Ég sá eitt sinn ljósmynd af ungri konu sem hafði það sterk áhrif á mig að það mætti jafnvel tala um að hún hafi eftir það ásótt mig og ofið sig inn í hugarheim minn. Myndin var í gamalli bók sem ég fann í grúski mínu í hillum Landsbókasafns þegar ég var rétt rúmlega tvítug. Ljósmyndin sýnir unga konu, Stanislawa P, sitjandi með augun lokuð í einskonar algleymi eða leiðslu. Hún er umkringd myrkri og klædd í einkennilegan búning sem gerir henni nær ókleift að athafna sig. Út úr munni hennar flæðir ljósleitt og órætt efni. Fegurð hennar er dáleiðandi og minnir að vissu leyti á helgimynd þar sem heilagur andi fyllir viðkomandi dýrling. Myndin er einnig ögn óhugnaleg, ef til vill vegna myrkursins sem umlykur konuna.
Líkt og minningar þá birtist þetta efni upp úr þurru og hvarf svo oft jafnskjótt. Þessir fundir voru haldnir í heimahúsum þar sem fámennur hópur fólks mætti hverju sinni og voru tengdir spíritistum. Um var að ræða hreyfingu sem varð til á seinni hluta nítjándu aldar og átti rætur að rekja til Rochester í New York fylki í Bandaríkjunum. Mætti segja að þeir fundir hafi markað upphaf bylgju af vinsældum og áhuga fólks á andlegum málefnum en á sama tíma hófu vísindamenn markvisst að rannsaka þessi fyrirbæri (Owen, 2004). Óvirkir leiðtogar Spíritistar trúðu á framhaldslíf og töldu að andar framliðinna gætu yfirtekið líkama og vitund miðla til þess að koma skilaboðum sínum áleiðis. Þá var talað um svokallaða andlega meistara sem nær undantekningarlaust voru karlkyns og oft mjög fornir. Þeir miðluðu lífspeki, siðferðislegum og trúarlegum hugmyndum sínum í gegnum einstaklinga sem höfðu afsalað sér yfirráðum yfir eigin líkama og sál. Hreyfingin var lýðræðisleg og þeirri hugmynd var haldið á lofti að allir gætu haft þessa gáfu óháð kyni eða stétt. Áhugavert í þessu samhengi er að skoða þann stóra hluta kvenna sem starfandi voru sem miðlar en margar þeirra urðu mikils metnar og virkar innan hreyfingarinnar. Algengt var til að mynda að þær skrifuðu greinar og gæfu út rit.
Í því samhengi má nefna Emmu Hardinge Britten sem tók til dæmis þátt í stjórnmálabaráttu Abraham Lincon og gaf út margvísleg skrif, meðal annars grein um mikilvægi þess að hafa stofnanir fyrir heimilislausar konur en þessi vinna hennar hefði í öðru samhengi verið mjög ögrandi og jafnvel óhugsandi (Drew, 2017). Algengara var þó á þessum tíma að miðlar störfuðu innan veggja heimilisins og héldu skyggnilýsingar sem fámennum hópi fólks var boðið á. Í þessum aðstæðum var kvenmiðillinn sjálfur miðpunkturinn og átti sviðið. Hún var því í stöðugu limbói milli þess að hafa valdið og vera valdlaus sem býr til áhugaverða dýnamík. Því mætti segja að viðteknum samfélagslegum normum, hugmyndum og hlutverkum um kyn og kyngervi hafi verið snúið á hvolf tímabundið á þessum skyggnilýsingum. Fundargestir voru passífir í upplifun sinni, á meðan kvenmiðlarnir urðu að gerendum og höfðu tímabundið framkvæmdavald. Kom það fyrir að andi tæki yfir líkama kvenmiðilsins á mjög afdrifaríkan hátt þannig að þær gengu á milli fundargesta oft með dólgslátum og hátterni þeirra var þá á skjön við hugmyndir manna um kvenleika auk þess sem þær höguðu sér á ögrandi hátt með hegðun og talsmáta. Jafnframt lentu einhverjir af karlkyns gestum fundanna í því að fá ærlegan kinnhest í myrkrinu eða þeir voru klipnir fyrir tilstilli einhverra anda (Owen, 2004). Dansað á línunni Eins og áður sagði þótti ekki við hæfi háttvirtra húsmæðra og kvenna af millistétt að koma fram opinberlega eða vera fyrirverðarmiklar líkt og þær gerðu í þessu samhengi. Ef trúverðugleiki var fyrir hendi var litið svo á að þær væru handan síns sjálfs og á valdi annars en þar með gátu þær dansað á línunni. Ef við skoðum þessa flutninga eða „performansa“ í tengslum við það mikla umrótatímabil sem síðviktorískur tími var þá er áhugavert að gera það í samhengi við kvennréttindahreyfingar líkt og Súffragettur sem voru að spretta fram á þessum tíma. Sérhver flutningur eða „performans“ er pólitískur og ef við horfum á þessar skyggnilýsingar og miðilsfundi í því samhengi þá væri hægt að sjá þá sem birtingarmynd ákveðinnar uppreisnar eða viðspyrnu gegn feðraveldinu. Judith Butler hefur fjallað um hvernig kyngervi er mótað sögulega sem mengi hugmynda um kynin. Hugmyndir um hvernig þau eigi að haga sér, hvernig þau eigi að tala, hreyfa sig, klæða sig og hvað þau eigi að gera. Líkami verður að ákveðnu kyni með flutningi eða sviðsetningu sem er endurtekinn en þannig gerir maður kyn sitt í stað þess að vera það. Í þessu samhengi er sá flutningur sem flokkast utan ákveðins norms talinn vera hættulegur samfélaginu eða óæskilegur. Þegar brugðið er frá hefðbundnum venjum um kyngervi getur það því leitt til sterkra viðbragða en sé það gert á sviði eða í sviðsetningu þá er horft á það í allt öðru ljósi. Sama má segja þegar um einsdæmi er að ræða líkt og ef karlmaður klæðist kjól í gríni en þá er hann að leika eða framkvæma ákveðið kyngervi. Sé það hinsvegar endurtekið og í öðru samhengi þá verður kyngervið framkvæmandi (e. performative) sem getur haft mótandi áhrif á hugmyndir okkar um kynin og kyngervi (Butler, 2020). Heilög Teresa í algleymi, höggmynd í Santa Maria della Vittoria í Róm eftir Gian Lorenzo Bernini Leikur með andstæður Viktorísku kvenmiðlarnir sem störfuðu innan ákveðins ramma og á sviði heimilisins áttu því ekki hættu á að vera refsað fyrir að framkvæma eða sviðsetja kyn sitt vitlaust af því gefnu að trúverðugleiki væri fyrir hendi. Þær báru ekki ábyrgð á eigin gjörðum eða orðum en innan þessa ramma var ákveðin framkvæmd eða „performans“ endurtekin fyrir framan hóp fólks sem upplifði gjörning sem var oft gagnstætt við það sem taldist boðlegt. Það hvarlar að manni sú hugmynd hvort þær hafi að einhverju leyti verið á meðvitaðan eða ómeðvitaðan hátt að spyrna gegn viðteknum hugmyndum og koma skoðunum sínum á framfæri. Hvort kinnhestar, dónalegt tungutak eða þá málefnalegir fyrirlestrar í leiðslu hafi verið þeirra leið til þess að taka völdin og hafa rödd? Þær heimildir sem liggja eftir um þessar skyggnilýsingar og fundi eru ekki margar og eru þá aðallega í formi ljósmynda, sem vísindamenn á borð við Schrenck Notzing lét taka, dagbókafærslna fundargesta auk skrifa efasemdarmanna um þessa fundi. Það sem áhugavert er að skoða er áhugi manna á þessum uppákomum og þeirri þörf sem var verið að svala sem gæti endurspeglað ákveðið sammannlegt sálarástand þessa tíma. Þarna átti sér stað leikur með andstæður þar sem konurnar höfðu tímabundið vald yfir aðstæðum sínum og höfðu atbeini en á sama tíma urðu þær að rannsóknarefni karlkyns vísindamanna og haldið í hlekkjum feðraveldis í formi leikreglna samfélagsins. Það mætti þó velta vöngum yfir þeim óumdeilanlegu áhrifum sem kvenmiðlarnir höfðu á fundargesti þegar þær framkvæmdu gjörninga sína í myrkrvuðum setustofum. HeimildaskráButler, J. (2020). Performative acts and gender constitution. Feminist Theory Reader, 353-361. https://doi.org/10.4324/9781003001201-42 Drew, D. J. (2017). Fragile Spectres: How women of Victorian Britain used the occult and spiritualist movement to create autonomy [Master's thesis]. https://fgcu.digital.flvc.org/islandora/object/fgcu%3A30530/datastream/OBJ/view/Fragile_Spectres__How_Women_of_Victorian_Britain_used_the_Occult_and_Spiritualist_Movement_to_Create_Autonomy.pdf Owen, A. (2004). The darkened room: Women, power, and spiritualism in late Victorian England. University of Chicago Press. von Schrenck-Notzing, A. (1923). Phenomena of Materialisation: A contribution to the investigation of mediumistic teleplastics. Kegan Paul, Trench, Trubner og co. https://publicdomainreview.org/collection/phenomena-of-materialisation-1923 Um höfundinnRakel Jónsdóttir, MA nemi í þjóðfræði.
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. |