Á öðru ári í BA námi mínu stóð ég frammi fyrir því að þurfa að fara að hugleiða hvaða ritgerðarefni ég vildi takast á við í BA verkefninu mínu. Ég átti nokkrar hugmyndir á blaði en sú sem varð fyrir valinu varð Hraunsrétt í Aðaldal. En af hverju Hraunsrétt? Hraunsrétt í Aðaldal hefur gegnt persónulegu hlutverki fyrir mig sem Aðaldæling og dóttur fjárbónda. Á hverju hausti er réttardagurinn tilhlökkunarefni; að hitta kindurnar sínar aftur með fjallailminn í ullinni, taka þátt í að draga og sjá hvernig lömbin eru orðin allt aðrar skepnur en þær sem sendar voru á Þeistareykjarhálendið í júní nýliðins sumars og við horfðum á eftir labba inní fjallalandslagið með mæðrum sínum. Á réttunum hitti ég nágrannanna, gestir koma með okkur fjölskyldunni á réttina til þess að hjálpa til við að draga en líka til þess að taka þátt í gleðinni. Réttardagurinn er spennandi dagur sem markar upphaf haustsins og eitthvað sérstakt andrúmsloft fylgir þessum degi. Hann er hátíðlegur í mínum huga og þennan dag er skellt í pönnukökur eða vöfflur þegar heim er komið. Sem barn velti ég lítið fyrir mér umgjörðinni um réttardaginn, Hraunsrétt sjálfri, hún var sjálfsagður hluti af þessum degi. Það var ekki fyrr en ég varð eldri sem ég fór að gera mér grein fyrir að gamla, hlaðna réttin okkar var alls ekki sjálfsögð. Deilt hafði verið um hana í áratugaraðir. Faðir minn, Dagur Jóhannesson, hafði ásamt fleiri bændum innan sveitarinnar, beitt sér fyrir því að Hraunsrétt yrði áfram aðalskilarétt sveitarinnar en öðrum fjárbændum fannst hún barn síns tíma og ekki geta gengt hlutverki sínu sem rétt sem skyldi. Ég fylgdist með Hraunsréttardeilunni þegar hún stóð sem hæst í kringum aldamótin síðustu en ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, hve lengi þessi deila hefði staðið. En af hverju verður hlaðin, gömul rétt tilefni til svona mikils ágreinings? Í ritgerðinni minni var tekist á við Hraunsréttardeiluna sem deilu um menningararf. Hraunsrétt er um 170 ára gömul, hlaðin úr hraungrýti og í kringum 1945 komst togstreitan um réttina fyrst á blað og sú togstreita stóð fram yfir aldamótin síðustu. Hluti fjárbænda í Aðaldal vildi halda í réttarstaðinn Hraunsrétt vegna sérstöðu réttarinnar og vegna þess að í huga þeirra hafði hún menningarlegt gildi en hluti fjárbænda vildi nýja rétt, betur staðsetta og úr þægilegra efni til viðhalds en hraungrýtishleðslur eru. En af hverju er Hraunsréttardeilan áhugaverð? Ég tel hana áhugverða af því að hún sýnir hve mikið hitamál deilur um menningarleg fyrirbæri geta orðið. Fyrirbæri sem tengjast menningarsögu ákveðinna hópa geta tekið á sig form menningararfs og farið að standa fyrir stærra samhengi sem hefur dýpri þýðingu en eingöngu það að varðveita sögulegar minjar. Með því að velja hvað það er sem viljum halda í og hverju við viljum gleyma eða leyfa tímanum eyða erum við að velja hluta sjálfsmyndar okkar sem einstaklinga, hópa eða þjóðar. Hraunsrétt í Aðaldal varð í raun flötur fyrir ólíkar skoðanir á því í hvað skyldi halda og hverju skyldi sleppa. Þess vegna er Hraunsréttardeilan athyglisverð. Hún er lýsandi dæmi um það ferli þegar tekist er á um menningarsöguleg fyrirbæri. Spurningarnar sem ég tókst á við voru því þessar: Hvernig tengist Hraunsréttardeilan orðræðunni um menningararf og hvers vegna hafði Hraunsrétt sem menningararfur ákveðins hóps slíkt mikilvægi? Rannsóknaraðferðir Þegar ég ákvað að takast á við Hraunsréttardeiluna sem BA verkefni stóð ég frammi fyrir ákveðnum vanda. Ég hafði hugsað mér að taka viðtöl við bændur í Aðaldal en eftir nánari umhugsun fannst mér það erfið nálgun á viðfangsefnið. Deilan um Hraunsrétt náði hápunkti í kringum aldamótin síðustu og síðan þá, eftir að gert hefur verið við réttina, hefur að mínu mati almennari sátt skapast um hana. Síðasta áratug hefur viðhorf fólks einnig breyst gagnvart menningarverðmætum og ákveðin menningararfsvæðing hefur átt sér stað þar sem aukinni athygli hefur verið beint að verðmætum menningarsögulegra fyrirbæra og taldi ég að það gæti litað viðhorf fólks til réttarinnar í dag. Einnig stóð ég frammi fyrir því að standa óþægilega nærri deilunni sem rannsakandi, þar sem faðir minn Dagur Jóhannesson, var einn þeirra sem barðist hvað ötulast fyrir því að réttin væri nýtt áfram sem aðalskilarétt sveitarinnar. Ég taldi að erfitt yrði fyrir mig að taka viðtöl um Hraunsréttardeiluna án þess að fjölskyldutengsl mín lituðu viðtölin. Mögulegir viðmælendur mínir gætu farið að ritskoða sjálfa sig með það í huga að augljóst væri hvoru megin innan deilunnar ég stæði. Einnig taldi ég að vegna tímans sem liðinn er frá því að deilan náði hámarki að afstaða viðmælenda gæti verið önnur í dag en hún var þegar deilan stóð sem hæst. Ég vildi hins vegar ná tengslum við deiluna þegar átökin voru sem mest til þess að geta nýtt orðræðuna sem uppi var þá í deilunni, ekki til að fella einhverskonar dóm yfir henni, heldur fannst mér að greining á orðræðunni getað sýnt vel hvernig deilan tengist átökum um menningararf og hvers vegna framtíð Hraunsréttar í Aðaldal var slíkt hitamál. Ég valdi því að nálgast deiluna í gegnum annarskonar heimildir en eigindlega viðtalsrannsókn. Þær heimildir sem ég kaus að nota eru fundargerðir af hreppsnefndarfundum Aðaldælahrepps og almennum sveitafundum. Einnig nýtti ég mér þau blaðaskrif er snerta Hraunsréttardeiluna en í gegnum árin hafa fjöldamargir skrifað um deiluna og notað fjölmiðla sem vettvang til að koma skoðun sinni á framfæri varðandi framtíð réttarinnar. Ákveðnir gallar eru á því að velja þessar heimildir umfram opin viðtöl. Tilfinningaleg dýpt deilunnar og þau vandamál sem hún skapaði í samskiptum manna á milli koma lítið fram í þessum gögnum en ég tel óvíst að ég hefði getað náð utan um slíkt í viðtölum þar sem um viðkvæmt mál er að ræða. Ég tel því að hentugasta leiðin hafi verið valin að nýta vettvang orðræðunnar um Hraunsrétt í fjölmiðlum og að ná sögulegu samhengi í gegnum þær fundargerðir er snerta deiluna. Rannsóknarvinnan fólst í því að kanna fundarskýrslur Aðaldælahrepps og leggja mat á þær heimildir er sneru að deilunni og jafnframt því að athuga þau blaðaskrif er snertu Hraunsrétt. Orðræðan um Hraunsrétt sem menningararf Menningararfur er ekki sjálfsprottinn, hvað verður menningararfur er ekki sjálfkrafa ferli heldur verður menningararfurinn til þegar einhver skilgreinir eitthvað fyrirbæri sem menningararf. Hlutir sem eru gamlir, einstakir eða sérstæðir verða ekki verðmætir fyrr en einhver ljáir þeim það gildi. Fornleifafræðingurinn Laurajane Smith talar um að menningararfur sé ekki til en hann verði hinsvegar til í orðræðunni um menningarverðmæti. Í orðræðunni um menningararf ákveðum við hvaða hlutir það eru sem við viljum færa komandi kynslóðum í arf með varðveislu þeirra (Smith, 2006: 11). Í Morgunsblaðsgrein frá 1976 er Hraunsrétt stillt upp sem síðasta vígi „gömlu“ réttanna. Þar heimsækir blaðamaður Morgunblaðsins Hraunsrétt og spyr bændur útí réttarmálin. Það eru orð fréttamannsins sjálfs, Tryggva Gunnarssonar, sem helst vekja athygli: Lengst af hefur það þótt eftirsótt að komast í réttir hlaðnar úr íslensku grjóti. Slíkar réttir hafa haft yfir sér ákveðinn blæ sveitarómantíkur og þar eru það ekki beinar línur nútímans, sem ráða ríkjum. Heldur gamalt handbragð sveitamannsins, sem hefur fylgt íslensku þjóðinni gegnum aldirnar. Hlaðnar réttir hafa þó stöðugt verið að týna tölunni. Timbur, járn og steinsteypa hafa leyst af hólmi grjót og torf. Enn má þó finna þessar rammíslensku réttir í stöku sveitum og laugardag í fyrri viku heimsótti blaðamaður Mbl. eina slíka rétt, Hraunsrétt í Aðaldal. Fæstar eru þær gömlu réttir, sem enn eru notaðar í sínu upprunalega horfi því gegnum árin hafa þær verið endurbyggðar og víða hefur timbrið haldið innreið sína. Og því miður ekki alltaf með sérlega skemmtilegum hætti. Hraunsrétt í Aðaldal er gerð um 1830 og er sennilega elsta hlaðna réttin á landinu sem enn er notuð og það án verulegra breytinga. (Tryggvi Gunnarsson, 1976: 12) Blaðamaður Morgunblaðsins vísar til upprunaleikans og þess sem er „ekta“ íslenskt. Hraunsrétt er rammíslensk og hefur staðið án verulegra breytinga og þar hafa ekki „beinar línur“ nútímans tekið yfir. Það er einnig áhugavert að sjá viðhorf sumra bændanna sem birtast í greininni sérstaklega með tilliti til þeirra háfleygu orða sem blaðamaðurinn hafði um réttina: Það er víst hægt að byggja kirkju, skóla og félagsheimili en það er ekki hægt að byggja eina fjárrétt, þá kvarta allir og kveina, segir Kjartan Sigtryggsson, réttarstjóri og bóndi á Hrauni er við spyrjum hann hvað líði um hvort byggja skuli nýja rétt. – Þetta hefur mikið verið rætt en niðurstaðan hefur engin orðið. Þessi rétt er forngripur og nauðsynlegt að laga hana, því hér er engin aðstaða eftir að farið var að flytja féð á bílum. Ég tel samt óhjákvæmilegt að byggja nýja rétt en hvenær það verður gert veit ég ekki. Þessi rétt fer illa með féð því það merst í hrauninu. (Tryggvi Gunnarsson, 1976:12) Kjartan sér réttina sem forngrip og óhentuga vinnuaðstöðu fyrir bændur og hættulega fyrir féð. Hann sér ekki sama ljóma og blaðamaðurinn í hinu gamla hraungrýti. Þarna birtast skýrt þau ólíku viðhorf sem uppi voru í deilunni. Hluti bænda sá réttina ekki sem síðasta vígi gamals verklags eða sem verðmæti vegna þess að hún væri tákn fyrir fortíðina, þeir horfðu á notagildi réttarinnar og sáu ekki tilgang í því að halda í eitthvað sem gerði þeim vinnu þeirra erfiðari en ella. Aðrir sáu eitthvað verðmætt í aldri réttarinnar, einhverja sérstöðu í gerð hennar og vildu halda í hana. Í grein í Morgunblaðinu þann 13. nóvember 1977 lætur einn talsmaður Hraunsréttar, Friðjón Guðmundsson, í sér heyra: Það virðast uppi raddir hér í sveit um að leggja Hraunsrétt niður og byggja nýja rétt á öðrum stað. Ég vænti þess, að þeir, sem ganga með þessar hugmyndir endurskoði sína afstöðu. Á okkur hvílir ábyrgð gagnvart verndun sögulegra minja og hvers konar þjóðlegra verðmæta, sem eftirsjón er að. Glötun þessara verðmæta er ekkert einkamál eins eða neins. Það er mál samfélagsins í nútíð og framtíð. Skilningur manna á þessu hefur aukist í seinni tíð. […] Með því að varðveita Hraunsrétt líkt og hefur verið drepið á og nota framvegis, fæst að mínum dómi ódýr og farsæl lausn, sem allir, er hlut eiga að máli, ættu að geta verið ánægðir með eftir að hafa athugað málið nægilega vel. Aðaldælingar, sýnum í verki, að við kunnum að meta gildi Hraunsréttar. Gerum við hana í áföngum og notum framvegis. Það er of seint að iðrast, eftir að skaðinn er skeður. (Friðjón Guðmundsson, 1977: 41) Friðjón minnir á verðmæti Hraunsréttar sem sögulegra minja og á ábyrgð erfingjanna. Hann horfir á Hraunsrétt sem mál framtíðarinnar og að ákvörðunarrétturinn eigi ekki aðeins að liggja hjá núverandi erfingjum heldur einnig hjá þeim sem á eftir koma. Orðið menningararfur felur í sér hugmyndina um arf, að taka eitthvað í arf frá öðrum og líkt og Valdimar Tr. Hafstein (2006: 322) hefur bent á er þessi áhersla á okkur sem erfingja mannvirkja og fortíðar minja leið til þess að móta söguvitund okkar. Friðjón reynir að vekja athygli Aðaldælinga á því að þeir séu slíkir erfingjar og á þeim hvíli því skylda, hann gerir tilraun til að móta söguvitund þeirra. En líkt og fram hefur komið voru ekki allir aðaldælskir bændur sem töldu sig skuldbundna þessum „arfi“ á þennan hátt. Þeir sáu ekki að skylda þeirra væri að halda áfram að nota Hraunsrétt, fyrir þeim var hún verkfæri frekar en skilgreindur hluti af arfleifðinni. Í þeirri umfjöllun sem birtist í fjölmiðlum um Hraunsrétt ber sannarlega á orðræðu sem minnir á menningararfsorðræðuna. Í Bændablaðsgrein þriðjudaginn 8. desember 1998 fjallar Atli Vigfússon um Hraunsrétt undir titlinum „Hraunsrétt í Aðaldal – Merkilegt mannvirki“. Atli var og er talsmaður þess að Hraunsrétt sé notuð áfram og henni verði haldið við. Hann hefur greinina á því að segja að maðurinn móti landið sífellt með búsetu sinni og alltaf verði að vega og meta hvað við viljum halda í af gömlum búskaparleifum. Hann telur að margar slíkar leifar hafi orðið að víkja fyrir nýjum búskaparháttum og spyr „ En viljum við afmá öll spor forfeðranna eftir margra alda ábúð og glata þannig einkennum sveitanna?“ (Atli Vigfússon, 1998: 22). Atli rekur stuttlega sögu Hraunsréttar og vitnar í endurminningar Aðaldælinga frá Hraunsrétt. Hann bendir á að nú standi hætta að Hraunsrétt þar sem Fjárræktarfélag Aðaldælinga hafi farið fram á það við hreppsnefnd að byggð verði ný rétt. Atli telur að ef ný rétt verði byggð sé verið að kveða upp dauðadóm yfir Hraunsrétt, að hún muni „hverfa í sinu og veggirnir hrynja.“ Hann telur ólíklegt að nokkur færi að halda Hraunsrétt við ef hún hefði engan tilgang lengur. Hann segir einnig: Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hverju er verið að fórna. Réttin er að sönnu tákn Aðaldals og saga hennar er víðfeðmari en svo að það sé einkamál þessarar einu sveitar að leggja hana í auðn. […] Hraunsréttardeginum hefur jafnan fylgt gleði og eftirvænting margra kynslóða í 170 ár. Hverfi þessi réttardagur úr sínu stórmerkilega umhverfi, þá er það áfall fyrir sauðfjárræktina og þá menningu sem henni hefur fylgt frá fornu fari. (Atli Vigfússon, 1998: 22) Líkt og Friðjón bendir Atli á að það sé ekki „einkamál“ Aðaldælinga hvort réttinni verði haldið við eða ekki. Atli talar um „að fórna“ og „tákn“. Menningararfurinn oft á tíðum bundinn við ögurstundina, það er þegar ógnin steðjar að sem við, erfingjarnir, gerum okkur grein fyrir verðmæti hlutanna. Hraunsrétt er í augum Atla tákn fyrir Aðaldal og líkt og bent hefur verið á verða ákveðin tákn fyrir valinu í hjá okkur þegar við tökum eitthvað upp sem okkar menningararf, við veljum menningararf meðal annars út af því að hann er táknræn hlutgerving sjálfsmyndar okkar. Í maí þetta sama ár, 1998, hafði birst grein eftir Guðfinnu Ragnarsdóttur, þá búsett í Haga Aðaldal, í dagblaðinu Degi þar sem fjallað var um Hraunsrétt. Ekkert er minnst á Hraunsdeiluna í greininni en ef til vill var helsti tilgangur greinarinnar ekki að minna á hana heldur að festa Hraunsrétt ennþá meira í sessi sem menningararf. Greinin ber titilinn „Hraunsrétt í Aðaldal: lifandi rétt, einstæð smíð náttúru og manna“. Guðfinna hefur greinina á því að ræða Íslandssöguna og þá gagnrýni sem Íslendingar lágu lengi undir að vera „hálfgerðir moldbúar, sveitamenn í þess orðs neikvæðustu merkingu“. Að lokum réttu Íslendingar sig þó við og tóku á móti heimsmenningunni. Guðfinna skrifar: Í þeirri upprisu fór margt forgörðum enda lá okkur á að hrista af okkur slyðruorðið og losna undan oki fátæktar og vesöld liðinna alda. Torfbæirnir voru jafnaðir við jörðu, aldagömul áhöld voru brennd og grafin eða lágu sundurveðruð undir fjósgaflinum eða á bæjarhólnum. Eitt af því sem hvarf á vit fortíðarinnar voru gömlu réttirnar, sumar úr torfi, aðrar úr hraungrýti eða jafnvel lábörðu fjörugrjóti, margar hverjar sögusvið ótal unaðsstunda sinnar sveitar.[…] En undantekningar eru til. Ein slík er Hraunsrétt í Aðaldal, náttúruperla, ein af mörgum í þeim unaðsfagra og söguríka dal sem hýst hefur hina menningar- og framfarasinnuðu Þingeyinga frá örófi alda. (Guðfinna Ragnarsdóttir, 1998: I-III) Guðfinna setur Hraunsrétt fram sem undantekningu frá nútímavæðingu Íslendinga þar sem markmiðið var að hrista af sér hið gamla. Réttin er eitthvað sem slapp á meðan annað tapaðist. Tónninn sem gefinn er að um eitthvað sérstakt sé að ræða, eitthvað sem er undantekning frá reglunni, einstakt. Guðfinna gerir hér tilraun, líkt og Atli og Friðjón gerðu, til að móta söguvitund okkar, vekja athygli á því að þarna sé eitthvað sem vert er að halda í. Þau gera tilraun til að ljá Hraunsrétt aukið gildi í ljósi sérstöðu, menningarlegrar tengingar og tákngildis. Í gegnum skrif sín hafa þau öll reynt að höfða til þess að um sé að ræða það sem ekki megi tapast, þau gera tilraun til að skapa menningararf, snertiflöt við fortíðina í formi Hraunsréttar. Smith segir að það sé í því ferli að skilgreina eitthvað sem menningararf sem við gefum fortíðinni merkingu, fortíð sem hefur efnislegt gildi og hefur afleiðingar fyrir sjálfsmynd og þá tilfinningu að tilheyra í samfélögum (Smith, 2006: 29). Hraunsrétt hefur skapað sér sess sem menningararfur í orðræðunni. Það hefur verið reynt að móta söguvitund Aðaldælinga, móta hana að þeirri hugmynd að réttin sé arfur sem vert er að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Hraunsrétt er enn í notkun og gegnir ennþá hlutverki skilaréttar fyrir Aðaldælinga. Síðasta haust var ég stödd á meðal fagurra kinda og skemmtilegs fólks á réttardegi þegar það rann upp fyrir mér að þessi umgjörð verður ef til vill ekki til staðar eftir 10 ár. Þegar þeir bændur eru horfnir á braut sem vildu halda í réttina þegar sem mest var deilt um hana er óvíst að einhverjir taki við að annast um þessa umgjörð. Hraunsrétt er byggð úr hraungrýti sem auðveldlega riðlast til og ef ekki er sinnt um að viðhalda henni á hverju sumri verður hún aðeins nokkur ár að verða það léleg að aftur mun spinnast upp umræða um að leggja hana niður sem réttarstað. Hvort að einhver verður þá til að taka upp orðræðu um menningarlegt gildi hennar er óvíst. Heimildir Atli Vigfússon. (1998, 8. des.) Hraunsrétt í Aðaldal: Merkilegt mannvirki. Bændablaðið, 22. Friðjón Guðmundsson. (1977, 13. nóv.) Um varðveislu Hraunsréttar í Aðaldal. Morgunblaðið, 41. Guðfinna Ragnarsdóttir. (1998, 9. maí.) Hraunsrétt í Aðaldal-lifandi rétt, einstæð smíð náttúru og manna. Dagur, blað 3, I-III. Sigurlaug Dagsdóttir. (2012). Menningararfur í formi íslensks hraungrýtis: „Hraunsréttardeilan“ í Aðaldal. Óbirt BA ritgerð: Háskóli Íslands, Félagsvísindadeild. Smith, Laurajane. (2006). Uses of Heritage. London: Routledge. Tryggvi Gunnarsson. (1976, 21. sept.) Heimsókn í Hraunsrétt í Aðaldal: „Þótti víst ekki kvenlegt að draga í þá daga“. Á ísl. hraungrýti að víkja fyrir steinsteypu og timbri? Morgunblaðið, 12; 25. Valdimar Tr. Hafstein. (2006). Menningararfur: Sagan í neytendaumbúðum. Í Hilma Gunnarsdóttir, Jón Þór Pétursson og Sigurður Gylfi Magnússon (ritstjórar), Frá endurskoðun til upplausnar. Tvær prófritgerðir, einn formáli, þrjú viðtöl, sjö fræðigreinar, fimm ljósmyndir, einn eftirmáli og nokkrar minningargreinar af vettvangi hugvísinda (313-328). Reykjavík: Center for Microhistorical Studies/Reykjavík Academy. Um höfundinn:Sigurlaug Dagsdóttir, meistaranemi í þjóðfræði
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|