Þjónar guða og manna - Birtingarmyndir hestsins í sögum fornaldar - Theódór Líndal Helgason8/28/2023 Í gegnum aldirnar hafa mennirnir verið háðir dýrum til að komast af. Menn ræktuðu sauðfé til að lifa á, bæði til matar og klæða en önnur húsdýr sinntu hinum ýmsu hlutverkum á heimilinu. Af þessum dýrum hafði hesturinn mikla sérstöðu og hefur alltaf verið nákominn félagi mannsins. Ástæðurnar fyrir þessu eru ýmiskonar, en meðal annars vegna þess að hestinn er hægt að nýta á fleiri vegu en flest önnur húsdýr. Hestar hafa ekki einungis verið vinnudýr í gegnum tíðina heldur hafa þeir sinnt ýmsum öðrum hlutverkum eins og kemur fram í fornsögum og gömlum kvæðum. Þeir virðast búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum, geta flutt guði milli heima sem dæmi, en einnig birtast þeir með ólíkum hætti í draumum fólks. Ekki nóg með það heldur hafa hestarnir bókstaflega fylgt eigendum sínum í gröfina og hlýtur það að segja okkur eitthvað um mikilvægi þeirra í hugum fólks fyrr á tímum. Óðinn og dýrin hans Hestar goðafræðinnarÞegar við skoðum goðafræðina koma hestar oft við sögu og ber fyrstan að nefna Sleipni, áttfættan hest Óðins. Hesturinn bar meðal annars Hermóð til Heljar úr Ásgarði eins og kemur fram í Gylfaginningu, en einnig kemur fram í Sigurdrífumálum að tennur hans hafi verið merktar rúnum. Ef til vill er það tenging við galdra þar sem rúnir voru gjarnan tengdar göldrum fyrr á öldum. Það er trú margra að klettarnir í Ásbyrgi, séu hófaför Sleipnis og ef það reyndist rétt, gat hesturinn sannarlega ferðast víða. Ef marka má staðarheiti Íslands og draga á einhverjar ályktanir af þeim þá hafa frumbyggjar landsins þó ekki trúað mjög á Óðinn og þess vegna er líklegt að þessi saga hafi komið til seinna meir. Sú staðreynd að sagan sé til bendir þó til þess að Íslendingar hafi tengt margt af goðafræðinni inn í sitt daglega líf og náttúruna í kringum sig. Sleipnir ferðast milli heima með Óðinn á baki sér Fleiri hestar koma við sögu í norrænni trú. Blóðughófi var fákur guðsins Freys en lítið er talað um hann í ritunum, en þó er vísað til hans í Skírnismálum þegar Freyr gefur Skírni hest til að ferðast til Jötunheima að biðja Gerðar fyrir sína hönd. Hesturinn er ekki nefndur á nafn en þrátt fyrir það er hér á ferðinni eitt dæmi um hest sem ferðast milli heima. Í Vafþrúðnismálum kemur fram að hesturinn Skinfaxi dragi sólina á loft á degi hverjum[og í sama ljóði kemur fram að Hrímfaxi dragi mánann á loft á nóttunni. Þetta sýnir tvo hesta sem eru sífellt á hreyfingu, þeir ferðast milli staða, eru sýnilegir á stundum en annars ósýnilegir. Í Grímnismálum kemur fram að hestarnir Árvakur og Alsviður dragi sólina upp til himna á hverjum morgni en ekkert kemur fram um það hver dregur mánann á loft. Í Grímnismálum kemur einnig fram að Æsir ríði hestum frá Ásgarði til Yggdrasils þegar þeir ferðast þangað. Hestarnir sem nefndir eru heita Glaður, Gyllir, Gler, Skeiðbrimir, Silfrintoppur, Sinir, Gísl, Falhófnir, Gulltoppur (hestur Heimdalls) og Léttfeti.[4] Í Gylfaginningu er minnst á ásynjuna Gná en „hana sendir Frigg í ýmsa heima að erindum sínum. „Hún á þann hest, er renn loft og lög, er heitir Hófvarpnir“ segir þar. Síðast en ekki síst verður að minnast á Gullfaxa, hest jötunsins Hrungnirs en hann ríður honum frá Jötunheimum til Ásgarðs eins og kemur fram í Skáldskaparmálum en hann gat einnig riðið á vatni sem og í lofti. Hestar forfeðrannaTamdir hestar sjást fyrst í Skandinavíu á bronsöld en eru þó taldir hafa komið til álfunnar einhverntíman á nýsteinöld. Hestar voru tamdir og ræktaðir á Öland í Svíþjóð, seint á járnöld og snemma á miðöldum. Það er því ljóst að hefð tengd hestum er aldagömul og hafa þeir ekki einungis hjálpað fólki að draga fram lífsbjörgina lengur en flest dýr heldur líklega verið mikilvægustu dýrin á bænum vegna hinna ýmsu nota sem hesturinn bauð uppá. Fræðimenn hafa talað um að íslenski hesturinn hafi tilheyrt sérstöku svæði, mitt á milli húsdýra og villtra dýra á þessum tíma (1400 til 1800) og það gæti einnig hafa átt við á tíundu öld. Þessu er lýst þannig að híbýli fólks kallast „Miðgarður“ en hýbýli villtra dýra kallast „Útgarður“. Þetta er semsagt hugmyndafræðileg skipting á milli svæðis sem er undir stjórn (Miðgarður) og þess sem er ekki hægt að stjórna (Útgarður). Vegna þess að hesturinn getur farið hvert á land sem er verður hann að nokkurskonar „milligöngumanni“. Eins og var minnst á hér að ofan, varðandi hestana í goðafræðinni eru þeir einnig færir um að ferðast milli heima, stjórnaðs rýmis og villts rýmis. Hesturinn er einnig talinn svona náinn manninum vegna þess að hann tjáir sig á fleiri vegu en önnur dýr, með heyrn, lyktarskyni og snertingu. Í dag eru hestar m.a. notaðir í allskyns meðferðir fyrir fólk sem berst við andlegar áskoranir af ýmsu tagi og er það kannski vegna þess að milli manna og hesta virðist geta myndast einhver sérstök tenging sem erfitt er að útskýra, en báðir aðilar virðast finna fyrir.[2] Dauður hestur Eftir að hestarnir á víkingatímum voru grafnir eða heigðir með eigendum sínum gengu þeir stundum aftur og birtust fólki í draumum. Dæmi um þetta er að finna í Vatnsdæla sögu en þar segir: Þorkel silfra dreymdi hina næstu nótt áður fundurinn var og sagði Signýju konu sinni að hann þóttist ríða ofan eftir Vatnsdal hesti rauðum og þótti honum trautt við jörðina koma „og vil eg svo ráða að rautt mun fyrir brenna og til virðingar snúa“. Signý kvaðst annan veg ætla: „sýnist mér þetta illur draumur“ og kvað hest mar heita „en mar er manns fylgja“ og kvað rauða sýnast ef blóðug yrði“ og má vera að þú sért veginn á fundinum ef þú ætlar þér goðorðið því að nógir munu þér þess fyrirmuna.[1] Þarna birtist hesturinn sem fylgja samkvæmt túlkun Signýjar en það var trú fólks á þessum tíma að ef þú hittir fyrir fylgju þína í draumi þá værir þú feigur. Ekki rætist úr þeim spádómum í þessum kafla Vatnsdælu en svona sögur lifa áfram í minnum fólks og munnmælasögum fram eftir öldum. Hestur flytur látinn einstakling til Valhallar Á ferð og flugiNorræna goðafræðin og rit tengd henni sýna fram á hvernig hestar gátu ferðast milli heima, milli stjórnaðra svæða og villtra. Hestarnir þar voru margir hverjir sífellt á hreyfingu, þeir drógu t.d. sólina á loft og voru því sannkallaðar jaðarverur. Heiti hestanna og einkenni benda einnig til þess að þeir hafi verið sveipaðir miklum ljóma, nöfn eins og Skeiðbrimir og Gulltoppur gefa í skyn að þeir hafi verið gríðarlega fallegir á að líta. Hesturinn nýttist mönnum gríðar vel í lifanda lífi og gátu hjálpað þeim í baráttunni við auðnina og var það jafnvel ein ástæða þess að þeir vildu taka hann með sér yfir móðuna miklu, því ef einhver gat komið þeim til heimila forfeðranna þá var það hesturinn. Hestar voru á alla vegu gríðarlega verðmætir og gátu í mörgum tilvikum haft mikið um það að segja hvort fólk hreinlega lifði af eða ekki. Þegar landnámsmenn komu yfir til Íslands þá fluttu þeir með sér sínar helstu eignir og hestarnir voru þar í aðalhlutverki, en hegðun þeirra var talin hlaðin merkingu og túlkuð á ýmsan hátt til hjálpar manninum á þeim tíma. Nokkuð öruggt er að ef hestanna hefði ekki notið við hefðu menn ekki lifað af í harðgerðri náttúru Íslands. HeimildaskráBragi Halldórsson. Jón Torfason. Sverrir Tómasson. Örnólfur Thorsson. (Ritstj.). Íslendingasögur og Þættir. Síðara bindi. Reykjavík: Svart á hvítu, 1986. Grímnismál. Í Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfu. Reykjavík: Mál og menning, 1999. 74 -88. Jennbert, Kristina. Animals and Humans: Recurrent symbiosis in archaeology and Old Norse religion. Lund: Nordic Academic Press, 2011. Sigurdrífumál. Í Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfu. Reykjavík: Mál og menning, 1999. 219 – 228. Skírnismál. Í Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfu. Reykjavík: Mál og menning, 1999. 89 – 100. Snorri Sturluson. Edda: Gylfaginning. Heimir Pálsson sá um útgáfu. Reykjavík: Mál og menning, 2003. 11-84. Snorri Sturluson. Edda: Skáldskaparmál. Heimir Pálsson sá um útgáfu. Reykjavík: Mál og menning, 2003. 84-232. Ulla Loumand. The horse and its role in Icelandic burial practices, mythology, and society. Í Old Norse religion in long-term perspectives: Origins, Changes, and Interactions. Lund: Nordic Academic Press, 2006, 130-134. Vafþrúðnismál. Í Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfu. Reykjavík: Mál og menning, 1999. 60 – 73. Theódór Líndal HelgasonMeistaranemi í þjóðfræði
1 Comment
Ásdís Haraldsdóttir
9/5/2023 09:57:05 am
Mjög áhugavert efni. Hlakka til að lesa ritgerðina. Gangi þér vel Theódór.
Reply
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |