"Ekki ber alla að sama brunni“ Öflun neysluvatns í gamla sveitasamfélaginu - Gitta Krichbaum9/16/2022 Að geta aflað sér neysluvatns fyrir heimilið var eitt af grundvallarskilyrðum fyrir búsetu manna. Vatn þurfti fyrir menn og dýr. Gæði neysluvatns stjórnuðust af bragði og útliti þess, hvort það taldist vera drykkjarhæft eða nægilega gott til að nota það fyrir skepnur. Heimildir eru margvíslegar, frásagnir manna og kvenna í þjóðháttalýsingum og ævisögum, sem og skoðanakannanir Þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands en þær tengjast beint eða óbeint þessum þætti þjóðlífs 19. aldar. Sumir bæir áttu auðvelt með að nálgast vatn, hjá öðrum gat neysluvatnsöflun orðið erfið og vatnsvegurinn langur, einkum á vetrum. Í þessari grein er skoðaður aðgangur gamla sveitasamfélagsins að neysluvatni og leiðir sem voru farnar til að koma því heim í bæinn. Einnig er fjallað um áhöld og tæki sem og verklag sem var notað. Neysluvatn nýtist á ýmsan hátt en hér er eingöngu sú hlið skoðuð sem snýr að matseld, drykk og brynningu dýra. Fleiri heimilisstörf tengdust vatni eins og þrif og þvottur en ekki verður fjallað um þau hér. Að huga að neysluvatni var stór þáttur í lífsbaráttu Íslendinga fyrri tíma og hafði áhrif á líf og lífsgæði hvers heimilis. Það sem þótti sjálfsagt á einum stað þurfti að hafa mikið fyrir á öðrum og því er neysluvatnsöflun þess virði að skoða nánar. Neysluvatn og gæði þess Staðurinn þar sem neysluvatn fyrir heimilið var tekið kallast vatnsból, óháð því hvort um læk, lind, dý, brunn eða á sé að ræða. Í riti sínu Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn lagði Sr. Björn Halldórsson áherslu á þátt neysluvatns varðandi búsetu þegar hann ráðlagði hvernig ætti að velja sér bæjarstæði. „Fyrst skaltu velja gott vatnsból því flestum óþægindum er það verra ef þess er vant“ (1780: 33). Gott vatnsból var nauðsynlegt fyrir ábúendur og skepnur þeirra sem einnig þurftu vatn. Vatnsgæðin á jörðum voru þó misjöfn. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um Ísland upp úr miðri 18. öld söfnuðu þeir heimildum um margt sem var einkennandi fyrir hinar ýmsu sýslur landsins. Þar á meðal voru þeir að fjalla um drykkjarvatn og lýstu mismunandi gerðum vatns sem Íslendingum stóð til boða. Samtals tala þeir um sex mismunandi tegundir drykkjarvatns og skilgreina kosti og galla hverrar tegundar. Um jökulvatn segja þeir að menn drekki það ekki nema í neyð en hestar og aðrar skepnur drekki það. Mýravatn telja þeir vera barkandi á bragðið, litað og jafnvel með skán en telja það vera algengasta brunnvatn á landinu. Ár- og lækjarvatn kalla þeir bergvatn. Þeir álíta uppsprettu- og lindarvatn eftirsóttast þar sem það er tært og kalt. Í þessu sambandi aðgreina þeir kaldavesl frá fyrrgreindum tegundum, þar sem það frýs ekki á vetrum og heldur jöfnu hitastigi allt árið. Síðasta vatnstegundin sem þeir skilgreina er hveravatn sem menn notuðu til drykkjar þegar það hafði kólnað og var bragðlaust, þótt að brennisteinslykt hafi hugsanlega fylgt vatninu. (Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, 1974: 68-69). Ljóst er út frá þeirra lýsingum að ekki var allt vatn af sömu gæðum, þó að hægt væri að nýta það sem neysluvatn, sumt eingöngu fyrir skepnur. Svo virðist að þessi skilgreining og notkun á vatnstegundum hafi haldist óbreytt á 19. öld. Aðgengi að þessum auði var misjafn frá náttúrunnar hendi og oftast þurfti einhverja fyrirhöfn að útbúa heimilinu vatnsból. Öflun neysluvatns Þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands útbjó spurningaskrá um neysluvatn og öflun þess sem var sent til aðila fæddum í kringum 1900. Spurningar eru nákvæmar og leiðandi og bera svörin þess merki að viðmælendur vildu geta svarað þeim flestum, þrátt fyrir að þekkja ekki allt af eigin reynslu. Því leynast innan um annars og þriðja stigs frásagnir. Með þeim fyrirvara eru þetta heimildir sem gefa mynd af lifnaðarháttum sveitafólks á 19. öld og fram á þá 20. Aðferðir við að afla neysluvatns eða búa til vatnsból voru mismunandi og fólgnar í því sem bújörðin hafði upp á að bjóða. Þegar ekkert vatnsból var að finna á bújörðinni, eins og var stundum á heiðabýlum sem byggðust í kjölfar fólksfjölgunnar, þurfti að sækja neysluvatn á hestum yfir lengri eða skemmri veg (ÞÞ5181). Tunnur voru festar á klyfbera til þess og hesturinn teymdur, að vetri til var tunnan sett á sleða og dregin heim á bæ. Ef bæjarlækur var í námunda við sveitabæinn var útbúið þrep með því að grafa aðeins niður á hentugum stað. Oftast var steinhella lögð í þrepið og þannig myndaðist buna sem hægt var að setja fötu undir. Stundum var byggt skýli eða smáhýsi yfir þann hluta lækjarins sem neysluvatn var tekið úr, svokallað brunnhús eða lækjarhús (ÞÞ4900). Ef leiðin að lækjarhúsi var ekki of löng var jafnvel byggður gangur, svokallaður ranghali, frá bænum að vatnsbóli (ÞÞ5181). Sumir bæjarlækir voru jafnvel veittir heim á bæ. Slíkt hefur verið gert lengi og er minnst á þessháttar heimaveitu í Sturlunga Sögu (1946, I: 214). Í umsjá Húsasafns Þjóðminjasafns Íslands er bærinn Þverá í Laxárdal sem var byggður á árunum 1849-1870 og er þar slíkt fyrirkomulag viðhaft að rennandi vatn er leitt inn í hús (Guðmundur L. Hafsteinsson, 2008). Góðar, öflugar vatnslindir voru notaðar í sama tilgangi, veittar í hús þar sem rennsli var nægt, en einnig brunnhús reist yfir þegar lindin var nálægt bænum. Í kringum aðrar uppsprettur var hlaðið grjóti svo að vatnið safnaðist saman og hægt væri að sökkva fötu í (ÞÞ4898). Kaldavesl eða kaldavermsli, sem héldu jöfnu hitastigi allt árið, voru þær uppsprettur sem aldrei þrutu í frosti, þó utanhúss væru. Þurfti stundum að brjóta niður á rennandi vatn í frosti og var sumsstaðar stöng sett við vökina á vetrum svo að hún fyndist (ÞÞ4918). Þegar ekki var hægt að komast í yfirborðsvatn eða langt var í næsta vatnsból þurfti að grafa brunn. Voru það bændurnir sjálfir eða aðrir sem voru glöggir á að lesa í landslagið, sem grófu fyrir brunninum. Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi segir í Horfnir starfshættir og leiftur frá liðnum öldum að hann hafi „grafið a.m.k. 18 brunna heila en dýpkað eða endurgrafið 10“ (1990: 132). Sumir gerðu mikið úr hæfileikum sínum við vatnsleitina, hlustuðu hingað og þangað og reyndu að vera dularfullir áður en þeir fóru að grafa fyrir vatninu (ÞÞ4916). Í besta falli fylltist holan af tæru vatni. Það kom þó fyrir að brunnar fylltust af járnláarvatni/mýravatni sem var barkandi á bragðið og þótti ekki drykkjarhæft, nema fyrir skepnur. Var þá haldið áfram að leita að betri stað og því stundum fleiri en einn brunnur á bænum. Yfirleitt voru brunnar kringlóttir og klæddir að innan með grjóti, torfi eða moldarstrengjum, jafnvel viðarklæddir að hluta. Sumsstaðar var einfaldur hleri á hjörum yfir og vatn sótt með fötu úr eldhúsi (ÞÞ5029). Annarsstaðar var útbúin brunnvinda, sívalur trébútur með sveif og brunnfötu sem sumir kölluðu pontu (ÞÞ4935) og var fest með keðju eða reipi við brunnvinduna. Dýptin á brunnum var misjöfn eftir aðstæðum en varð að vera nógu djúp til að láta fötu síga ofan í vatnið, en gat verið allt að 20 álnir (12,5 m) að dýpt (ÞÞ5181). Til að gæta hreinlætis þurfti að hreinsa brunna árlega, jafnvel tvisvar á ári og var vatninu ausið upp og látið renna í á ný (ÞÞ4900). Þar sem hreyfing á brunnvatni var lítil og almennt var talin hætta á því að brunnklukka/brúnklukka gerði mönnum mein, var oft silungur látinn vera í brunninum. „Átti hann að eyða öllum pöddum og óhreinindum úr vatninu“ (Jónas Jónasson, 1961: 475). Jón Árnason lýsir brúnklukku, vatnsketti og smokkormi í Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum og segir þau eitruð og banvæn þeim sem gleypa þau en þau „leitast við að komast ofan í mann ef maður drekkur úr því vatni sem þeir [þau] eru í“ (1954, I: 625). Brunnar voru oft utan bæjar, en einnig eru dæmi þess að brunnar væru yfirbyggðir og tengdir við býlið. Bærinn Bustarfell í Vopnafirði sem er frá miðri 19. öld, í umsjá Húsasafns Þjóðminjasafns Íslands, er með brunnhús við fjósvegginn og hægt að komast þar á milli (Guðmundur L. Hafsteinsson, 2008). Var hér um auðvelda leið til vatnsöflunar að ræða, en flestir þurftu að leggja meira á sig til að bera vatn í bæinn. Vatnsburður og notkun drykkjarvatns Guðmundur Þorsteinsson heldur fram „að vatnsburður var mest ætlaður börnum, unglingum og öldruðu fólki eða þeim, sem einhver vöntun var í, líklega af því, að hann var auðlærður, krafðist ekki mikillar kunnáttu.“ (1990: 126). Tryggvi Emilsson lýsir raunum sínum að vetrarlagi, þá 14 ára að aldri: Úti var fanndýptin svo yfirgnæfanleg að tuttugu og tvær tröppur voru ofan að vatnsbólinu og var um þetta leyti bætt við tröppu næstum daglega en fleki hafður yfir opinu og staur til að vísa á flekann. Það var erfitt að bera vatn í bæ og útihús upp þennan jökulstiga, en um annað var ekki að gera. (Tryggvi Emilsson, 1976: 147) Svarendur spurningaskrám Þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands tengja vatnsburðinn oftast við fullorðna. Vinnukonur sáu um vatnsburðinn að sumri, vinnumenn að vetri. Einnig báru bændur vatn í bæinn, einkum í vondum veðrum (ÞÞ4900). Annar svarandi tekur undir og segir að annað hvort var það konan sem vann í eldhúsi, eða fjósamaðurinn sem sáu um að bera vatn í bæinn (ÞÞ4935) þannig að fast verklag virðist hafa verið komið á til þess að tryggja að alltaf hafi verið til nægilegt vatn. Vatn var borið í bæinn í tréfötum, einnig kallaðar skjólur. Léttari blikkfötur með eða án emeleringu virðast ekki hafa verið komnar í almenna notkun fyrr en eftir 1900. Vandamál með vatnsburðinn á vetrum var að vatn fraus í fötunum. Lítið vatn barst því í bæinn í einu, margar ferðir þurfti að fara og skipta um fötu „þegar þessi var orðin svo þykk af klaka að hún næstum lokaðist“ (Tryggvi Emilsson, 1976: 215). Vatnsgrindur voru notaðar til að gera föturnar stöðugri og halda þeim í hæfilegri fjarlægð frá fótum þess sem bar þær svo að minna vatn skvettist upp úr. Um er að ræða ferhyrnda grind úr grönnum rimlum, oft með einu eða tveimur styrktum hornum, sem lá ofan á fötubörmum. Þær voru notaðar þegar stutt var að bera vatnið (ÞÞ4916). Annað áhald sem notað var til vatnsburðar var vatnsberi eða ok, trébútur sem borinn var á herðum og náði út fyrir axlir. Tekið var úr fyrir hálsinum. Snærisspottar með krókum voru í endunum og krækt var í höldu/kilpu á vatnsfötunum, sitt hvoru megin, sem burðamaður eða -kona héldu í. „Vatnsberi, áhald, sem færði burðarþungann alveg á herðarnar og bolinn, var gott fyrir fullorðna, en gat aflagað skaðsamlega vöxt þeirra, sem ekki höfðu tekið út fullan þroska“ (Guðmundur Þorsteinsson, 1990: 128). Vatni var safnað í tunnu eða vatnskerald sem stóð í göngum eða eldhúsi (Hallgerður Gísladóttir, 2007: 17). Aðalmálið á vetrum var að geyma vatnið þar sem kuldi náði síst til. Hreinlætis var gætt eins og hægt var, vatninu ausið upp með sérstökum ausum sem báru mismunandi nöfn, skriffa, strympur eða kæna, eftir gerð og lögun þeirra (Sigríður Sigurðardóttir, 2017: 34). Þegar brynna átti kúm með vatni úr vatnstunnu á vetrum var vatninu ausið upp í sérstaka brynningafötu (ÞÞ5029), en rollur og hestar voru reknir að kaldavermslulindum (ÞÞ4916) eða tjörnum, fengu snjó, vatn úr ám eða barkandi mýravatn úr lélegum brunnum (ÞÞ4935). „Vatnsburðurinn var eitt af eilífðarverkum fyrri tíðar og ávallt erfiður. Því var ekki bruðlað með vatn“ (Guðmundur L. Friðfinnsson, 1991: 130). Þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands útbjó einnig spurningaskrár um drykkjarföng og matargerð sem eru álíka leiðandi og spurningaskráin um neysluvatnið. Í svörum kemur fram að vatn var notað til drykkjar, oft blandað skyrmysu, en einnig sláturmysu og var þá kallað sýrublanda (ÞÞ6668). Þó virðast hefðir varðandi slíka drykki vera mismunandi, sýrublandan sumsstaðar eingöngu notuð við erfiðisvinnu, en annarsstaðar drukkin allt árið. Einnig var kaffidrykkja orðin algeng til sveita á 19. öld (Hallgerður Gísladóttir, 2007: 29). Kaffið var drukkið heitt, ef afgangur varð einnig kalt (ÞÞ6103). Vatn þurfti til að útvatna saltað kjöt eða fisk, helst undir bunu (ÞÞ5029), eða með því að láta matvælin liggja í vatni í fötu. Almennt talað var matur oftast soðinn (ÞÞ6102). Soðvatn af slátri var jafnvel notað áfram til matar (ÞÞ6530) eða drukkið heitt (ÞÞ7951). Vökvi sem hægt var að endurnýta fór því ekki til spillis. Lokaorð Að skoða vatnsbúskap sveitasamfélags 19. aldar á þennan hátt varpar ljósi á erfiðleika sem margir voru að fást við. Skilningur á gæðum vatnsins var til staðar af reynslu og þekkingu. Reynt var að nýta sem best það vatn sem bújörðin bjó yfir. Hjá sumum rann vatn inn í bæinn eða brunn allt árið og eru bæirnir Bustarfell og Þverá sem enn standa uppi eru dæmi um slíkan munað. Önnur bæjarstæði buðu upp á stutta göngu að brunn- eða lækjarhúsi. Oft þurfti þó að hafa meira fyrir öflun neysluvatns, jafnvel flutning á hestum eða sleðum um langan veg. Brunnar gáfu ekki alltaf af sér hreint og tært vatn, heldur gátu þeir einnig fyllst af mýravatni. Til þess að hægt væri að nýta góðan brunn ár eftir ár þurfti umhirðu, viðhald og hreinsun. Reynt var að vinna á móti skaðvaldi eins og brúnklukku/brunnklukku með náttúrlegum vörnum í formi silunga. Vatnsburður tengdist ákveðnu verklagi á bæjunum og voru menn og konur að bera vatn, þó munur væri þar á eftir færi og árstíðum. Þróaðar voru aðferðir við vatnsburð, vatnsgrindur eða ok notuð, sem léttu þeim sem báru verkið. Hreinlæti skipti máli þegar vatnið var geymt innanhúss í tunnum og staðsetning tunnunnar þannig að vatnið mundi ekki frjósa. Besta vatnið var nýtt fyrir menn og kýr, á meðan aðrar skepnur þurftu að bjarga sér sjálfar eða fengu vatn af lakari gæðum. Vatn var drukkið hreint eða bragðbætt með sýru og kaffi orðið algengur drykkur á 19. öld. Flestur matur var soðinn og var sumt soðvatn notað áfram til neyslu. Í greininni er lögð áhersla á aðferðir við öflun neysluvatns og er ljóst að ýmsar leiðir þurfti að fara í þeim efnum. Í framhaldinu væri vert að skoða jarðabækur og jarðlýsingar með tilliti til skráningar á brunnum til að fá betri mynd af lífsgæðum manna á fyrri tímum. Lítið er eftir af brunnum gamla tímans á bújörðum nú til dags, því „of seint er að byrgja brunninn þá barnið er dottið ofan í“. HeimildaskráBjörn Halldórsson. (1780). Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn. Prentuð að Hrappsey. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson. (1974). Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. (Þýðandi Steindór Steindórsson; Þjóðhátíðarútgáfa, 2. bindi). Reykjavík, Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. Guðmundur L. Friðfinnsson. (1991). Þjóðlíf og þjóðhættir. (Formáli Þór Magnússon). Reykjavík, Bókaútgáfan Örn og Örlygur HF. Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi. (1990). Horfnir starfshættir og leiftur frá liðnum öldum. (Formáli Kristján Eldjárn.) (2. útgáfa.) Reykjavík, Bókaútgáfan Örn og Örlygur HF. Hallgerður Gísladóttir. (2007). Eldamennska í íslenskum torfbæjunum. Smárit Byggðasafns Skagfirðinga V. Jón Árnason. (1954-1961). Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. (1.-6. bindi, Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu). Reykjavík, Þjóðsaga hf. Jónas Jónasson frá Hrafnagili. (1961). Íslenzkir þjóðhættir. (Einar Ól. Sveinsson bjó til prentunnar.) (3. útgáfa.) Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja H.F. Sigríður Sigurðardóttir. (2017). Þrif og þvottar í torfbæjum. Rit Byggðasafns Skagfirðinga 2. Sturlunga Saga. (1946). (Ritstj. Jón Jóhannsson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn). (1. bindi). Reykjavík, Sturlunguútgáfan. Tryggvi Emilsson. (1976). Fátækt fólk. Reykjavík, Mál og menning. Húsasafn Þjóðminjasafns Íslands Guðmundur L. Hafsteinsson. (2008). Bustarfell í Vopnafirði. Sótt 08.04.2022 af https://www.thjodminjasafn.is/media/utgafa/Burstarfell-i-Vopnafirdi-byggingarlysing-GLH-2008.pdf Guðmundur L. Hafsteinsson. (2008). Þverá í Laxárdal. Sótt 08.04.2022 af https://www.thjodminjasafn.is/media/utgafa/Thvera-i-Laxardal-byggingarlysing-GLH.pdf Þjóðháttasafn Þjóðminjasafns Íslands Svör við spurningaskrá 41, Neysluvatn og öflun þess ÞÞ4898, ÞÞ4900, ÞÞ4916, ÞÞ4918, ÞÞ4935, ÞÞ5029, ÞÞ5181 Svör við spurningaskrá 50, Matargerð og matmálstímar ÞÞ6530, ÞÞ6102 Svör við spurningaskrá 57, Drykkjarföng ÞÞ6103, ÞÞ6668, ÞÞ7951 HöfundurGitta Krichbaum, BA nemi í þjóðfræði
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |