Eitt af forvitnilegri minnum sem koma upp bæði í textaheimildum og fornleifum frá ýmsum tímum og hefur reyndar lifað allt fram á okkar daga er umbreyting manns í dýr. Í vestrænni menningu nútímans má sjá þetta minni til dæmis í skáldsögum og bíómyndum um varúlfa og vampýrur en því fer fjarri að það sé eingöngu bundið við Vesturlönd og það er langt frá því að vera nýtt; sem dæmi má nefna að varúlfasögur voru þekktar meðal Rómverja til forna (Aðalheiður Guðmundsdóttir 2001:clxxxvii). Norðurlöndin fóru heldur ekki varhluta af útbreiðslu þessa minnis; fornnorrænar textaheimildir hafa að geyma frásagnir af berserkjum og úlfhéðnum sem áttu mögulega að hafa einhver tengsl við birni og úlfa, jafnvel að geta tekið á sig mynd þeirra og í Völundarkviðu er sagt frá svanameyjum (Eddukvæði 2001:145). Ekki má heldur gleyma hamskiptum goðanna sem virðast sumir hverjir eiga jafn auðvelt með að skipta um ham og við mennirnir með að skipta um föt. Goðin byggja heim sem er að mestu leyti aðskilinn frá mannaheimum og þau fylgja heldur ekki sömu lögmálum og mennirnir. Hamskipti virðast vera, ef ekki alveg daglegt brauð, þá að minnsta kosti tiltölulega sjálfsagður hlutur þegar svo ber undir. Til eru sögur af hamskiptum margra goðanna, en þó ekki allra, því að ekki er vitað til þess að Njörður, Freyr eða Þór hafi stundað að skipta um ham, né heldur aðrar gyðjur en Frigg, Freyja og Iðunn. Stórtækastir á þessu sviði virðast hafa verið þeir félagar og fóstbræður Óðinn og alveg sérkstaklega Loki og er það ætlun mín hér að fjalla nánar um sterk tengsl Loka við hamskipti. Það virðist liggja sérstaklega vel fyrir Loka að bregða sér í líki annarra, hvort sem um er að ræða dýr, menn eða tröll. Hann virðist jafnvel gera það eingöngu sér til skemmtunar, eftir því sem segir í Skáldskaparmálum: „…þá er hann flaug einu sinni að skemmta sér með valsham Friggjar…“ (Skáldskaparmál 27). Það fer ekki milli mála að af guðunum eru til flestar sögur af hamskiptum Loka og hjá honum er einnig fjölbreytnin mest. Hamskipti Loka eru samt yfirleitt af einhverri ástæðu og hann velur sér þann ham sem hentar vel í það sem hann þarf að gera. Dæmi um það er þegar hann bregður sér í merarlíki til að lokka hest borgarsmiðsins í burtu, reyndar með óvæntum afleiðingum eins og vill gjarnan vera með skyndikynni (Gylfaginning 42). Umbreyting Loka í merina virðist því vera alger, hamskiptin fela meira í sér en að hann taki einungis á sig ytri mynd hennar. Þetta virðist einnig hafa verið tilfellið þegar hann var kona og kýr mjólkandi fyr jörð neðan og hafði þar börn um borið eins og Óðinn vænir hann um í Lokasennu 23. Það er hinsvegar erfitt að gera sér í hugarlund hvaða ástæðu Loki gæti hafa haft til breyta sér í konu. Ekki er líklegt að Óðinn sé hér að vísa í merarhaminn, því varla getur meri hafa mjólkað kýr. Sú ályktun gengur að vísu út frá því að höfundur kvæðisins hafi þekkt til sagnar um að Loki hafi búið neðanjarðar sem kona og mjólkað þar kýr en ekki bara sett inn þessa línu til að leggja áherslu á ergi hans. (1) Reyndar er til eitt dæmi enn um að Loki hafi breytt sér í kvenkyns veru, þegar sagt var að hann hefði verið gýgurin Þökk sem neitaði að gráta Baldur úr helju (Gylfaginning 49). Hafi svo verið er einnig erfitt að sjá hvers vegna hann þurfti að verða kvenkyns, eða hvort hann þurfti þess yfirleitt og því væri hægt að draga þá ályktun að honum hafi einfaldlega fundist gaman að bregða sér í kvenlíki, eins og honum fannst gaman að fá valshaminn lánaðan. Það er einnig hægt að velta fyrir sér hvers kyns valurinn sá hefur verið, þar sem hamurinn er ýmist sagður hafa verið í eigu Friggjar eða Freyju (Skáldskaparmál 3, 27; Þrymskviða 3). Ef Loka hefur bæði fundist gaman að vera kvenkyns og að fljúga er vel skiljanlegt hvers vegna hann hefur verið svo áfjáður í að fá valshaminn lánaðan. En eins og áður sagði er oftar en ekki einhver ástæða fyrir hamskiptum Loka. Það á við þegar hann breytir sér í flugu til að komast inn til Freyju að stela hálsmeni Freyju eins og sagt er frá í Sörla þætti 2 og mætti skilja af Skáldskaparmálum 44 að hann geri til að vinna veðmálið við dvergana Brokk og Eitra. Sama gildir þegar hann breytir sér í fló í Sörla þætti 2 til að ná meninu af Freyju og eins þegar hann breytir sér í lax til að fela sig fyrir hinum guðunum þegar hann er búinn að fá þau öll upp á móti sér (Gylfaginning 50; Lokasenna lausamál aftast). Þau hamskipti Loka sem ef til vill er vitað hvað minnst um er þegar hann á að hafa breytt sér í sel til að berjast við Heimdall, líka í selslíki, um Brísingamenið. Um þetta eru aðeins fáeinar línur í Skáldskaparmálum 16 en sé tekið mið af áður nefndri frásögn í Sörla þætti 2 má hugsa sér að Freyja hafi beðið Heimdall um að ná meninu aftur fyrir sig. Það er reyndar ekki í samræmi við Sörla þátt 3, þar sem Freyja semur við Óðinn um að fá menið aftur, en hún gæti hafa haft Heimdall í bakhöndinni sem varaáætlun, eða Loki stolið því aftur. Loki kemur víða við í hamskiptum sínum. Hann virðist vera einn af þeim sem þurfa að prófa allt einu sinni og fyrir utan að hafa verið spendýr, skordýr, fiskur og fugl skiptir hann líka um kyn og prófar að vera kvenkyns, með öllu sem því fylgir, eins og að fæða afkvæmi. Það er kannski ekkert skrýtið þó hann lendi oft í vandræðum. Það sem mér finnst sérstaklega athyglisvert í frásögnum af hamskiptum Loka er að þó að hann virðist fyrirhafnarlaust geta breytt sér í nánast hvað sem er, frá flugu til merar til tröllkonu, þá þarf hann aðstoð Friggjar eða Freyju til að breyta sér í fugl, eða að minnsta kosti val. Þetta virðist ekki beinlínis vera tengt fluggetu, þar sem hann er fær um að breyta sér flugu upp á eigin spýtur. Ef til vill hafa fuglar einfaldlega heyrt undir gyðjurnar og hann því þurft leyfi þeirra til að nota það form. Jafnvel þegar Loki er ekki sjálfur að skipta um ham virðist hann oft vera viðriðinn hamskipti á einn eða annan hátt, til dæmis þegar hann breytir Iðunni í hnetu þegar hann bjargar henni frá jötninum Þjassa (Skáldskaparmál 2-3) og eins í áðurnefndum bardaga við Heimdall í selalíki. Afkvæmi hans hafa einnig margar mismunandi birtingarmyndir, meira að segja í einni og sömu persónunni, eins og hin tvískipta Hel og sonur hans, ýmist kallaður Váli eða Narfi, var breytt í úlf (Gylfaginning 50). Ekkert af akvæmum Loka virðist þó hafa erft getu hans til að velja sér ham eftir hentugleika. Ef það er á annað borð hægt að tala um „hamskiptaguð“ myndi sá titill tvímælalaust ganga til Loka eða kannski mætti frekar segja að hann sé fulltrúi hins efnislega forms eða birtingarmyndar í efnisheiminum. Hann virðist þó ekki bundinn af því, að minnsta kosti ekki fyrr en hann er fangaður af hinum goðunum og njörvaður niður. Reyndar virðist hann einmitt vera afskaplega flæðandi og síbreytilegur, stöðugt á hreyfingu eins og vindarnir, enda er hann einnig nefndur Loftur samkvæmt Snorra-Eddu (Gylfaginning 33) og komið hafa fram hugmyndir um að hann tengist einmitt lofti og vindum (Laidoner 2010). Það er því kannski ekki að undra þó erfitt sé festa hönd á hamhleypunni Loka í öllum sínum margbreytileika. Aftanmálsgreinar
1) Gísli Sigurðsson segir í skýringum við erindi 23 í Lokasennu að þar saki Óðinn Loka um að hafa verið kona og mjólkað kýr, sem var kvenmannsverk og það hafi þótt hið mesta níð og svíðvirðing í fornum textum (2001:124). Mér finnst hins vegar alveg mögulegt að lesa út úr erindinu að Loki hafi bæði verið kona og mjólkurkýr, sem hefði sennilega ekki verið minni svívirðing en er að vísu ekkert auðskiljanlegra. Frumheimildir Eddukvæði. 2001. Eddukvæði með skýringum eftir Gísla Sigurðsson. Reykjavík, Íslensku bókaklúbbarnir. Fornaldarsögur Norðurlanda sóttar af http://snerpa.is/net/forn/ þann 5. janúar 2011. Snorri Sturluson. 1931. Edda Snorra Sturlusonar: Udgivet efter håndskrifterne af Kommissionen for det Arnamagnæanske legat. (Finnur Jónsson sá um útgáfuna). Kaupmannahöfn, Gyldendal. Eftirheimildir Aðalheiður Guðmundsdóttir. 2001. Úlfhams saga. Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar. Laidoner, Triin. 2010. „The Footprints of the Sámi in Old Nordic Mythology: Finding a Voice for the Borderline Figure of Loki Laufeyjarson“. Fyrirlestur á þverfaglegri ráðstefnu, Gods and Godesses on the Edge: Myth and Liminality in the North, sem haldin var í Norræna húsinu 12. – 13. nóvember 2010.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|