjum á borð við Paul Bunyan og John Henry, þá voru framúrskarandi hæfileikar Cortezar ekki meðfæddir. Hann bjó ekki yfir ofurkröftum heldur var hann friðsamur og duglegur vinnumaður og góð fyrirmynd. Þó var hann holdgervingur hörkutóls á landamærunum og eftir skotbardagann við Morris fógeta varð Cortez að bardagahetju. Hann varð að útlaga sem fólkið lofsöng, bandarískum yfirvöldum til mikilla ama. Sagan segir að menn hafi misst vinnuna eða jafnvel verið drepnir fyrir að syngja Corrido um Gregorio Cortez, en allir sungu þrátt fyrir það.
 

Heimildir


Garber, M., Matlock, J. og Walkowitz, R. (1993). Media Spectacles. New York: Routledge.
Lara, E. (2003) Salerion de San Isdro…’ El Corrido, El Narcocorrido y tres di sus categorías de análisis: El hombre, la mujer y el soplón. Un acercamiento etnográfico. Revista de Humanidades:    Tecnológico de Monterrey,(15), 209–30.

Paredes, A. (1986). With his pistol in his hand: A border ballad and its hero (17. útg).
​Austin: University    of Texas Press.
​

Andrés Hjörvar Sigurðsson

Meistaranemi í þjóðfræði

0 Comments



Leave a Reply.

    Kreddur

    ​Allir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt.

    Greinar

    June 2024
    November 2023
    August 2023
    May 2023
    April 2023
    September 2022
    May 2022
    April 2022
    March 2022
    February 2022
    June 2020
    May 2016
    January 2016
    November 2015
    January 2015
    May 2014
    April 2014
    February 2014
    January 2014
    December 2013
    October 2013
    June 2013
    May 2013
    February 2013

    Flokkar

    All
    ævintýri
    Alþýðulækningar
    Biblían
    Dagbækur
    Efnismenning
    Englar
    Fatnaður
    Galdrar
    Jafnreacutetti
    Jón Árnason
    Kyngervi
    Kynjafræði
    Menningararfur
    Myndmiðlar
    Spíritismi
    Staðalmyndir
    þjóðsagnafræði
    þjóðsagnaverur
    þjóðtrú

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Heim
  • Félagið
    • Lög félagsins
    • Stjórn félagsins >
      • Fyrri stjórnir
  • Viðburðir
    • 2023-204
    • Eldri viðburðir
    • Myndir
  • Fréttir
  • Þjóðfræðiefni
    • Hvað er þjóðfræði
  • Kreddur
    • Bárur
    • Brim
    • Móttaka greina
    • Ritstjórn Kredda
  • Hafa samband
  • Landsbyggðarráðstefna 2023
    • Dagskrá Landsbyggðarráðstefnu
    • Málstofur og erindi
  • Eldri viðburðir