Tekur skot og skorar mark! Fögn fótboltamanna frá sjónarhorni sviðslistar - Þórunn Kjartansdóttir1/31/2014 Hægt er að kanna margt í venjulegum fótboltaleik og athafnir þeirra sem þar koma við sögu út frá sviðslistafræði. Allir sem koma að leiknum eru á sinn hátt að setja eitthvað á svið, hvort sem það eru áhorfendurnir sem klæða sig upp á ákveðinn hátt, kalla, syngja og dansa í áhorfendastúkunni til stuðnings sínu liði eða liðið sjálft sem einnig fer í búninga og sýnir áhorfendum og andstæðingum hvað þeir geta. Hér verður sjónum beint að skoruðum mörkum og hvernig fótboltamenn fagna marki. Það að skora mark í fótboltaleik mætti líkja við þann sið indíána forðum að telja þær beinu snertingar sem þeir náðu við andstæðinginn sem þeir voru í stríði við (e. counting coup). Gamlar sagnir eru til um að innan ákveðinna ættbálka indíána hafi viðhorf til bardaga og stríðs snúist um hversu spennandi það var fremur en að stríð væri dauðans alvara Þeir tóku þátt til þess að öðlast virðingu og það gerðu þeir með því að telja snertingar. Að drepa óvininn úr launsátri var ekki mikil hetjudáð en að ná að stela hesti hans fyrir framan nefið á honum eða nálgast hann það mikið að stríðsmaðurinn næði snertingu við hann var hetjudáð sem tekið var eftir (Erdoes og Alfonso, 1984: 245-246). Þegar leikmaður í fótbolta nær að komast inn fyrir varnir mótherjans og skora mark er það nokkurskonar snerting sem eykur virðingu hans meðal hinna í liðinu og gerir hann að hetju rétt eins og stríðsmenn indíána. Því glæsilegra sem markið er því fræknara verður afrekið og hetjudáðin meiri. Mörk í fótboltaleik eru ekki mörg og því eðlilegt að menn gleðjist þegar þeir ná að skora. Það er nokkur munur á því hvernig menn velja að tjá gleði sína og í því liggur sviðslistin. Hluti af gleðinni og athöfnunum er ósjálfráð vegna hormóna sem flæða um líkamann við atburðinn en hluti fagnaðarlátanna er meðvituð hegðun sem gaman er að velta fyrir sér og kanna. Til að nálgast þetta viðfangsefni hef ég flokkað þessi fagnaðarlæti leikmanna niður í þrjár gerðir; samfögn, sérfögn og hópfögn. Mynd 1: Samfagn Samfagn Algengast er að sjá samfagn. Í slíku fagni hópast liðið saman og fallast liðsfélagar í faðma og umkringja þann sem skoraði. Stundum er lagst ofan á hann eða hoppað í fangið á honum, ofan á bakið, hann kysstur og strokinn (sjá mynd 1). Þarna er liðið að fagna sem ein heild og með því að koma saman með þessum hætti er liðsheildin undirstrikuð og þá að markið hafi verið afrakstur þess fremur en einstaklingsins. Í þessu samhengi mætti skoða hugtak Victor Turner einingu (e. communitas) sem má skilja á þann hátt að það sé sameiginlegt og táknrænt flæði fólks við ákveðnar aðstæður, sem gera hugsanir og athafnir hópsins að einu og myndar þannig táknræna heild sem verður til skyndilega. Communitas gerist í raun ekki allt í einu upp úr þurru heldur er afleiðing þess sem er að gerast. Í þessu tilfelli væri það samfagnið sem fer af stað í kjölfar marksins (Schechner, 2006: 70-71). Athöfnin sjálf er ekki sérstaklega æfð en á vissan hátt lærð hegðun og vísar til fagnaðarláta sem aðrir fótboltamenn hafa gert í gegnum tíðina sem og ákveðinnar frumstæðrar hegðunar mannsins, það er að hlaupa, öskra og kasta sér í jörðina. Hér er komið það sem kallað hefur verið endurgerð hegðun (e. restoration of behavior), allt sem við gerum er runnið undan rifjum annarrar athafnar sem hefur áður verið gerð. Við þurfum ekki endilega að vera meðvituð um þessa tengingu, en hún er samt til staðar og er ein af undirstöðum sviðslistar og samskipta fólks, því endurgerð hegðun er táknræn og samskipti manna byggja á því að þekkja þessi tákn (Schechner, 2006: 34-35). Mynd 2: Sérfagn Sérfagn Önnur gerð af fagni er það sem ég kýs að kalla sérfagn og er að mörgu leyti byggt á sama grunni og samfagnið; það er að sýna gleði sína yfir nýlegu afreki með einhverjum hætti sem ekki er fyrirfram ákveðinn eða æfður. Hér er leikmaðurinn sem skoraði einn um að fagna. Í stað þess að snúa sér til meðspilaranna snýr markaskorarinn sér frá þeim. Algengt er að hann hlaupi í átt að áhorfendastúkunni og/eða sjónvarpsmyndavélunum séu þær til staðar (sjá mynd 2), lyfti höndunum upp fyrir höfuð, krjúpi fyrir framan áhorfendur, steyti hnefann eða sýni hreysti sitt með öðrum æfingum, lyfti upp bolnum til að sýna vöðvana o.s.frv. Margar af þessum hreyfingum sem taldar voru upp eru táknrænar hreyfingar í mörgum trúartengdum helgisiðum og lýsa þar einhverskonar ákalli. Mynd 3: Einkennisfagn Alan Shearer Sumir leikmenn kjósa að gera alltaf það sama þegar þeir fagna marki, eru með sömu handahreyfinguna eða annað sem verður nokkurskonar merkimiði þeirra. Dæmi um einfalt fagn af þessum toga eru fögn enska leikmannsins Alan Shearer. Hann fagnaði nánast öllum mörkum sínum á sama hátt (þau voru mörg), hann lyfti hægri hönd upp í loft, oftast með lófann opinn eða bara vísifingur á lofti (Richards, 2012: 1:56-2:08) (sjá mynd 3). Dæmi um flóknari fagnaðarlæti er fagn Robert Keane þar sem hann fer í handahlaup, kollhnís og þykist svo skjóta út í loftið af ímynduðum byssum (Jmehd 15, 2012). Með þessu eru leikmenn hugsanlega að reyna greina sig frá fjöldanum og skapa sér sérstöðu. Það er erfitt að segja til um hvort fagnið sé fyrirfram ákveðið, það þarf ekkert að vera í fyrsta skipti sem það er gert en þegar leikmaðurinn ákveður að endurtaka það næst þegar hann skorar er komin greinileg og meðvituð sviðslist. Einnig er algengt að leikmenn komi einhverjum skilaboðum áleiðis í fögnum sínum, sem þá er augljóslega undirbúin sviðslist. Dæmi um slíkt er þegar þeir eru með skrifuð skilaboð undir treyjunni sem sést þegar þeir lyfta henni upp eða þá nota hendur og líkama til að koma skilaboðunum á framfæri (sjá mynd 4). Mynd 4: Dæmi um skilaboð í fögnum Táknin og hreyfingarnar eru oft almenn. Sá sem sér þau þarf ekki að hafa þekkingu á fótbolta eða leikmanninum til að skilja hverju hann er að koma á framfæri. Dæmi um þetta er þegar leikmaður gefur fingurkoss til áhorfenda til að þakka þeim stuðninginn eða tekur með lófum utan um olnboganna á sér og vaggar þeim fram og til baka rétt eins og hann sé með barn í fanginu. Önnur tákn sem leikmenn gera eru öllu flóknari og erfitt fyrir þann sem ekki þekkir til leiksins að greina hvað er verið að segja með þeim. Dæmi um það er þegar Robert Fowler, þáverandi leikmaður Liverpool hljóp út að endalínu í kjölfar þess að hafa skorað, lagðist í jörðina, lagði vísifingur fyrir aðra nösina og þóttist vera að sjúga endalínuna upp í nefið á sér (sjá mynd 5). Með þessu fagni var hann að deila á orðróm sem gengið hafði um hann um neyslu eiturlyfja (News.bbc.co.uk, 1999 og Poppindacriss6, 2004). Mynd 5: Umdeilt fagn Robert Fowler Einnig má nefna annað nýlegt dæmi. Þá hafði knattspyrnustjóri Everton, í aðdraganda leiks milli liðsins og Liverpool gagnrýnt framherja Liverpool-liðsins, Luis Suarez fyrir að láta sig falla of auðveldlega í leikjum í þeim tilgangi að fá aukaspyrnur og vítaspyrnur. Þetta er oftast kallað að „dýfa sér“ af knattspyrnuáhugamönnum. Í leiknum sjálfum skoraði Suarez og fagnaði með því að hlaupa að varamannabekk Everton liðsins og þykjast dýfa sér til sunds, beint fyrir framan knattspyrnustjórann (Maddock, 2012 og LFCBenH, 2012) (sjá mynd 6). Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd mætti nefna einu nafni táknræna eða gildishlaðna hegðun sem á ensku útleggst sem Codified behavior, það er hreyfingar og athafnir sem hafa merkingu fyrir fleirum en þeim sem framkvæmir hana (Schechner, 2006: 184) og er nátengt hugtakinu endurgerð hegðun sem minnst var á framar Mynd 6: Fagn Luis Suarez Sérfögn snúast um einstaklinginn og því sem hann vill koma til skila hvað svo sem það er, leggja áherslu á eigið ágæti, þakklæti til áhorfenda eða hvað sem leikmanninum liggur á hjarta hverju sinni. Það þarf ekkert alltaf að vera djúp merking á bakvið það sem leikmaðurinn gerir. Oftar en ekki fer sérfagn yfir í að vera samfagn eða hópfagn sem verður fjallað um hér á eftir.
1 Comment
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |