Krókusar sjást í görðum á sama tíma á vorin óháð hvort vorið sé gott eða ekki. Á dögunum sendi Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, frá sér rafræna spurningakönnun um sumardaginn fyrsta. Segja má að viðbrögðin hafi verið góð en 204 manns svöruðu þessari könnun og lýstu upplifun sinni á deginum, hefðum og venjum. Ein spurningin snerti veðrið á þessum degi. Hér verður rýnt í niðurstöður þessarar könnunar og tæpt á því helsta sem svarendur höfðu um veðrið á sumardaginn fyrsta að segja. Fyrst er þó rétt að skoða lítillega veðurspár í tengslum við sumardaginn fyrsta og hvernig hann var hafður sem slíkur spádagur á síðustu og þarsíðustu öld. Sumardagurinn fyrsti í heimildumVíða er hægt að lesa um hefðir og þróun þeirra á sumardeginum fyrsta. Vil ég þá einkum nefna greinargóðan kafla í bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson (1993: 31-61). Mikilvægasta heimildin þegar kemur að persónulegum lýsingum á deginum, þá einkum veðurspám og veðurfróðleik, eru svo svör við spurningaskrá númer 19 hjá þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands sem heitir einfaldlega Sumardagurinn fyrsti og var send út í apríl 1969. Svörin við þeirri skrá eru öll að finna rafrænt á Sarpinum – menningarsögulegu gagnasafni (sarpur.is), þar sem hægt er að kynna sér upplifun fólks á þessum degi frá síðustu og þarsíðustu öld frá fyrstu hendi. Af stakri hógværð vil ég einnig minnast á grein sem ég skrifaði sjálfur um sumardaginn fyrsta árið 2021 og birtist á Þjóðtrúarvefnum, þar sem ég dró saman stutta lýsingar á þessum hátíðisdegi og gerði heiðarlega tilraun til að búa til uppskrift að slíkum degi byggðum á hefðum og ýmsum lýsingum fólks (Eiríkur Valdimarsson, 2021). Síðan er ekki úr vegi að minnast á grein eftir þjóðfræðingana Jón Jónsson og Dagrúnu Ósk Jónsdóttur, um hefðir og hátíðahöld á sumardeginum fyrsta og byggir einnig á fyrrnefndri könnun (Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson, 2023). Þar fjalla þau um margt áhugavert, en þó ekki efni þessarar greinar: veðrinu á sumardaginn fyrsta. Hvaða veðurfarslegu þætti skoðaði fólk fyrrum á sumardaginn fyrsta og byggði spár sínar á til framtíðar? Hinn gamli veðurathugunardagurMyndin sýnir hitastigið á Akureyri á sumardaginn fyrsta. Það voru ótal dagar á hverju ári sem fólk tók alveg sérstaklega eftir með tilliti til veðurs, jafnvel voru vissir dagar álitnir sérstakir spádómsdagar. Slíkir dagar eru vanalega kallaðir merkidagar, í þeirri merkingu að þetta séu marktækir dagar gagnvart komandi veðurfari (Þórður Tómasson, 1979). Má þar nefna daga á borð við öskudaginn, kyndilmessu, krossmessu, hundadaga og Pálsmessu, auk fjölda annarra daga (Eiríkur Valdimarsson, 2010). Á lista yfir slíka daga eru sömuleiðis svokölluð sumarmál og sumardagurinn fyrsti. Síðustu dagar vetrar nefnast sumarmál (dagarnir frá laugardegi og til miðvikudags fyrir sumardaginn fyrsta, sem er síðan alltaf á fimmtudegi) og höfðu þeir mikið gildi fyrir veðurfarið framundan. Von fólks fólst meðal annars í því að veður myndi breytast til batnaðar um sumarmálin og er þessari breytingu úr vetri í sumar lýst sem glímu á milli Vetur konungs og vordísanna, en í einu svari við spurningaskrám frá þjóðháttasafni eru þeirri rimmu lýst svona: „Stundum hefur veðurfarið gjörbreyst til batnaðar um sumarmál, en oftar reynir vetur konungur að hafa áhrif á vordísirnar“ (ÞÞ 5281). Á vorin átti fólk oftar en ekki von á hretum sem gátu verið misjafnlega alvarleg. Fyrir þau sem ekki þekkja til hugtaksins hret þá er það haft yfir tímabil þar sem veður er slæmt og oftar en ekki kennd við ákveðin tímabil, líkt og páskahret sem bresta á um það leyti árs. Dagana fyrir sumardaginn fyrsta var því trúað að svokallað sumarmálahret kæmi iðulega og að gott vor kæmi þegar hretið væri um garð gengið (s.s. ÞÞ 2354, ÞÞ 2523 og ÞÞ 5281). Sjómenn kölluðu þessháttar hret sumarmálagleði því þeir trúðu að í kjölfarið væri hið versta afstaðið það vorið (ÞÞ 1678). Til fróðleiks má samt nefna að skráð eru ótal önnur hret sem kunna að bresta á eftir sumarmálin, til dæmis talar Jónas frá Hrafnagili um skiparumbu (sem brast á þegar vorskipin komu til landsins með varning), auk þess fráfæruhret og rúningahret (Jónas Jónasson, 1961). Reyndar tók ég eitt sinn saman öll þau hret sem ég gat fundið í heimildum og reyndust þau vera alls 47 talsins! Sumardaginn fyrsta ber ávallt upp á fimmtudegi, en veðurglöggt fólk var aðallega með veðurnefið sitt á lofti aðfaranótt þessa dags. Sumardagsnóttin fyrsta var í raun mikilvægust þegar hugað var að veðrinu framundan. Aðferðirnar fólust einkum í að kanna hvort vetur og sumar myndu ekki örugglega frjósa saman, þ.e.a.s. hvort það yrði ekki frost síðasta vetrarkvöld og inn í fyrstu sumarnóttina. Mörg tóku upp á því að setja út skál með vatni að kvöldi síðasta vetrardags og fylgdust síðan með því hvort vatnið myndi ekki örugglega frjósa (ÞÞ 1666). Þjóðtrúin sagði fólkinu að þegar frysti á þessum tímamótum myndi það boða góða sprettu um sumarið, góðan heyþurrk og gott tíðarfar (ÞÞ 5281). Í svörum við spurningaskrá nr. 19 eru mörg sammála þessari túlkun og athuguðu hitastigið þessa nótt. Hlýindi á sumardaginn fyrsta, frostleysi og almenn veðurblíða var illa séð og þótti til marks um að veðrið myndi versna í kjölfarið. Í svörum þjóðháttasafns sögðu þó einhver að sá siður að fara út með skál með vatni hafi verið að mestu aflagður um aldamótin 1900 og að einkum eldra fólk hafi þekkt hann (ÞÞ 1666). Þegar flett er upp í einu af okkar aðalritum þjóðfræðinga, Íslenskum þjóðháttum, og í gegnum kaflann um sumardaginn fyrsta, er hins vegar ekki minnst einu orði á neitt sem viðkemur því hvort vetur og sumar ættu að frjósa saman. Mögulega hefur sú þekking verið algengari á landsvæðum sem voru fyrir utan radarinn hjá Jónasi, en langflest heimildafólk hans var af Vestur- og Norðurlandi (Jónas Jónasson, 1961). Fólk virðist á einu máli um að þegar frost var á þessum mótum veturs og sumars, hafi framhaldið orðið gott, gjöfult og hlýtt. Það kemur okkur þjóðfræðingum í sjálfu sér ekki á óvart að þessi liminal tími, á mörkum vetrar og sumars, beri með sér ákveðna þjóðtrú og ríkara spádómsgildi en aðrir dagar. Það er því býsna áhugavert að sjá hvort þetta þekkist enn í dag, í kringum sumardaginn fyrsta, þessum forna frídegi sem enn er heiðraður ár hvert. Veðurpælingar sumardaginn fyrsta 2023Sami staður um sumarmálin árin 2022 og 2023. Starfsfólk Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum sendi út rafræna netkönnun um sumardaginn fyrsta í apríl 2023, líkt og áður hefur verið sagt frá. Svörin 204 gefa býsna góða sýn á stöðu þessa hátíðisdags í samtímanum, þau koma úr ýmsum áttum, frá fólki á ýmsum aldri og misjafnlega ítarleg. Þjóðfræðingarnir Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir rituðu skemmtilega grein um niðurstöðurnar í grein sem heitir: „Sumardagurinn fyrsti fyrr og nú“ og hvet ég fólk til að lesa hana varðandi ýmsar hliðar þessa dags. Þar er ekki fjallað um svör við eftirfarandi spurningu í könnuninni, sem hér verður reifuð: Veitir þú veðrinu athygli á sumardaginn fyrsta? Lýstu því nánar. Hér verður farið yfir þessi svör og best að byrja á þjóðtrúnni sem var svarendum þjóðháttasafns svo hugleikin, þar sem fylgst var með því þegar vetur og sumar fraus saman: er sú þjóðtrú enn við lýði? Í stuttu máli er sú þekking mjög lifandi enn í dag. Í 78 svörum er það sérstaklega nefnt að fólk athugi hvort vetur og sumar hafi frosið saman. Mörg nefna að það sé einfaldlega vegna þess að þetta var gert í þeirra bernsku, líkt og þessi kona sagði: „Já, ég spái í því hvort sumar og vetur „frjósi saman“ vegna þess að ég man þegar ég var lítil var fullorðna fólkið alltaf að tala um það í kringum sumardaginn fyrsta“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 82). Þessi þekking heldur því greinilega áfram að velta áfram inn í ófyrirsjáanlega framtíð. Ein kona talar sérstaklega um að hún sé það hjátrúarfull að henni finnist of gott veður á þessum degi varla geti vitað á gott og þess vegna skoði hún hvort vetur og sumar frjósi saman (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 174). Á meðan virðist þekking á góðviðrisboða sumarmálahretsins, samkvæmt þessari könnun, alveg vera horfin. Enginn þátttakandi minnist einu orði á slík hret eða setur fram neinar vangaveltur um sumarmálin yfirleitt. En á meðan sumt virðist hafa tapast kemur oft eitthvað nýtt í ljós. Á einum stað var gaman að sjá veðurspá sem ég hef hvergi séð áður: „Það var yfirleitt spáð í það á mínu æskuheimili hvort sumar og vetur hefðu frosið saman en svo var líka horft til þess hvernig veðrið væri fyrsta sunnudaginn eftir sumardaginn fyrsta!“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 4). Það fylgir ekki sögunni eftir hverju var litið á þeim sunnudegi, en ljóst að ýmsir merkidagar hafa verið í gangi sem ekki hefur verið skrifað neitt sérstaklega um. Að setja út bolla, skál, skel eða fötu með vatni er nokkuð sem fjölmargir svarendur annað hvort þekkja vel eða framkvæma sjálf á þessum tímamótum: „Ég set út vatn á undirskál að kvöldi vetrardags til að athuga hvort frjósi saman sumar og vetur, ef svo er þá er von á góðu sumri. Það er því bara kostur að það sé kalt á sumardaginn fyrsta“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 56). Nokkrir aðrir svarendur framkvæma þennan gjörning ár hvert og enn fleiri segjast hafa gert þetta meira í bernsku, líkt og þessi karl hér: „Nei, ég geri enga athugun, en fylgist með fréttum af því hvort það hafi frosið saman vetur og sumar einhvers staðar, það á að tákna gott sumar. Þegar ég var krakki setti mamma skel með vatni út fyrir vegg til sjá hvort vatnið frysi í henni. Ef það gerði það ekki táknaði það leiðindasumar, en fólk huggaði sig við að það hefði örugglega frosið saman á hálendinu eða Grænlandi eða einhversstaðar í heiminum. Þetta var meira grín en alvara, held ég“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 25). Hér er vissulega mikilvægur punktur fyrir alþýðlega veðurspáfræði, að tala um að lítil alvara liggi að baki þessum athugunum, og mikilvægt að hafa það í huga að slíkur gjörningur byggir ekki síður á hefðinni heldur en trú á niðurstöðuna. Fyrrnefndur heimildarmaður og fleiri tala um þetta sem hefð sem sé ekki lengur viðhaldið, sem er pínu áhugavert í samanburði við umræðuna hjá sumum svarendum þjóðháttasafns árið 1969, þar sem sumir litu á slíkan gjörning sem eitthvað sem væri löngu aflagt og tilheyrði horfnum tímum. Mörg svarenda nefna þennan dag sem mikilvægan dag fyrir þeirra tilfinningalíf. Hann sé einhverskonar bjargráð út úr vetrinum, þrátt fyrir að veðrið sé ekkert endilega í takti við heiti hans. Í einu svari er þessu lýst alveg ágætlega: „Ég geri einhvern vegin alltaf ráð fyrir að það verði rigning en það hefur samt ekki áhrif á mig. Það er alltaf samt einhver jákvæðni í loftinu finnst mér, dagarnir eru að lengjast og mér finnst fólk vera bjartsýnt“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 9). Ljóst er að veðurfarið hefur áhrif á tilfinningar fólks og ekki alltaf þannig að dagurinn beri með sér fyrrnefnda bjartsýni: „Ég athuga hvort sumar og vetur frjósi saman. Oftast bölva ég kuldanum þennan dag og velti fyrir mér hvort sumarið komi nokkurn tímann á þessu nakta Atlantshafsskeri“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 120). Þannig eru sum langeygð eftir vorinu og farin að bíða eftir merkjum þess, en í svörunum tilgreina þó sum að þau séu um þetta leyti dugleg að fylgjast með komu farfugla, upptöku snjós og klaka eða eins og ein orðar það svo vel: „Svo gleðst ég einlæglega ef veðrið er gott og kíki iðulega eftir fyrstu fíflunum (sko blóminu)!“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 188). Eins kemur það oft fram að fólk fer í minna mæli sjálft út og gáir til veðurs eða gerir eigin athugun með frostið, heldur fylgist það með veðurfréttum á fjölmiðlum eða fer á netið og rannsakar vefsíður sem mæla og meta veðurfar. Ein af stóru ástæðunum fyrir því að fólk veitir veðrinu á sumardaginn fyrsta þessa eftirtekt í dag, er vegna þess að mörg eru í fríi, hyggjast stunda útivist og taka þátt í hátíðahöldum. Nokkrir svarendur segjast vera skipuleggjendur slíkra hátíða utanhúss og þar er óskin eftir hlýindum mikilvægari heldur en lögmál þjóðtrúarinnar sem vill hafa kalt á þessum tímamótum. Reyndar virðist nú veðrið á þessum degi oftar en ekki hafa verið kalt, blautt og napurt að sögn svarenda: „Finnst alltaf jafn kómískt að vera í skrúðgöngu þar sem sumarsöngvarnir eru spilaðir af fullum krafti í öskrandi norðanátt og slyddu. Einstaklega skemmtilegt ef það hittir á gott veður“ (Þjóðfr.st. 2023:2, svar 19). Fólk er síðan með veðrið í huga, hvernig það á að klæða sig þennan hátíðisdag, hvort það eigi að vera í vetrarúlpunni og síðbrók. Mörgum er einmitt tíðrætt um þörfina til að stunda útivist á þessum degi sem hlýtur að tengjast þeirri tilfinningu að sumarið sé á næsta leyti og innivera vetrarins senn að baki. Áður en þessi könnun var sett í loftið var það tilfinning mín að sumardagurinn fyrsti mætti muna fífil sinn fegurri og væri jafnvel orðinn frídagur án eiginlegrar merkingar í huga fólks. Hin gamla veðurþekking virðist þó lifa ágætu lífi meðal fólks og hin alkunna merking þess kemur skýrt fram í svörunum, þó að sumarmálahret virðast ekki lengur vera almennt þekkt. Eitt er þó áhugavert og mikilvægt að taka fram. Enginn undir 18 ára aldri svaraði þessari könnun. Því getum við ekki varpað neinu ljósi á tilfinningu ungs fólks fyrir þessum degi, en það væri fróðleg viðbót við þessa könnun að athuga það sérstaklega. Tilfinning ungs fólks fyrir sumardeginum fyrsta og raunar öðrum sambærilegum hátíðisdögum og/eða frídögum, væri sannarlega forvitnilegt rannsóknarefni. Titillinn á þessari grein, þar sem spurt er: „Frysti sumardaginn fyrsta?“ á greinilega enn við og er kannski mikilvægasta spurning dagsins, líkt og hún hefur verið um langa tíð. Þrátt fyrir að fólk þekki þessa þjóðtrú almennt vill fólk fá góða veðrið sitt á sumardaginn fyrsta, sem er pínu áhugaverð mótsögn. Í ár var alveg frostlaust sumarnóttina fyrstu þar sem ég var staddur á skíðamóti á Akureyri í 19 stiga hita og sólbrann meira að segja ansi hressilega. En í kjölfarið kólnaði snarlega og nú hefur verið ískalt á landinu í rúma viku. Einhver myndi segja að þarna hafi þjóðtrúin rækilega minnt á sig og sannað í eitt skipti fyrir öll að gott veður á sumardaginn fyrsta, er of gott til að vera satt! HeimildirÓprentaðar heimildir [Þjóðfr.st.] Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa. Svör við könnun 2023:2 um sumardaginnfyrsta, nr. 1-204. Í vörslu Þjóðfræðistofu. Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðháttasafn. (1969). Í spurningaskrá 19. Sumardagurinn fyrsti. (ÞÞ 1666, ÞÞ 1678, ÞÞ 2354, ÞÞ 2523, ÞÞ 5281). https://www.sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531223 Prentaðar heimildir Árni Björnsson. (1993). Saga daganna. Mál og menning. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson. (2023). Sumardagurinn fyrsti fyrr og nú. Kreddur. Eiríkur Valdimarsson. (2021, 21. apríl). Sumardagurinn fyrsti – drög að góðum degi. Þjóðtrúarvefurinn. www.thjodtru.is/sumardagurinn-fyrsti-drog-ad-godum-degi/. Eiríkur Valdimarsson. (2010). Á veðramótum: Íslenskar veðurspár og veðurþekking þjóðarinnar fyrr og nú. MA ritgerð í þjóðfræði við Háskóla Íslands. (óútg.). Jónas Jónasson. (1961). Íslenzkir þjóðhættir. 3. útgáfa. Einar Ól. Sveinsson bjó undir prentun. Ísafoldarprentsmiðja. Þórður Tómasson. (1979). Veðurfræði Eyfellings, Þjóðsaga. Eiríkur ValdimarssonÞjóðfræðingur og verkefnastjóri hjá Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|