Það má lesa margt úr klæðnaði okkar en í honum endurspeglast sjálfsmyndin. Sjálfsmyndin mótast af því umhverfi sem við ölumst upp í og af þeim hópum sem við tilheyrum. Það er ekki bara tíska sem hefur áhrif á klæðnaðinn, því í honum getur falist ákveðin yfirlýsing. Í þessari grein er ætlunin að skoða hvernig og hvort kvennabaráttan hafði áhrif á klæðaburð fólks og þá hvernig. Tekin eru fyrir tvö tímabil mikilla þjóðfélagsbreytinga, það eru aldamótin 1900 og árin í kringum 1970. Kvenréttindi Aldamótakynslóðin á Íslandi lifði á tímum mikilla breytinga. Iðnbyltingin hélt loks innreið sína í byrjun tuttugustu aldar og kollvarpaði fyrri þjóðfélagsskipan. Þéttbýli fór að myndast og almennur efnahagur batnaði með minnkandi stéttaskiptingu. Konur gengu í pilsum og karlar í buxum, þannig hafði það verið frá því land byggðist. Umræður um klæðnað kvenna beindust fyrst og fremst að konum sem gengu á dönskum búningi en það voru helst menntamenn sem hræddust hin erlendu áhrif. Klæðaburður blandaðist þannig inn í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem sótti fyrirmyndir sínar í „Gullöld Íslendinga“ en einnig til Forn-Grikkja. Slagorð á við „Heilbrigð sál í hraustum líkama“ og fleiri mótuðu smekk manna. Aristóteles, einn forngrísku heimspekinganna, var með þá kenningu að upprunalega væri aðeins eitt kyn og konan væri frávik frá því og ill nauðsyn til viðhalds mannkyninu. Hann kom líka fram með hugmyndina um virka karlinn og óvirku konuna. Starfsbróðir hans Plató, gekk lengra í anda tvíhyggjunnar þar sem teflt er saman andstæðupörum svo sem sál-líkami, eðli- vitsmunir og þess háttar. Áhrifa tvíhyggjunnar gætir greinilega í eftirfarandi lýsingu á klæðnaði borgarastéttarinnar: Karlar voru alvarlegir og þeir gengu í dökkum látlausum fötum. Þeir voru virkir og gátu auðveldlega hreyft sig. Fatnaðurinn undirstrikaði brjóst þeirra og herðar, allar línur voru skarpar og útlínur voru skýrt skilgreindar af því þeir voru sterkir og árásargjarnir. Konur voru glaðlegar og gengu í ljósum pastellitum, skreyttar borðum, blúndum og slaufum. Þær voru óvirkar og fötin hindruðu hreyfingar þeirra. Konur voru viðkvæmar og því var lögð áhersla á mjótt mitti og aflíðandi axlir með mjúkum óákveðnum útlínum. Þær voru undirgefnar og fötin þrengdu að þeim. Með iðnbyltingunni vaknaði stéttarvitundin. Eitt afsprengi hennar var kvenréttindabaráttan. Bríet Bjarnhéðinsdóttir var í fararbroddi þeirra íslensku kvenna sem hófu baráttuna hér á landi. Hún sá strax að fatnaður „óvirku“ kvennanna var þeim fjötur um fót í bókstaflegri merkingu. Pilsin sem voru þung og síð, flæktust fyrir þeim og lífstykkin hindruðu eðlilega líkamsstarfsemi – þessu þurfti að breyta. Fyrst og fremst voru þó gerðar kröfur um að fá sömu réttindi og karlar nutu, þar á meðal kosningarétt. Fyrsta bylgja kvennabaráttunnar var farin af stað. Áhrifa hennar gætti fyrst og fremst hjá konum sem klipptu af sér flétturnar og styttu pilsin til að byrja með, síðar brugðu þær sér einnig í buxur við tækifæri. Lífstykkin fengu að fjúka og konur fóru að stunda íþróttir og ferðalög. Þær urðu virkari en þó ekki eins virkar og karlar. Fatnaður og útlit karla breyttist aftur á móti lítið sem ekkert, nema að því leyti að verksmiðjuframleiddur dúkur til fatagerðar kom í staðinn fyrir heimaofinn. Verksmiðjur tóku með tímanum yfir heimilisiðnaðinn. Einhver elsta sögn, sem menn hafa af lífstykkinu, er í bréfi frá biskupi einum í Afríku (skrifað um árið 400 e. Krist). Hann segir af skipstrandi einu. Á skipinu var stúlka ein, sem hafði þrengt sér svo saman um mittið með „lífstykki“, að mönnum fannst hún vera líkust skorkvikindi. Hún varð fyrir almennri hluttekningu, því álitið var að hún hefði lagt þetta á sig í guðræknisskini. Undruðust allir að hún skyldi lífi halda, með því að taka þannig fyrir hendurnar á náttúrunni.(1) Kynfrelsi Þegar komið var fram á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru fötin enn hálfgerðir fjötrar utan á konum og þrátt fyrir ýmis lagaleg réttindi voru þær nokkurn veginn í sömu aðstæðum og ömmur þeirra fyrr á öldinni. Eins og áður voru það áhrif utan úr heimi sem kollvörpuðu grundvallarhugmyndum samfélagsins og, að vissu leyti, byltu því. Stúdentaóeirðir, hippar og ný kvennahreyfing höfðu veruleg áhrif hér á landi og unga fólkið, oft kallað ´68 kynslóðin, gerði uppreisn gegn gildum foreldra sinna og neyslusamfélagi eftirstríðsáranna. Ást og friður með afturhvarfi til fortíðar voru slagorð hippahreyfingarinnar. Stúdentar út um allan heim mótmæltu stríðsrekstri og tilgangslausu stíði í Víetnam og nýja kvennahreyfingin kom með nýjar áherslur í jafnréttisbaráttuna. Ný kenning um kyngervi tók yfir. Hún gekk í aðalatriðum út á það að kyn segði til um líffræðilegt kyn á meðan kyngervi væri kynferði í félagslegum skilningi. Kyngervi átti þá við um þá merkingabundnu staðla sem samfélagið mótar og við þekkjum sem karlmennsku og kvenleika. Kynjamunur var samkvæmt því félagslegt sköpunarverk en ekki eðlislægt eins og áður hafði verið haldið fram. Magabelti og brjóstahaldarar voru þyrnir í augum Rauðsokkanna en það var nafnið sem íslenska kvennahreyfingin fékk. Það voru ekki aðeins undirföt sem þurfti að losa um heldur líka hárið sem hafði fram að þessu verið hamið og fest í hárgreiðslur. Stöðluðum kven- og karlmannaklæðnaði var gefið langt nef. Á þessum tíma voru það pilsin eins og áður, sem heftu frjálsar hreyfingar kvenna en nú af því að þau voru stutt og þröng. Aðalkrafan var yfirráðaréttur kvenna yfir eigin líkama og kynfrelsi. Önnur bylgjan var komin af stað. Róttækustu tilraunirnar til að afmá kyngervi gerði ´68 kynslóðin. Hugmyndin um „unisex“ eða samkyn varð til. Þar var ekki gerður greinarmunur á konu eða karli hvað varðaði klæðnað eða kynhlutverk. Konur flykktust út á vinnumarkaðinn og karlar fóru að taka þátt í heimilishaldinu. Magabelti, heilu buxurnar úr þykku teygjuefni sem náðu niður á hné, voru mjög í tísku, hvort sem konur voru feitar eða mjóar, litlar eða stórar. Nælonsokkarnir dásamlegu með öllum sínum lykkjuföllum og blöðrubólgum. Pinnahælar í slabbinu, túberað hár, sem þegar best lét leit út eins og heysáta ofan á höfðinu á okkur og ekki má gleyma hárlakkinu sem var nauðsynlegt til að halda greiðslunni í horfinu.(2) Samkyn? Adam var þó ekki lengi í Paradís og snemma á níunda áratug síðustu aldar var horfið af þessari braut með nýrri kynslóð sem kölluðust „uppar“. Hjá uppunum voru lagðar áherslur á peninga og frama með útlitsáherslum og líkamsþjálfun. Með aukinni stéttaskiptingu hlutgerðist klæðnaður kynjanna sem fór aftur til fyrra horfs eða staðlaðra kyngerva. Ber brjóst, platform skór, stórir rassar og áberandi kvenfyrirlitning virðast því miður vera eitt afsprengi þessarar þróunnar. Mótvægið er sterk bylgja ungra kvenna svokallaðara „öfga feminista“ og spennandi verður að sjá hvaða mark þær setja á söguna. Aftanmálsgreinar 1 Kvennablaðið, 1908. 2 Guðrún Ágústsdóttir, úr Besti skóli ævi minnar. Á rauðum sokkum: Baráttukonur segja frá. Heimildir Guðrún Ágústsdóttir. Besti skóli ævi minnar. Á rauðum sokkum: Baráttukonur segja frá. Ritstj. Olga Guðrún Árnadóttir. Reykjavík: Háskólaútgáfan og Rannsóknarstofa í kvenna-og kynjafræðum. 2011. 291-318. Lífstykki. Kvennablaðið, 29. mars 1908, 19-20. Um höfundinn:Fríða Björk Ólafsdóttir
0 Comments
Leave a Reply. |
KreddurAllir geta sent inn grein fyrir Kreddur svo lengi sem viðfangsefnið tengist þjóðfræði á einn eða annan hátt. Greinar
December 2025
|