Veturinn 1891 byrjuðum við Níels á blaði sem hét „Dalbúinn“, skiptumst við á að skrifa það, og varð árg. 7 arkir. Árið eftir 1892 skrifaði ég blaðið einn og þá varð árg. 25 arkir. Næsta vetur (1893) kom út þriðji og síðasti árg. Dalbúans 11 arkir að stærð. Dalbúinn fór fárra á milli, komst þó norður á Gjögur til Bjarna Sæmundssonar, tengdaföður Níelsar bróður míns, og Benedikt í Geststaðaseli fékk að lesa hann. Annars fór Dalbúinn fremur huldu höfði, þó ekki ætti hann sökótt við menn. Efni blaðsins var fróðleikur ýmiskonar, sögur, ljóðmæli, skrítlur, gátur og fréttir. Lét ég svo binda inn alla 3 árg. og er sú bók nú í eigu minni. Þannig kemst Halldór Jónsson frá Tind í Miðdal við Steingrímsfjörð á Ströndum (f. 1871) að orði, í kaflanum Skriftir í sjálfsævisögu sinni sem er varðveitt í handriti á Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og hefur einnig verið birt á prenti (Sigurður Gylfi Magnússon, 1997a, bls. 24-47, bein tilv. bls. 46-47). Þar er einkum fjallað um fyrstu tvo áratugina sem Halldór lifði og er ævisagan skrifuð árið 1906. Bræður á StröndumHandskrifaða sveitarblaðið Dalbúinn var skrifað á Tind og fyrsta tölublaðið kom út í ársbyrjun 1891, laugardaginn 3. janúar, en í dagbók Halldórs sést að tvö fyrstu tölublöðin hafa verið skrifuð fyrir áramótin (Sigurður Gylfi Magnússon, 1997a, bls. 91). Fyrsta greinin hefur yfirskriftina Úr bréfi og er fréttapistill úr héraðinu með yfirliti um árið 1890.
Níels er skrifaður ábyrgðarmaður og ritstjóri í fyrstu 11 tölublöðum fyrsta árgangs, en eftir það er Halldór skrifaður fyrir útgáfunni. Í 12. tölublaði er greint frá þessum umskiptum og beðist afsökunar á bið sem hafði orðið eftir því tölublaði sem kom út 4. apríl 1891, tölublaðið á undan kom út 7. mars. Það hafði vantað blek. Þess er jafnframt getið að ritstjóraskiptin hafi orðið vegna þess að Níels sé ekki lengur heima. Líftími blaðsins var ekki langur, Dalbúinn var gefinn út í þrjú ár. Alls komu út 14 tölublöð í fyrsta árgangi frá janúar og fram í apríl 1891. Veturinn á eftir kemur annar árgangur út og fyrsta blaðið er dagsett 1. janúar 1892. Alls komu þá út 42 tölublöð fram til 4. maí og þá tvisvar og stundum þrisvar í viku. Þriðji árgangur kom út einu sinni í viku frá 5. nóvember 1892 til 29. apríl 1893 og voru það alls 22 tölublöð. Alls komu því út 78 tölublöð á þessum þremur árum. Dalbúinn í örugga höfnDalbúinn er fallegt handrit. Tölublöðin hafa öll verið innbundin í eina bók eftir að þau hafa gengið á milli lesenda sinna og þá hefur verið bætt við forsíðum fyrir hvern árgang og efnisyfirliti. Þetta var ekki búið 1895, því þá kemur fram í bréfi Halldórs til Níelsar að hann er að reyna að endurheimta 16 tölublöð norðan frá Gjögri sem hann sendi þangað tveimur árum fyrr (Sigurður Gylfi Magnússon, 1997a, bls. 195; 200). Hvert tölublað var fjórar blaðsíður (eitt blað samanbrotið). Textinn er settur í tvo dálka og dregnar línur á milli dálka eins í dagblöðum. Skriftin er smágerð og afar vönduð, mjög fallegar rithendur og Dalbúinn er mjög vel læsilegur. Dalbúinn er nú lentur í geymslunni í Handritasafni Landsbókasafnsins, eftir að hafa verið í vörslu Halldórs sjálfs og síðan afkomenda hans í 130 ár, frá því síðasta tölublaðið kom út. Það hefur ratað víða og var í mörg ár utan landsteinanna. Jón Alfreðsson fyrrum kaupfélagsstjóri á Hólmavík og sonarsonur Halldórs frá Tind fékk handritið í hendur síðasta vetur.
Blómaskeið handskrifuðu sveitar- og félagablaðanna
Blöðin hér á landi voru oftast aðeins skrifuð í einu eintaki og komu yfirleitt bara út yfir veturinn. Stundum stóðu lestrarfélög eða önnur félagasamtök á bak við framtakið, stundum einstaklingar. Hvert tölublað gekk um sveitina eða á milli lesenda eða áskrifenda. Eftir að þau höfðu verið lesin, voru þau borin áfram rétta boðleið á næsta bæ eða til næsta áskrifanda (Eiríkur Þormóðsson, 1992;2003; Jón Jónsson, 2003). Skipta má útgáfu handskrifaðra blaða í tvö tímabil, eins og Eiríkur Þormóðsson, fyrrverandi handritavörður við Handritasafn Landsbókasafnsins, bendir á. Annars vegar voru hin eiginlegu sveitarblöð sem komu fyrst og voru á ferðinni fram yfir aldamótin 1900. Eftir að ungmennafélögin voru stofnuð um næstum allt land á fyrstu þremur áratugum 20. aldar, þá héldu þau líka mjög oft úti handskrifuðu blaði í einu eintaki og stundum líka skólar eða önnur félög, eins og kvenfélög og bindindisfélög. Stundum gengu slík blöð um sveitina, en oftar var blaðið einfaldlega fært inn í sérstaka bók. Þá voru greinarnar í því lesnar upp á félagsfundum og jafnvel teknar þar til umræðu (Eiríkur Þormóðsson, 2003, bls. 68-9). Þessi blöð ættu kannski frekar að vera kölluð félagablöð en sveitarblöð, þó seinna hugtakið hafi verið notað um báða flokka. Í grein Eiríks kemur fram að útgáfa slíkra blaða hefur verið mjög misjöfn milli svæða og sýslna og byggir hann það á nákvæmri heimildarannsókn og upplýsingum frá héraðsskjalasöfnum. Þau voru langflest í Þingeyjarsýslu eða samtals 96 og til samanburðar hefur Eiríkur vitneskju um 26 í Skagafirði og 16 í Strandasýslu, en fann aftur á móti aðeins 2 í Vestur-Húnavatnssýslu og 7 í Austur-Húnavatnssýslu (Eiríkur Þormóðsson, 2003, bls. 79). Handrituð blöð á StröndumDalbúinn sprettur þannig úr tíðarandanum og útgáfuna þarf að skoða í samhengi við þetta blómaskeið sveitarblaðanna undir lok 19. aldar. Um leið er ástæðulaust að gera lítið úr framlagi einstaklinga í þessu samhengi, það hefur alltaf verið þannig að án þess fólks sem lætur verkin tala verður lítið úr hlutunum. Halldór Jónsson og Níels bróðir hans virðast hafa haft óþrjótandi löngun til að viða að sér fróðleik og það hefur einnig verið ríkur vilji hjá Halldóri að fræða og mennta sveitunga sína. Síðar á lífsleiðinni átti Halldór eftir að gefa út annað sveitarblað sem kom út á árunum 1907-1908 og bar nafnið Gestur. Hann skrifaði rúmlega helming af efninu í það sjálfur, 61 grein af 113 að talið er. Ísleifur bróðir hans skrifaði líka nokkrar greinar og aðrir höfundar virðast vera 27 talsins og af þeim er vitað með vissu um tvær konur (Eiríkur Þormóðsson, 2003, bls. 82). Alls komu út 37 tölublöð á þessum tveimur árum og Gestur er einmitt líka varðveittur í Handritasafni Landsbókasafnsins (Lbs 1672 4to). Halldór er ósáttur við sveitunga sína þegar hann ákveður að hætta blaðaútgáfunni og segir í bréfi til Níelsar bróður síns 5. feb. 1909 (Sigurður Gylfi Magnússon, 1997b, bls. 143): Nú er „Gestur“ minn ekki lengur á ferðinni af því að ekki óskuðu svo margir eftir að sjá hann að mér þætti gerandi að halda honum úti; því það er talsverð fyrirhöfn í allt og eitt. Hefði hann þó getað skemmt dálítið, og nóg er um að tala ef menn nenntu því. Deyfð! Alls er höfundi þessarar greinar kunnugt um átta sveitarblöð sem komu út á Ströndum fyrir 1910 og virðast þau öll hafa verið skammlíf. Þau voru Gestur sem Jóhannes í Asparvík nefnir í grein í Strandapóstinum og segir að hafi komið út um 1880 í Tungusveit sem er annað nafn á Kirkjubólshreppi og enn notað um svæðið við sunnanverðan Steingrímsfjörð (Jóhannes Jónsson, 1983, bls. 50-51). Jóhannes hefur haft aðgang að Dalbúanum þegar hann skrifar þessa grein og birtir úr honum efni (Jóhannes Jónsson, 1983). Önnur voru Morgunstjarnan sem kom út í Kollafirði og Unglingur í Tungusveit, bæði á sama tíma og Dalbúinn. Félagsblaðið var gefið út í Kollafirði frá 1896 og Tíminn var gefinn út um aldamótin 1900 í Reykjarfirði í Árneshreppi og innihélt eingöngu uppskrifaðar sögur. Skinfaxi var gefinn út í Tungusveit frá ársbyrjun 1903 og Gestur Halldórs kom svo út 1907-1908 eins og áður kom fram (Jón Jónsson, 2003b). Í Dalbúanum kemur fram að fyrsta tölublaðið af Unglingi hafi komið út 19. desember 1891. Þá er ritstjóri þess Björn Jónsson í Tungugröf og blaðið á að koma út annan hvern laugardag. Einnig segir að þetta hafi verið ákveðið á félagsfundi hjá Lestrarfélagi Kirkjubólshrepps þann 12. des. sama ár. Útgáfusaga Unglings var stutt, því síðasta tölublaðið kom út áður en Dalbúinn lagði upp laupana, eða 27. apríl 1892 (Jón Jónsson, 2003b). Á þessum tíma kom einnig út Morgunstjarnan sem gefin var út af nágrönnum Tungusveitunga í Kollafirði sem er sunnan við Steingrímsfjörð. Það blað átti í illdeilum við Ungling. Óhróður og meinlegar athugasemdir flugu á milli blaðanna og svo eru líka til níðvísur sem annað hvort birtust í blöðunum eða þá að þær væru ortar í orðastað þeirra. Vísurnar eru varðveittar af því þær eru birtar í Dalbúanum. Morgunstjarnan var enn gefin út þegar Dalbúinn hætti, en líklega ekki mikið lengur. Það er áhugavert að í dagbók Halldórs segist hann hafa fengið fyrstu tvö eintökin af Morgunstjörnunni til lestrar á aðfangadag 1890, sem virðist hafa orðið kveikjan að Dalbúanum. Í dagbókinni sinni á jóladag skrifar Halldór nefnilega: „Við vöktum í nótt ekki þó alla, nema Leifi einn. Ég var að skrifa greinar sem eiga að fara í blað sem við ætlum að búa til um nýárið. Í kvöld hef ég verið að því líka og dró upp mynd af hrút“ (Sigurður Gylfi Magnússon, 1997a, bls. 90). Höfundur þessarar greinar þekkir ekki afdrif þessara tveggja blaða, en Jóhannes í Asparvík hafði heyrt sögusögn um að upplagið af Morgunstjörnunni hafi verið brennt viljandi (Jóhannes Jónsson, 1983, bls. 59). Um 1920 fjölgaði handskrifuðum blöðum á Ströndum mjög. Þar voru ungmennafélögin og málfundarfélög sem voru forverar þeirra að verki, en blöðin lifðu mjög mislengi og mörg mjög stutt. Í Hrútafirði kom blaðið Framtíðin út frá árinu 1918 og í Kollafirði Vísir frá sama tíma. Viljinn kom út í Hrófbergshreppi frá 1922 og Máni í Kaldrananeshreppi frá 1925. Sama ár hóf handskrifaða blaðið Hvöt göngu sína í Hrútafirði og Víðir 1927 í Bitrunni. Hvöt kom svo út í Tungusveit frá 1931. Viljinn kom út á Hólmavík á fjórða áratugnum, eftir að Málfundafélagið Vaka var stofnað og Kvásir í Kaldrananeshreppi frá 1936. Blöðin Trékyllir og Skuggi voru gefin út í Árneshreppi frá 1941 (Jón Jónsson, 2003b).
Þó er talsvert af svona persónulegum heimildum sennilega ennþá varðveitt í heimahúsum af afkomendum og einkaaðilum og líklega ræður tilviljun mestu um hvort þær lenda að lokum á söfnum. Við þjóðfræðingarnir sem störfum hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum hefðum gaman af að frétta af slíkum handskrifuðum skjölum á Ströndum og erum líka reiðubúin til að hafa milligöngu um að koma alls konar heimildum á viðeigandi safn til varanlegrar varðveislu. Hvað er að finna í Dalbúanum?Hinn sískrifandi Halldór lýsir innihaldi Dalbúans sjálfur þannig í inngangsorðum þessarar greinar, að í honum hafi verið „fróðleikur ýmiskonar, sögur, ljóðmæli, skrítlur, gátur og fréttir“. Lýsingin er býsna góð og nær vel yfir efnið. Það sem Strandafólki finnst líklega markverðast er allskonar fréttaefni úr sveitinni og það er ýmislegt um að vera á þessum árum. Sparisjóður er stofnaður og sagt frá tíðarfari og búskaparbaslinu og margvíslegu félagsstarfi fólksins við Steingrímsfjörð. Fréttir eru um verslunar- og pöntunarfélög, sýslunefndarfundi, lestrarfélagið og búnaðarfélög, fyrirhugaða stofnun skóla á Felli í Kollafirði, auk almennra fréttamola um viðburði í sveitinni. Í Dalbúanum er oftsinnis vísað í önnur sveitarblöð á Ströndum og ritstjórinn nýtir sér t.d. greinar úr Unglingi og endurbirtir þær, sem styður umsögn Halldórs að blaðið hafi ekki farið mjög víða um sveitina. Efnið er að langmestu leyti frá ritstjóranum hverju sinni, en nokkrir aðrir hafa einnig lagt til efni og kveðskap. Halldór á fjölda greina í tölublöðunum sem Níels ritstýrir og eru þær merktar með tölunni 89 (eins og sjálfsævisagan hans). Benedikt Guðbrandsson á Smáhömrum skrifar nokkrar greinar í Dalbúann og segir t.d. í einni greininni frá ferðalögum sínum um Vesturheim og að hann hafi reykt friðarpípu með indjánahöfðingjanum Sitting Bull við Standing Rock í Norður-Dakóta. Dalbúinn er einstök heimild fyrir sögu Stranda, en líka algjör gullmoli fyrir þau sem vilja rannsaka og skrifa um félagslíf og félagsstörf fólks á þessum tíma, viðhorfin og tíðarandann. Hann er um leið yndisleg heimild um skriftaráhuga og menntunarþrá ritstjóranna og löngun þeirra til að ræða margvísleg mál við sveitunga sína. Það er frábært að þetta handrit skuli komið í örugga höfn. Dalbúinn kveður með þessum orðum í síðasta tölublaði: Þetta er nú seinasta blaðið sem út kemur af Dalbúanum í þetta sinn og líkast er að hann láti ekki sjá sig framar, enda held ég að lesendum hans megi vera lítil eftirsjá í því að þessu sinni, því hann hefur verið svo margfalt verri í ár en í fyrra og kemur það til af því eins og áður hefur verið tekið fram í Dalbúanum að nú gat ritstjórinn ekki fengið neitt úr sveitablöðunum eins og í fyrra – eða því blaðinu sem enn tórir (Morgunstjörnunni) því hún hefur ekki komið hér inn í hreppinn í vetur, hefur því ritstjórinn orðið að tína til allt sem hann hefur getað fengið og þá stundum kannski miður fróðlegt eða skemmtilegt, en það hefur ekki verið kostur á að hafa blaðið skárra. Þessi kveðja Halldórs úr fortíðinni verður jafnframt lokaorðin í þessum stutta pistli. Það er von mín að í framtíðinni verði Dalbúinn rannsakaður af fræðafólki í ólíkum greinum og frá fjölbreyttum sjónarhornum og að öllum þeim fróðleik sem af því sprettur verði miðlað til áhugasamra. HeimildirÓprentaðar heimildir: Jón Jónsson, 2003b. Handskrifuð blöð á Ströndum. Óbirt yfirlit, í vörslu höfundar. Landsbókasafn-Háskólabókasafn. (e.d.). Handritasafn. Lbs 1672 4to., Gestur 1907-1908. Handskrifað sveitarblað. Ritstjóri Halldór Jónsson í Miðdalsgröf. Landsbókasafn-Háskólabókasafn. (e.d.). Handritasafn. Lbs 5818 4to., Dalbúinn 1891-1893. Handskrifað sveitarblað. Ritstjórar Níels Jónsson og Halldór Jónsson á Tind í Miðdal. Prentaðar heimildir: Eiríkur Þormóðsson. (1992). Skrá um handskrifuð blöð í Landsbókasafni Íslands. Árbók Landsbókasafns Íslands 1991, 17, 65-87. Eiríkur Þormóðsson. (2003). Handskrifuð blöð. Í Ingi Sigurðsson og Loftur Guttormsson (ritstj.). Alþýðumenning á Íslandi 1830–1930. Ritað mál, menntun og félagshreyfingar (bls. 67-90). Háskólaútgáfan. Jóhannes Jónsson frá Asparvík. (1983). Blaðaútgáfa á Ströndum. Strandapósturinn, 17, 50-67. Jón Jónsson. (2003). Lestrarfélög fyrir almenning. Í Ingi Sigurðsson og Loftur Guttormsson (ritstj.). Alþýðumenning á Íslandi 1830–1930. Ritað mál, menntun og félagshreyfingar (bls. 171-193). Háskólaútgáfan. Sigurður Gylfi Magnússon. (1997a). Bræður af Ströndum. Dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga, minnisbækur og samtíningur frá 19. öld. Háskólaútgáfan. Sigurður Gylfi Magnússon. (1997b). Menntun, ást og sorg. Einsögurannsókn á íslensku sveitasamfélagi 19. og 20. aldar. Sagnfræðistofnun og Háskólaútgáfan. Sigurður Gylfi Magnússon. (1995). „Jeg er 479 dögum ýngri en Nilli.“ Dagbækur og daglegt líf Halldórs Jónssonar frá Miðdalsgröf. Skírnir. Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 169 (haust), 309-347. Athugasemd höfundar: Beinar tilvitnanir eru færðar til nútímastafsetningar í þessari grein. Höfundur:Jón Jónsson, verkefnisstjóri á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|